Er lögverndun ljósmyndara tímaskekkja?

Púkinn er þeirrar skoðunar að tækniframfarir hafi leitt til þess að sérstök lögverndun ljósmyndunar sé orðin tímaskekkja og hana ætti að afnema hið snarasta.

Þessi umræða snertir mig ekki persónulega - ég vinn ekki við ljósmyndun, hef aldrei selt mynd og á ekkert frekar von á því að ég muni nokkurn tíman gera það.   Ég er hins vegar virkur áhugaljósmyndari (og hafi einhver áhuga, þá er Flickr síðan mín hér: http://www.flickr.com/photos/29986499@N07/)

Ef maður horfir á hlutina í aðeins stærra samhengi, þá er vert að minna á að ástæður lögverndunar eru þrenns konar.

Í fyrsta lagi er um að ræða lögverndun starfa - þar sem einstaklingar mega einfaldlega ekki starfa í viðkomandi grein nema hafa tilskilin réttindi. Þetta á t.d. við um lækna og flugmenn. Það er hér sem almannaheillasjónarmiðin eiga við. Ómenntaðir fúskarar geta stofnað lífi og limum annarra í hættu, og þess vegna er þeim bannað að vinna þessi störf. Þetta á augljóslega ekki við um ljósmyndun.

Í öðru lagi er um að ræða lögverndun starfsheita, og fylgir því gjarnan forgangur til starfs og betri laun, en ekki bann við að aðrir starfi í greininni. Besta dæmið um þetta eru sennilega kennarar - þar sem kennarar og "leiðbeinendur" geta unnið sama starfið hlið við hlið, en sá menntaði fær hærri laun og á forgang að starfi - þ.e.a.s. ekki má ráða réttindalausan einstakling ef einstaklingur með réttindi sækir um. Þessi tegund lögverndunar er gjarnan studd af stéttarfélögum, enda hagsmunamál félagsmanna. Þetta snertir ekki ljósmyndun á neinn hátt.

Í þriðja lagi er helst um að ræða iðngreinar, þar sem gerð er krafa um menntun/reynslu þess sem ber ábyrgð á verkinu, fyrst og fremst til að vernda kaupandann gegn fúski og leyndum göllum í vörum. Húsasmíði og pípulagnir eru góð dæmi um þetta - menntun og reynsla er talin ákveðin trygging gegn því að menn skili af sér hornskökku eða hripleku verki. Það er líka oft litið svo á að kaupandinn hafi ekki þekkingu til að meta gæði vörunnar - geti ekki borið kennsl á leynda galla, og þess vegna verði að gera kröfur til þess sem beri ábyrgð á verkinu - aðalatriðið hér er að tryggja að hráefni, verkferlar og vinnubrögð séu í lagi.

Sumir hafa viljað setja ljósmyndun í þennan flokk og vissulega eru rök fyrir því. Það sem gerir ljósmyndunina hins vegar ólíka þessum dæmigerðu iðngreinum er listræni þátturinn - menn geta haft verkferilinn í góðu lagi, en samt skilað af sér arfaslöku verki af því að þeir hafa einfaldlega ekki auga fyrir myndefninu - og hvað leyndu gallana varðar, þá á það mun síður við en t.d. í pípulögnum.

Þess ber líka að gæta að með tækniframförum hafa verkferlarnir breyst - langstærstur hluti ljósmynda er tekinn á stafrænar myndavélar í dag - fáir ljósmyndarar sitja lengur í myrkrinu og fást við framköllun með hættulegum efnum - stærri og stærri hluti vinnslunnar er hins vegar á sviði grafískrar eftirvinnslu - nokkuð sem hvorki þarf próf né réttindi til að mega fást við.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að ljósmyndun eigi meira sameiginlegt með listgreinum og tölvuforritun - greinum þar sem hæfileikar og áhugi skipta meira máli en formleg próf.  Púkinn er einfaldlega þeirrar skoðunar að ljósmyndun sé ekki hreinræktuð igngrein og þess vegna sé einfaldlega rangt að meðhöndla hana sem slíka.

Það má í raun hver sem er taka ljósmyndir og selja þær - lögin banna hins vegar þeim sem ekki hafa réttindi að starfrækja ljósmyndastofu og selja þjónustu - selja myndir sem ekki enn hafa verið teknar, ef þannig má að orði komast.

Það eru síðan enn önnur rök að til að fá meistararéttindi þurfa nemendur að komast á samning - nokkuð sem er ekki auðvelt - það eru einfaldlega ekki margir meistarar sem eru tilbúnir til að þjálfa nema til þess eins að fá þá sem samkeppnisaðila.

Púkinn kemur ekki auga á nein góð rök fyrir áframhaldandi lögverndun ljósmyndunar.

 


mbl.is Sektuð fyrir að reka ljósmyndastofur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Já en þetta hefur alltaf verið svona !

Kveðja, Kári

Kári Harðarson, 20.10.2010 kl. 15:42

2 Smámynd: Kristján Logason

Í 1. mgr. 2. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978 segir að enginn megi reka iðnað í atvinnuskyni nema hann hafi tilskilið leyfi. Þá

segir í 3. tl. 1. mgr. 15. gr. laganna að það varði sektum ef maður rekur löggilta iðngrein án þess að hafa meistara til forstöðu.Samkvæmt regluger

ð nr. 940/1999, um löggiltar iðngreinar, er ljósmyndun löggilt iðngrein. Ákærðu telja að þeim verði ekki

refsað á grundvelli téðra ákvæða þar sem þau séu úrelt vegna breyttrar tækni, stafrænnar ljósmyndunar. Þannig séu ekki lengurnotu

ð hættuleg efni við framköllun ljósmynda og því engin ástæða til að lögvernda ljósmyndun sem iðngrein. Í þessu sambandi

verður að líta til þess að löggilding iðngreina er ekki bundin við notkun hættulegra efna, enda segir í 2. gr. iðnaðarlaga nr.42/1978 a

ð lögin taki til hvers konar iðnaðar í atvinnuskyni, handiðnaðar og verksmiðjuiðnaðar, hvaða efni eða orka, vélar eða

önnur tæki, sem notuð eru, og hvaða vörur eða efni, sem framleidd eru. Auk þess er það á forræði löggjafans að ákveða hvaða

iðngreinar skuli njóta lögverndar en ekki dómara. Verður því að hafna þessum sjónarmiðum ákærðu. Þá telja ákærðu að

framangreind ákvæði feli í sér brot á atvinnufrelsi þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar er öllum frjálst að stunda

þá atvinnu sem þeir kjósa, en setja má því frelsi skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Eru engar forsendur

til annars en að telja að mat löggjafans, um að löggilda ljósmyndun sem iðngrein, sé reist á málefnalegum sjónarmiðum. Verður

því að hafna þessum rökum ákærðu. Enn fremur telja ákærðu að umrædd ákvæði séu ekki í samræmi við EES-reglur. Nánar

tiltekið hafi með reglugerð nr. 495/2001, um viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki, verið felldar úr gildihér á landi sex tilskipanir, m.a. tilskipun 75/368/EBE sem kve

ði á um löggildingu ljósmyndunar. Því geti ríkisborgarar annarra

landa á Evrópska efnahagssvæðinu komið hingað til lands og starfað sem ljósmyndarar en ákærðu sé það óheimilt. Að mati

dómsins verður ekki séð að íslensk ákvæði séu andstæð EES-reglum eða feli í sér mismunun. Með framangreindri reglugerð

nr. 495/2001 öðlaðist tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/42/EB frá 7. júní 1999 gildi hér á landi. Um leið féllu úr gildi sex

tilskipanir, m.a. tilskipun 75/368/EBE. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ákvæði EB-gerðarinnar 1999/42/EB nái til fleirii

ðngreina en eldri gerðir. Þannig voru felldar úr gildi sex tilskipanir sem höfðu reglugerðargildi hér á landi en ein víðtæk tilskipun

um iðnað kom í staðinn. Samkvæmt viðauka A, skrá 1, í tilskipun 1999/42/EB, er ljósmyndun löggilt iðngrein. Með vísan til allsframangreinds ber a

ð hafna sýknukröfu ákærðu og sakfella þau fyrir brot gegn 3. tl. 1. mgr. 15. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978, sbr.

1. gr. reglugerðar um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999.

Kristján Logason, 20.10.2010 kl. 17:09

3 Smámynd: Kristján Logason

Dóms niðurstaða er athygliverð eions og sést.

Það má hver sem er taka listrænar myndir og selja.

Það má bara ekki hver sem er kalla sig ljósmyndara og reka ljósmyndastofu eða ljósmyndaþjónustu

Kristján Logason, 20.10.2010 kl. 17:11

4 identicon

Mér finnst þetta mjög athyglisverð pæling og skoðunarverð...

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband