Hvað á Púkinn að kjósa?

questionmark.jpgPúkinn er í vandræðum.

Að sitja heima eða skila auðu er ekki til umræðu - það jafngildir því að segja að allt sé í himnalagi og skoðun Púkans skipti ekki máli.  Að skila auðu jafngildir veruleikafirringu að mati Púkans - en hvað á eiginlega að velja?

Þetta var ekki vandamál í síðustu kosningum.  Púkinn skilgreinir sig sem "hægri-grænan" í stjórnmálum, kaus Íslandshreyfinguna síðast og skammast sín ekkert fyrir það.

Nú er sá valkostur ekki fyrir hendi og enginn valkostanna sem eru í boði höfðar til Púkans.

Skoðum aðeins þá valkosti sem eru í boði:

X-B? Framsóknarflokkurinn hefur aldrei höfðað til Púkans og gerir það enn síður nú.  Þar kemur margt til.  Púkinn hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að allir verði að taka fulla ábyrgð á gerðum sínum en það vantar mikið upp á að Framsóknarmenn viðurkenni sína ábyrgð á núverandi ástandi.  Gerðir þeirra í sambandi við einkavæðingu bankanna og ábyrgð þeirra á fasteignabólunni með því að styðja hækkað lánshlutfall Íbúðalánasjóðs eru þar ofarlega á blaði.  Loforð þeirra fyrir þessar kosningar höfða ekki til Púkans og sum þeirra væru beinlínis skaðleg til lengri tíma litið - svona eins og 20% hugmynd þeirra.  Það vill nefnilega einkenna þá að horfa of mikið á skammtímalausnir, en sjá aldrei lengra fram í tímann en til næstu kosninga.

X-D? Ólíkt Framsóknarflokkinum hefur Sjálfstæðisflokkurinn þó a.m.k sýnt viðleitni til að viðurkenna sína ábyrgð.  Eftir situr þó að flokkurinn ber stærsta hluta ábyrgðarinnar á uppbyggingu rotins fjármálakerfis.  Spillingarstimpillinn og mútuþægnigrunsemdirnar hjálpa heldur ekki til.   Það eru reyndar fleiri ástæður fyrir því að Púkinn vill ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn - ofuráhersla á álver og stuðningur við eyðileggingu íslenskrar náttúru er þar ofarlega á blaði, en val flokksins á frambjóðendum hjálpar ekki til.

X-F? Púkinn býr í Reykjavíkurkjördæmi Suður.  Þar er Sturla Jónsson efstur á lista.  Það eitt og sér nægir Púkanum sem ástæða til að kjósa ekki þann lista. Önnur ástæða er of mikil áhersla á sjávarútvegsmálefni sem snerta Púkann lítið sem ekkert og engin áhersla, eða illa hugsaðar lausnir á þeim málum sem snerta Púkann.

X-O? Borgarahreyfingin er erfið - þar eru ýmsir einstaklingar með fersk viðhorf, en því miður allt, allt of lítið af raunhæfum lausnum, eins og Púkinn lýsti hér. Þær hugmyndir sem hreyfingin hefur sett fram hafaekki sannfært Púkann um að þar sé fólk með þá þekkingu og reynslu sem þarf til að koma þjóðinni út úr núverandi stöðu.

X-P? Kosningakompásinn setti Lýðræðishreyfinguna efst hjá Púkanum, sjá hér og Púkinn er reyndar sammála sumu sem frá þeim kemur.  Það er bara það að ef einhver annar en Ástþór væri í forsvari mætti athuga þá nánar - en eins og staðan er, þá eyðir Púkinn ekki tíma í að skoða þá frekar - það er ekki hægt að taka Ástþór alvarlega.

X-S? Þótt Samfylkingin beri ekki sömu ábyrgð og B og D á hruni fjármálakerfisins, þá getur hún ekki vikist undan því að hafa verið á vaktinni þegar allt hrundi - og brugðist gjörsamlega.  Samfylkingunni hefur að vísu tekist mjög vel að draga athyglina frá sinni ábyrgð, en Púkinn er ekki sáttur við getuleysi þeirra til að framkvæma uppgjör innan eigin raða.  Púkanum hugnast heldur ekki áhersla Samfylkingarinnar á ESB og það viðhorf margra stuðningsmanna að ESB og upptaka evru sé einhver töfralausn sem muni koma öllu í lag.  Púkinn vísar t.d í þessa grein sína um upptöku evru, en hvað ESB varðar, þá sér Púkinn bara ekki að í þvífelist nein töfralausn.  Púkinn byggir lífsviðurværi sitt á upplýsingatækni og myndi gjarnan vilja kjósa flokk sem styddi  menntun og uppbyggingu í nýsköpun og greinum sem byggja á hugviti.  Samfylkingin hefur látið mörg góð orð falla um þessi mál, en efndirnar eru minni en engar.  Það hefur ekkert komið frá Samfylkingunni sem myndi gagnast aðilum eins og fyrirtæki Púkans og innganga í ESB myndi að sumu leyti gera stöðu fyrirtækisins verri.

X-V? Púkinn á í svolitlum vandræðum með Vinstri Græna.  Græni parturinn er í góðu lagi, en það er þetta með Vinstri partinn - eða réttara sagt, ákveðnar áherslur þeirra í skattamálum.  Púkinn er nefnilega afskaplega ósáttur við að fólki sé refsað fyrir ráðdeild og sparnað, en hugmyndir þeirra um eignaskatt eru ekkert annað en eignaupptaka að mati Púkans.  Hvers á fólk að gjalda sem ekki tók þátt í peningasukki undanfarinna ár, heldur situr bara á þeim eignum sem það hefur safnað með áratuga striti?  Púkinn lýsti annars skoðun sinni á réttlátum sköttum og ranglátum hér, þannig að þau orð verða ekki endurtekin í þessari grein.

Ekki er það gæfulegt....engir góðir kostir í stöðunni - bara misslæmir ... og hvað á Púkinn að gera?


mbl.is Stjórnin heldur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú kýst að sjálfsögðu með hjartanu, eins og þegar þú kvæntist konunni þinni, Púki litli.

Engin kona er gallalaus.

Það vita nú allir.

Nema konan þín.

Bið kærlega að heilsa henni!

Þorsteinn Briem, 24.4.2009 kl. 10:40

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hvet þig til að kjósa VG. Með fullri virðingu fyrir Borgarahreyfingunni þurfum við ekki fleiri dvergflokka sem dreifa atkvæðamagninu og styrkja Sjálfstæðisflokkinn og áframhaldandi spillingu í sessi.

Theódór Norðkvist, 24.4.2009 kl. 10:58

3 Smámynd: Bjarni Rúnar Einarsson

VG fengu atkvæðið mitt utankjörfunda-atkvæði um daginn.

Það kemur ekki til greina að kjósa síðustu stjórn (D og S), það kemur ekki til greina að kjósa F af sömu ástæðum og þú nefnir... og þá er fátt eftir. Ég sé aðeins eftir að hafa ekki kynnt mér XO betur, en sem nokkurnveginn þekkt stærð fannst mér VG skásti kosturinn í stöðunni.

Bjarni Rúnar Einarsson, 24.4.2009 kl. 12:16

4 identicon

Þú ættir að sitja heima.  Það er einmitt veruleikafirring að gera alltaf sömu mistökin ár eftir ár en halda alltaf að það virki næst.

Með því að fara á kjörstað þá vopnar þú þá með frösunum "endurnýjað umboð", "ábyrgð öxluð" o.s.frv. 

Það stefnir í svartnætti, þeir munu ekki segja að ég hafi gefið þeim umboð, ég verð heima.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:23

5 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Viltu nýja og ferska rödd á Alþingi? Sem talar skýrt og segir sannleikann? Viltu að ráðherrar séu fagmenn á sínu sviði en ekki stjórnmálamenn? Ef þú vilt þetta þá kýstu X-O. Og ef nógu margir kjósa Borgarahreyfinguna þá er margt fleira skemmtilegt í pakkanum s.s. hámarksseta á Alþingi 8 ár o.fl.

Margrét Sigurðardóttir, 24.4.2009 kl. 12:27

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég kýs líklegast Borgarahreyfinguna með óbragð í munninum.

Ég sé enga ástæðu til að kjósa flokka sem hafa komið okkur á hausinn og eru auk þess búnir að skammta sér 370 milljónum auk annarra og falinna styrkja bæði til flokka og prófkjara einstaklinga sem enn eiga eftir að koma upp á yfirborðið. Ennfremur er ljóst í mínum huga að núverandi stjórn ræður ekki við verkefnið framundan neitt frekar en sú sem jarðsetti íslenska efnahagsundrið.

Ég veit að Borgarahreyfingin er nokkurn veginn stefnulaus og einnota rekald. Því lít ég svo á að ég sé að nota þá sem mínusatkvæði gegn því sem á undan er gengið.

Allt annað en að skila auðu!

Haukur Nikulásson, 24.4.2009 kl. 16:57

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

XO

Óskar Þorkelsson, 24.4.2009 kl. 17:09

8 Smámynd: Björn Halldór Björnsson

Ég ætla að kjósa O og ég kaus I-Íslandshreyfinguna í síðustu kosningum

Ætli ég falli ekki undir nokkuð undir "hægri-grænu" stefnuna sem þú nefndir. Mér finnst O geti flokkast sem hægri jafnaðarmenn.

Varðandi rafrænar þjóðaratkvæðagreiðslur þá virkar það í Sviss og þar er fólk ekki stanslaust að kjósa. Fólkið sem er með undir meðalgreind eins og þú hefur haft orð á áður lætur sér standa á sama um málefnin. (um 30% kjörsókn í Sviss)

Menntun er ekki alltaf mælikvarði á greind. Fólk sem lifur of upptekkinu lífi t.d að græða á daginn og grilla á kvöldin hefur ekki tíma til að hugleiða og er oft á tíðum algjörlega háð einum fjölmiðil sem leiðir til hálfgerðar stöðvunar, eins og oft háir eldra fólki. Hroki er einnig áunnin heimska sem oft háir menntafólki með of hátt sjálfsálit -en það má einkum tengja við yfirstéttir og snobb.

Lýðræðislegar umbætur eru ekki stefnuleysi en annars hefur meðal annars komið í ljós t.d. skýrari áhugi XO fyrir því að lækka raforkuverð til garðyrkjubænda heldur en frá nokkrum öðrum flokki.

Björn Halldór Björnsson, 24.4.2009 kl. 19:18

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Samkvæmt skoðunarkönnun er Borgarahreyfingin að sækja mest fylgi til þeirra sem kusu Íslandshreyfinguna síðast.  Friðrik þú átt ekkert annað val en að fylgja fjöldanum.

Marinó G. Njálsson, 24.4.2009 kl. 20:40

10 Smámynd: Árni Steingrímur Sigurðsson

Þegar ég lít yfir flokkana kemst ég að ekkert ósvipaðri greiningu og þú, með einni viðbótar röksemdafærslu:  Það að gera það sama aftur og aftur og vænta annarar niðurstöðu en venjulega er rökvilla.  Hana er hægt að leiðrétta, í þessum kosningum.

Árni Steingrímur Sigurðsson, 24.4.2009 kl. 22:56

11 Smámynd: Brattur

Enginn góður kostur í stöðunni segir þú... þá er bara að nota útilokunaraðferðina... hvaða flokk getur þú bara alls ekki hugsað þér að kjósa... ???þú finnur það út og hendir honum út af borðinu og svo næsta og næsta... að lokum verður einn eftir sem er skárstur fyrir þig...

... gangi þér vel...

Brattur, 25.4.2009 kl. 01:14

12 Smámynd: Ingólfur

Sæll Púki,

Mér sýnist á þessari úttekt þinni að þú sért búinn að útiloka alla nema Borgarahreyfinguna og VG, en hafir samt ýmsar athugasemdir við þá.

Varðandi VG að þá geri ég ekki ráð fyrir því að þú trúir smekklausum auglýsingum Sjálfstæðisflokkinn um að VG ætli að hirða 50 þús kall af ellilífeyrisþegum sem eiga sitt hús skuldlaust. Það eiga allir að vita að er bara bull.

Ef það verða nokkrir eignarskattar að þá verður það bara á stóreignafólk, sem eru aðallega þeir sem hafa sölsað undir sig eignir í gróðærinu.

Hitt er ljóst að VG mun leitast við að leggja meiri skatt á efnaðra fólk og jafnvel lækka skatta á tekjulágt fólk. Og ef það rímar illa við þína sannfæringu að þá er eðlilegt að þú eigir erfitt með að kjósa þá.

Varðandi Borgarhreyfinguna að þá er það vissulega rétt að þar eru ekki á ferðinni þauæfðir stjórnmálamenn sem geta spunnið sig frá hvaða spurningum sem er. En það er einmitt kosturinn.

Þarna er venjulegt fólk sem maður getur verið viss um að sé heiðarlegt og hefur það helsta markmið að leggja grunn að nýju og betra samfélagi en því sem hrundi í haust.

Og það veit alveg að því að það er ekki sérfræðingar í öllum þessum málum, en þau vilja líka ráða sérfræðinga á sínu sviði í ráðherraembætti.

Fjórflokkarnir höfðu ótal tækifæri til þess að bæta stöðuna, bæði fyrir og eftir hrunið, En þeir misnotuðu það. (http://harri.blog.is/blog/harri/entry/861069/)

Ég ætla því að gefa Borgaraflokknum tækifærið á morgun.

Ingólfur, 25.4.2009 kl. 02:04

13 Smámynd: Púkinn

Ingólfur: Það er þetta með stóreignamennina.  Margir þeirra sem eru flokkaðir sem "stóreignamenn" eiga það miklar skuldir á móti eignum sínum að nettóeignþeirra er ekkert meiri en meðaljónanna - þetta á sérstaklega við um þá sem fjármögnuðu fasteigna- og rekstrarfélog sín með erlendum lánum.   Púkinn er að hugsa um þá sem eiga skuldlaust húsnæði, sumarbústað - einhverja peninga í bankanum, hafa kannski erft illseljanlegar eignir og annað í þeim dúr.  Ef fólk er í þeirri stöðu að hafa engar tekjur af eignum sínum, hvernig er þá hægt að réttlæta að skattleggja þær og svipta fólk í raun hluta eigna sinna?

Jón Frímann: Stöðugt gengi væri gott - það skiptir Púkann hins vegar litlu hvort Evran væri tekin upp eða ekki. Núverandi staða er fín - lágt gengi krónunnar kemur skuldlausum útflutningsfyrirtækjum vel, en innganga í ESB myndi hins vegar verða slæm fyrir fyrirtæki Púkans, en það er löng saga.

Púkinn, 25.4.2009 kl. 10:07

14 Smámynd: Ingólfur

Ef að stóreignarskattur væri settur á, sem ég efast reyndar um að verði gert, að þá hefur alltaf verið talað um hreina eignir eftir skuldir.

En hvað um það, ég vona að Púkinn hafir fundið eitthvað á kjörseðlinum sem þú gast sætt þig við.

Ingólfur, 25.4.2009 kl. 11:20

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Xv

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.4.2009 kl. 18:31

16 Smámynd: Billi bilaði

Jæja, fáum við svo að vita hvar atkvæðið þitt endaði?

Ég kaus Borgarahreyfinguna, og er stoltur af því!

Billi bilaði, 25.4.2009 kl. 23:40

17 Smámynd: Offari

Til hamingju Billi með þitt atkvæði.

Ég held að Péið eigi best við Púkann.

Offari, 26.4.2009 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband