Færsluflokkur: Kjaramál
Miðvikudagur, 2. maí 2012
Eru jöfn kjör æskileg?
Sumir viðast þeirrar skoðunar að allur jöfnuður sé af hinu góða - því meiri jöfnuður, því betra og helst eigi allir að hafa það nákvæmlega jafn gott (eða skítt).
Púkinn telur þetta hættulegar öfgaskoðanir.
Það er að vísu sanngjarnt að fólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu - tveir einstaklingar sem skila sambærilegum verkum jafn vel eiga skilið að fá sömu laun fyrir sína vinnu.
Vandamálið er hins vegar þegar fólk vill hirða meira af þeim sem hafa hærri laun - helst þannig að allir fái í raun sömu upphæð í vasann þegar upp er staðið. Púkinn hefur jafnvel rekist á fólk sem teygir þessar skoðainr út í þær öfgar að það vill setja í stjórnarskrána ákvæði um jöfn kjör allra.
Púkinn skilur ekki svona einfeldningshugsanahátt. Hér á Íslandi er fólki í dag refsað fyrir sparnað og að sýna ráðdeild. Refsað fyrir að sýna varkárni í fjármálum, refsað fyrir að leggja hart að sér til að byggja upp skuldlausar eignir og fyrirtæki - og fólk lendir jafnvel í því að á það er lagður skattur sem nemur 80-100% af þeirra tekjum - og nei, þetta eru ekki ýkjur - Púkinn þekkir svona dæmi.
Ef fólki er refsað fyrir að leggja meira á sig með því að hirða af því allt sem það ber úr býtum fyrir framtakið, til hvers ætti fólk að leggja eitthvað á sig? Hvers vegna ætti nokkur að leggja út í þá áhættu sem fylgir því að stofna og reka fyrirtæki, ef hið opinbera mun hirða allan ávinninginn, ef einhver verður?Nei, það verður að vera hvati til að leggja eitthvað á sig - það verður að vera innbyggður hvati til að vinna og skapa vinnu fyrir aðra - a.m.k. ef hér á landi eiga að vera almennt sæmileg lífskjör til frambúðar.
Annað dæmi varðar atvinnuleysisbætur og lágmarkslaun. Það eru atvinnulausir einstaklingar (t.d. einstæðir foreldrar með litla menntun) sem myndu hreinlega tapa á því að fara út á vinnumarkaðinn, þar sem þau laun sem þeim standa til boða myndu ekki bæta upp kostnaðinn við að þurfa t.d. að greiða fyrir dagvistun eða leikskóla í stað þess að vera heima á atvinnuleysisbótum.
Svona vinnuletjandi kerfi er hreinlega mannskemmandi og skaðlegt þjóðfélaginu í heild.
Deilt um ástæðu jafnari launa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Heimskuleg forræðishyggja
Þegar bann við formerkingum kjötvara var þvingað í gegn var því haldið fram að það kæmi neytendum til góða.
Þvílíkt endemis kjaftæði.
Meðan formerkingar voru í gildi var auðvelt að bera saman verð á vörum - fólk fór inn í verslun og gat séð þau tilboð sem verslunin bauð, eða þann afslátt sem var veittur við kassann frá því verði sem var skráð á vöruna.
Neytandinn gat líka verið viss um að verslunin væri ekki að smyrja ofan á verðið.
En núna? Þegar maður kemur í verslun og skoðar kjötborðið er mun erfiðara meta hvort "tilboð" verslunarinnar eru góð eða ekki - miðað við það verð sem gera má ráð fyrir að aðrir bjóði.
Verðskannarnir hafa hlotið nokkra gagnrýni, en ef þeir væru aflagðir, þa má í fyrsta lagi gera ráð fyrir að vörurnar myndu hækka í verði - það er nokkuð öruggt að aukakostnaði við verðmerkingar yrði velt beint yfir á kaupendur - og í öðru lagi myndi þetta engu breyta varðandi verðhækkanir verslana.
Nei, það er nokkuð ljóst að bannið við formerkingum var alger bjarnargreiði - gaf verslunum möguleika á að hækka verð án þess að kaupendur gætu séð það á auðveldan hátt.
Endemis forræðishyggjupólitík.
Verðmerkingum hætt og verð hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. júní 2010
Hvað kemur í staðinn fyrir gengistrygginguna?
Margir virðast trúa því að gengistryggðu lánunum verði breytt þannig að gengistryggingin verði bara felld niður og eftir standi óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, sem verðbólgan muni éta upp.
Púkinn telur þetta tæplega raunhæfar væntingar.
Lögfræðingar lánafyrirtækjanna munu væntanlega vísa til þess að heimilt er að breyta samningum eftirá séu þeir augljóslega ósanngjarnir og einföld niðurfelling gengisbindingarinnar væri augljóslega ósanngjörn fyrir lánveitandann, þar sem lántakandinn myndi ekki einu sinni endurgreiða raunverðmæti lánsins.
Það er hins vegar ekki alveg svo einfalt að lánafyrirtækin geti einhliða breytt skilmálunum en Alþingi getur hins vegar sett lög um hvað skuli koma í stað gengisbindingarinnar.
Alþingi er hins vegar milli steins og sleggju. Verði lánunum t.d. breytt í óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, eða verðtryggð lán (miðað við íslenska vísitölu), með föstum vöxtum ofaná, munu margir lántakendur uppgötva að staða þeirra batnar í raun lítið (og háð því hvenær lánið var tekið og til hversu langs tíma, gætu jafnvel einhverjir tapað á breytingunni). Stjórnvöld myndu verða sökuð um að ganga erinda fjármálafyrirtækjanna og mörg málaferli gætu farið af stað.
Geri Alþingi ekkert mun mikil óvissa verða ríkjandi mánuðum saman og stjórnvöld sökuð um að sinna ekki skyldu sinni.
Láti Alþingi hins vegar lánin standa óverðtryggð með lágum vöxtum munu þýsku bankarnir og aðrir þeir sem lánuðu fjármögnunarfyrirtækjunum væntanlega höfða skaðabótamál. Það mun einnig koma upp óánægja hjá þeim sem gerðu sér grein fyrir áhættunni við að taka gengisbundin lán, en héldu sig við venjuleg verðtryggð lán í íslenskum krónum.
Fólkið sem sýndi varkárni og forðaðist þá fáránlegu áhættu sem fólst í því að taka gengisbundin lán yrði allt í einu í mun verri stöðu en þeir sem tóku áhættuna - þessi hópur myndi væntanlega krefjast leiðréttinga á sínum málum.
Púkinn spáir því langvinnum málarekstri og að þegar upp verður staðið verði það aðallega lögfræðingarnir sem muni græða á þessu öllu saman.
Sleppa ekki frá skuldunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)