Istorrent: Glæpasamtök eða bara gráðugir siðleysingjar?

piracyPúkanum finnst með ólíkindum hve hægt gengur að stöðva starfsemi Istorrent-gengisins, en þessir þjófar eru látnir í friði meðan lögreglan leggur áherslu að að uppræta gengi nokkurra vesælla dópista sem stela smáhlutum til að eiga fyrir næsta skammti.

Samt er hér um mun stærri upphæðir að ræða - en kannski er málið það að yfirvöld líta ekki á þjófnað á hugverkum á sama hátt og annan þjófnað.

Þessi þjófnaður bitnar þó á þeim sem fyrir honum verða, en Púkinn er einn af þeim.  Á Istorrent var um skeið dreift hugbúnaði sem Púkinn samdi ásamt öðrum.  Frá sjónarhóli Púkans var þarna stolið af honum hans hugverkum fyrir milljónir.

Það er aðeins eitt orð sem Púkinn á yfir þá sem þetta stunda.

 ÞJÓFAR!

Púkinn hefur megnustu skömm og fyrirlitningu á þeim sem standa að baki Istorrent vefnum, en þeir skýla sér bakvið að þeir séu í raun akki að gera neitt ólöglegt - þeir séu bara að aðstoða þjófana við iðju sína. 

Það er kominn tími til að stöðva þetta gengi - stöðva Istorrent, leita uppi þá ræfla sem setja annarra hugverk í dreifingu í leyfisleysi, leggja hald á tölvur þeirra og sekta þá.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll.

Ég er sammála þér. Þetta virðist vera hreinn og beinn þjófnaður á ferðinni, allavega á þeim sem nota vefinn. Það má kannski heimfæra það að sá sem veitir brautina, torrent eigandinn, sé jafn saklaus af stuldi notenda sinna eins og vegagerðin er þó svo þjófar noti vegina hennar til að stinga af eftir bankaránið. Þ.e.a.s. ef hann veit ekki hvað notendur hans aðhafast. Þetta er auðvitað háð því að hægt sé að nota vefinn til margs annars en stela hugverkum

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 8.11.2007 kl. 12:04

2 Smámynd: Púkinn

Púkinn skrifar "ÞJÓFAR" með stórum stöfum til að leggja áherslu á það er það sem þetta er - þjófnaður og ekkert annað.   Menn geta reynt að skreyta þetta - kallað þetta "þörf til að skiptast á ..." en það breytir því ekki að þjófnaður er þjófnaður.

Það er ekki hægt að réttlæta þjófnað á verkum og eigum annarra á þennan hátt. 

Púkinn, 8.11.2007 kl. 13:15

3 Smámynd: Kári Harðarson

Þetta er þjófnaður, engin spurning.

Þetta er samt erfitt viðureignar.  Skrif þín og annara rétthafa minna mig á reiðiskrif  Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu yfir rollunum sem éta upp landið sem aðrir eru að reyna að rækta.  Það vantar girðingarnar og það er landlæg hefð fyrir ofbeitinni.

Ístorrent geta sagst vera samkomstaður fyrir fólk sem vill skiptast á skrám, og að þeir geti ekki fylgst með öllum sem þarna eru.  Þau sömu rök geta skemmtistaðir notað ef fólk segir að dópdílar fari þar fram.  Vissulega gæti Ístorrent reynt að eyða út skrám úr gagnagrunni með nöfnum sem virðast eiga við ólöglegt efni, en þá geta menn sagt að lögbrjótarnir byrji bara að endurskíra skrárnar samkvæmt nýju kerfi. 

Hægt er að kalla "Sopranoes" þættina "Sópranfjölskylduna" til að svindla á sjálfvirku eftirliti.  Það yrði full vinna að fylgjast handvirkt með  öllu efni sem um kerfið fer.

Tollurinn getur ekki komið í veg fyrir ólöglegan innflutning fíkniefna en það er ekki hægt að lögsækja tollinn fyrir þau afglöp í starfi.  Af hverju ættu aðstandendur istorrent að geta fylgst með öllum sem nota kerfið þeirra?

Ég er að leika lögfræðing andskotans, bara að benda á að málið er ekki einfalt.

Kári Harðarson, 8.11.2007 kl. 13:27

4 Smámynd: Einar Indriðason

Nú ætla ég að bæta mér í hópinn, og, líkt og Kári, þá ætla ég að vera hálfgerður lögmaður skrattans.  (e. Devil's Advocate.)

Skráarskiptin, sem tækni, er ekki ólögleg, sem slík.

Það sem er hins vegar málið í þessu dæmi, er hvernig höfundarrétturinn, dreifirétturinn, og slíkir réttir, eru meðhöndlaðir.  (Og til að flækja málið enn meira, þá ætla ég að nefna nánast "sjálftöku" gjalds af óskrifuðum geisladiskum, til STEF og SMÁÍS.  Aðrir sem dreifa efni, sínu eigin efni, á geisladiskum, fá *ekki* krónu úr þessum "sjálftökusjóð".)

Þetta er hins vegar stórt og flókið mál, og þarf að skoða frá mörgum mismunandi hliðum.

Einar Indriðason, 8.11.2007 kl. 15:57

5 identicon

Skráardeiliforrit sem slík eru pottþétt ekki ólögleg. En vissulega eru þau notuð á ólögmætan hátt það er víst.

Vonandi að þau mál komist í góðan farveg því þetta er jú stuldur rétt eins og þú lýsir ágæti Púki og skiljanlegt að þú sért reiður ef þú hefur borið fjárhagslegt tjón af.

En kann ástæðan ekki líka að vera sú eins og t.a.m. hér á landi að það er glæpsamleg verðlagning á tónlist og kvikmyndum. Kannski er það bara hið opinbera sem er svona frekt til fjárins. Eða kannski milliliðir og dreifingaraðilar.

Trúlega er ekki ósvipað með listamanninum og bóndanum að þeir bera minnst úr bítum af markaðsvirði vöru.

En hvað um það. vonandi að þessi mál komist í lag sem fyrst. 

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 00:00

6 Smámynd: Púkinn

Púkinn er ekki kvikmyndaframleiðandi - Púkinn á bara lítið hugbúnaðarfyrirtæki sem reynir að skrifa forrit (Púki 2003 og Púki 2007) fyrir íslenskan markað.

Á þeim tíma sem hugbúnaðinum var dreift á istorrent var veræmæti ólöglegu dreifingarinnar miklu, miklu hærra en salan a forritinu. 

Púkinn er ekki hrifinn af að láta stela af sér og mun því reyna að stöðva þessa þjófa með einu eða öðru móti.

Púkinn, 9.11.2007 kl. 01:24

7 identicon

JÆJA, PÚKI. Nú fór í VERRA eða er í VERRA. Mér datt í hug að láta þig leysa fyrir mig úr vanda svolítið orðarask,sem er svona.  EF ÉG STEL FRÁ þÉR ,átt þú þá að stela frá mér eða fyrirgefa mér, þjófnaðinn.  NÚ ER STÓRT SPURT.( ÉG ER HÖFUNDUR LÍKA).

  Höfundarétt ber að virða á hvaða sviði sem er ef hann er viðurkenndur með lögum,því allir eiga að kannast við þetta:  MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA. Svo er það alþekkta .Það stela allir frá öllum,KONUM og KÖLLUM.OG að lokum Hver er ekki þjófur án þess að vita það.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 04:05

8 identicon

Ég ætla að taka undir það sem Einar Indriða skrifaði hérna fyrir framan..  

Við neytendur erum kúgaðir til að borga "þjófnaðarskatt" af tómum diskum og minnislyklum.  Af því að þá má "hugsanlega" nota til "þjófnaðar". 

Er nema von að við berum ekki mikla virðingu fyrir kerfi sem virkar svona ?

-o-

 En púkinn virðis ekki skilja hugtakið "verðmæti".

Ef púkinn skrifar hugbúnað og setur í það vinnu forritara fyrir 20 miljónir, þá merkir það ekki að hugbúnaðurinn sé 20 milljóna virði.

 Það er því bara vitleysa að tala um "verðmæti" ólöglegrar dreifingar sem margfeldi smásöluverðs og fjölda dreifðra eintaka.

Fransman (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 07:01

9 Smámynd: Einar Jón

Ég er að mestu leiti ósammála Einari I og Fransmani. "Þjófnaðarskatturinn" er engin ástæða til að stela öllu steini léttara frá hverjum sem er. Það gæti verið notað til að rökstyðja þjófnað frá STEF, en ekki frá íslenskum tónlistarmönnum og þaðan af síður hugbúnaðarmönnum.

Skráarskiptin, sem tækni, er ekki ólögleg, sem slík.
Þeir eru að miðla upplýsingum sem hafa þann eina tilgang að hjálpa fólki að brjóta lög (ekki ósvipað og vændis/dópauglýsingar á vefjum eins og einkamal.is/kassi.is), og ættu að sjá sóma sinn í að fjarlægja torrenta ef höfundur efnisins fer fram á það.

Einar Jón, 9.11.2007 kl. 09:09

10 Smámynd: Einar Indriðason

Einar Jón:  Ég er að segja að þetta er ekki hvítt né svart.  Tæknin sjálf er ekki ólögleg.  Það sem er flutt með tækninni, það er það sem er vandamálið.

Og, nota bene, ég er á engan hátt að afsaka eitt eða neitt.  Vissulega er það þjófnaður að dreifa höfundarréttarvörðu efni á þennan hátt, án samþykkis höfundar.

Ég er einungis að benda á að þetta er stórt box Pandoru sem við erum að opna þarna.  Þetta er hvorki alhvítt, né alsvart.

Einar Indriðason, 9.11.2007 kl. 10:37

11 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Ég ætla reyndar ekki að blanda mér í torrent umræðuna, heldur um höfundarétt almennt.

Dæmi A: Ef ég fer út í búð sem selur tölvuleiki, finn mér einhvern leik sem er seldur fyrir PC tölvur og svo sama leik fyrir PS2. Innihaldið er mjög svipað, diskurinn eins, bæklingur eins, umbúðir eins, en verðmunurinn er 1000 - 2000 kr. Eini munurinn sem ég veit um er að auðvelt er að afrita PC leikinn en ekki eins auðvelt með PS2 leikinn. Því má leiða líkur að hæfilegur þjófnaður haldi verðinu niðri. Getur það verið eða er einhver önnur ástæða fyrir verðmuninum?

Ég ætla samt að taka fram að ég kaupi ætíð löglegar vörur, amk í seinni tíð en eitthvað var um copieringar í gamla daga .

Dæmi B: Ef ég kaupi mér disk með einhverju innihaldi, þá borgar ég að mestu leiti fyrir hugverkið. Diskurinn sjálfur, umbúðir og framleiðslan er lítill hluti af verðinu.

Ef diskurinn skemmist, á ég ekki rétt á að fá annað eintak af hugverkinu og borgar bara fyrir diskin og brennsluna á honum?

Júlíus Sigurþórsson, 9.11.2007 kl. 11:00

12 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Það má kannski bæta við:

Ef ég borga afnotagjald af einhverri sjónvarpsstöð (t.d. stöð 2 eða rúv), á ég þá ekki rétt á að sjá allt efni sem sýnt hefur verið þar og ef ég missi af því einhverra hluta vegna, á ég samt ekki rétt á því að verða mér úti um eintak af efninu og horfa á það síðar? Skiptir þá máli hvernig ég verð mér úti um það? t.d. ef einhver í fjölskyldunni tekur það upp á VHS eða hvort einhver annar tekur það upp stafrænt og sendir mér í gegnum netið?

Júlíus Sigurþórsson, 9.11.2007 kl. 11:05

13 Smámynd: Púkinn

Sumt af því sem hefur verið sagt hér kemur málinu bara ekkert við. 

Púkinn er ekki að tala um almennan rétt til notkunar á efni sem fólk hefur ef til vill á einn eða annan hátt borgað fyrir.  Púkinn er að tala um hreinan og kláran þjófnað - ólöglega fjölföldun á hugverkum, sem enginn hefur neinn rétt á að nota án greiðslu.

Það er ekki eðlilegt þegar fjöldi eintaka sem er nuðurhalað ólöglega er (mun) meiri en fjöldi löglega seldra eintaka. 

Þetta er hreinn og klár þjófnaður og ekkert annað.  Púkinn vonast til þess að það takist að hafa upp á þeim sem dreifðu hans verkum á þennan hátt, þannig að hann geti dregið þa´niður í Héraðsdóm og krafið þá um nokkrar milljónir - þessir þjófar eiga ekki betra skilið.

Púkinn, 9.11.2007 kl. 11:12

14 identicon

Sannleikurinn er sá að við erum öll mannleg, og það er einfaldlega ekki hægt að setja endalaust lög sem ganga gegn því sem fólki "finnst".

Fólk hegðar sér eftir því sem því líður, það breytir því engin lagasetning og löggjafinn og framkvæmdavaldið vita þetta vel.  Það er einmitt sagt um sum lög að þau geri lítið annað en að "búa til glæpamenn" sem síðan sé hægt að græða á.

Þetta sést alveg einstaklega vel í Bandaríkjunum þar sem er að stórum hluta búið að einkavæða fangelsin.  Þeir sem reka þau, setja síðan stórar fjárhæðir í að "lobbía" þingmenn til að setja fleiri lög sem senda fólk í fangelsin þeirra svo þeir fái borgað meira frá ríkinu.

Auvitað er síðan bara hægt að loka augunum fyrir þessu og segja að þetta komi málinu ekkert við.

Fransman (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 13:29

15 identicon

Jón:  Frímann: er ekki einmitt ástæðan fyrir því að fólk afritar hugbúnað Púkans, frekar en að nota það sem stendur til boða "frítt", að hann er betri ?

Vandamálið sem kvartað er yfir, er 'ólögleg afritun' og til að stöðva hana þá er lausnin að skrifa verri hugbúnað, ekki satt ? 

Fransman (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 14:17

16 Smámynd: Sveitavargur

Þess er ennfremur vert að benda á að niðurhalað eintak jafngildir ekki tapaðri sölu.  Það ættu allir að vita sem blanda sér í þessa umræðu.  Ennfremur er höfundarréttarbrot er ekki það sama og þjófnaður, og er ástæða fyrir því að greinarmunur sé gerður þar á milli.  Það eru nokkrir sameiginlegir faktorar, en þetta er engu að síður tvö aðskilin hugtök.

Ekki svo að skilja að ég skilji ekki frústrasjónir Púkans fullkomlega.  Ég vil bara benda á að hann er ekki að verða fyrir því milljónatapi sem hann vill láta vera.  Markhópur IsTorrent (sem ég ímynda mér að sé fyrst og fremst ungt fólk á táningsaldri) er ekki víst til að eyða 7.500kr af sínum takmörkuðu tekjum í villuleitarforrit.

Og svo það sé á hreinu er ég ekki að leggja neinn dóm í umræðuna.  Ég er bara að benda á staðreyndir málsins.  Höfundarréttarlög eru ekki loðin (og aðskilin þjófnaði) að ástæðulausu.

Sveitavargur, 9.11.2007 kl. 14:20

17 Smámynd: Einar Jón

EinarI: Það sem er flutt með tækninni, það er það sem er vandamálið.
Sem er nánast það sama og að auglýsa eitthvað ólöglegt á auglýsingavefjum. Ég vil meina að þó forsvarsmenn síðunnar brjóti ekki lög ættu þeir samt að fjarlægja efni sem "hvetur til lögbrota", sérstaklega ef það hefur engan löglegan tilgang og þeir eru beðnir um það af "þolendum". 

Einar Jón, 9.11.2007 kl. 15:31

18 Smámynd: Púkinn

Forsvarsmenn síðunnar ættu líka að aðstoða "þolendur" við að hafa upp á þeim sem eru að fremja brotin, þannig að unnt sé að kæra þá og sekta.

Púkinn, 9.11.2007 kl. 15:43

19 Smámynd: Kári Harðarson

Kannski verður hugbúnaðargerð og önnur hugverkagerð aldrei söm,  eftir að internetið er tilkomið og afritun er orðin svona auðveld.

Við pirrum okkur og bíðum eftir að málið leysist en ég er að verða langeygður eftir því.  DRM virðist ekki vera að bjarga kvikmyndageiranum frekar en copy protection í hugbúnaðargeiranum á sínum tíma.

Ef eignarétturinn er ekki virtur lengur þá er ekki hægt að stunda viðskipti.

Þrælaverslun byggðist á því að hægt væri að eiga annað fólk.  Margir öflugir aðilar áttu hagsmuni þar.  Stríð voru háð til að reyna að verja þennan eignarétt en allt kom fyrir ekki.  "The rest is history".  Á sunndag fer ég til borgarinnar Nantes sem er full af höllum sem voru byggðar af þrælahöldurum 16.aldar...

Ég er ekki segja að hugbúnaðargerð = þrælahald,  bara að kannski líður Hollywood undir lok í núverandi mynd, eins ótrúlega og það kann að hljóma, því vissulega er ekki komið náhljóð í Hollywood menn ennþá.

Kári Harðarson, 9.11.2007 kl. 18:18

20 Smámynd: Sigurjón

Ég verð að vera algjörlega ósammála bæði Kára vini mínum og Púkanum vini mínum líka.

Ég veit um fólk sem notað hefur löglega Púka, bæði 2003 og 2007 og líkað vel.  Ég er hins vegar ekki viss um að það myndi vilja borga fyrir framtíðarfærzlur.  Það er ódýrara að nota mig, því ég geri færri villur en Púkinn.

Einnig er kannske rétt hjá Kára að hugbúnaðargerð og hugverkagerð verði aldrei söm, einfaldlega vegna þess að hinn frjálsi markaður er að gleypa hinn.  Þeir sem ekki fylgjast með tímanum, munu einfaldlega deyja út.

Ef tónlistar- og kvikmyndarframleiðendur hefðu fyrr áttað sig á að betra væri að markaðssetja sína vöru rafrænt fyrir minni pening, væru þeir ekki kvartandi í dag.  Itunes malar gull á kostnað allra hinna sem tóku ekki skrefið og væla núna.

Svo er engan veginn hægt að gera þá sem reka Istorrent vefinn ábyrga. 

Sigurjón, 10.11.2007 kl. 04:07

21 Smámynd: Sigurjón

Auk þess vekur þetta spurningu um munað.  Þú situr fyrir framan tölvuna og kvartar yfir að tapa milljónum (en mér skilst samt að þú sért nokkuð vel stæður einstaklingur), meðan fólk annars staðar í heiminum, sem hefur ekkert um sína stöðu að segja, sveltur heilu hungri.  Væri það jafn slæmt að einhver væri að stela vatnsbólinu þínu eða landi?

Sigurjón, 10.11.2007 kl. 04:16

22 Smámynd: Púkinn

Æ, já ... Hróa-hattar röksemdin..."það er allt í lagi að stela frá þeim sem eiga mikið." Það er eins gott að það eru ekki allir sem hugsa svona.

Púkinn gerir þá kröfu til sinna hugverka að þau standi undir sér.   Ef þjófnaðurinn verður það mikill að samdráttur í sölu gerir það að verkum að tiltekið forrit stendur ekki undir sér lengur, þá er nokkuð ljóst að þróun þess forrits verður hætt og allir tapa.

Púkinn, 10.11.2007 kl. 11:23

23 Smámynd: Kári Harðarson

Ég átti við það sama og "slembinn einstaklingur", semsé að það er ekki hægt að stunda óbreytt viðskipti með það sem ekki er hægt að eigna sér lengur.  Það verður að breyta viðskiptamódelinu eitthvað.

Kaupmenn láta sig hafa ákveðið hlutfall af búðarhnupli án þess að loka búðinni.  Það má gera gott úr hlutunum á meðan ekki of margir stela, halda því fram að lágt hlutfall þjófnaðar sé gott því það sé ókeypis auglýsing og margir sem stela hefðu hvort eð er ekki keypt  hugbúnaðinn.

Sennilega hefur púkinn getað unnið fyrir sér  og sínum fram að þessu en mér segir svo hugur að honum sé farið að ofbjóða hversu margir stela núorðið, og  hann sé farinn að sjá fram á að þurfa að hætta þróun Púkans.  Það er slæmt.

Púkinn borgar skatt og getur ætlast til að yfirvöld reyni að halda uppi lögum og reglu í landinu.  Mig grunar samt að þau séu algerlega vanhæf um það.

Mér vitanlega vinnur einn maður hjá lögregluembættinu að rannsókn tölvuglæpa og hann er með fullar hendur af barnakláms málum.  Þjófar geta því látið greipar sópa enn um sinn.

Kári Harðarson, 10.11.2007 kl. 18:00

24 Smámynd: Sigurjón

Á vefsíðu Villupúkans stendur:

,,Púki 2007 er einungis seldur á geisladiski sem sendur er með pósti til kaupenda".

Gamaldags aðferð til dreifingar á hugbúnaði.  Ekki bara það, heldur ævaforn miðað við þróun og framfarir í tölvugeiranum.

,,Púki 2007 kostar kr. 7.500,- m/vsk".

Þetta er of dýrt.  Þetta slagar hátt í verð fyrir stýrikerfi (sem reyndar er hægt að fá ókeypis, noti maður Linux t.d.).  Þrátt fyrir notagildi forritsins, finnst mér þetta of hátt. 

Ég, sem tilvonandi kaupandi hefði meiri áhuga á þessu ef þetta væri á innan við 5000 kall og væri hægt að ná í rafrænt.

Svo verða menn, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að sætta sig við að afritun á hugbúnaði, myndum og tónlist er hvítflibbaglæpur þar sem ,,fórnarlambið" verður ekki fyrir áþreifanlegum skaða.  Ef svo væri, myndu kvikmyndaverin, tónlistarfólkið og forritararnir ekki hafa efni á öllum þessum veraldlegu gæðum.

M.ö.o. það vorkenna engir fógetanum í Nottingham, þó hann hafi farið að lögum.  Samúðin er öll hjá Hróa. 

Sigurjón, 11.11.2007 kl. 03:08

25 identicon

Vel á minnst - hr. Púki - ertu með einhverja spes nemendadíla á Púka 2007?  Einn framhaldsskólanemandi minn gerðist svo kræfur að senda mér tölvupóst um helgina til að spyrja hvort ég vissi "hvar væri hægt að ná sér ókeypis í Púka". Eðlilega benti ég téðum nemanda á 30 daga prufuútgáfuna, þó ég vissi í sjálfu sér vel hvað nemandinn ætti við.  Einnig benti ég nemandanum á að allt annað en að kaupa sér hugbúnaðinn væri þjófnaður.  Hins vegar geri ég sterklega ráð fyrir því að umræddur nemandi sé ekki til í að borga 7.500 kall, þó hvorki mér né Sigurjóni komi í sjálfu sér við hvað þú selur þína vöru á.  Af því ég fann ekkert um það á síðunni þinni spyr ég því hér hvort það eigi við um þinn hugbúnað eins og ýmsan annan að nemendur geti fengið afslætti.

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 12:00

26 Smámynd: Magnús Unnar

Sæll Púki. Skemmtileg bloggsíða hjá þér.

Ég finn mig knúinn til að svara þessari færslu.

Í fyrsta lagi finnst mér alhæfingar þínar og orðbragð óviðeigandi.

Ég er einn af þeim sem nota isTorrent og ætla ekkert að fara í felur með það. Ég hleð niður íslenskri jafnt og erlendri tónlist sem og bíómyndum.

Ég kaupi líka mjög mikið af tónlist og kvikmyndum 

Ég geri þetta með góðri samvisku því að mínu mati er það réttur minn sem neytanda að skoða og hlusta vandlega á vöruna sem ég ætla mér að kaupa, áður en ég kaupi hana. 

Ég ætla ekki að ganga út í búð, hlusta á brot af hverri plötu í lélegum heyrnartólum með troðfulla búð af fólki í kringum mig, og kaupa mér hvaða drasl sem er fyrir mörg þúsund krónur án þess að vita hvað ég er að kaupa.  

(Ég veit hinsvegar lítið um Villupúkann þinn, enda er ég óaðfinnnanlegur í stafsedningu. )

Takk takk 

Magnús Unnar, 12.11.2007 kl. 22:16

27 Smámynd: Púkinn

Það er ekki "réttur þinn" að hlaða niður efni sem án þess að höfundur/rétthafi hafi heimilað þannig dreifingu á því.

Þú getur reynt að fegra athæfið, en það breytir engu um eðli þess. 

Púkinn, 12.11.2007 kl. 23:14

28 Smámynd: El Gringo

Þetta fann ég hjá STEF.

HVAÐ MÁ ÉG?

Má ég hlusta á tónlist á netinu og afrita hana?


Já, þú mátt hlusta og flytja tónlistina yfir til þín (download), en ekki gera afrit nema fyrir sjálfan þig og þína fjölskyldu. Fyrir heimild til að afrita til einkanota á tölvudisk hefur þú greitt sérstakt höfundarréttargjald þegar þú keyptir diskinn.

En hver segir að ég megi ekki "downloada" tónlist og brenna hana á disk? Er ég ekki búinn að borga gjöld til STEF af óskrifaða disknum? Og ætla bíóhúsin að endurgreiða mér ef ég sé bíómynd sem stendur ekki undir köfum mínum og ég geng óánægður út? Nei það gera þeir ekki, þó Bónus myndi endurgreiða mér fyrir skemmda mjólk, en nú hvet ég fólk til að taka sig saman og hætta bara að kaupa íslenska tónlist fyrir jólin og ekki kaupa DVD eða þess háttar sem gefin eru út af íslensku fyrirtækjunum, verslið frekar af Amazon eða þess háttar verslunum.Sniðganga þetta fólk alveg.   

El Gringo, 14.11.2007 kl. 14:22

29 Smámynd: Sigurður Sveinn Valgarðsson

Ég vill aðeins skipta mér af.

Ef fólk vill ekki láta stela af sér hlutunum og að það sé dreift yfir netið afhverju er þá ekki sett öflugari vörn á forritið eða hvað sem það er svo að mun erfiðara sé að stela því.

Það mun þó aldrei vera hægt að loka alveg á dreifingu yfir netið en hægt er að takmarka það með betri vörnum.

Sigurður Sveinn Valgarðsson, 20.11.2007 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband