Færsluflokkur: Sjónvarp

Erlendar sjónvarpsáskriftir á Íslandi

sky.jpgHér á Íslandi eru margir áskrifendur Sky gervihnattaþjónustunnar - áskrifendur að nýjustu þáttunum, kvikmyndunum og íþróttaviðburðunum, en lagaleg staða þessa sjónvarpsgláps hefur verið nokkuð óviss.

Þessi tæki eru seld hér á landi, en notendurnir verða að fara krókaleiðir til að kaupa áskriftina.

Ennfremur hafa einhverjir haldið því fram að þetta sjónvarpsgláp sé í rauninni lögbrot - þeir sem vilja horfa á þetta efni megi ekki gera það í gegnum breskar stöðvar, heldur verði að kaupa sér aðgang í gegnum rétta aðila á íslandi - Stöð 2 eða aðra.

Púkinn veltir hins vegar fyrir sér hvort þessi dómur hafi ekki ákveðið fordæmisgildi - ef Bretar mega kaupa sér þjónustu frá Grikklandi, mega Íslendingar þá ekki kaupa sams konar þjónustu frá Bretum?

Púkinn er ekki lögfræðingur og ætlar ekki að fullyrða neitt um þetta...en það má velta þessu fyrir sér.


mbl.is Mega kaupa ódýrari áskrift að enska boltanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppáhaldssjónvarpsstöðin mín að hætta?

Það fer ekki á milli mála að margt í þjóðfélaginu er að færast í það horf sem var 1975 - Ríkisbankar og ef vil vill bráðum bara ríkisfjölmiðlar.

Skjárinn virðist vera að leggja upp laupana og það ergir Púkann meira en margt annað sem hefur gerst að undanförnu - burtséð frá fréttum og einstaka fræðsluþáttum á RÚV var Skjár I nánast eina íslenska sjónvarpsstöðin sem Púkinn horfði á.

Þessir erfiðleikar eru auðvitað skiljanlegir - mest af dagskrárefninu var erlent og framleiðendur þess vilja fá borgað refjalaust í hörðum gjaldeyri.   Ef erlenda dagskrárefnið tvöfaldast í verði á sama tíma og tekjurnar dragast saman er ekki von á góðu.

Púkinn veltir hins vegar fyrir sér hvort Stöð 2 eigi sér framtíð.  Þar voru vandamál áður en yfirstandandi kreppa skall á og þótt væntanlegt brotthvarf keppinautar sé að sjálfsögðu hagstætt fyrir Stöð 2, eiga þeir væntanlega við sömu vandamál að stríða - spurningin er bara hversu djúpa vasa eigendurnir hafa.


mbl.is Skjárinn segir öllum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllingsmyndin 'Jesus Camp'

jesus-camp-092706-xlgPúkinn horfði á myndina 'Jesus Camp' sem var sýnd á rás 4 í Bretlandi í gær.  Þessi mynd var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda, en hún sýnir þær "heilaþvottaraðferðir" sem ofsatrúarmenn beita í sumarbúðum til að móta næstu kynslóð kristinna ofsatrúarmanna. 

Flestum mun sjálfsagt finnast það ótrúlegt sem myndin sýnir - en eins og einn aðalprédikarinn segir:

 "I want to see them as radically laying down their lives for the gospel as they are in Palestine, Pakistan and all those different places.  Because, excuse me, we have the truth."

Fólkið sem stendur á bak við sumarbúðir eins og þessar hefur ekki áhuga á að ala börn upp til að verða að einstaklingum sem skoða allar hliðar mála og mynda sínar eigin skoðanir - nei, þau skulu alin upp til að hafa hinar einu réttu skoðanir.  Mörg barnanna hafa verið tekin úr almenna skólakerfinu og fá heimakennslu - þar sem þeim er kennt að Biblían sé bókstaflega sönn frá upphafi til enda, jörðin sé 6000 ára gömul og annað í þeim dúr.

Hófsamari kristnir einstaklingar hafa almennt fordæmt þennan heilaþvott, eins og t.d. þessi hér, sem sagðist hafa þurft að horfa á myndina með hléum til að biðja fyrir börnunum.

Púkinn veit ekki hvort þessi mynd hefur verið sýnd á Íslandi, en hún er virkilega þess virði að horfa á hana - meðal annars til að minna á að sú ógn sem heiminum stafar af ofsatrú er ekki bara bundin við Islam, nú eða þá bara fyrir aðdáendur hryllingsmynda og heimildarmynda.


"Trjámaðurinn" og annað sérstakt fólk

Púkinn sá í síðustu viku þátt í þáttaröðinni "Extraordinary People" á bresku sjónvarpsstöðinni "five" sem einmitt fjallaði um "trjámanninn"svonefnda.

Þessi hlekkur vísar á þáttaröðina, en vonandi sér einhver íslensk sjónvarpsstöð sér fært að sýna þessa þætti, því þetta er með athygliverðasta sjónvarpsefni sem er í boði þessa dagana.


mbl.is „Trjámaðurinn" á batavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veggjakrotsræflarnir

graffitiÞað dylst engum að það hefur orðið sprenging í veggjakroti í Reykjavík á undanförnum árum, en hvaða annarlegu hvatir reka þessi grey áfram til að sóða svona út umhverfi sitt?

Eru þetta bara ræflar sem ekkert eiga og aldrei munu eignast neitt og bera þess vegna enga virðingu fyrir eignum annarra?

Eru þetta strákar frá heimilum þar sem þeir fá ekki athygli og veggjakrotið ber því að skoðast sem eins konar neyðarkall eftir athygli?  Það eru einstaka graffarar sem virðast hafa sæmilega listræna hæfileika, en meirihluti veggjakrotara eru ekkert annað en hæfileikalausir "taggarar" sem krota bara frasa eins og "AS", "WTC", "OHY3A" og annað í svipuðum dúr.

Eru þetta bara illa öguð grey, sem reyna að komast eins langt og þeir geta með að brjóta reglur sem þeim hafa í raun aldrei verið settar - er sökin foreldranna sem ekki hefur tekist að kenna börnunum muninn á réttu og röngu?

Gegnir þetta tjáningarform svipuðu hlutverki og sú hegðun hunda að míga utan í ljósastaura og önnur kennileiti?  Halda greyin að þeir séu í einhverjum skilningi að merkja sér svæði?

Þegar um fullorðið fólk er að ræða, þá veltir Púkinn fyrir sér hvort um einhver geðræn vandamál sé að ræða, sem brjótast svona út í skemmdarfýsn.

Sennilega er um margar skýringar að ræða og mismundandi ástæður fyrir því að fólk leiðist út í svona, en eitt er ljóst - þessi grey þurfa aðstoð...nú og svo mætti alveg sekta foreldrana hressilega - sýna þeim fram á afleiðingar þess að klúðra uppeldinu á börnum sínum.

Púkinn tók um daginn eftir fullorðinni manneskju með stafræðan myndavél að taka myndir af nýlegu veggjakroti á vegg nálægt húsi sínu.  Ef einhver getur vísað púkanum á þessar umræddu vefsíður þar sem graffarar birta myndir af "verkum" sínum myndi Púkinn vera þakklátur.  Það væri þá e.t.v. möguleiki að kæra viðkomandi.


mbl.is Netvæðing veggjakrotsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-femínísk fréttastofa

Í tilefni af opnun femínísku fréttastofunnar, sem Sóley Tómasdóttir segir frá hér, þá fannst Púkanum við hæfi að minnast á nokkrar aðrar fréttastofur sem verða seint sakaðar um femínisma.

Efst á blaði er að sjálfsögðu þessi hér, sem hefur sent út frá Toronto frá árinu 2000.

Nú, ef fólki hugnast hvorki femíníska fréttastofan né sú ofanfarandi, þá mætti e.t.v. reyna þessa hér.

Ef engin af ofanfarandi fréttastofum höfðar til ykkar, þá er alltaf hægt að fara bara hingað og skoða lista yfir þær sjónvarpsútsendingar sem eru aðgengilegar á netinu - allt frá barnaefni til íranska ríkissjónvarpsins.


Istorrent þjófarnir stöðvaðir ... í bili

piracyEins og önnur fórnarlömb Istorrent þjófagengisins fagnar Púkinn því að þessi starfsemi skuli hafa verið stöðvuð.

Púkinn gerir sér hins vegar grein fyrir því að þessi stöðvun verður væntanlega ekki til frambúðar - það mun væntanlega verða komið í veg fyrir að sams konar starfsemi verði rekin áfram hér á Íslandi, en sennilegt er að hún muni þá bara flytjast úr landi - það er fjöldinn allur af sambærilegum stöðum erlendis þar sem þjófar geta skipst á efni.

Púkinn sagðist vera fórnarlamb þjófa en það mál er þannig vaxið að Púkinn er höfundur forrits sem nefnist "Púki".  Þetta forrit er selt, en um tíma var því dreift í leyfisleysi gegnum istorrent, en fjöldi niðurhalaðra eintaka var á því tímabili mun meiri en fjöldi seldra eintaka.

Hinir raunverulegu glæpamenn í þessu dæmi eru að sjálfsögðu þeir sem dreifðu forritinu, ekki forsvarsmenn istorrent (sem Púkinn flokkar bara sem gráðuga siðleysingja),  og því er frá sjónarhóli Púkans eðlilegt að eltast við þá, en ekki torrent.is.

Þessir aðilar hafa verið kærðir og takist að hafa upp á þeim mun Púkinn ekki hika við að draga þá niður í Héraðsdóm Reykjavíkur og leggja fram skaðabótakröfur upp á nokkrar milljónir.


mbl.is Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blogg um frétt um blogg um frétt um auglýsingu

Nú býður Morgunblaðið fólki að skrifa blogggreinar um frétt Morgunblaðsins um blogggreinar sem eru skrifaðar um frétt Morgunblaðsins um sjónvarpsauglýsingu.

Púkinn reynir nú oftast að vera málefnalegur í skrifum sínum, en það er virkilega erfitt í þessu tilviki.

Og auglýsingin sjálf - tja - hún hefur óneitanlega fengið góða umfjöllun - ætli það fái ekki einhver klapp á bakið fyrir að hafa látið sér detta þetta í hug.

Á meðan geta bloggarar bloggað um fréttir um blogg bloggara um fréttir um blogg bloggara um fréttir um...


mbl.is Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég hef týnt belju"

cow grazingSumar auglýsingar eru tær snilld (samanber "Changes" auglýsingu Morgunblaðsins), en aðrar eru þannig að Púkinn skilur ekki hvað menn eru eiginlega að hugsa.

Er verið að reyna að búa til auglýsingu sem er svo hræðileg að allir taki eftir henni - þá væntanlega með það í huga að einhver athygli sé betri en engin?

"Ég hef týnt belju" auglýsingin frá Vodafone er dæmi um þetta.

Það sem Púkinn var hins vegar að velta fyrir sér var ekki hvaða auglýsingastofa stæði á bak við þetta, heldur hversu margir húmoristar muni hringja í Vodafone og segjast hafa týnt beljunni sinni....og hvort aumingja fólkið á símanum hafi eitthvað staðlað svar við þessu vandamáli.


Ungfrú Barbiedúkka

icebarbieÍ tilefni af "Ungfrú Ísland" keppninni þar sem stúlkur ganga fram og aftur eins og Barbiedúkkur með innantóm bros, fannst Púkanum tilvalið að benda á þessa "Íslensku" Barbiedúkku sem er í boði á Ebay (sjá þennan hlekk). en hún mun víst vera 21 árs um þessar mundir og á sambærilegum aldri og keppendurnir.

Reyndar virðist hún bara nokkuð lík sumum þeirra. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband