Íslendingar skilja ekki verðbólgu

inflationpicPúkinn er þeirrar skoðunar að flestir Íslendingar skilji ekki eðli verðbólgu. 

Verðbólgan er persónugerð hérlendis - menn tala um hana eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru og hægt sé að berjast við hana eina og sér - tala um "nauðsyn þess að kveða niður verðbólgudrauginn" eða að "verðbólgubálið geisi".

Þetta er þvættingur.

Púkinn kýs að líkja verðbólgunni við sótthita hjá sjúklingi - myndi fólki ekki þykja eitthvað athugavert við lækni sem legði alla áherslu á að ná niður sótthita sjúklings, en hirti ekkert um alvarlega, undirliggjandi sýkingu?

Það sama á við um Seðlabankann - lögum samkvæmt er honum gert að hafa það að meginmarkmiði halda verðbólgunni niðri og hann notar þau tól og tæki sem hann hefur - vaxtabreytingar og bindiskyldu - svona svipað og að ef læknar gerðu ekkert annað en að gefa fólki hitalækkandi lyf.

Það er engin furða að aðgerðir Seðlabankans virki ekki, því ekki er hreyft við þeim þáttum sem valda varðbólgunni - verðbólga er einkenni undirliggjandi vandamála og ef ekki er tekið á þeim vandamálum þá helst hún áfram há - nú eða (svo vísað sé aftur í fyrri samlíkingu) sjúklingurinn nær sér upp á eigin spýtur eða deyr.

Skoðum nú aðeins nokkur mistök sem hafa verið gerð.

  • Þegar bankarnir fóru að bjóða upp á húsnæðislán á "góðum" vöxtum þýddi það aukið framboð á peningum (í höndum kaupenda) eð eltast við takmörkuð gæði (eignir til sölu). Það þurfti ekki mikla hagfræðiþekkingu til að sjá fyrir að þetta myndi hafa í för með sér verðhækkanir á húsnæði, uns sársaukamörkum yrði náð - þ.e.a.s. meðalafborganir yrðu jafnháar og þær voru áður með gömlu "óhagstæðu" lánunum.  Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera á þessum tímapunkti hefði verið að hemja útlánagleði bankanna með því að auka bindiskylduna, en nei - Seðlabankinn hleypti þessum verðhækkunum í gegn og túlkaði þær síðan sem verðbólgu sem þyrfti að berjast gegn með hækkuðum vöxtum.
  • Seðlabankinn tók einnig þá ákvörðun að virkjana- og álversframkvæmdir fyrir austan væru verðbólguhvetjandi og það þyrfti að berjast gegn þeirri væntanlegu verðbólgu með hækkuðum vöxtum.  Þarna gleymdist að stór hluti  greiðslnanna fór til erlendra aðila, eða til erlendra verkamanna sem sendu þá peninga úr landi, en dældu þeim ekki inn í hagkerfið hér.  Verðbólguáhrifin voru því í raun mun minni en Seðlabankinn miðaði "fyrirbyggjandi" aðgerðir sínar við.
  • Þegar Seðlabankinn hækkaði vextina tók krónan að verða áhugaverð fyrir spákaupmenn, sem sáu sér leik á borði að hagnast á vaxtamunarviðskiptum - krónubréfunum svokölluðu. Bankarnir stórgræddu líka á þessu sem milliliðir - þeir þurftu bara að fá Íslendinga til að taka lán á móti og það var ekki vandamál - það var nóg af fólki sem var til í að fá pening lánaðan til að kaupa hluti sem það í rauninni hafði ekki efni á.   Gerði Seðlabankinn eitthvað til að vinna gegn þessu, þótt honum hefði átt að vera ljóst að þetta myndi raska stöðugleika í efnahagslífinu?  Nei.
  • Málið var nefnilega að útgáfa krónubréfanna styrkti íslensku krónuna, sem gerði allan innflutning ódýrari, sem stuðlaði að því að halda verðbólgunni niðri.  Það er jú lögum samkvæmt markmið Seðlabankans - ekki að viðhalda stöðugleika og draga úr viðskiptahalla.
  • Þetta var hins vegar skammgóður vermir - svona eins og að pissa í skóinn sinn.  Þessi ofursterka króna var á góðri leið með að sliga útflutningsfyrirtækin - sum þeirra lögðu upp laupana eða fluttu starfsemina úr landi, en önnur drógu úr starfsemi eða steyptu sér í skuldir (nú nema álverin, sem bjuggu við ódýrt rafmagn, lækkandi hráefnisverð og hækkandi afurðaverð, þannig að þau kvörtuðu ekki).
  • Svo byrjar að hrikta í spilaborginni og að lokum fellur hún - afleiðingarnar þekkja allir.

Núna um þessar mundir eru allir að kvarta og heimta aðgerðir.  Miðað við afrekaskrá ríkisstjórna og Seðlabanka á undanförnum árum er Púkinn næsta viss um að ýmist verði gripið til rangra aðgerða - nú eða þá réttra aðgerða á röngum tíma.  Vaxtahækkanir virka ekki til að drepa niður verðbólguna, ef gengi krónunnar er leyft að hækka á sama tíma - það er bara uppskrift að áframhaldandi óstöðugleika og annarri kollsteypu.  Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar sé "rétt" um þessar mundir, en ef Seðlabankinn lækkar ekki vextina fljótlega þá mun hún styrkjast aftur - nokkuð sem yrði sjálfsagt vinsælt hjá mörgum því erlendu lánin og innfluttar vörur myndu lækka - en það er bara ekki forsenda fyrir þeirri lækkun - ef við viljum sterkan gjaldmiðil þá verður að ná niður viðskiptahalla og og byggja styrk krónunnar á raunverulegum útflutningsverðmætum, en ekki gerviverðmætum, sem byggja á engu öðru en gjaldmiðlabraski vegna ofurvaxta hérlendis. 


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ég sé að þú minnist ekki einu orði á íbúðarlánasjóð sem hefur niðurgreitt og undirboðið fé til lántöku fyrir íbúðum.

Þetta er okkur neytendum að kenna. Við höfum lifað í munaði þá margir haldi að við séu verr stödd heldur íbúar Darfúr. 

Við höfum tekið þessi lán. Neyddu bankarnir láninn upp á fólk? nei við tókum þau til þess að geta farið úr góðri íbúð í einbýlishús og keypt okkur síðan auka bíl og 40" flatskjá.

Fannar frá Rifi, 28.4.2008 kl. 11:09

2 Smámynd: Púkinn

Íbúðalánasjóður er ekki eins mikið vandamál, vegna lægra "þaks" -  hámarkslán þeirra eru lægri en lán bankanna, þannig að áhrifin eru minni.

Hvað lántökuæði Íslendinga varðar þá er staðreyndin bara sú að fólk verður að sætta sig við að ef það lifir um efni fram, þá bitnar það á endanum á þeim sjálfum.

Púkinn, 28.4.2008 kl. 11:16

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góður pistill. Ég vil bæta því við að verðbólga er að vissu leyti samnefnari yfir okur. Einhverjir okra á sinni vöru og þjónustu, sem leiðir til þess að þeir sem þurfa á þeirri vöru og þjónustu að halda okra líka á sinni söluvöru.

Ein góð leið til að hamla gegn verðbólgu er að aðilar í þjónustu og verslun stilli verðhækkunum og álagningu í hóf. Það hefur ekki verið gert hjá flestum þeirra.

Theódór Norðkvist, 28.4.2008 kl. 11:36

4 Smámynd: Einar Jón

Einhverjir okra á sinni vöru og þjónustu, sem leiðir til þess að þeir sem þurfa á þeirri vöru og þjónustu að halda okra líka á sinni söluvöru.

Er þetta ekki hálfgert Prisoner's dilemma? Ef maður er einn um að lækka, tapar maður sjálfur en aðrir græða. Ef allir okra tapa allir.

Einar Jón, 28.4.2008 kl. 12:56

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef maður er einn um að lækka og óprúttnir menn og konur nýta sér það til að hlaða undir eigin rass þá er það slæmt.

Hinsvegar getur hófsemi í álagningu einhvers skilað sér þannig að aðrir okra síður.

Ef einn okrar verður það svo til örugglega til þess að aðrir okri. Okrið gengur eins og dómínó um allt efnahagskerfið.

En kannski erum við komin út fyrir efnið, sem var vaxtastefnan, hátt gengi krónunnar og útgáfa jöklabréfa, sem allt stuðlaði að fölsku góðæri og verðbólgu.

Theódór Norðkvist, 28.4.2008 kl. 13:10

6 Smámynd: Árni Steingrímur Sigurðsson

Varstu búinn að lesa um nýjustu 'aðgerðirnar'?

 4 millur í endurvakningu opinbers verðlagseftirlits.

Alger brandari. 

Árni Steingrímur Sigurðsson, 28.4.2008 kl. 13:41

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flottur pistill. Er ekki vandamálið að Seðlabankinn er notaður sem eftirlaunastofnun, frekar en að vera mannaður fólki sem hefur vit á efnahagsmálum? Hvað á gamall bóndi (eða hvað þeir allir eru) með einhverja reynslu af rökræðum að gera í Seðlabankanum?

Villi Asgeirsson, 28.4.2008 kl. 14:13

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jú.

Theódór Norðkvist, 28.4.2008 kl. 14:43

9 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Góður pistill Púki!

Erna Bjarnadóttir, 28.4.2008 kl. 14:52

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég sé ekkert athugavert við þennan pistil. Hef svipaða sýn á þetta mál og þú um orsakir og afleiðingar núverandi stöðu.

Eina efnahagsaðgerðin sem virkar til langframa er eins og þú nefnir meiri verðmætasköpun. Það ætti flestum að vera ljóst núna að bætt lífskjör hafa meira og minna verið tekið að láni og svo þarf að borga... 

Haukur Nikulásson, 28.4.2008 kl. 14:53

11 Smámynd: Púkinn

"flestum" er það ljóst - en því miður virðist að ráðamenn gleymi því stundum ... ef þeir geta velt vandamálunum á undan sér fram yfir næstu kosningar eru þeir hamingjusamir.

Púkinn, 28.4.2008 kl. 15:03

12 Smámynd: Davíð Jóhannsson

Góður pistill. Þú skítur á seðlabankann sem er kannski að hluta til rétt þar sem þeir vinna nú við að passa upp á okkur.

Mér finnst það samt ósanngjarnt (kannski afþví ég er elstur í systkina hópnum og fékk þarafleiðandi skammir fyrir þeirra heimskupör).  

Afhverju vil ég ekki taka lán nema nauðsynlegt sé. Það er fínt núna því ég get setið til hliðar og verið rosaklár meðan aðrir eru að kveljast. 

Davíð Jóhannsson, 28.4.2008 kl. 17:28

13 Smámynd: Púkinn

Margir tóku lán í erlendum gjaldmiðli þegar krónan var allt, allt of sterk - slíkt er hrein og klár heinmska og viðkomandi súpa seyðið af því núna.

Ástandið bitnar hins vegar líka á þeim sem ekkert skulda og eru með allt sitt á hreinu. 

Púkinn, 28.4.2008 kl. 17:47

14 Smámynd: Þorvaldur Blöndal

Einnig má nefna gjaldeyrisinngrip sem tæki.  Hann gæti keypt gjaldeyri þegar krónan er sterk og selt þegar hún er veik.  Þannig myndi hann dempa raungengið og gera verðlag meira klístrað.

Þorvaldur Blöndal, 29.4.2008 kl. 10:49

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mall of America riðar til falls.

Hvað  verður nú um Jackie og börnin?

Þetta er hárrétt greining hjá Púkanum.

Þorsteinn Briem, 30.4.2008 kl. 09:07

16 Smámynd: Steingrímur Helgason

Púkinn sannar enn & aftur að ekki skal dæma bloggarann af eyrunum einum, heldur því sem að hann lumar á þeirra inn á milli.

Steingrímur Helgason, 3.5.2008 kl. 23:20

17 Smámynd: Grumpa

alveg sammála greiningu Púkans. vandamálið við seðlabankann er eins og einhver benti á að hann er notaður sem hvíldarheimili fyrir afdankaða stjórnmálamenn sem kann ekki góðri lukku að stýra enda erum við að súpa seyðið af því núna

Grumpa, 4.5.2008 kl. 01:42

18 Smámynd: Kári Harðarson

Sammála þér í einu og öllu, púki.  Verst þykir mér að þetta bitnar á öllum, eins og þú sagðir réttilega.

Ég hef lítið viljað blogga upp á síðkastið því nú er skaðinn skeður og lítið hægt að segja, bara bíta á jaxlinn og þreyja Þorrann.

Kári Harðarson, 4.5.2008 kl. 17:19

19 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Góður Púkapistill!  :)     Segi bara "amen eftir efninu"

Baldur Gautur Baldursson, 6.5.2008 kl. 13:05

20 Smámynd: Sporðdrekinn

Góður pistill

Sporðdrekinn, 6.5.2008 kl. 19:15

21 Smámynd: Sæll

Verðbólga er aukin gjaldeyrisforði, ef magn krónu í umferð eykst stöðugt þá missir hún verðgildi sitt  og því hækkar stöðugt verð á öllu.

En af hverju lánar ríkið ekki vaxtalaust?

Ef allir peningar í umferð eru upphaflega lán frá banka hvernig er þá hægt að borga vextina tilbaka, eru ekki 5% vextir það sama og efnahagslegur dauðadómur 5% fólks í landinu. 

Kveðja Andri 

Sæll , 6.5.2008 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband