Færsluflokkur: Dægurmál

Mun "sjáandinn" biðjast afsökunar á morgun?

Það er auðvelt að þykjast vera "sjáandi" og spá fyrir um atburði, en tvær leiðir eru vænlegastar til að ná árángri á því sviði.

Annars vegar má koma með spádóma sem eru nægjanlega óljósir í stað og tíma.  Hins vegar má spá atburðum sem eru næsta líklegir að gerist hvort eð er.

Það er hins vegar sjaldan sem "sjáendur" gerast svo kræfir að nefna ákveðna atburði og tiltekinn stað og tíma - því þá er svo auðvelt að sýna fram á að viðkomandi hafði rangt fyrir sér.

Púkinn er þess fullviss að á morgun mun meintur "sjáandi" þurfa að biðjast afsökunar á því að hafa hrætt fólk að óþörfu og vonandi verður niðurstaðan sú að einhverjir hætta að taka mark á svona þvættingi.

Því miður mun niðustaðan sennilega frekar verða sú að næst þegar þokkalegur jarðskjálfti verður á Reykjanesi, þá munu einhverir trúa því statt og stöðugt að þar hafi spádómurinn verið uppfylltur - jafnvel þótt mánuðum skeiki og styrkur sjálftans verði ekkert í líkingu við spána.

Það er nefnilega svo auðvelt að vera auðtrúa og kokgleypa svona þvætting.


mbl.is Spurt um jarðskjálftaspádóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavík: Ódýr, menguð og sóðaleg

graffitiEinu sinni var Reykjavík dýr borg, en þá var hún líka hrein og snyrtileg.

Nú hefur þetta hins vegar allt snúist til verri vegar.  Borgin er ennþá dýr fyrir þá sem búa í henni, þótt hún sé orðin ódýr fyrir útlendinga.  

Reykjavík er ekki lengur hrein og snyrtileg.  Svifryksmengun er yfir viðmiðunarmörkum og borgin er að drukkna í veggjakroti.  Þessu til viðbótar kemur síðan mengun frá jarðvarmavirkjunum sem veldur ekki bara því að silfurgripir borgarbúa verða svartir, heldur eru höfuðverkir farnir að angra marga þegar vindar blása menguninni yfir borgina.

Nei, það er ekki gaman að búa í Reykjavík í dag.


mbl.is Reykjavík með „ódýrustu" borgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakönnun - hvað ætlar þú að kjósa í vor?

voteboxÍ október síðastliðnum var Púkinn með skoðanakönnun hér á blog.is um hvað fólk myndi kjósa ef þá hefði verið efnt til kosninga.

Í ljósi þess að nú standa raunverulega kosningar fyrir dyrum er við hæfi að endurtaka þá skoðanakönnun - sjá hér til hliðar.

Niðurstöður hinnar óvísindalegu könnunar Púkans í Október voru eftirfarandi:

B - Framsókn 7.0%
D - Sjálfstæðisfl. 17.0%
F - Frjálslyndir 4.1%
Í - Íslandshreyfingin 3.4%
S - Samfylkingin 22.2%
V - Vinstri grænir 23.2%
Ekkert af ofanfarandi 23.0%

Það kæmi Púkanum hins vegar ekki á óvart þótt niðurstöðurnar yrðu talsvert öðruvísi núna.

Svona til gamans þá bætti Púkinn við valmöguleikum sem vísa til tveggja hreyfinga sem hafa verið áberandi að undanförnu, ef svo færi að formleg framboð kæmu á þeirra vegum.  Stuðningsmenn Harðar Torfa og Sturlu geta þá nýtt sér þá valkosti.  

Sé fólk hins vegar enn tvístígandi, þá er enn í boði próf á vefnum sem segir fólki hvaða flokki það á helst samleið með, þótt spurningarnar séu orðnar nokkuð úreltar núna.


mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirvofandi skrílslæti?

Margir eru reiðir þessa dagana og margir vilja láta reiðina bitna á einhverju eða einhverjum. Þeir eru líka til sem finnst hið besta mál að magna upp óánægjuna og myndu sumir fagna því ef mótmælin snerust upp í hrein skrílslæti.

Á fólk að hlusta á aðila sem hvetja það til að mæta á staðinn með egg í vasanum - væntanlega til að grýta í Alþingishúsið eða lögregluna?   Á fólk að hlusta á mótmælendur eins og Sturlu vörubílstjóra sem fór í stríð við almenning í mars?

Það er sjálfsagður réttur fólks í lýðræðisríkjum að mótmæla, en þeir sem vilja mótmæla verða að gæta þess að þeir séu ekki dregnir áfram á asnaeyrunum af aðilum sem eru engu ábyrgari en bankarnir voru.  Skrílslæti og eggjakast munu ekki bæta ástandið.

Púkinn er ekki andvígur því að fólk mótmæli - síður en svo - en vill bara benda á hættuna af því að ef í hópi mótmælenda eru aðilar sem mæta með egg (eða eitthvað þaðan af verra) í vösum og grýta þeim í hvað sem fyrir verður, þá munu þeir skemma fyrir málstað mótmælenda.  Hegðun þeirra mun verða umfjöllunarefni fjölmiðlanna og mótmælendurnir munu lenda í varnarstöðu, í stað þess að setja einhvern þrýsting á ráðamenn.

Ef mótmælin enda í eggjakasti munu stjórnvöld afskrifa þau sem skrílslæti og eini aðilinn sem græðir á þeim er hæstvirtur dómsmálaráðherra sem mun nota þau til að rökstyðja að þörf sé á vopnaðri óeirðalögreglu.


mbl.is Mótmæli á Austurvelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættu þig við launalækkun, eða þú ert rekinn!

Eins og bréfið segir: "Að sjálfsögðu eiga starfsmenn rétt á því á grundvelli kjarasamninga að hafna þátttöku í þessari lækkun og þeir starfsmenn halda þá gömlu laununum út sinn uppsagnarfrest".

Með öðrum orðum - þeir sem ekki sætta sig við launalækkun verða reknir.   Þetta eru harðar aðgerðir, en sjálfsagt nauðsynlegar hjá mörgum fyrirtækjum sem nú róa lífróður.

Fyrir nokkrum misserum hefðu heyrst hróp úr öllum áttum ef eitthvert fyrirtæki gerði starfsmönnum sínum að velja milli launalækkunar eða brottreksturs - og ætli margir starfsmenn hefðu ekki bara hætt sjálfviljugir, enda næga vinnu að hafa.

Nú er öldin önnur og fólk mun láta bjóða sér margt sem hefði verið óhugsandi fyrir stuttu síðan - fyrir marga er launalækkun mun skárri kostur en atvinnumissir eins og staðan er í dag.

Eins og Púkinn sagði áður - ástandið á eftir að versna áður en það batnar.


mbl.is Yfir 20 manns sagt upp hjá 365 og laun lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og man hann eftir þessu öllu?

Miðað við sögurnar af ólifnaðinum gegnum tíðina, finnst manni nú furðulegt ef minnið hjá Steven Tyler er í það góðu lagi að hann muni eftir öllu sukkinu og uppátækjunum á ferlunum.

Var þetta ekki einmitt vandamál sumra annarra í svipuðum sporum?  Mörg árin voru bara í þoku hjá þeim.


mbl.is „Sláandi sögur af ólifnaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigendur hvítra hunda og katta....

...eru varaðir við að sleppa þeim lausum í Skagafirði, þar sem dýrin gætu verið tekin í misgripum fyrir bjarndýr.

Svona í alvöru...hvernig er hægt að ruglast á hvítabirni og hesti?


mbl.is Bjarndýrsútkall í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarthöfði, svartstakkar og aðrir

darthvaderÞótt Púkinn eigi að mörgu leyti samleið með þeim aðilum í Vantrú sem stóðu fyrir Svarthöfðauppákomunni, þá er hann ekki að öllu leyti sammála aðferðinni.  Það má túlka svona aðgerðir eins og menn líti þannig á að ekki eigi að taka trúarbrögð alvarlega - þau séu eitthvað til að gera grín að.

Þar er Púkinn ósammála - honum finnst trúarbrögð nefnilega vera alvarlegt vandamál -  ein versta uppfinning mannkynsins frá upphafi. Að gera grín að trúarbrögðum er svona eins og að gera grín að fíkniefnanotkun, farsóttum eða þrælahaldi - það er einfaldlega ekkert fyndið við viðfangsefnið.

Púkinn vonast að sjálfsögðu til þess að mannkynið vaxi einhvern tíman upp úr því að telja sig þurfa á trúarbrögðum að halda, en líkurnar á því eru því miður minni en að trúarbrögð verði til þess að mannkynið útrými sjálfu sér.

Púkanum finnst það ekki heldur fyndið. 


mbl.is Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammarlegir refsidómar fyrir ölvunarakstur

drunk_drivingPúkanum finnst skammarlegt að lesa að einhver hafi  "...hlotið fimmtán refsidóma fyrir ölvun við akstur og með fjórtán þeirra jafnframt dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti. " 

Púkinn hefur áður tjáð sig um hættuna sem stafar af akstri undir áhrifum og þá dapurlegu staðreynd að kerfið er hreinlega ekki að virka.

Sá maður sem hér var dæmdur er síbrotamaður - það má vel vera að hann sé áfengissjúklingur, en hann er hættulegur sjálfum sér og öðrum.

Svona menn eiga ekki að fá að sitja undir stýri og ef þeir virða ekki ökuréttarsviptingar verður að grípa til harðari ráða.

Í dæmum eins og þessum er hægt að líta á bílinn sem tæki sem síbrotamaður notar til afbrota.  Púkanum finnst að það ætti að gera ökutækin upptæk, eða a.m.k. kyrrsetja þau (nema þeim hafi verið stolið, að sjálfsögðu).  Þetta er að sjálfsögðu slæmt fyrir aðra ef þeir hafa lánað viðkomandi manni bílinn sinn, en þeir verða bara að taka afleiðingunum.

Í öðru lagi vill Púkinn sjá svona menn lagða inn á viðeigandi stofnun til afvötnunar.  Þeir eiga greinilega við vandamál að stríða og eins og með fíkniefnaneytendur, þá er það hagkvæmast fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið ef hægt er að ráðast að því vandamáli.   Þessu ráði mætti t.d. beita ef viðkomandi er tekinn í þriðja sinn eða svo.

Ef brotamaðurinn heldur uppteknum hætti og meðferð hefur ekki áhrif, þá er Púkinn þeirrar skoðunar að viðkomandi hafi í raun fyrirgert rétti sínum til almennrar þátttöku í þjóðfélaginu.  Nú er Púkinn ekki að leggja til sambærilegt kerfi og hið bandaríska "three strikes and you're out", þar sem menn geta fengið lífstíðardóm fyrir smáafbrot ef þeir eru með tvö fyrri brot á sakaskránni, en dómakerfið hér á Íslandi mætti taka meira tillit til sakaferils - og þyngja dóma frekar hjá síbrotamönnum.  

Í þeim tilgangi þjónar fangelsisvistin ekki þeim tilgangi að hafa fælingarmátt, né heldur að bæta viðkomandi.  Hún er til þess að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi.


mbl.is 10 mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrílræðisflokkurinn

Púkinn getur nú ekki að því gert, en miðað við hegðun Sturlu og hans félaga í mótmælum þeirra undanfarið finnst honum "Skrílræðisflokkurinn" nú vera meira viðeigandi en "Lýðræðisflokkurinn".

Ætlast hann virkilega til að vera tekinn alvarlega?


mbl.is Sturla stofnar nýjan stjórnmálaflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband