Illa samin samræmd próf?

profNú í vikunni voru haldin samræmd próf í 7. bekk grunnskóla.  Eins og margir aðrir foreldrar sem eiga börn á þeim aldri, þá sótti Púkinn eldri próf sem liggja á vefnum, en þegar þau voru athuguð og yfirfarin kom í ljós að prófin voru morandi í villum - dæmum sem voru óleysanleg miðað við gefnar forsendur, eða þar sem "rétt" svör voru einfaldlega röng.

Skoðum nokkur dæmi, sem öll eru tekin úr einu og sama prófinu:

Dæmi 11

Í 30 manna bekk vill 21 ost á ristað brauð og 15 vilja sultu.  Einhverjir vilja bæði ost og sultu á brauðið.  Hver margir eru í þeim hópi?

Það vantar eitt atriði í þetta dæmi -  upplýsingar um hversu margir nemendur vilja hvorki ost né sultu, þannig að nemendur verða að gefa sér þá forsendu.   Stærð þessa hóps getur í mesta lagi verið 9, en í minnsta lagi 0, þannig að réttasta svarið við spurningunni er:

6-15, eftir því hversu margir vilja hvorki ost né sultu.

Samkvæmt svarblaðinu telst hins vegar aðeins svarið "6" vera rétt - þ.e.a.s. ætlast er til þess að nemendur gefi sér þá forsendu að allir í hópnum vilji ost og/eða sultu.  Hvers eiga þeir nemendur að gjalda sem hugsa dæmið til enda?

Dæmi 21

Merktu við svarið þar sem brotin eru jafnstór.

[ ] 1/3; 2/6

[ ] 1/6; 2/6

[ ] 2/3; 3/6

[ ] 1/3; 1/5

Einfalt og augljóst dæmi, ekki satt?  Svarið er greinilega "1. liður" - eða hvað?   Samkvæmt svarblaðinu er rétta svarið "3. liður".  Púkinn ætlar nú rétt að vona að þessi mistök hafi uppgötvast áður en nemendum voru gefnar einkunnir, en þá vaknar spurningin hvers vegna Námsmatsstofnun birti óleiðrétt svarblað á vefnum.

Dæmi 33

Dýpt Öskjuvatns er 220 m. Þorvaldsfell, sem stendur þar við, er 1510 m hátt.  Hver er hæðarmunurinn á botni Öskjuvatns og toppi Þorvaldsfells?

Þetta er einhver sú versta spurning sem Púkinn hefur séð í nokkru prófi.  Hæð fjalla er er miðuð við hæð yfir sjávarmáli, en til að unnt sé að reikna þetta dæmi vantar allar upplýsingar um hæð Öskjuvatns yfir sjávarmáli. Nú veit Púkinn ekki nákvæmlega hversu hátt Þorvaldsfell gnæfir yfir Öskjuvatni, en það eru ekki nema nokkur hundruð metrar, þannig að rétta svarið við spurningunni er líkindum 500-600 m.   Nemendur fá hins vegar eingöngu stig fyrir spurninguna ef þeir svara "1730 m".

Með öðrum orðum, þá verða nemendur að gefa sér að Öskjuvatn liggi við sjávarmál og að botn þess nái langt niður fyrir  það, eða að höfundar prófsins séu það fákunnandi að þeir geri ekki mun á hæð yfir sjávarmáli eða hæð yfir jafnsléttu.

Það mátti einnig finna svipaðar villur í öðrum samræmdum prófum í stærðfræði, þannig að niðurstaða Púkans er að annað hvort séu þessi próf hroðvirknislega unnin, eða að þeir sem semja samræmd stærðfræðipróf  fyrir 7. bekk séu hreinlega ekki starfi sínu vaxnir.  Til að gæta sanngirni vill Púkinn þó geta þess að samræmdu íslenskuprófin voru í allt öðrum gæðaflokki - Púkinn fann aðeins eina villu í öllum þeim íslenskuprófum sem hann skoðaði.

Það er ef til vill ekki skrýtið að stærðfræðikunnátta íslenskra barna sé léleg, ef þetta próf er til marks um gæði kennslunnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Slæmt er að heyra, en það var þó ekki spurt um hóflega drukknar mýs á þessu prófi eins og gert var á því síðasta!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 20.10.2007 kl. 14:52

2 identicon

Ég hef bloggað um þessi próf auk annarra. Það þarf að breyta þessu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 19:02

3 Smámynd: Kári Harðarson

Ég hef séð mikið af villum og ónógum upplýsingum í fyrirlögðum heimaverkefnum hjá syni mínum.  Það eru ekki verkefni sem kennarinn hefur samið heldur vinnubókin "Geisli" sem allir nemendur eru að nota.

Þetta rifjar upp fyrir mér hvers vegna það var aldrei gaman að læra stærðfræði á meðan ég var strákur.  Seinna þótti mér það mikið gaman þegar ég komst í háskóla úti í Bandaríkjunum og fékk kennara sem kunnu stærðfræði nógu vel til að segja frá henni og leika sér að henni í staðinn fyrir að fylgja bókstafnum eins og barnaskólaprestur.

Ég þykist vita að þeir sem eru góðir í stærðfræði á Íslandi eigi góða að heima hjá sér... 

Þurfa Íslendingar nokkuð að kunna stærðfræði?  Það er ekki eins og yfirvöldum sé alvara í að hafa hér þekkingariðnað eða hvað?

Kári Harðarson, 21.10.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband