Xenu-dagurinn er í dag

xenuÍ dag er rétti dagurinn til að klæða sig í geimverubúning og detta ærlega í það.

Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem halda upp á Xenu daginn á hverju ári á þeim laugardegi sem er næstur 13. mars, fæðingardegi Ron L. Hubbard, stofnanda Vísindakirkjunnar - þessa furðulega söfnuðar sem John Travolta og Tom Cruise tilheyra.

Vísindakirkjan hefur reyndar lítið að gera með vísindi - en því meira með vísindaskáldsögur.  Þeir sem ganga í söfnuðinn fá reyndar ekki að heyra um Xenu strax.  Fyrst þurfa þeir að fara í gegnum langt ferli sem tekur einhver ár og borga milljónir fyrir kennsluna sem verður dýrari með hverju skrefinu.

Þegar safnaðarmeðlimir hafa borgað allmargar milljónir og náð svokölluðu OT-3 stigi, þá fá þeir að heyra söguna um Xenu.

Sú saga er svona:

Einu sinni fyrir langa löngu (fyrir 73 milljónum ára til að vera nákvæmur) var einvaldur í geimnum sem nefndist Xenu.  Xenu stjórnaði öllum plánetunum í okkar hluta Vetrarbrautarinnar, þar á meðal jörðinni, nema hvað hún hét Teegeeack á þeim tíma.

Xenu átti við vandamál að stríða.  Það var offjölgun á öllum plánetunum hans, eða um 178 milljarðar á hverri plánetu.  Xenu vildi leysa offjölgunarvandamálið og hann var með áætlun.

Xenu tók sér einræðisvald og með aðstoð geðlækna lét hann kalla eftir milljörðum lífvera til að skoða skattaframtöl þeirra, en í staðinn var þeim gefin lömunarsprauta.

Síðan var þeim raðað í geimskip sem litu alveg eins út og DC-8 flugvélar, nema þær höfðu eldflaugahreyfla.

Þessum geimskipum var síðan flogið til jarðarinnar, þar sem einstaklingunum var staflað í kringum eldfjöll.  Þegar því var lokið var vetnissprengjum komið fyrir í eldfjöllunum, þær sprengdar samtímis og allir voru drepnir.

Sagan endar ekki hér. Þar sem þessar lífverur höfðu sálir (þetana), þurfti að plata sálirnar til að koma ekki aftur.  Þeim var því safnað saman með rafgildrum og þeim pakkað í kassa sem var farið með í kvikmyndahús, þar sem sálirnar voru látnar eyða mörgum dögum í að horfa á þrívíddarmyndir sem sögðu þeim að þær væru Guð, djöfullinn eða Jesús.

Þegar myndasýningunni lauk og sálirnar yfirgáfu kvikmyndahúsið hengu sálirnar saman, því þær höfðu séð sömu myndirnar og héldu að þær væru sama veran.  Þessir sálnaklasar tengdust síðan þeim líkömum sem enn voru til.

Hvað Xenu varðar, þá var hann að lokum tekinn til fanga og lokaður inn í fjalli þar sem honum er haldið í orkusviði sem er knúið af eilífðarrafhlöðu.

Svona endar sagan - þetta er ástæðan fyrir öllum vandamálum mannanna - við okkur hanga klasar af andlegum sníkjudýrum, sálir geimvera sem voru sprengdar í tætlur.

Er þetta heimskuleg saga?  Já, en þetta er ein af mikilvægustu trúarsetningum safnaðarins - stórisannleikurinn sem meðlimir fá loksins að vita eftir veruleg fjárútlát og margra ára meðferð, þar sem þeir eru tengdir við lygamæli langtímum saman og yfirheyrðir.

Sem sagt, góð ástæða fyrir okkur hin til að fara í geimverubúning og detta í það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ertu örugglega ekki meðlimur? Hvar gætirðu annars fengið svona magnaða leynisögu? Er ekki dauðasynd að kjafta frá þessu?

Haukur Nikulásson, 10.3.2007 kl. 09:53

2 Smámynd: Ebenezer Þórarinn Böðvarsson

Takk, takk! Þetta sparaði mér milljónir! Og myndin sem fylgir greininni er gulls ígildi, óskýr og gróf eins og alvöru!

Ebenezer Þórarinn Böðvarsson, 10.3.2007 kl. 11:03

3 Smámynd: Púkinn

Xenu-skjölin voru lögð fram sem málsgögn í dómsmáli og var unnt að kaupa afrit af þeim fyrir lága upphæð, þangat til Vísindakirkjan f´rkk þau innsigluð á grundvelli þess að um viðskiptaleyndamál væri að ræða.

Púkinn, 10.3.2007 kl. 11:25

4 Smámynd: halkatla

ég er með nokkrar námsbækur fyrir költistana í tölvunni, l ron hubbard skrifaði þær og það átti að vera mjög leynilegt en svo slapp þetta út og lögsóknir fylgdu í kjölfarið, þetta er svo steykt, það gæti enginn trúað því maður liggur bara í hláturskasti, og svo er búið að krota yfir mjög margt þannig að samhengið slitnar stundum.

Þetta er skemmtilegur dagur og skemmtileg grein, takk fyrir 

halkatla, 10.3.2007 kl. 13:06

5 Smámynd: Púkinn

Það má bæta því við að Ron L. Hubbard stóð bæði í stríði við skattayfirvöld og geðlækna.

Púkinn, 10.3.2007 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband