Vextir af risaláni - fórnarkostnaður vegna krónunnar

Verði af því að ríkissjóður taki þetta risalán, þá er nú ljóst að það verður ekki gefins- eitthvað þarf að borga í vexti af því og Púkinn vill líta á slíkan vaxtakostnað sem hluta af kostnaðinum við að hafa krónuna.

Nú er að vísu ekki ljóst hvort þessi heimild verður nýtt eða á hvaða vöxtum slíkt lán fengist, en það sakar ekki að velta þessu fyrir sér.

Á endanum yrði svona lán greitt til baka, þannig að gjaldeyririnn myndi flæða úr landi, en það má vera að þetta styrki tiltrú manna á íslensku krónuna um stundarsakir - sem er það sem Púkinn er hræddastur um.

Frá sjónarhóli Púkans er gengi krónunnar nokkuð nærri réttu lagi um þessar mundir.   Sterkari króna myndi koma innflutningsaðilum vel og (að hluta til almenningi), en Púkinn efast um að sum útflutningsfyrirtæki þoli mikla styrkingu krónunnar.

Ef krónan styrkist vegna þessara aðgerða og aðgengi fyrirtækja að fjármagni verður áfram takmarkað, er hætt við að eitthvað verði um uppsagnir hjá þeim fyrirtækjum - nú eða þá að fyrirtækin flytja stærri hluta starfseminnar úr landi, þar sem launakostnaður er viðráðanlegri og meiri stöðugleiki ríkir.

Það er væntanlega það sem stjórnmálamennirnir vilja.


mbl.is Heimild til að taka 500 milljarða lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...þessi "króna" er dýrkeypt og hefur verið lengi!  Hef sjálf aldrei klesst íslensku þjóðarstolti mínu (sem er töluvert) oní þenna verðlausa seðil????

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.5.2008 kl. 20:25

2 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ríkið þarf að taka lán til þess að efla gjaldeyrisforðann.  Þó maður sé skuldlaus þá þýðir það ekki að maður eigi nægt lausafé til að mæta hinu óvænta.  Þess vegna er verið að efla sjóðinn.  Til þess að auka traust erlendra aðila á landinu og gjaldmiðlinum þá þarf að vera til nægur erlendur gjaldeyrir í sjóðnum.

Það er ekki nóg að hækka skatta og það hefur slæm áhrif á efnahag landsins eins og staðan er í dag.  Vonandi þurfum við ekki að hækka skatta.

En það þarf endilega að taka til í Seðlabankanum og lækka kostnað.  Fækka bankastjórunum, bæta fagleg vinnubrögð, auka samráð á milli banka og ríkisstjórnar og gera starf hans gagnsærra.

Lúðvík Júlíusson, 26.5.2008 kl. 22:58

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gjaldeyrisvarasjóður er nákvæmlega það - varasjóður til að geta gripið til ef í harðbakka slær.  Meðan hann er ekki notaður til að dæla erlendum gjaldeyri inn á íslenska markaðinn, verður hann líklegast ávaxtaður á besta hugsanlega máta.  Eins og ástandið er á mörkuðum í dag, þá má reikna með að sú ávöxtun geri betur en að greiða fyrir kostnað af láninu.

Marinó G. Njálsson, 27.5.2008 kl. 07:54

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðjón, vegna þess að fjármálamarkaðir virka þannig.  Gjaldeyrir flæðir ekkert inn í landið bara svona.  Hann kemur frá gjaldeyrisforða Seðlabankans eða með lánum innlendra fjármálafyrirtækja hjá erlendum fjármálafyrirtækjum.  Sé gjaldeyrisforði Seðlabankans of lítill miðað við erlendar skuldir þjóðarbúsins, þá í fyrsta lagi myndast skortur á erlendum gjaldeyri hér á landi og verð hans hækkar (krónan lækkar), í öðru lagi getur Seðlabankinn ekki gengt sínu lögbundna hlutverki að vera lánveitandi til þrautarvara fyrir innlendar fjármálastofnanir.  Í þriðja lagi veikir það trú manna á getu fjármálakerfisins og þjóðarbúsins til að greiða upp erlendar skuldir, þ.e. standa í skilum, en það hefur áhrif á lánshæfismat bankanna og ríkissjóðs sem veldur svo aftur verri viðskiptakjörum.  Þetta kemur skiptingu milli einkareksturs og opinbers reksturs ekkert við.

Marinó G. Njálsson, 27.5.2008 kl. 08:52

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þetta lán er neyðarráðstöfun til þess að bjarga útrásarsnillingum bankanna, sem  eru búnir að setja allt á annan endan í fjármálum þjóðarinnar á þessum stutta tíma sem liðinn er frá einkavæðingunni.

Þórir Kjartansson, 27.5.2008 kl. 08:57

6 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

Marinó,  ég get ekki að  því gert að mér finnst þetta ótrúleg kenning hjá þér að ríkið geti slegið hundruða milljarða lán, lagt peninginn in á reikning, og grætt á því. Hefurðu einhverjar staðreyndir sem styðja þetta?

Það þarf að vera hægt að ganga í þennann sjóð með litlum fyrirvara, annars er hann gagnslaus. Þetta þýðir að hann þarf að vera óbundinn og laus til útborgunar, sem hlýtur að takmarka verulega ávöxtunarmöguleikana.

Ari Björn Sigurðsson, 27.5.2008 kl. 08:58

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þið sem trúið mér ekki ættuð að horfa á hádegisviðtal Stöðvar 2 við Sigurjón Þ. Árnason Landsbankastjóra frá því 14. maí sl.  Ég setti athugasemd um það á bloggið mitt Allt til tjóns, en í athugasemdinni segi ég:

Það var fróðlegt að sjá í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag, að Sigurjón Þ. Árnason, Landsbankastjóri, notaði nákvæmlega sömu rök og ég hér að ofan um gjaldeyrisvarasjóðinn. Hann er til að auka traust og trúverðugleika og lítið mál á að vera að láta hann ávaxta sig það vel að hann standi undir kostnaði.

Þið þurfið ekkert að trúa mér, en kannski er Sigurjón nógu merkilegur til að hlustað sé á hann. 

Guðjón, þjóðarbúið er einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera.  Opinberi geirinn er mjög skuldsettur, en ríkissjóður er það ekki.  Sum sveitarfélög skulda milljarðatugi. B-hluta fyrirtæki fjárlaga ríkis og sveitarfélaga skulda milljarðatugi.  Það er bara A-hluti ríkissjóðs sem er í góðum málum.

Marinó G. Njálsson, 27.5.2008 kl. 09:21

8 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

Tekið héðan: Frumvarp um 500 milljarða lántöku ríkisins - vaxtakostnaður hærri en vaxtatekjur af endurláni

“Í ljósi markaðsaðstæðna má fastlega gera ráð fyrir því að vaxtagjöld af lántöku ríkissjóðs verði hærri en vaxtatekjur,” segir í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu. Hver 0,1% í vaxtamun kosta ríkissjóð 500 milljónir króna miðað við að heimild til lántöku verði nýtt að fullu.

Ari Björn Sigurðsson, 27.5.2008 kl. 10:06

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst menn misskilja hlutina dálítið hérna.  Seðlabankinn átti fyrir löngu að vera búinn að auka við gjaldeyrisforða sinn eða breyta regluumhverfi bankanna þannig að þeir gætu ekki vaxið eins og þeir gerðu.  Seðlabankinn gerði hvorugt.  Eignasafn allra bankanna er gott að mati matsfyrirtækja og greiningaraðila.  Þessir aðilar hafa verið að setja út á getu Seðlabankans til að vera lánveitandi til þrautarvara vegna þess að hann hefur ekki stækkað gjaldeyrisforða sinn í samræmi við vöxt bankanna.  Hlutverk gjaldeyrisvarasjóðsins er vera þessi þrautarvarasjóður.

Seðlabankinn er í þessu samhengi nokkurs konar tryggingarfélag bankanna.  Viljum við ekki að tryggingarfélagið okkar hafi næga burði til að greiða út bætur, ef við lendum í tjóni?  Það er mat matsfyrirtækja og erlendra greiningaraðila, að þetta tryggingarfélag (Seðlabankinn) hafi ekki haft næga burði.  Það er hluti af ástæðunni fyrir fjármálakreppunni sem er að ganga yfir hér á landi.  Ég áherslu á orðið "hluti", þar sem aðrar ástæður eru líka fyrir hendi.

Ari, þetta er gott og blessað, en ég verð að segja eins og er að ég treysti Sigurjóni Þ. Árnasyni betur þegar kemur að mati á ávöxtunarleiðum fyrir Seðlabanka Íslands. 

Marinó G. Njálsson, 27.5.2008 kl. 11:41

10 Smámynd: Maelstrom

Menn tala einnig um að gengishrun krónunnar sé að hluta til tæknilegs eðlis.  Bankarnir eru að mestu fjármagnaðir erlendis og sama hvað gerist þá verða þeir að borga af þeim lánum til að halda trúverðugleika.  Ef bankarnir treysta ekki Seðlabanka Íslands til að útvega þeim gjaldeyri fyrir krónur, þá neyðast þeir til að safna sér gjaldeyrisforða sjálfir.  Það sem gerðist í mars var að bankarnir hættu að láta frá sér gjaldeyri því traust þeirra á Seðlabankanum sem þrautavörn var ekki nægilegt.  Ef Seðlabankinn getur ekki markaðssett krónuna erlendis til að útvega gjaldeyri, hver á þá að gera það. 

Allt þetta mál snýst ekki um að bjarga bönkunum.  Þetta snýst um að sýna umheiminum um að krónan sé alvöru gjaldmiðill.  Erlendir aðila vilja vera vissir um að ef þeir eiga krónur geti þeir alltaf á endanum farið til Seðlabanka Íslands og skipt krónum í annan gjaldmiðil, t.d. þegar viðskiptabankarnir vilja ekki selja gjaldeyri.  Þegar bankarnir hættu að selja gjaldeyri í mars fóru margir erlendir fjárfestar á taugum og gerðu hvað sem var til að losa stöður í íslenskri krónu.  Þeir treystu einfaldlega ekki Seðlabankanum til að kaupa krónurnar úr því viðskiptabankarnir gerðu það ekki.

Seðlabankinn er með um 200 milljarða gjaldeyrisforða og lánalínur upp á annað eins.  Stóru bankarnir þrír eru með margfalt stærri gjaldeyrisforða.  Glitnir er með 156 milljarða forða, Kaupþing 457 milljarða og Landsbankinn 129 milljarða, eða næstum fjórfaldan gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.  Ef menn eru að tala um kostnað þá sýnist mér bankarnir nú þegar vera að bera kostnaðinn af veikri stöðu Seðlabankans.  Bankarnir eru að taka að sér hlutverk Seðlabankans til að tapa ekki trausti erlendis.  Ef þeir tapa því trausti, þá geta þeir einfaldlega ekki fjármagnað sig.

Ef almenningur er ekki tilbúinn að borga kostnaðinn við að halda úti trúverðugum gjaldmiðli, þá er krónan einfaldlega dauð.

Maelstrom, 27.5.2008 kl. 13:11

11 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ríkissjóður er alls ekki skuldlaus.

Skv. seðlabankanum nema erlendar skuldir hans 243 milljörðum króna. Innlendar skuldir eru vafalaust einhverjar líka en ég hef þær ekki á reiðum höndum. Varlega áætlap gætu þær verið 100-150 milljarðar.

Erlendar skuldir

Það er frekar erfitt að skilja hvernig hann á að geta skuldað 750 milljarða króna erlendis (plús það sem hann skuldar innanlands) með 400 milljarða í árstekjur. Lánshæfið hlýtur að hrynja og lánshæfi bankanna í framhaldi af því.

Baldur Fjölnisson, 27.5.2008 kl. 13:16

12 Smámynd: Maelstrom

Baldur, ég sé ekki hvað er svona flókið við að ríkið auki við skuldir sínar í þessum tilgangi.  Skilurðu þá heldur ekki hvernig bankarnir geta bætt stöðu sína með því að auka innlán (skuldir)?   Landsbankinn með IceSave og Kaupthing með Edge eru meira að segja að auka erlendar skuldir sínar (erlend innlán).

Þetta virkar svona:  Ríkið tekur lán erlendis, væntanlega hjá einhverjum erlendum seðlabanka á þeim kjörum sem bjóðast íslenska ríkinu.  Þessi peningur er lagður inn í Seðlabankann Íslands sem fær það hlutverk að ávaxta eignina.  Seðlabankinn getur keypt erlend ríkisskuldabréf fyrir peninginn, lagt hann inn hjá erlendum seðlabanka eða álíka og fengi vexti sem væru nánast það sama og þeir borga af láninu, og koma því út næstum á sléttu.

Seðlabankinn er þá kominn með eign sem hægt er að nota til að verja gengi krónunnar eða bjarga bönkunum um gjaldeyri í neyð.

Enn 'betra' væri fyrir rekstur ríkisins/Seðlabankans ef það þyrfti síðan að 'bjarga' bönkunum.  Þessi peningur yrði þá tekin úr þessari öruggu ávöxtun og lánaður íslensku bönkunum á millibankavöxtum.  Í stað þess að vera með engan eða neikvæðan vaxtamun, væri Seðlabankinn allt í einu farinn að græða á þessari lántöku og það væru þeir bankar sem nýttu þessa hjálp sem borguðu brúsann.

Maelstrom, 28.5.2008 kl. 11:07

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Bankarnir eru með eignir upp á 12000 milljarða og td. 8% afskriftir þessarra eigna myndu setja bæði þá og ríkissjóð endanlega á hausinn. Núna eru þeir með eigið fé upp á sirka 800 milljarða, þar af eru 200 Ma. "goodwill", það er huglæg froða og lán til stjórnenda, stjórnarmanna og tengdra félaga sennilega 200-250 milljarðar. Þetta má sem sagt ekki við neinum áföllum. Fimm hundruð milljarðar segja ekki mikið í þessa hít eins og sjá má og virðast mest vera einhvers konar gluggaskreytingar, bílasöluglamur. Markaðurinn tekur ekki minnsta mark á þessu.

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 14:30

14 Smámynd: Maelstrom

Goodwill huglæg froða?  Er þá ekkert verðgildi í nokkru fyrirtæki nema sem nemur bókfærðu eiginfé?  Er það klárt klúður að borga meira fyrir fyrirtæki en sem nemur eigin fé?

8% afskriftir af heildareignum?  Alveg sérlega raunhæft dæmi!!!  Það þýðir þá að bankarnir eru búnir að ganga að öllum tryggingum á bak við lánin og þurfa samt að afskrifa 8%, ekki af útlánum heldur heildareignum.

Jú, ætli þeir fari ekki á hausinn við það, en það er samt eftir að öllu fyrirtæki landsins fóru fyrst á hausinn og drógu bankana með sér.  Hverjum er það að kenna? 

Þú ert bara að bulla, Baldur

Maelstrom, 28.5.2008 kl. 16:43

15 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Fyrirgefðu, heildareignir þeirra eru hærri, með þessum 12000 milljörðum átti ég við útlánasafn þeirra. My bad.

Nú, seðlabankinn er búinn að tilkynna að húsnæðisverð hérna lækki um 30% á næstu misserum sem reyndar engum finnst mikið. Það þýðir einfaldlega að þúsundir verða "underwater" með sínar fjárfestingar sem eru veðsettar í topp og bankarnir verða þá væntanlega að byrja að afskrifa. Einnig er mikið af lánum gengistryggt og sjálfsagt margir komnir á kaf með sínar fjárfestingar vegna falls krónunnar. Verðbólgan er síðan komin á fullan skrið og lánin hækka á meðan veðin falla. Þetta ber eiginlega allt að sama brunni. Mér finnst afar líklegt að bankarnir þurfi á endanum að afskrifa 8-10% útlána sinna og er þá líka með útlánaskím þeirra erlendis í huga.

Þegar öllum plús hundinum hefur verið lánað í topp fyrir öllum mögulegum og ómögulegum hlutum þá er um útlánablöðru að ræða sem hlýtur að springa fyrr eða síðar. Sömu aðilar og spá hruni húsnæðismarkaðarins (úr því að þú treystir þeim til að ávaxta 500 milljarða tekurðu væntanlega líka mark á hagspám þeirra) spá líka samdrætti að öðru leyti í hagkerfinu og þá minnkandi atvinnu. Minnkandi atvinna og samdráttur í tekjum hlýtur að vera eitur fyrir hagkerfi sem byggist að mestu á skuldapappíraframleiðslu og ýmis konar þjónustustarfsemi.

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 17:10

16 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Og þetta goodwill kemur aðallega til vegna þess að þeir borguðu góðum sölumönnum yfirverð fyrir einhver erlend töfrafyrirtæki og færðu froðuna sem sagt hiklaust til eignar og þar situr hún og einhverjir spekingar í kringum Arnarhólinn færa hana samviskusamlega með öðrum eignum í sín reiknilíkön og finna út að bankarnir standist öll "álagspróf". Og Dabbi og Geiri og dýralæknirinn koma í sjónvarpið og staðfesta það. Garbage in - garbage out. Það tekur enginn heilvita maður lengur mark á þessu liði eins og hver maður sér.

Sem sagt; amk. helmingurinn af þessu svok. eigin fé bankanna felst í goodwillfroðu og lánveitingum til þeirra sjálfra og félaga tengdum þeim. Glitnir er verst settur að þessu leyti. Þar er eigið fé skv. uppgjöri 188 milljarðar, þar af goodwill 62 milljarðar og lán til stjórnenda, stjórnarmanna og tengdra félaga 116 milljarðar. Geir Haarde ætti að bjóða þeim fyrir hönd skattgreiðenda - á morgun - að taka við félaginu fyrir eina krónu.

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 17:24

17 Smámynd: Maelstrom

Útlánasafn stóru bankanna 3 eru um 9.000 milljarðar.  Ef þú ert að tala um íbúðalánin þá er lang mest af þeim í íslenskum krónum.  Stóru bankarnir 3 eru með um 1.600 milljarða útlán í ISK til viðskiptavina.  Verum grófir og segjum að helmingurinn sé til einstaklinga (veit ekki réttar tölur en t.d. Glitnir er með 22% af heildarútlánum til einstaklinga.  Ég skal gefa þér mismuninn til að krydda dæmið).  Við erum þá að tala um 800 milljarða en ekki 12.000.

8% afskrift af þessu er þá að gera ráð fyrir að nánast öll íbúðalán bankanna séu með 100% veðsetningu (fáránlegt), að nánast öll heimili landsins fari á hausinn (einnig fáránlegt) og að bankarnir tapi síðan 8% af höfuðstól.

Held þú ættir að tala við Sigurjón Sighvats.  Frétti að hann ætlaði að láta búa til Conspiracy theory 2 á næstunni og vantaði handritshöfunda.

Maelstrom, 28.5.2008 kl. 17:35

18 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég held að þú ættir að prófa að setja upp gleraugun áður en þú lest uppgjörin.

Svo skil ég ekki þessa útúrsnúninga, ég er að tala um afskriftir af öllum útlánum, ekki bara hérlendum. Reyndar höfum við ekki séð neitt falla enn af undirmálslánum hér heima.

Hvað um það; raunverulegt eigið fé bankanna er heldur lítið eins og ég hef sýnt fram á og í tilfelli Glitnis nánast ekkert. Þeir mega því ekki við neinum áföllum sem sjálfsagt skýrir örvæntinguna sem allt í einu hefur hlaupið í pólitískar eignir þeirra. Það eru jú ekki nema nokkrir mánuðir síðan Geiri og dýralæknirinn lofuðu endalausu sólskini forever (stóra vandamálið með hálfvita sem komast til mannaforráða er að þeir safna öðrum kálhausum í stíl í kringum sig) en síðan hafa krónan og hlutabréfamarkaðurinn gjörsamlega hrunið. Það er verið að reyna að proppa upp krónuna með einhverjum ævintýrasögum um risalántökur en ekki virðist hlutabréfamarkaðurinn taka mikið mark á þeim. Hvers vegna skyldi það vera? Og hvers vegna þarf eilíft að vera að ljúga því að ríkissjóður sé skuldlaus þegar það kemur fram hjá seðlabankanum að staða hans gagnvart útlöndum var neikvæð um 243 milljarða um síðustu áramót og varla er hann skuldlaus innanlands heldur. Hver tekur til lengdar mark á raðlygurum?

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 18:29

19 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Bankarnir felldu sjálfir krónuna síðvetrar og síðan færðu þeir gengishagnaðinn að vild ýmist til tekna eða til hækkunar á eigin fé. Pólitískar eignir þeirra í vistunarúrræðum þriggja vegna Arnarhóls spunnu jafnframt upp hlægilegar samsæriskenningar um einhverja vonda kalla í útlöndum sem sætu um að koma okkur á hausinn. Þetta er allt saman rækilega skjalfest. Þannig vinnur kerfið í raun að því að eyða sjálfu sér. Þegar trúverðugleikinn er horfinn er lítið eftir - og skuldapappíraframleiðsla og þjónustuhagkerfi nútímans þarf einmitt fyrst og fremst á góðri markaðssetningu að halda - annars er voðinn vís http://en.wikipedia.org/wiki/Enron .

Komonn, réttu aðilarnir geta logið hverju sem er að Davíð. Sorgleg og afar síkópatísk og blóðug dæmi sanna það. Það er náttúrlega heiladrepandi að stóla bara á moggann og newsweek og new york times og jábræður sína áratugum saman. Jafnvel hans eigin flokksmenn fengu nóg af blaðafulltrúa Bush á Íslandi og því fór hann í seðló til að útrýma trúverðugleika peningastefnunnar. Þvílíkur skrípaleikur. Og Geir er þar sem hann er vegna þess að með hann sér við hlið virtist Davíð sem Einstein. Síðan virðist Geir meika amk. semiséns samanborið við dýralækninn og Þorgerði Katrínu.

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 18:56

20 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Annars held ég að bankakerfið samanlagt sé alls ekki svo galin eining, þrátt fyrir að hluti þess sé greinilega fallít. Eftir að skattgreiðendur leysa til sín Glitni fyrir eina krónu legg ég til að 99% af hlutafé Landsbankans verði afskrifað (hluturinn er á sirka 1/5 úr evru sem sagt yfirbólginn og einskis virði) og félagið verði síðan sameinað Kaupþingi.

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 19:12

21 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Og síðan legg ég til að rúmlega handónýtt dót þriggja vegna Arnarhóls fái eina og síðustu aðvörunina: Áburðarverð er í hámarki og þar með hefur aldrei fengist meira fyrir gúanó. Stundum þarf að selja hlutina fyrir lítið til að hafa upp í tap og stundum er gengið á jafnvel ónýtu drasli í hámarki.

Baldur Fjölnisson, 28.5.2008 kl. 23:13

22 Smámynd: Maelstrom

Flottar aðferðir hjá þér

Glitnir kláraði þarna eigið fé í lánveitingar til tengdra aðila og stórra hluthafa.  Ah, jú líka með því að kaupa drasl erlendis á yfirverði.

Landsbankinn þjóðnýttur sem drasl, þó ekki alveg klár á af hverju.

Segir síðan bankakerfið í heild ekki galin eining, þannig að ég dreg þá ályktun að það sé Kaupþing sem dragi meðaltalið upp fyrir allsherjargjaldþrot.

Þú ert kominn á siglingu og ert með svörin á hreinu þannig að þú segir mér kannski meira.  Af hverju er eiginlega Kaupþing með versta skuldatryggingaálag íslensku bankanna?  Hef aldrei náð því.

Maelstrom, 28.5.2008 kl. 23:45

23 Smámynd: Maelstrom

Þú þarf reyndar að átta þig á því að Davíð er einn mesti snillingur Íslandssögunnar.  Hann er snillingur í að afvegaleiða fjölmiðla og stýra umræðunni eins og honum hentar.

Spáðu t.d. í hvað hann gerði þegar hann gerði þegar hann vildi koma eftirlaunafrumvarpinu sínu í gegnum þingið.  Hann greip fréttina um kauprétti Kaupþingsmanna í nóvember 2003 báðum höndum og fór offari í fjölmiðlum um málið.  Hann fór meira að segja með sjónvarpsmyndavélum í útibú Kaupþings og tók út 500.000 krónurnar sínar.  Þar var forsætisráðherra landsins að reyna að búa til bankaáhlaup á stærstu bankastofnun landsins.  Það hlýtur að vera einsdæmi.  Northern Rock í Bretlandi var nánast þjóðnýttur af því 20% innlána þeirra voru tekin út.

Mánuði síðar fór síðan Davíð með sína eigin 'kauprétti' í gegnum þingið og vonaðist til að æsingurinn yfir Kaupþingi væri enn nægilega mikill til að fela málið.  Kallaði það reyndar eftirlaun en hva...snillingur!!

Maelstrom, 29.5.2008 kl. 00:00

24 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hr. Maelstorm þakka þér fyrir skemmtilegar og uppbyggilegar umræður.

Mér líst ekkert illa á Kaupþing, þeir hafa ekki byggt starfsemina á að þynna hlutaféð í nánast núll og geta þar af leiðandi verið á erlendum markaði með hlutabréfaverð sem er í nokkrum evrum. Sem er vissulega verulega meira en ekki neitt. Það þýðir ekkert fyrir Glitni og Landsbankann að reyna fyrir sér með hlutaféð á erlendum markaði, þetta eru bara pennístokkar. Þegar gengi þitt er nálægt núllinu þá er ástæðan mjög líklega sú að þú ert við það að verða fallít. Það segir sig eiginlega sjálft.

Baldur Fjölnisson, 29.5.2008 kl. 00:22

25 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Og þegar þú hefur mokað peningum í hundafatahönnuði og árulækningar og önnur þjónustu töfrabrögð - hvað tekur þá við þegar sá markaður þornar upp? Þegar dregur saman huga menn fyrst að sínum nauðþurftum. Það er veikleiki þjónustuhagkerfisins. Þetta er afar viðkvæmt og þolir greinilega ekki umræðu. Í guðs friði, BF.

Baldur Fjölnisson, 29.5.2008 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband