Púkinn og biblíunámskeiðið

Þeir sem þekkja Púkann eða lesa skrif hans reglulega ættu að vita að hann er ekki í réttum markhópi fyrir Biblíunámskeið sértrúarsafnaða.

Engu að síður datt auglýsingableðill um slíkt námskeið inn um bréfalúguna hjá Púkanum nýverið.

Þótt sá hópur sem stendur á bak við þetta námskeið sé nú ekki sá öfgafyllsti sem finnst hefur Púkinn nú margt við efnið að athuga.

Þessi litli bæklingur ber með sér að þeir sem standa að námskeiðinu trúa því að "spádómar" Biblíunnar hafi einhverja raunverulega þýðingu fyrir mannkynið - til dæmis að Opinberunarbókin sé ekki bara óráðshjal geðsjúklings, heldur varði atburði sem hafi gerst, muni gerast, eða gætu gerst.

Ein spurning í bæklingnum sló hins vegar Púkann svolítið.

"3) Er heimsendir góðar eða slæmar fréttir?"

Púkinn veltir fyrir sér hvað hrjái fólk hefur einhverja þörf til að spyrja svona spurningar - er það veruleikafirrt, eða bara sjúkt, sjúkt, sjúkt?

Það er þónokkur hópur fólks sem trúir því að "heimsendir" sé yfirvofandi - sumir líta svo á að hann sé óhjákvæmilegur, því nú um þessar mundir séu 6000 ár liðin frá sköpun heimsins og því sé þúsundáraríkið í nánd - þeir eru nú sem betur fer fáir hér á Íslandi sem afneita vísindum á þann hátt, en fjöldi svona fólks í löndum eins og Bandaríkjunum og Tyrklandi er skelfilegur.

Aðrir skoða atburði samtímans í samræmi við sína túlkun á Biblíunni og líta svo á að endalokin hljóti að vera að nálgast.  Þeir eru til sem trúa því til dæmis að á næstu árum muni miklar hörmungar dynja yfir mannkynið, plágur, hungursneyð og stríð - þar á meðal bardaginn við Meggido.  Sumir túlka þetta sem svo að kjarnorkustríð í Ísrael sé ekki aðeins óhjákvæmilegt, heldur nauðsynlegt eða jafnvel æskilegt.

Þetta er að sjálfsögðu sérstakt áhyggjuefni ef þessir einstaklingar eru í þeirri stöðu að geta stuðlað að því að framkalla heimsendi - hvað ef forseti Bandaríkjanna væri til dæmis þessarar skoðunar?

Það er í raun ekki svo fjarstæðukennt - þegar dagbækur Ronald Reagan voru gerðar aðgengilegar í fyrra rákust menn þar á hluti eins og:

Sometimes I wonder if we are destined to witness Armageddon.

og 

Got word of Israel bombing of Iraq - nuclear reactor. I swear I believe Armageddon is near.

Það er ekkert launungarmál að Púkinn telur nauðsynlegt að berjast gegn trúarsöfnuðum sem halda fram svona heimsendaboðskap - Púkinn er þeirrar skoðunar að trúarbrögð, sér í lagi ofsabókstafstrú sem hafnar vísindum sé ein mesta ógn mannkynsins um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Gíslason

En heimsendir er yfirvofandi. Bara spurning um tíma. Í hinu stóra samhengi skiptir varla máli hvort það gerist eftir 50, 100, 1000, 10000 eða 100.000 ár?

Ingólfur Gíslason, 18.5.2008 kl. 11:33

2 identicon

Fullkomlega sammála þér

Jesús Kristur (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 13:34

3 Smámynd: Óli Jón

Ég er alveg sammála greinarskrifara. Það er skelfilegur veruleiki að margar milljónir Bandaríkjamanna líta á stríðið í Írak sem nauðsynlegan forleik að Ragnarökum. Að erjur á landamærum Ísrael og Palestínu séu nauðsynlegar til að spádómurinn geti ræst. Kristnir öfgamenn í Bandaríkjunum beina sjónum stöðugt að Íslömskum öfgamönnum og segja að þeir séu mesta ógn samtímans. Þeir sjá hins vegar ekkert athugavert við að tileyra ofsatrúar-'költi' sem stjórnar nokkur þúsund kjarnorkuflugskeytum og bíður glaðhlakkandi eftir endalokum heimsins.

Ég er algjörlega sammála greinarskrifara þegar hann segir að mesta ógn mannskyns séu öfgatrúarmenn sem einblína af þráhyggju á Hið ritaða orð þar sem vísindi og skynsamleg hugsun komast ekki fyrir. Rökvíst og gott fólk um allan heim verður að spyrna gegn yfirgangi sértrúar- og ofsatrúarfólks áður en það verður um seinan.

Óli Jón, 18.5.2008 kl. 14:31

4 Smámynd: Jón Magnús

Heyr! Heyr! Góð færsla og sammála henni allri.

Jón Magnús, 18.5.2008 kl. 15:38

5 Smámynd: Beturvitringur

Notuð eru jöfnum höndum orðin "SÉRtrúarsöfnuðir" og "trúarsöfnuðir", sem er hið rétta þegar fjallað er um hina mismunandi kristilegu söfnuði, hitt er einhver SÉRstök Trú. T.d. eru sjöundadagsaðventistar kristilegur söfnuður.

Beturvitringur, 18.5.2008 kl. 17:19

6 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Forneskjuleg blóðhefndarárátta, ofsatrú, pólitísk spilling og kjarnavopn...........þetta er staða sem er búin að vera lengi uppi í nokkrum löndum í heiminum. Þar á meðal USA og ÍSRAEL. Ef þetta gerist þá verða það þessi tvö lönd, á einn eða annan hátt.  

 Frábær pistill. FRIÐUR (er ókeypis)

Haraldur Davíðsson, 18.5.2008 kl. 19:28

7 Smámynd: Mofi

Það er greinilegt að þið ættuð allir að mæta og útskýra þessi sjónarmið ykkar fyrir þessu fólki...

Mofi, 18.5.2008 kl. 20:36

8 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Já, já, þannig að t.d. vísindamaður hjá NASA sem spáir því að loftsteinn eigi eftir að lenda á jörðinni eftir einhverja tugi ára og þar með þurrka út allt líft hérna á jörðinni er þá bara villutrúarmaður sem ekki er mark á takandi af því fregnir hans tákna endi mannkynsins hér á jörðu? Er hann þá búinn að fyrirgera sér og allri sinni vísindastétt af því að þú telur að dómsdagsboðskapur, þrátt fyrir að hann sé sannur, sé það slæmur að það eigi nánast að bannfæra hann?

Eða er það ekki það sem þú vilt meina? Dómsendaboðskapur er af hinu vonda?

Magnús V. Skúlason, 18.5.2008 kl. 22:28

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Voru þetta Vottar Jehóva?

Theódór Norðkvist, 18.5.2008 kl. 22:29

10 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg nr. 11: Ef við gefum okkur það að vísindamaðurinn geti stutt spá sína með útreikningum á því hvað sporbaugar Jarðar og loftsteinsins mætast með þessum hrikalegu afleiðingum, þá er hann aðeins að rækja starf sitt vel og er þannig stétt sinni til sóma.

Ef hann hins vegar styður þessa spá sína t.d. með tilvitnunum í bækurnar um Ísfólkið eða öðrum álíka mögnuðum bókmenntum, þá á hann meðaumkun eina skilda þegar búið er að reka hann úr starfi.

Hvort áttirðu við í dæmi þínu?

Óli Jón, 18.5.2008 kl. 23:49

11 Smámynd: Púkinn

Magnús Viðar:  Óli Jón svaraði þessu fyrir mína hönd.

Theódó: Nei, þetta voru sjöunda dags aðventistar - ekki jafn slæmir og vottarnir, en slæmir samt.

Púkinn, 19.5.2008 kl. 09:32

12 Smámynd: Mofi

Hlakki til að sjá Púkann og kannski þá heyra eftir á að heyra efnislega gagnrýni frá honum.

Magnús, góður punktur. Þessir gaurar virðast vera búnir að ákveða að ákveðnar niðurstöðu eru þeim ekki þóknanlegar svo hvað það er sem styður þær má hafna fyrir fram.

Mofi, 19.5.2008 kl. 11:10

13 Smámynd: Púkinn

Í gegnum aldirnar hefur fjöldi manna spáð heimsendi - margir með tilvísunum í biglíuna og rökum sem þeim (og fylgismönnum þeirra) þóttu góð á sínum tíma.  Allir höfðu þeir rangt fyrir sér.  Aðrir spáðu heimsendi út frá öðrum grunni - til dæmis þeir sem trúðu að endalokin yrðu þann 5/5/2000 - samanber þessa bók.

Það er varla hægt að þverfóta fyrir svipuðum skádómum í dag - sjá til dæmis þennan hlekk, nú eða þennan.

Púkinn gefur ekki mikið fyrir svona spádóma, ekki frekar en þá sem byggja á stjörnuspeki, Nostradamus eða öðru álíka.  Ég viðurkenni að sjálfsögðu að sumar svona spár reynast réttar, en eins og einhver sagði - "jafnvel klukka sem stendur kyrr er rétt tvisvar á sólarhring". 

Frá sjónarhóli Púkans er það spurning um hvort menn geta rökstutt spár sínar með vísindalegum, áþreifanlegum rökum - túlkanir á gömlum skáldsögum teljast ekki með.

Púkinn, 19.5.2008 kl. 12:15

14 Smámynd: Mofi

Einhvern tímann þá hljóta þeir að hafa rétt fyrir sér :)  

Punkturinn er samt aðalega að fjalla um spádóma sem hafa ræst og þess vegna er ástæða til að treysta Biblíunni. Hvenær heimsendir verður er ekki beint á dagskrá því Biblían er líka alveg skýr á því að enginn veit hvenær.  Svo þetta er ekki spurning um einhverja framtíðarspár, lítið sem ekkert þannig heldur spádóma sem Biblían segir fyrir um og hvernig við sjáum að þeir rættust. 

Mofi, 19.5.2008 kl. 12:52

15 Smámynd: Púkinn

Það er nú þetta með spádóma sem "hafa ræst".  Ef á að taka slíkar fullyrðingar alvarlega, þá verða ákveðin skilyrði að vera uppfyllt.

  1. Spádómurinn verður að vera ótvíræður, þannig að spurningin um hvort hann hafi ræst sé ekki háð túlkun.  Spádómar Nostradamusar uru t.d. margir þess eðlis að þeir falla á þessu.
  2. Það verður að vera tryggt að spádómurinn  sé eldri en atburðurinn, en ekki skrifaður eftirá og dasettur fram í tímann.
  3. Spádómurinn verður að varða hluti sem ekki eru sjálfsagðir - eins og t.d. að spá því að einhvers staðar í heiminum verði jarðskjálfti í næsta mánuði.
  4. Spádómurinn verður að vera þess eðlis að spámaðurinn (eða fylgjendur hans) geti ekki bara "látið" hann rætast með beinum aðgerðum - svona eins og ef einhver myndi spá stórbruna í Reykjavík og færi svo í bæinn, svetti bensíni á hús og kveikti í.
Það eru ekki margir spádómar eftir sem uppfylla öll þessi skilyrði - en eins og ég sagði með klukkuna, það kemur fyrir.

Púkinn, 19.5.2008 kl. 15:17

16 Smámynd: Mofi

Að mínu mati þá eru margir spádómar sem uppfylla þessi skilyrði og væntanlega verður farið yfir þá þarna. Ég hef ekki farið yfir þannig á mínu bloggi en það er alveg kominn tími á það. Kannski þessi fyrirlestrarröð er kjörið tækifæri til þess.

Mofi, 19.5.2008 kl. 16:24

17 Smámynd: Púkinn

Eftir svolitla umhugsun sá ég að ég hafði gleymt einu skilyrði - nefnilega að ef því er haldið fram að ákveðinn atburður hafi falið í sér uppfyllingu spádómsins, þá verður að vera óumdeilt að sá atburður hafi átt sér stað.

Púkinn man t.d. eftir einhverjum sem spáðu því að geimverur myndu lenda á Snæfellsnesi á ákveðnum tímapunkti.  Þegar ekkert bólaði á þeim var svarið - "jú, þær komu víst - þær voru bara ósýnilegar".

Nú, ef þú vilt halda því fram að einhverjir spádómar uppfylli þessi skilyrði, þá er þér velkomið að telja þá upp.

Púkinn, 19.5.2008 kl. 17:01

18 Smámynd: Arnar Pálsson

Verður ekki að skilgreina hvað er heimsendir?

Er það endalok mannkyns? (eins og við könnumst við okkur)

Endalok hryggdýra á jörðinni?

Endalok lífs á jörðinni?

Endalok plánetunar jarðarinnar?

Endalok sólkerfisins?

Endalok vetrarbrautarinnar?

Lokunartími veitingastaðarins við endamörk vetrarbrautarinnar?

Arnar Pálsson, 20.5.2008 kl. 09:40

19 Smámynd: Mofi

Púki, það var gott dæmi um spádóm sem annað hvort myndi rætast eða ekki. Nokkuð nákvæmur og ég held að allir voru sammála um að hann reyndist rangur.

Sá spádómur sem ég myndi helst telja upp er spádómurinn í Daníelsbók um ríki heimsins og uppruna Evrópu sem skemmtilegasta dæmið um svona spádóm.

Púkinn man t.d. eftir einhverjum sem spáðu því að geimverur myndu lenda á Snæfellsnesi á ákveðnum tímapunkti.  Þegar ekkert bólaði á þeim var svarið - "jú, þær komu víst - þær voru bara ósýnilegar".

Nú, ef þú vilt halda því fram að einhverjir spádómar uppfylli þessi skilyrði, þá er þér velkomið að telja þá upp.

Arnar,  ég myndi orða þetta sem endalok illskunnar og byrjun lífs í heimi án þjáninga og dauða.  Biblían talar um að þessi jörð verði endursköpuð svo...

Mofi, 20.5.2008 kl. 13:49

20 Smámynd: Mofi

Afsakaðu Púki, það er þarna eitthvað sem þú sagðir... átti að vera fyrir ofan og merkt þér... en þú þekkir líklegast þín eigin orð.

Mofi, 20.5.2008 kl. 13:53

21 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mofi, ég held að spádómar Daníelsbókar um stórveldi mannkynssögunnar geti ekki uppfyllt kröfur Púka um óyggjandi dæmi um spádóm sem rættist. Persónulega tel ég að hann hafi ræst, rétt eins og þú gerir.

Spádómur Jesú Krists um fall Jerúsalemborgar árið 70 e.Kr. er dæmi sem mun erfiðara er að véfengja. Fræðimenn eru almennt á því að elstu guðspjöllin, þar sem spádómurinn kemur fram, séu rituð fyrir árið 70.

Theódór Norðkvist, 20.5.2008 kl. 22:31

22 Smámynd: Púkinn

Hvaða spádóm ertu nákvæmlega að tala um?  Lúk.19:41-44, eða eitthvað annað?

Púkinn, 21.5.2008 kl. 09:32

23 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Púki:

Mér þykir fyrir því að segja þér það, en ég er nokkurn veginn sammála þér. Ef trúboð á að fara fram á það ekki að vera með heimsendisspádómum og hræðsluáróðri eins þetta dæmi sýnir, og skil ég ekki hvað aðventistum gengur til með svona framlagi. Ég vil bara minna aðventistanna á að hugtakið heitir: "trúboð", ekki trúfæla.  Eða jafnvel eins og einhver sagði: "Svona gera menn ekki".

Heimsendir kemur einhvern daginn, það er ekki spurning, og þurfum við að vera tilbúinn fyrir það. En látum það ógert að láta þetta vera fyrstu kynni af trúnni. Til eru skynsamlegri leiðir. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 21.5.2008 kl. 10:11

24 Smámynd: Mofi

Theódór, afhverju eiginlega ekki?

Haukur, ég er alveg sammála og ég hefði ekki staðið svona að þessu. Því miður er þetta voðalega algengt hjá aðventistum en ég mun gera mitt besta til að breyta því.

Mofi, 21.5.2008 kl. 10:13

25 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Gott mál Moffi minn. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 21.5.2008 kl. 10:45

26 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvaða spádóm ertu nákvæmlega að tala um?  Lúk.19:41-44, eða eitthvað annað?

Já, líka Lúkas 21:6, Markús 13:2 og Matteus 24:2.

Það er túlkun á spádómi Daníelsbókar að líkneskið sem Nebúkadnes dreymdi tákni stórveldi sögunnar, Babýlóníu, Medíu-Persíu, Grikkland, Rómarríki og síðan Evrópulöndin.

Ég tel það vera rétta túlkun, en fræðimenn greinir á um þetta.

Theódór Norðkvist, 21.5.2008 kl. 11:26

27 Smámynd: Mofi

Theodór, það er engin túlkun, Daníel segir hvaða veldi þetta eru, nefnir þau.

Mofi, 21.5.2008 kl. 14:34

28 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef þú stofnar blogg um þetta á þinni síðu skal ég svara.

Theódór Norðkvist, 21.5.2008 kl. 15:08

29 Smámynd: Mofi

Ég skal gera það :)

Mofi, 21.5.2008 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband