Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Að byrja 19..18..17..16..15 ára í háskóla

Möguleikar nemenda til að stytta nám sitt hafa aukist á undanförnum árum.  Púkinn er fylgjandi þeirri þróun, enda var hann sjálfur 18 ára þegar hann hóf háskólanám.

Spurningin er samt hvort þetta sé komið út í öfgar - hvort allir nemendur hafi félagslegan þroska til að hefja háskólanám á þeim aldri - vitsmunalegur þroski er ef til vill ekki nægjanlegur einn og sér.

Það má vera að einhverjir hvái yfir því að unnt sé að byrja háskólanám 15 ára, en það er ekki svo fáránlegt.

  • Hluti nemenda er færður upp um bekk strax við upphaf skólagöngu, eða fær að hefja skólagöngu ári á undan jafnöldrum.  Þar sparast eitt ár.
  • Sumir nemendur fá að hlaupa yfir 10. bekk - eru teknir inn í menntaskóla strax eftir þann 9., en þar sparast annað ár.
  • Í menntaskólum með áfangakerfi er unnt að ljúka námi í menntaskóla á 2.5 árum, jafnvel þótt nemendur fái engar einingar metnar inn. (Þetta var a.m.k. mögulegt þegar Púkinn var í menntaskóla og hefur tæplega breyst).  Hefji nemendur nám með einhverjar einingar metnar inn, gætu þeir mögulega stytt námið um hálft ár til viðbótar og lokið því á 2 árum.  Nú, svo er auðvitað menntaskólinn Hraðbraut. Hér er unnt að spara tvö ár til viðbótar.
  • Að lokum (já, það er svolítið svindl) getur fólk átt afmæli í lok árs og verið því ári yngra á pappírnum þegar skólaárið hefst.
Púkinn er þeirrar skoðunar að skólakerfinu beri að veita góðum nemendum viðfangsefni við hæfi, en eð "leysa" vandamálið eingöngu með því að leyfa þeim að flýta sér í gegnum kerfið er ef til vill ekki besta lausnin.

Græn börn

Púkanum finnst það hið besta mál að nýir eigendur Þumalínu skuli ætla að bjóða upp á lífrænar og vistvænar vörur, en vilji fólk virkilega eiga græn börn, er eitt sem verður að leggja af.

Það er sá ósiður margra foreldra að eitra hreinlega fyrir börnum sínum.  Hér á Púkinn annars vegar við hina yfirgengilegu sykurneyslu sem viðgengst hérlendis og þann hreinræktaða ósið margra foreldra að halda sykruðum gosdrykkjum að börnum sínum eins og það sé sjálfsagt mál.

Það er engin furða þótt mörg börn hérlendis séu of feit og með slæmar tennur.

Hins vegar á Púkinn við það að foreldrum skuli hreinlega detta í hug að kaupa mat handa börnum sem litaður er með tjörulitarefnum sem bönnuð eru í mörgum öðrum löngum, eins og Noregi, en leyfð hérlendis.  Þessi efni eru talin geta valdið astma, ofvirkni og ofnæmi - og þennan óþverra kaupir fólk eins og ekkert sé - jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því hvaða óþverri þetta er.

Púkinn er hér að tala um E102, E104, E107, E110, E120, E122, E123, E124, E127, E128, E129, E131, E132, E133, E142, E150, E154 og E155.

Þennan óþverra ætti enginn að láta ofan í sig, síst af öllu börn.


mbl.is Nýir eigendur að Þumalínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Astrópía og nördarnir

Púkinn er 100% nörd og þarf ekki að taka nördapróf á vefnum til að fá það staðfest, en gerði það nú samt. Niðurstaðan ætti ekki að koma neinum á óvart, en vilji einhverjir athuga sína nördastöðu, geta þeir farið á þennan hlekk og tekið prófið sjálfir.

Og af hverju eru nördar allt í einu komnir í umræðuna? Jú, ástæðan er myndin Astrópía, sem var verið að frumsýna, en þótt hún sé að hluta um nörda í nördabúð, þá er hún ekki bara fyrir nörda.

Sama á reyndar við um hlutverkaspil.  Það kæmi Púkanum ekki á óvart þótt myndin yrði til að auka áhuga á þeim hérlendis, en að mati Púkans er það hið besta mál.   Púkinn er jafnvel þeirrar skoðunar að hlutverkaleikir eigi fullt erindi inn í námsskrár skólanna, en það er annað mál.

Sem sagt, allir á Astrópíu - ekki bara nördarnir - og síðan getur fólk skroppið niður í Nexus á Hverfisgötu 103 til að sjá alvöru nördabúð.

64acabd5b9e496d2

 


Lítill heimur stundum

Púkinn ætlar ekki að skrifa um þann harmleik sem átti sér stað nýverið þegar maður var skotinn, að öðru leyti en því að minnast á hvað samfélag okkar hér á Íslandi er í raun lítið.

Það hefur verið sagt að hér á Íslandi sé keðja á milli manna aðeins að lengd 2, þ.e.a.s. fyrir sérhverja tvo einstaklinga A og B, þá sé til X, þannig að A og X þekkjast og sömuleiðis X og B.

Þetta var einmitt rauninn með Púkann í þessu máli, sem hvorki þekkti morðingjann né hinn myrta, en þekkir hins vegar marga vinnufélaga hins myrta svo og vin morðingjans sem hann gisti hjá skömmu fyrir atburðinn.

Já, þetta er lítill heimur stundum.


Loksins rigning!

Rain drops_ non-wettingLoksins, loksins er farið að rigna hér á suðvesturhorninu.  Púkinn var orðið meira en lítið þreyttur á ástandinu undanfarið - ekki þó beint þeyttur á sólskininu sem slíku, heldur á þeirri stöðu sem Púkinn hafði komið sjálfum sér í.  

Það var nefnilega þannig að fyrir mánuði voru þökur lagðar á stórt svæði í kringum sumarbústað Púkans, og til að þær skemmdust ekki í þurrkinum þurfti Púkinn að sjá til þess að þær fengju vökvun.

Þetta þýddi að tvisvar á dag varð Púkinn að skjótast upp í sumarbústaðinn til að færa til úðarana sem hafa verið í gangi nokkurn veginn linnulaust allan sólarhringinn síðustu vikurnar.

Úff...


Púkinn mættur til starfa

bsd linux devilInnrás púkanna er hafinn.  Hlauppúkinn, piparpúkinn og frændur þeirra hafa komið sér fyrir í sælgætisgeiranum og nú er röðin komin að fjölmiðlunum.

Villuleitarpúkinn er mættur til starfa hér á blogginu og mun hann gera sitt besta til að villuleita skrif bloggara.  Þess ber reyndar að gæta að hann er svolítið takmarkaður - ræður ekki vel við erlend orð eða orð með fleiri en einni villu, en Villuleitarpúkinn lofar að gera sitt besta til að leita uppi allar einfaldar innsláttarvillur, en þær geta komið upp hjá öllum - líka þeim sem telja stafsetningu sína fullkomna.

Við púkarnir vonum bara að allir séu sáttir við að fá aðstoð hjá litlum, glottandi, rauðum púka með horn og hala.


mbl.is Leiðréttingapúki á blog.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýburar á Netinu

newborn_dollNýlega komst Púkinn að því að nokkur sjúkrahús birta myndir af öllum nýburum á Netinu, ásamt upplýsingum um foreldra, fæðingardag og jafnvel lengd og þyngd.

Púkinn er nú oft svolítill nöldurpúki og hefur gaman af að benda á það sem aflaga fer, en þetta framtak finnst Púkanum það gott að sjálfsagt er að hrósa því, þar sem þetta gefur fjarstöddum vinum og ættingjum kost á að sjá nýjustu meðlimi þjóðfélagsins.

Svo er Púkinn líka áhugasamur um ættfræði, þannig að hann fagnar alltaf birtingu svona upplýsinga.

Þau sjúkrahús sem birta þessar upplýsingar eru:

Sjúkrahúsið á Akranesi

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Sambærilegar upplýsingar eru því miður ekki birtar á Akureyri, Reykjavík eða á Austurlandi.


Er Púkinn áhrifavaldur?

Púkanum þótti athyglivert að lesa hverjir væru skilgreindir áhrifavaldar í þessari könnun.  Púkinn er nefnilega háskólamenntaður einstaklingur á aldrinum 35-64 ára, sem fylgist með fjölmiðlum og hefur heildartekjur yfir 400.000 á mánuði, þannig að samkvæmt þessu er Púkinn skilgreindur áhrifavaldur.

Það er einmitt það, já.

Púkinn myndi nú reyndar varla vilja skilgreina sjálfan sig sem áhrifavald - enda eru áhrif hans takmörkuð utan heimilisins og þess fyrirtækis sem hann starfar í.  Þegar Púkinn fór að hugleiða yfir hverjum hann hefði mest áhrif var niðurstaðan reyndar sú að áhrif Púkans væru mest gagnvart hundinum hans, en hann virðist telja Púkann vera það stærsta og mikilvægasta í sinni tilveru.

Voff, voff.


mbl.is Treysta ríkisstjórninni betur en viðskiptalífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef það væri ekki fyrir innflytjendur...

victoria_family_tree_1901Eins og þeir vita sem þekkja Púkann þá hefur hann mikinn áhuga á ættfræði. 

Sú umræða sem hefur verið í gangi hérlendis um innflytjendur varð til þess að Púkinn ákvað að athuga hversu mikið væri um innflytjendur í ættum Íslendinga.  Landnámsmennirnir voru að sjálfsögðu innflytjendur síns tíma, en Púkinn vill nú líta fram hjá þeim og skoða bara innflytjendur seinni tíma - eftir siðaskipti til dæmis.

Niðurstöðurnar voru athygliverðar. 

Í ættartré Púkans má finna allnokkra inflytjendur og erlenda aðila sem höfðu hér viðdvöl um lengri eða skemmri tíma, svo sem danskan kaupmann, Westy Petræus, sem var hér um aldamótin 1800.

Púkinn tók sæmilega stórt handahófsúrtak af Íslendingum og athugaði ættartré þeirra.  Í allmörgum tilvikum fundust einhverjir svipaðir innflytjendur eða erlendir forfeður, en í einstaka tilvikum þurfti að fara lengra aftur í aldir, jafnvel allt til manna eins og Erasmusar, sonar Villadts, sem kom hingað skömmu eftir siðaskipti.

Í handahófsúrtaki Púkans ver hins vegar enginn sem hafði enga innflytjendur meðal forfeðra sinna, eða erlendar greinar í ættartrénu.

Niðurstaðan - jú, ef það væri ekki fyrir innflytjendur, þá værum við ekki hér.


10.000 heimsóknir - takk

Púkinn hefur nú haldið til hér á blog.is í rúman mánuð og í gær fékk hann tíuþúsundustu heimsóknina, sem þýðir að meðaltali um 300 heimsóknir á dag á þessum tíma.

Púkinn vonar að fólk hafi gaman af skrifum hans um hið skrýtna í mannlegri tilveru, en núna er við hæfi að þakka fyrir áhugann.

Kærar þakkir, öll sömul.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband