Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Virðisaukaskattur á netinu ... breytir nánast engu.

taxmanÍ frétt mbl.is segir "Þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa von bráðar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar.

Púkanum sýnist þetta dæmigerð "ekki-frétt", því þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa nú þegar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar.

Ef fólk kaupir t.d. vörur á eBay, þá er virðisaukaskatturinn innheimtur hjá tollinum á Íslandi - nokkuð sem virðist hafa farið framhjá höfundi greinarinnar á mbl.is.

Einu undantekningarnar hingað til eru vegna rafrænnar afhendingar á vörum og þjónustu - nokkuð sem tollurinn hefur ekki getað gripið inn í, en þessari lagabreytingu er ætlað að stoppa upp í það gat.

Fyrir fyrirtæki sem kaupa t.d. þjónustu hjá Amazon Web services þá breytir þetta engu - þetta er eins og hver annar virðisaukaskattur af aðföngum sem þau fá endurgreiddan síðar.

Einstaklingar munu hins vegar þurfa að borga þennan virðisaukaskatt, en það eru ekki margir seljendur sem ná umræddu lágmarki í sölu til Íslands.  Í raun sýnist Púkanum að helstu áhrifin munu verða vegna kaupa á rafbókum frá Amazon.com og vegna kaupa á tónlist og öðru efni frá iTunes.


mbl.is Virðisaukaskattur á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100% skattur á Íslandi

taxmanAuðlegðarskatturinn getur þýtt að einstaklingar séu krafðir um meiri skatt en nemur öllum tekjum þeirra.

Þetta getur t.d. átt sér stað hjá fólki sem er komið á efri ár og hefur engar aðrar tekjur en lífeyri, en á e.t.v. skuldlaust einbýlishús, sumarbústað og einhvern sparnað sem það hefur safnað á starfsævinni.

Svo er líka til í dæminu að "auðlegð" viðkomandi felist í eigin atvinnurekstri - fólk hefur e.t.v. byggt upp fyrirtæki, en í stað þess að skuldsetja það í botn og greiða sjálfu sér arð hefur verið valin sú leið að nýta allan hagnað í að byggja upp fyrirtækið, sem gæti verið sæmilega stöndugt, í skuldlausu atvinnuhúsnæði og með aðrar eignir - en allar þessar eignir fyritækisins teljast til auðlegðar eigandans, sem e.t.v. hefur engar aðrar tekjur en hófleg laun úr fyrirtækinu.

Í þannig tilviki getur auðlegðarskatturinn numið mun hærri upphæð en nemur tekjum eigandans.

Hvað á fólk í slíkri stöðu að gera - er ekki verið að refsa fólki fyrir að hafa byggt upp sinn rekstur í stað þess að taka út botnlausan arð og flytja allt á flókið net eignarhaldsfyrirtækja erlendis?

Hvers eiga þeir að gjalda sem hafa reynt að reka sín fyrirtæki á heiðarlegan hátt?  Af hverju ætti einhver í svona stöðu að kæra sig um að reka áfram fyrirtæki á Íslandi þegar hið opinbera vill hirða allt af honum sem hann þénar og meira til?


mbl.is Auðmenn flýja auðlegðarskattinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan er ekki vandamálið

100000Sumir eru svo barnalegir að halda að krónan og hegðun hennar sé stóra vandamálið og með því einu að skipta henni út muni allt færast til betri vegar.

Endemis bull.

Stóra vandamálið hér á Íslandi undanfarna áratugi - og ekki síst á árunum fyrir hrunið - var agalaus og vanhæf stjórn ríkisfjármála og Seðlabankans.

Íslenska ríkinu tókst á sínum tíma að klúðra einkavæðingu bankanna, Seðlabankinn brást kolrangt við og Fjármálaeftirlitið stóð sig ekki í stykkinu.

Nákvæmlega hvað fór úrskeiðis er nokkuð sem efur verið lýst oft áður og ætti ekki að þurfa að endurtaka. 

Krónan er ekki sökudólgurinn í þessu máli, heldur saklaust fórnarlamb óhæfra stjórnmálamanna sem Íslendingar voru nógu vitlausir til að kjósa yfir sig.

Hin innistæðulausa hækkun krónunnar á sínum tíma var afleiðing rangra ákvarðana hjá stjórnmálamönnum og Seðlabankanum og hið óhjákvæmilega fall hennar var bein afleiðing sömu ákvarðana.

Nei, að skipta út krónunni myndi ekki leysa neinn vanda ef hér verða áfram við völd ráðamenn sem taka jafn arfavitlausar og agalausar ákvarðanir og voru teknar á þeim tíma.

Það sem menn hefðu átt að gera á sínum tíma - og ættu jafnvel að gera í dag - er að stefna að því að uppfylla Maastrict skilyrðin - ekki í þeim tilgangi að mega taka upp evruna, heldur vegna þess að þetta eru "góð" skilyrði, sem myndu neyða ráðamenn til að taka upp agaðri vinnubrögð.

Íslenska þjóðin þurfti að læra með sársaukafullum hætti að það er ekki endalaust hægt að lifa um efni fram - nokkuð sem hefði verið unnt að koma í veg fyrir með meiri aga.


mbl.is Eigum að halda í krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um verðtrygginguna

500kronurÞað er ein góð röksemd fyrir afnámi verðtryggingar sem ekki hefur farið mikið fyrir, en ætti að mati Púkana skilið að fá meiri athygli.

Ef útlán eru verðtryggð, þá skiptir það lánastofnanir litlu hver verðbólgan er - hagsmunir þeirra eru tryggðir hvort sem hún sveiflast upp eða niður, því þeir munu alltaf fá sínar krónur til baka með verðbótum. Undir þessum kringumstæðum hefur lánastofnunin engan hvata til að gera sitt til að halda verðbólgunni niðri.

Ef útlán eru hins vegar með föstum vöxtum, þá er það hagur lánastofnunarinnar að verðbólgan lækki á lánstímanum og það skapar hvata fyrir lánastofnunina til að reyna að gera sitt til að halda verðbólgunni niðri, sem til lengri tíma er öllum í hag.

Það er hins vegar einn stór galli við afnám verðtryggingar - ef verðtryggð útlán verða afnumin, þá er hugsanlegt að verðtryggð innlán leggist einnig af og við förum aftur á það stig að eignir í banka brenni smám saman upp - það verður enginn hvati til að spara.

Það er reyndar akki mikill hvati til sparnaðar núna - vextir eru það lágir að fjármagnstekjuskattur og auðlegðarskattur étur upp alla ávöxtun.  Það er í gangi hrein eignaupptaka hjá þeim sem eru svo vitlausir að eiga pening í banka.

 


mbl.is Fundað um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru atvinnuleysisbætur of háar?

10kronurEf munurinn á atvinnuleysisbótum og lágum launum er það lítill að það borgar sig frekar að vera atvinnulaus en að fá sér vinnu, þá er ljóst að eitthvað er ekki í lagi - vinnuletjandi kerfi mun valda öllum skaða til lengdar.

Gallinn er bara sá að það er engin einföld lausn til á vandamálinu.

Að lækka atvinnuleysisbætur myndi tæplega ganga upp - fyrir utan að enginn stjórnmálamaður myndi leggja það til, því slík tillaga jafngilti sennilega pólitísku sjálfsmorði.

Að hækka lágmarkslaunin er heldur ekki lausn - slík hækkun myndi leiða til verri afkomu þeirra fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á láglaunastörfum - þau yrðu þá annað hvort að draga saman seglin (sem myndi senda fleira fólk á atvinnuleysisskrá), eða hækka verð á vörum og þjónustu, sem myndi á endanum leiða til verð- og launahækkanabylgju í gegnum allt þjóðfélagið...en þeir sem væru á atvinnuleysisbótum myndu sitja eftir, í sömu stöðu og ef bætur þeirra hefðu verið lækkaðar.

Púkinn er þeirrar skoðunar að kerfið í heild þurfi endurskoðunar við og í þeirri endurskoðun séu tvö lykilatriði.

Í fyrsta lagi verði að gera meiri kröfur til að fólk sé í virkri atvinnuleit - ef fólk hafnar vinnutilboðum, skerðist atvinnuleysisbætur þeirra sjálfkrafa - þetta myndi ekki hafa áhrif á þá sem eru atvinnulausir vegna þess að engin störf við þeirra hæfi eru í boði á þeirra svæði, en þetta myndi skerða bætur til þeirra sem kjósa að vinna ekki.

Í öðru lagi verður að efla endurmenntun, og gera virka þáttöku í (endurgjaldslausum) endurmenntunarnámskeiðum og slíku að skilyrði fyrir fullum bótum - slíkt myndi líka gera fleirum mögulgt að sækjast eftir betur launuðum störfum.

Við verðum að hafa kerfi sem er vinnuhvetjandi, ekki vinnuletjandi.


mbl.is Þiggja bætur frekar en láglaunastörfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæriskenning um fasteignamarkaðinn

Púkinn heyrði nýlega kenningu sem átti að útskýra hvers vegna fasteignaverð hefur ekki fallið meira en það hefur gert. 

Ástæðan, sagði nafnlausi heimildarmaðurinn, er sú að bankarnir eru á skipulagðan hátt að halda fasteignaverðinu uppi þangað til allir sem geta hafa samþykkt 110%-leiðina - þá, en ekki fyrr, má leyfa verðinu að falla.

Þangað til það hefur gerst sitja bankarnir á þeim fasteignum sem þeir eiga - ef þær færu á markaðinn myndi fasteignaverð lækka almennt.  Að auki stunda bankarnir fasteignaviðskipti milli fyrirtækja sem þeir stjórna - en á hærra verði en teljast má eðlilegt.

Er eitthvað til í þessu?   Púkinn er ekki viss - en víst er að bankarnir sitja uppi með mikið af fasteignum og fasteignatryggðum lánum ... verðfall myndi koma þeim illa.

 


mbl.is Enn líf í fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég myndi líka þiggja að fá 210 krónur fyrir hverja evru

euro_1001505.jpgSeðlabankinn borgar þessum aðilum 210 krónur fyrir hverja evru, meðan útflutningsfyrirtækjum er skylt að selja allar þær evrur sem þau afla á allt öðrum og miklu verri kjörum.  Ég myndi alveg þiggja að geta selt mínar evrur á þessu gengi - en nei - það stendur ekki til boða.

Markaðurinn segir hins vegar að krónan okkar sé ekki meira virði en þetta - en gjaldeyrishöftin eru notuð til að halda uppi hinu falska, opinbera gengi.


mbl.is Borgaði 210 krónur fyrir evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er "eðlileg" vanskilaprósenta?

bankrupcy.gifJafnvel á mestu uppgangs- og "góðæris"tímum eru alltaf einhverjir sem fara í þrot, annað hvort vegna óheppni eða rangra ákvarðana.

Í venjulegu árferði er ekkert verið að hugsa um að bjarga þessum hópi, en á þessum erfiðu tímum sem ríkja í þjóðfélaginu heyrast raddir um að það verði að bjarga öllum.

Að mati Púkans er þetta ekki aðeins rangt og óréttlátt, heldur líka hreinlega hættulegt.

Hluti þeirra sem stefna nú í gjaldþrot hefði sennilega endað þar líka þótt hrunið hefði ekki komið til - af hverju ætti að bjarga þeim núna, þegar ekki hefði verið lyft litla fingri til að bjarga fólki í nákvæmlega sömu stöðu á þeim árum þegar allt virtist leika í lyndi?

Aðrir stefna í gjaldþrot fyrst og fremst vegna eigin heimskulegu ákvarðana - fólk eyddi langt um efni fram, tók lán til að borga lán sem það tók til að fjármagna eyðsluna eða fjárfesti í sápukúlum eða öðru álíka gáfulegu. Af hverju ætti þjóðfélagið að bjarga þeim sem bera að öllu leyti ábyrgð á eigin vandræðum?

Svo eru auðvitað þeir sem stefna í gjaldþrot vegna ytri aðstæðna - fólk sem missti eignir sínar þegar bankar og sjóðir hrundu - fólk sem missti vinnuna og hefur jafnvel verið án atvinnu í langan tíma.  Púkinn styður þær aðgerðir sem hjálp þessum hópi - það er fyllilega réttlætanlegt að samfélagið aðstoði þá sem lenda í vandræðum vegna ytri aðstæðna.  Púkinn vill í raun líkja þessu við neyðaraðstoð vegna (efnahagslegra) náttúruhamfara.

Það verður að draga línuna einhvers staðar.   Það er hreinlega ekki hægt að bjaga öllum - það eru aðilar sem munu fara í gjaldþrot sama hvað gerist - spurningin er bara hversu hátt það hlutfall "á" að vera.  10.1% er of hátt....en hvert er "eðlilega" hlutfallið?


mbl.is Yfir 10% heimila í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðareign auðlinda: Merkingarlaust kjaftæði

Það hljómar sjálfsagt vel í eyrum sumra að segja að auðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar, en þegar betur er að gáð, er þetta merkingarlaust kjaftæði - innihaldslaus frasi sem á ekkert erindi í stjórnarskrána.

Ástæðan er einföld - eignarréttur er einskis virði ef ráðstöfunarréttur fylgir ekki, eða arðurinn af auðlindinni.

Í Sovétríkjunum gömlu var sagt að verksmiðjurnar væru eign verkamannanna sem unnu í þeim - aftur innihaldslaus orð - verkamennirnir höfðu engan möguleika á að stjórna verksmiðjunni eða ráðstafa framleiðslu hennar og nutu ekki arðsins af framleiðslunni.

Það sama á við um náttúruauðlindirnar - til hvers í ósöpunum að segja að þjóðin eigi tilteknar auðlindir, þegar rétturinn til að ákvarða hvort, hvernig og af hverjum auðlindin er nýtt er ekki í hennar höndum?  Já svo ekki sé minnst að að arðurinn af auðlindinni rennur ekki til meintra eigenda.

Nei, íslenska stjórnarskráin er ekki staður fyrir innihaldslaust kjaftæði - það er nógu slæmt að hafa það í sölum Alþingis.


mbl.is Skuldir fyrnist á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það á ekki að bjarga öllum

100000Púkanum sýnist sumir vera að bíða eftir því að stjórnvöld framkvæmi töfrabrögð - komi með "lausn" sem leysir vanda allra, svona eins og töframaður dregur kanínu upp úr hatti fyrir framan hóp fagnandi áhorfenda.

Það er hins vegar einn stór galli við þetta viðhorf - það er ekki hægt að "bjarga" öllum - og það sem meira er: Það á ekki að "bjarga" öllum.

Staðreyndin er sú að jafnvel þótt ekkert bankahrun hefði orðið og ef gengi krónunnar hefði haldist áfram í þeim óraunhæfu hæðum sem það var í kringum 2006, þá hefðu einhverjir farið í þrot.  Það eru alltaf einhver gjaldþrot, jafnvel í mestu "góðærum".

Það er alltaf fólk sem eyðir um efni fram, tekur lán langt umfram sína greiðslugetu eða sólundar sínu fé í einhverja vitleysu.  Það er ekki hlutverk þjóðfélagsins að sjá til þess að óráðsíumenn geti haldið áfram sínum lífskjörum.  Það verður að gera ákveða kröfu um að fólk taki ábyrgð á afleiðingum eigin mistaka.

Velferðarkerfið má sjá til þess að enginn svelti og allir hafi þak yfir höfuðið - en það er ekki réttlátt að "bjarga" fólki frá öllum afleiðingum eigin mistaka.

Vandamálið er hins vegar hvar á að draga línuna - hverjum á að "bjarga" - og hverjum ekki?

Það er ákveðin hópur sem er með nánast óviðráðanlegar skuldir - skuldar langt umfram eignir og greiðslugetu.  Jafnvel þessi heimskulega hugmynd Framsóknarmanna um flata niðurfellingu myndi ekki gagnast þessum hópi.  Sumum í þessum hópi er einfaldlega ekki hægt að "bjarga".

Það er hins vegar annar (og mun stærri hópur) sem er í vandræðum, en er hægt að aðstoða - og það á að miða áætlanir um aðstoð við þann hóp - fólkið sem á ennþá möguleika á að halda sínum húsum og er tilbúið til að gera sitt.


mbl.is Gylfi furðar sig á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband