Léttvín eða ekki?

wine-bottlesÁ að selja léttvín í matvöruverslunum?  Púkinn hefur átt í ofurlitlum erfiðleikum með að mynda sér skoðun á þessu máli og getur tínt til ýmis rök, bæði með og á móti.

Það er skiljanlegt að verslanaeigendur vilji selja léttvín, enda myndi slíkt að sjálfsögðu þýða aukin viðskipti og meiri hagnað. Púkinn er hins vegar ekki sannfærður um að verslunum sé treystandi til þessa - reynslan hefur sýnt að mörgum verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak eingöngu til þeirra sem eiga að hafa aldur til að kaupa það.  Hvers vegna ætti annað að gilda um áfengið?  

Púkinn horfir hins vegar einnig til vöruúrvals.  Stundum hefur Púkinn fundið einhverja tegund sem honum líkar (t.d. sérlega gott Malbec vín frá Argentínu fyrir 2 árum), en næst þegar átti að kaupa sömu tegund þá kom í ljós að hún hafði verið tekin úr sölu, vegna of lítillar sölu.  Púkinn myndi gjarnan sjá kerfi sem leyfði opnun einkarekinna sérverslana, þar sem meiri áhersla er lögð á gæði en veltu.

Það er því miður staðreynd að stór hópur fólks kann ekki að fara með áfengi - verður sjálfu sér til skammar og öðrum til ama.  Það mun sennilega ekki breytast mikið þótt aðgangur að léttvíni verði gerður þægilegri - en spurningin er hvort þessi hópur muni stækka.   Það er óvíst, en hins vegar er ljóst að hann mun ekki minnka. 

Aukið aðgengi er til þæginda fyrir suma - en munar svo miklu?  Í sumar komu nokkrir góðir dagar þegar gott veður var eftir vinnu og alveg tilvalið að henda nokkrum bitum á grillið, setjast á sólpallinn og sötra eitt eða tvö glös að rauðvíni.   Stundum þurfti Púkinn að skjótast út í búð eftir kjötbitum og ef hægt hefði verið að kaupa léttvínsflösku í leiðinni, þá hefði e.t.v. mátt gera það - en raunin var bara sú að Púkinn átti alltaf nokkrar mismunandi flöskur heima, þannig að fyrir hann breytti þetta í rauninni engu.

Sumir velta fyrir sér hvort Íslendingar hafi í raun þroska til að umgangast vín eins og hverja aðra vöru - við erum ekki í landi þar sem léttvín er talinn eðlilegur hluti hverrar máltíðar.  Ástandið hefur batnað verulega hvað þetta varðar - það er nánast liðin tíð að hópar Íslendinga missi alla stjórn á sér þegar þeir koma til sólarlanda þar sem áfengi er selt í hverri matvörubúð, en samt er ljóst að Íslendingar eiga enn margt ólært - fjöldi þeirra sem teknir eru ölvaðir undir stýri vitnar um það.

Svo - hver er niðurstaðan?  Púkinn er hreinlega ekki viss. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Þótt ÁTVR hafi þróast þokkalega, þá verður ekki hjá því litið að hún er ríkisstofnun, þar sem arðsemissjónarmið og samkeppni um verð, gæði og þjónustu er ekki efst á Baugi. Því ber henni að víkja. Neytendur drekka alveg jafn mikið, hvort sem ÁTVR er við hliðina á Hagkaupum eins og í dag eða vínið er selt inni í versluninni. Umræða um þroska neytenda var líka á fullu þegar bjórinn kom 1989. „Hinir“ áttu ekki að geta höndlað bjór, en maður sjálfur var með allt á hreinu!

Ívar Pálsson, 24.10.2007 kl. 18:50

2 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Púkinn í mér segir: eigum við bara ekki slaka á öllu aðhaldi?    Forvarnir hvað?   

Upp á borð með sígaretturnar og gerum þær sýnilegar aftur     Nema hvað ? í skólasjopprnar líka. 

Án djóks, mér finnst að tóbak eigi líka að vera selt í ÁTVR .

Fyrir leikmann eins og mig sem er ekki spesíalisti í vínum, þarf oft að leita eftir upplýsingum og fæ alltaf góða þjónustu í ÁTVR. Ég myndi ekki nenna að bíða eftir eina íslenskumælandi afgreiðslumanninum í Bónus til að kaupa eina góða vínflösku.

Hafið þið reynt að fá upplýsingar hjá starfsfólki í Bónus, IKEA eða öðrum stórmörkuðum. Svörin sem maður fær er oftast "tala ekki mikið íslensku" eða maður horfir á unglinginn horfa á mann eins og maður sé einhver fornaldareðla svo maður gæti alveg eins spurt unglingana sína heima.

Nei, við höfum ekkert að gera við það að auka aðgengi að víni og bjór. Ég vorkenni ekki fullorðnu fólki að koma við í ÁTVR í framtíðinni

 Ríkið borgar sveitt fyrir heilbrigðiskerfið svo ég get alveg unnt ríkinu að fá ágóðan af sölu fíkniefna sem það hefur lögleitt.

Áfengis og tóbaksneysla er okkar tryggasta framleiðsla á sjúklingum og ósjálfbjarga gamalmennum  Hversu miklu "hófi" sem það nú er því það getur verið ansi teygjanlegt hugtak.

Jóhanna Garðarsdóttir, 25.10.2007 kl. 10:33

3 Smámynd: Jóhann Ingólfsson

Það er eitt sem mér finnst allveg vanta í þessa umræðu og það er sterkavínið.
Ef léttvínið og bjórinn fara í matvöruverslanir þá er ekki víst að ÁTVR haldi úti mögrum verslunum til að selja sterkt vín. Ég hef heyrt  haft eftir innanbúðarmönnum hjá ÁTVR að þær gætu orðið ein til tvær á höfuðborgarsvæðinu og kanski ein á Akureyri. Þetta er miðað við núverandi sölu á sterkuvíni. Það svarar ekki kostnaði að halda úti fleiri búðum miðað við hlutfallið sem það hefur í heildarsölunni.

Þá dugar ekki að skutlast úr sumarbústaðnum í Borgarnes eða á Selfoss til að ná sér í vískí í írskakaffið. Ef fólk hefur ekki verið fyrirhyggjusamt og tekið það með úr borginni þá þarf að panta það og láta póstinn koma því til skila á einum til tveim dögum.

Ef þetta verður að veruleika þá er verið að fara mörg ár aftur í tímann hvað þjónustu varðar. 

Jóhann Ingólfsson, 25.10.2007 kl. 10:40

4 Smámynd: Kári Harðarson

Þegar ég fer út í verslun hér í Frakklandi er álitlegur hópur af frönskum fyllibyttum sem heldur til á planinu fyrir framan.  Öðru hvoru skýst einn þeirra inn og nær í aðra flösku eftir að hafa betlað 3-4 evrur.  

Frakkar geta líka verið rónar.  Þeir þurfa bara ekki að stela myndvarpa til að eiga fyrir brennivíninu.

Vínmenningin er betri að því leyti að þeir virðast ekki tapa sér í vímunni heldur sitja rólegir...

Kári Harðarson, 25.10.2007 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband