Eignaupptaka eða merkingarlaust bull?

Púkinn er ákaflega ósáttur við þá hugmynd að setja í stjórnarskrána klausu um að "náttúruauðlindir Íslands eigi að vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar".  

Ástæðan er einfaldlega sú að þetta er ekkert annað en klisja sem hljómar fallega, en er í rauninni merkingarlaus.

Púkinn vill því ítreka það sem hann hefur sagt áður:

  • Hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um - allar, eða bara sumar?  Fólk nefnir gjarnan jarðvarma, orku fallvatna og fiskinn í sjónum, en hvað með aðrar náttúruauðlindir?  Hvað með vatnsból, malarnámur, æðarvarp, rekavið, laxveiði í ám, eggjatekju og önnur hlunnindi? Í sumarbústaðarlandinu mínu vex bláberjalyng - náttúruauðlind sem unnt er að nýta - á berjalyngið mitt að verða sameign þjóðarinnar? Hvað með menn sem hafa ræktað upp skóg, eða sleppt silungi í tjörn sem þeir eiga?  Ef aðeins tilteknar auðlindir eiga að verða "sameign þjóðarinnar", væri þá ekki nær að tilgreina þær sérstaklega heldur en að tala um allar auðlindir almennt?  Ef allar auðlindir eigna að verða sameign þjóðarinnar þá er hins vegar um að ræða stórfellda eignaupptöku.
  • Hvað með auðlindir sem í dag eru sannanlega í einkaeign.  Ef ég ætti t.d. land með jarðvarma sem ég nýtti til að hita upp gróðurhús - ætti þá að taka mína eign af mér og þjóðnýta hana? Hvaða bætur fengi ég? Er fólk að tala fyrir allsherjar Sovét-Íslands þjóðnýtingu allra auðlinda? Ekki gleyma því að 72. grein stjórnarskrárinnar segir "Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir." 
  • Hvað þýðir að eitthvað sé "sameign þjóðarinnar"?  Getur þjóðin sem slík átt eitthvað?  Eiga menn við að íslenska ríkið sé eigandi auðlindanna, eða eiga menn við eitthvað annað - og þá hvað? "Einkaeign" og "Ríkiseign" eru vel skilgreind hugtök, en "Sameign þjóðarinnar" er það ekki - hvað þýðir þessi frasi eiginlega?

Heldur einhver í alvöru að svona frasi myndi koma í veg fyrir að auðlindir séu nýttar af erlendum aðilum?  Ef ríkið hefur tekið yfir auðlindina, þá getur það leigt hana hverjum sem er.  Það skiptir nefnilega engu máli hver "á" auðlindina - heldur hver nýtir hana og hirðir arðinn af henni.  Jafnvel þótt svona ákvæði væri inni í stjórnarskránni gætu stjórnvöld eftir sem áður ákveðið að veita fyrirtækjum í erlendri eigu rétt til að nýta auðlindina.  Púkinn vill bera þetta saman við það sem gilti í gömlu Sovétríkjunum, þegar sagt var að verkamennirnir ættu verksmiðjurnar sem þeir unnu í.  Þeir höfðu að vísu engan möguleika á að ráðstafa þeirri "eign" og nutu ekki arðsins af henni, en þeir "áttu" verksmiðjuna.

Heldur einhver í alvöru að svona frasi myndi breyta einhverju um kvótakerfið?  Ég minni að fyrsta grein í núverandi fiskveiðistjórnarlögum hefst á orðunum "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar."  Allir vita hvernig sú sameign þjóðarinnar virkar í raun.  Er einhver ásæða til að ætla að svona klausa í stjórnarskrána myndi virka eitthvað öðruvísi?


mbl.is Ævarandi eign þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Góður punktur!!!!

Harpa Björnsdóttir, 26.5.2011 kl. 13:47

2 Smámynd: Billi bilaði

Ágætur punktur, en greinin hefði einnig, að ósekju, mátt fjalla um það sem nauðsynlegt er að vernda, að mínu mati.

Ég tel að nauðsynlegt sé að það sé tryggt að við megum beygja okkur niður að næsta læk og fá okkur vatnssopa. Einnig að við megum kroppa upp berin sem vaxa í afréttum. Þar að auki vil ég ekki að stjórnvöld geti selt frá sé landgrunnið og allar nytjar af því fyrir eingreiðslu, og eftir það hafi íslendingar ekkert um það að segja. Síðast en ekki síst væri ekki slæmt að ríkið hefði eitthvað um það að segja hvað gert verði við óþekktar/ónýttar náttúruauðlindir.

Sum sagt, púkinn mætti að ósekju skrifa um hvernig hægt væri að tryggja þjóðinni yfirráðarétt yfir eigin hagsmunum, sem, miðað við t.d. pistla um alþjóðleg vatnsfyrirtæki, er ekki vanþörf á.

Billi bilaði, 26.5.2011 kl. 14:23

3 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Þetta er ákaflega, ákaflega góður punktur. Nokkuð sem ég hef sjálfur innt eftir.

 Við vitum öll hvað óljós lög gera. Þau skemma og sinna ekki hlutverki sínu. Sama á við um stjórnarskrá sem er óljós. Ég er sjálfur stuðningsmaður þess að setja þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá en það verður að vera á kristaltæru um hvað er verið að fjalla (ekki vera altækt) sem og að fara ekki í eignarupptöku eftirá. Þessi tvö skilyrði eru ófrávíkjanleg í mínum huga.

Sigurjón Sveinsson, 26.5.2011 kl. 15:14

4 Smámynd: Kristinn Pétursson

"Sameign" hefur að öllum líkindum lagalegu merkinguna óskilgreind sameign.

 Stigagangur, þvottahús, reiðhjólageymsla og aðstaða fyrir sorp o.fl. er "sameign" í blokk.

Nákvæmlega hver á hvaða tröppu - er ekki skilgreint -  og ekkert er verið að snúa út úr því.

Hálendið er úrskurðuð þjóðlenda skv. úrskurðarnefnd. Lögbýli við þjóðlendu - eiga beitarrétt til að beita búfénaði á afréttir þjóðlendu í sumum tilfellum (Hæstaréttardómar)

Hafið sem auðlind - er að öllum líkindum þjóðlenda -  og auðlindin sjálf er eign ríkissjóðs.

Sönnun: Ef auðlindir hafsins væru ekki þjóðareign - gæti Alþingi ekki setta lög,  takmarkað fiskveiðar og úthlutað aflaheimildum. Það getur bara eigandi auðlindarinnar.

Nýtingarréttur til veiða  í þjóðlendu hafsins - virðist svipuð "eign" lagalega og beitarréttur jarða á þjóðlendu - (frekar óskýr samlíking - en samlíking samt)

En þetta þarf að vera skýrt. Það er hárrétt.  ER ekki lausnin sú - að land í einkaeigu og auðlindir þar - sé eign viðkomandi aðila - í aðalatriðum - en á þessu kunna að vera vafaatriði.

Lofið - hver á það  og hvað eiga landeigendur "hátt upp" í loftið.  Hver á rjúpurnar?  Hver á fiskinn?  Margar spurningar.

Þ að sem ekki er þinglýstar auðlindir - beinlínis í eigu viðkomandi (viðurkennt af Hæstarétti) - er þá almannaeign  = eign ríkissjóðs.Nýtingaréttur á eignum og auðlindum er svo kjarni þess sem ræða þarf -  en um beinan (þinglýstan) eignarrétt einkaaðila á fiskistofnum eða hlutdeild í þeim - er bara rugl.

En það þarf að skilgreina þetta rækilega vel - ég reyndi það á Alþingi 1989 og 1990 - en  rakst alls staðar á veggi.

Fagleg greining á þessum viðkvæmu álitaefnum - er það sem vantar.  Þegar sú greining liggur fyrir - þá   fyrst er unnt að rökræða ítarlegri  ákvæði... Þetta er ekkert flókin vinna - en þarf að vera mjög markviss lagalega...

Kristinn Pétursson, 27.5.2011 kl. 00:27

5 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Alveg hárrétt sjónarhorn, þetta er einungis til að færa aukið vald til að deila og drottna inn á borð framkvæmdavaldsins.  Ég væri til í að kjósa hvaða ónytjung sem er inn á alþingi ef hann í staðinn úthlutar mér nokkrum þorskígildistonnum. 

Kjartan Sigurgeirsson, 27.5.2011 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband