Færsluflokkur: Bækur

Lestölvan mín....

sony-reader-prs-350-pocket-edition-silver-pink-colour.jpgEftir allmikla umhugsun fékk Púkinn sér lestölvu nýlega.

Sú sem varð fyrir valinu var frá Sony og nefnist PRS-350.

Þetta er virkilega þægilegur lítill gripur - passar i venjulegan skyrtuvasa og vegur aðeins 155 grömm.

Hún notar svokallaða e-ink tækni, sem þýðir að hún eyðir nánast engu rafmagni við að sýna mynd (heldur bara þegar flett er), og því þarf bara að stinga henni í samband við tölvu á 10 daga fresti eða svo, miðað við eðlilega notkun.

 Þetta er ódýr gripur, kostar um $180, en hefur ekki alla þá "fídusa" sem sumar stærri lestölvur hafa - er ekki með þráðlausa tengingu, heldur verður að hlaða rafbókunum niður á tölvu og setja þær inn þaðan.  Já, og skjárinn er bara svarthvítur og það er ekki hægt að bæta neinum forritum inn á hana - hún keppir ekki við iPad frá Apple.

Þetta er einfalt tæki fyrir þá sem vilja labba um með bókasafn í vasanum - þetta litla tæki geymir vandræðalaust yfir 1000 bækur.

Bókaúrvalið er að vísu svolítið takmarkað ennþá og sumir útgefendur og seljendur vilja ekki selja til Íslands - en það má t.d. byrja á að fara á  http://www.feedbooks.com/ og sækja án endurgjalds bækur sem njóta ekki lengur höfundarréttarverndar sökum aldurs - allar bækurnar um Sherlock Holmes, svo eitt dæmi sé tekið.  Nú, síðan bjóða margir útgefendur og höfundar upp á rafbækur á vefsíðum sínum - aðdáendur vísindaskáldsagna geta t.d. fengið yfir 100 ókeypis bækur á http://www.webscription.net/ auk þess sem aðrar bækur má kaupa þar á $3-$6 stykkið.

 


mbl.is Áfram 7,5% tollur á Kindle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaus atvinnubótavinna?

Sumum finnst skrýtið að hluti mótvægisaðgerða stjórnvalda felist í því að tölvuskrá manntöl - sér í lagi vegna þess að flest þeirra hafa þegar verið tölvuskráð og unnt væri að birta þau á vefnum nú þegar með lítilli fyrirhöfn.

Menn velta því fyrir sér hvort þarna sé verið á búa til 22 ársverk á landsbyggðinni í algeru tilgangsleysi, en málið er ekki alveg svona einfalt.

Þau manntöl sem þegar hafa verið tölvuskráð voru tekin 1703, 1729, 1801, 1835, 1845, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910 og 1930.   Sú tölvuskráning sem þar var unnin var gerð með þarfir ættfræðinnar í huga og upplýsingum sem ekki teljast beinar ættfræðiupplýsingar var sleppt. Ennfremur voru upplýsingar ekki skráðar stafréttar, heldur var stafsetning nafna samræmd, auk þess sem fjöldi villna í manntölunum var leiðréttur

Einnig var manntalið 1870 endurskapað að hluta.  Það er nefnilega því miður þannig að hluti manntalsins 1870 er glataður.  Við fyrri tölvuskráninguna var sá hluti "endurskapaður" með því að tölvuskrá upplýsingar úr sóknarmanntölum 1869-1871 á því svæði sem var glatað.

Þessi skráning var því ekki nákvæm skráning frumhandrita manntalanna, enda eingöngu ætluð til þess að búa til skrár sem nýttust ættfræðingum, ekki til að búa til nákvæmt afrit af þessum merkilegu gögnum á tölvutæku formi - sem er allt annar hlutur, en það mun vera það sem ætlunin er að gera núna.

Að auki stendur til að skrá manntölin 1840, 1850, 1855 og 1920, en þau hafa ekki verið tölvuskráð áður.

Púkinn hefði að vísu sjálfur frekar viljað sjá kirkjubækurnar tölvuskráðar og settar á vefinn, því þær hafa aðeins verið tölvuskráðar fram til loka 18. aldar, en mótvægisaðgerðir stjórnvalda duga víst ekki til þess í þetta skiptið.  Ætli kirkjubækurnar verði ekki að bíða eftir næsta kvótaniðurskurði, hvenær svo sem það nú verður.

Hvað um það, fyrir þá ættfræðigrúskara sem ekki hafa haft þægilegan aðgang að  manntalsgögnunum fyrr, þá er birting þessara manntala verulegt ánægjuefni.


mbl.is Manntalið 1870 komið á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púkinn og biblíunámskeiðið

Þeir sem þekkja Púkann eða lesa skrif hans reglulega ættu að vita að hann er ekki í réttum markhópi fyrir Biblíunámskeið sértrúarsafnaða.

Engu að síður datt auglýsingableðill um slíkt námskeið inn um bréfalúguna hjá Púkanum nýverið.

Þótt sá hópur sem stendur á bak við þetta námskeið sé nú ekki sá öfgafyllsti sem finnst hefur Púkinn nú margt við efnið að athuga.

Þessi litli bæklingur ber með sér að þeir sem standa að námskeiðinu trúa því að "spádómar" Biblíunnar hafi einhverja raunverulega þýðingu fyrir mannkynið - til dæmis að Opinberunarbókin sé ekki bara óráðshjal geðsjúklings, heldur varði atburði sem hafi gerst, muni gerast, eða gætu gerst.

Ein spurning í bæklingnum sló hins vegar Púkann svolítið.

"3) Er heimsendir góðar eða slæmar fréttir?"

Púkinn veltir fyrir sér hvað hrjái fólk hefur einhverja þörf til að spyrja svona spurningar - er það veruleikafirrt, eða bara sjúkt, sjúkt, sjúkt?

Það er þónokkur hópur fólks sem trúir því að "heimsendir" sé yfirvofandi - sumir líta svo á að hann sé óhjákvæmilegur, því nú um þessar mundir séu 6000 ár liðin frá sköpun heimsins og því sé þúsundáraríkið í nánd - þeir eru nú sem betur fer fáir hér á Íslandi sem afneita vísindum á þann hátt, en fjöldi svona fólks í löndum eins og Bandaríkjunum og Tyrklandi er skelfilegur.

Aðrir skoða atburði samtímans í samræmi við sína túlkun á Biblíunni og líta svo á að endalokin hljóti að vera að nálgast.  Þeir eru til sem trúa því til dæmis að á næstu árum muni miklar hörmungar dynja yfir mannkynið, plágur, hungursneyð og stríð - þar á meðal bardaginn við Meggido.  Sumir túlka þetta sem svo að kjarnorkustríð í Ísrael sé ekki aðeins óhjákvæmilegt, heldur nauðsynlegt eða jafnvel æskilegt.

Þetta er að sjálfsögðu sérstakt áhyggjuefni ef þessir einstaklingar eru í þeirri stöðu að geta stuðlað að því að framkalla heimsendi - hvað ef forseti Bandaríkjanna væri til dæmis þessarar skoðunar?

Það er í raun ekki svo fjarstæðukennt - þegar dagbækur Ronald Reagan voru gerðar aðgengilegar í fyrra rákust menn þar á hluti eins og:

Sometimes I wonder if we are destined to witness Armageddon.

og 

Got word of Israel bombing of Iraq - nuclear reactor. I swear I believe Armageddon is near.

Það er ekkert launungarmál að Púkinn telur nauðsynlegt að berjast gegn trúarsöfnuðum sem halda fram svona heimsendaboðskap - Púkinn er þeirrar skoðunar að trúarbrögð, sér í lagi ofsabókstafstrú sem hafnar vísindum sé ein mesta ógn mannkynsins um þessar mundir.


Skakki turninn - vísindi, trúmál og fleira

skakki0801Tímaritið Skakki turninn datt inn um lúguna hjá Púkanum nú nýlega en eftir lesturinn velti Púkinn því fyrir sér hvers vegna engir íslenskir öfgatrúmenn skuli hafa ráðist á blaðið og reynt að rakka það niður.

Blaðið er gott, engin spurning um það - svipar til blöndu af tímaritunum Sagan Öll og Lifandi Vísindi. Það tekur mjög einarða afstöðu með vísindum og rökhyggju gegn trúarfáfræði og lætur sér ekki nægja auðveld skotmörk eins og Mormónatrú, Vísindakirkjuna og Nýalsstefnu Helga Pjeturs, heldur fjallar ein athygliverðasta greinin um YHWH/Jahveh/Jehóva, guð Gamla testamentisins og hvernig hann leggur blessun sína yfir fjöldamorð, þjóðernishreinsanir og kynbundið ofbeldi.

Þessi grein er holl lesning þeim sem vilja meina að guð gamla testamentisins og þess nýja sé ein og sama fígúran - en Púkanum finnst alltaf jafn merkilegt að einhverjir skuli beinlínis hlakka til þess að eyða eilífðinni í samvistum við ósýnilegan súperkarl sem hegðar sér  eins og geðsjúkur fjöldamorðingi.   Verði þeim að góðu.

Í tímaritinu er líka fjöldi annarra greina um áhugaverð málefni og vill Púkinn sannarlega mæla með þessu blaði fyrir allt hugsandi fólk.

---

Þar sem Púkinn er á leiðinni í sólina á Kanaríeyjum, mun verða hlé á hans púkalegu skrifum næstu tvær vikurnar.


Greetings in Jesus name!

Þessi grein fjallar ekki um trúmál, þrátt fyrir titilinn, heldur um ruslpóst eða réttara sagt þá íþrótt að eltast við þá sem senda ruslpóst og gera þá að fíflum.

Það kannast flestir við þann tölvuruslpóst sem hefur tekið við af gömlu Nígeríubréfunum - ruslpóst sem gerir út á fáfræði, trúgirni og fyrst og fremst græðgi viðtakendanna.

Fólki er boðið að gerast milligönguaðilar vegna fjármagnsflutninga, nú eða að því er sagt að þeirra bíði arfur, eða jafnvel bara að það hafi unnið í Microsoft happdrættinu.

Flestir sjá auðvitað við þessu,  en það eru alltaf einhverjir sem eru nógu gráðugir eða heimskir til að láta glepjast.

Það eru hins vegar líka til þeir sem stunda það að "veiða" sendendur ruslpóstsins - látast bíta á agnið en eru í raun bara að draga viðkomandi á asnaeyrunum og fá þá til að eyða tíma sínum...já, og helst peningum líka, svo ekki sé nú minnst á fíflagang eins og að fá viðkomandi til að tattóvera sig með merkjum tilbúins sértrúarhóps eða annað í svipuðum dúr.

Það eru auðvitað ákveðnar reglur - það þarf að fara varlega - ekki gefa upp neinar raunverulegar upplýsingar, nöfn, heimilisföng eða símanúmer og gæta þess að ekki sé hægt að rekja tölvupóstföngin, heldur nota þjónustur eins og hotmail eða gmail.

Nú hafa nokkrar sögur af þessum samskiptum verið gefnar út í bókinni  Greetings in Jesus Name! The Scambaiter Letters en Púkinn mælir með þeirri bók hafi menn gaman af að sjá þá gerða að fíflum sem eiga það skilið.


mbl.is Hlutfall ruslpósts komið í 95% af öllum tölvupósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdrabók?

handritÁ forsíðu Fréttablaðsins í dag er sagt frá dularfullu handriti, rituðu með torkennilegu letri - var hér ef til vill um galdrabók að ræða, ritaða með einhverri þeirra leturtegunda sem Íslendingar notuðu til slíks á miðöldum?

Það munu vera til einhver galdrakver rituð með "haugbúaletri" eða öðrum skyldum leturtegundum, en því miður þá er þetta nú öllu meinlausara - letrið er nú bara venjulegt eþíópískt letur (sjá hér) og innihaldið er sennilegast trúarlegs eðlis ... nú eða kannski bara mataruppskriftir.

Synd og skömm -  það hefði verið gaman ef heil íslensk galdrabók hefði fundist.


Doris Lessing og pláneta 5

shikastaFyrir 25 árum eða svo gerði Púkinn heiðarlega tilraun til að lesa bækur þær sem Doris Lessing hafði skrifað, en fátt er nú í dag eftirminnilegt úr þeim bókum.

Samt eru nokkrar bækur sem standa uppúr í minningunni, en það merkilega er að það eru bækur sem næsta litla athygli hafa hlotið, samanborið við meginverk hennar.

Þetta eru vísindaskáldsagnaverk hennar, "Canopus in Argos" í 5 bindum.  Sú fyrsta er "Re: Colonised planet 5, Shikasta", sem er rituð sem skýrsla um sögu jarðarinnar og mannkynsins, frá sjónarhóli geimvera sem eru að fylgjast með mannkyninu og skipta sér af þróun þess.

Þessar bækur höfða ef til vill ekki til sama lesendahóps og Afríkusögur höfundarins, en Púkinn vildi svona aðeins minna á þær í tilefni Nóbelsverðlaunanna - það er ekki svo algengt að höfundar vísindaskáldsagna fái Nóbelinn.


Eru bloggarar nöldrarar?

grumpyPúkinn var að skoða allmörg blogg af handahófi og komst að tvennu.

Í fyrsta lagi eru margir bloggarar hreinræktaðir nöldrarar, en í öðru lagi er nöldur ekki vænlegt til vinsælda.

Þetta ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart, en skoðum þetta nú aðeins nánar.   Það eru mismunandi hlutir sem fara í taugarnar á fólki.  Í tilviki Púkans eru það meðal annars eftirfarandi atriði:

  • Almennt agaleysi í þjóðfélaginu og virðingarleysi fyrir eignum og réttindum annarra,  Undir þetta falla hlutir eins og ölvunarakstur, veggjakrot, sóðaskapur, tillitsleysi gagnvart fótgangandi og hjólandi fólki og margt fleira í svipuðum dúr.
  • Hátt gengi krónunnar, enda kemur það illa við lífsviðurværi Púkans.
  • Bruðl.  Púkanum gremst að sjá fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna sóað í kjaftæði.
  • Trúarrugl - þegar fólk reynir að stjórna lífi annarra eftir einhverjum úreltum, árþúsundagömlum skræðum.
  • Skammsýni stjórnmálamanna.

Aðrir hafa svipaða lista og eins og Púkinn þá nöldra viðkomandi gjarnan yfir sínum nöldurmálum á bloggsíðunum.  Sumt af því eru mál sem Púkinn getur á engan hátt tekið undir (eins og slæmt gengi íslenska landsliðsins), en annað getur Púkinn svo sem skilið, þótt það ergi hann ekkert sérstaklega sjálfan.

Það sem Púkinn rak hins vegar augun í er að hreinræktuð nöldurblogg eru alls ekki líkleg til vinsælda og þau blogg sem raða sér í efstu sæti bloggvinsældalistans eru alls ekki í hópi nöldurblogga.  Sum þeirra vinsælustu eru uppfull af jákvæðni.  Önnur fjalla ef til vill um efni sem ekki eru jákvæð, eins og baráttu einstaklinga við sjúkdóma, en þau falla heldur ekki undir nöldurblogg.

Niðurstaðan er semsagt sú að nöldur í óhófi fælir fólk í burtu - nokkuð sem kemur væntanlega engum á óvart.


Leirburður ársins

Í Bandarríkjunum (hvar annars staðar) eru árlega veitt verðlaun fyrir að misbjóða enskri tungu á sem verstan hátt.  Keppni þessi nefnist "Bulwer-Lytton Fiction Contest" og sigurvegarinn í ár var Jim Gleeson nokkur.

Hann fékk verðlaunin fyrir eftirfarandi upphaf skáldsögu:

"Gerald began - but was interrupted by a piercing whistle which cost him ten percent of his hearing permanently, as it did everyone else in a ten-mile radius of the eruption, not that it mattered much because for them 'permanently' meant the next ten minutes or so until buried by searing lava or suffocated by choking ash - to pee,"

Það er erfitt að slá svona út.


Teiknimyndasögur fyrir alla

FCBD_07_BongoÞað ríkja ekki sömu viðhorf til myndasögublaða á Íslandi eins og í Japan, þar sem þær eru vinsælt lestrarefni meðal allra aldurshópa, en hér á landi virðast vinsældirnar takmarkaðri við yngri aldurshópa.

Séu þau blöð sem verða í boði í Nexus hins vegar þau sömu og þau sem eru í boði í Bandaríkjunum (sjá hér), þá er þar á meðal ýmislegt efni sem ætti að höfða til víðari hóps. 

Púkinn á sjálfur reyndar oft leið í Nexus - ekki vegna teiknimyndasagnanna, heldur vegna bóka ("Fantasy" og "Science Fiction") og spila, en Nexus býður upp á mikið úrval borðspila og handbóka fyrir alls kyns hlutverkaleiki.

Með öðrum orðum - góð búð - gott mál. 


mbl.is Jóakim aðalönd gefins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband