Atvinnubílstjóradólgar

truckerPúkinn hefur vissar efasemdir um gáfnafar þeirra atvinnubílstjóra sem hafa staðið fyrir mótmælum undanfarið. Þeim er nefnilega að takast að eyðileggja alla þá samúð sem almenningur hafði með sjónarmiðum þeirra.  Vandamálið er nefnilega að aðgerðirnar bitna ekki á þeim sem bera á einhvern hátt ábyrgð á ástandinu, heldur á öllum almenningi, sem er að verða þreyttur á að komast ekki leiðar sinnar vegna þess sem ekki er hægt að kalla annað en dólgshátt.

Ef aðgerðirnar hefðu verið markvissari - t.d. ef bílarnir þeirra hefðu fyrir tilviljun bilað beint fyrir utan innkeyrslurnar á bílastæðum Alþingis og Seðlabankans, myndi fólk sennilega ennþá hafa fulla samúð með þeim - hátt eldsneytisverð bitnar jú á flestum, þótt í minna mæli sé.

Dólgsháttur til lengri tíma er hins vegar ekki til þess fallinn að auka samúð fólks - ekki frekar en síendurtekin verkföll mjólkurfræðinga hér á árum áður.

Nú er Púkinn ekki að segja að hann hafi ekki skilning á þeim óþægindum sem þessi stétt hefur orðið fyrir vegna eldneytishækkana, en ólíkt almenningi á sínum fólksbílum, þá hafa atvinnubílstjórarnir þó þann möguleika til lengri tíma litið að velta kostnaðinum yfir á þá sem kaupa þeirra þjónustu.  Það er hins vegar erfitt að fást við þetta meðan eldsneytishækkanirnar ganga yfir og viðbrögð stjórnvalda hafa ekki verið til fyrirmyndar.

Það er hins vegar ekkert nýtt að aðgerðir stjórnvalda fari illa með tilteknar atvinnustéttir.  Hið falska, háa gengi krónunnar undanfarin misseri hefur t.d. gengið mjög nærri ýmsum útflutningsfyrirtækjum og hrakið sum í þrot en önnur úr landi. Þau fyrirtæki reyndu hins vegar ekki að vekja athygli á sínum málstað með dólgshætti.

Nú er Púkinn ekki að segja að menn verði bara að sætta sig við þetta.  Það er eitt og annað sem stjórnvöld gætu gert, en þar mætti t.d. nefna að lækka álögur á díselolíu, þannig að söluverð hennar yrði lægra en söluverð bensíns, eins og hugmyndin var í upphafi.

Það mætti líka tímabundið lækka eldsneytisgjaldið um sambærilega krónutölu og nemur hækkun virðisaukaskatts vegna hækkandi innkaupsverðs.  Þannig myndi ríkið fá jafn margar krónur í vasann og áður, en ekki græða á hækkandi innkaupsverði.  Þannig fyrirkomulag væri sanngjarnt að mati Púkans.


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað veist þú um samúð og ekki samúð? Dæmigert fyrir þig að hugsa um eigin rass í eigin bíl. Jújú mótmæli mega fara fram, en ekki ef það kostar þig aðeins lengri tíma á leið í vinnuna.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 09:36

2 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Dæmi. Ég er bóndi upp í Borgarfirði. Ég þarf að fá kjarnfóður í hverri viku um 70 tonn. hver ferð kostar um 120.000 kr en farmurinn er 23 tonn.  Þetta gerir 360.000 kr  á viku í flutningskostnað.

8o% af þessu eru álögur frá ríkinu.

þegar það eru þungatakmarkanir þarf bílstjórinn að fara sex ferðir með sama magn sem gera 720.000 kr á viku og það eru þungatakmarkanir 1-2 mánuði á ári

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 09:49

3 Smámynd: Púkinn

Þessar aðgerðir snerta mig sjálfan nú lítið, þar sem ég geng í vinnuna - svona til að viðra hundinn.  Ég miða bara við það sem vinnufélagar mínir segja þegar þeir bölva þessum bílstjórum.

Púkinn, 31.3.2008 kl. 09:52

4 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Aðeins að leiðrétta hann Gunnar Ásgeir varðandi hlut ríkisins í olíuverðinu.  Vissulega hækkar krónutala vsk með hækkandi verði.  Það gerir það á öllum vörum.  Hins vegar hefur hlutur hins opinbera lækkað hlutfallslega með hækkandi olíuverði.  Fyrir hækkunarferlið þegar olíulítrinn kostaði 90 krónur þá var hlutur ríkisins 58,7 krónur eða 65,2%.  Í dag hefur þetta hlutfall lækkað niður í 46,4%.  Lækkun á hlut ríkisins nemur því 18,8 prósentustigum.

Fannst rétt að halda þessu til haga þar sem hver apar upp eftir öðrum vitleysuna varðandi hlutdeild ríkisins í verðinu.   

Sveinn Ingi Lýðsson, 31.3.2008 kl. 13:27

5 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Sveinn

Vöruflutningabílar þurfa að greiða 14 kr fyrir hvern ekinn km sem á að hækka í 20 kr + olíugjaldið sem er á olíunni 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 21:21

6 Smámynd: Púkinn

Miðað við skemmdirnar sem þessir bílar valda á vegakerfinu þá er þatta gjald enn of lágt.

Púkinn, 1.4.2008 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband