Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Aumingja Steingrímur

icesave.jpgPúkinn myndi ekki vilja vera í sporum Steingríms og þurfa að vinda ofan af IceSave klúðrinu - en í þessari umræðu má ekki gleyma því hverjir bera ábyrgð á þessu klúðri.

Sökudólgur 1: Landsbankinn og eigendur hans. Stofnun IceSave var drifin áfram af óafsakanlegri græðgi.

Sökudólgur 2: Fjármálaeftirlitið.  Þetta apparat brást gersamlega - menn hefðu átt að neyða Landsbankann til að reka IceSave í sjálfstæðu dótturfyrirtæki, (eins og Kaupþing gerði með Edge reikningana) til að takmarka mögulegt tjón Íslendinga.

Sökudólgur 3: Ríkisstjórn Geirs H. Haarde.  Viðbrögð ráðamanna þegar allt hrundi sköpuðu ákveðið vandamál.  Með því að ábyrgjast innistæður í útibúum á Íslandi, en ekki erlendis var tekin meðvituð ákvörðun um mismunun - og það er vandséð hvernig sú mismunun stenst lög.

Ef ríkisstjórnin hefði til dæmis sagt "Við ábyrgjumst aðeins innistæður að því marki sem tryggingasjóður er fær um", þá væri IceSave málið dautt - en að vísu hefði allt orðið vitlaust hér á íslandi ef allir sparifjáreigendur hefðu tapað ævisparnaði sínum.

Ef ríkisstjórnin hefði sagt "Við ábyrgjumst allar innistæður í íslenskum krónum, en ábyrgjumst aðeins innistæður í erlendri mynt að því marki sem innistæðutryggingasjóður er fær um", þá hefði ekki verið um að ræða sambærilega mismunun eftir þjóðerni - þeir hefðu tapað sem ættu gjaldeyrisreikninga í bönkum á Íslandi, en Bretar og Hollendingar hefðu ekki átt sterka kröfu.

Ef ríkisstjórnin hefði sagt "Við ábyrgjumst allar innistæður, en allar endurgreiðslur verða eingöngu í íslenskum krónum og dreifast á næstu 10 ár", þá væri vandamálið mun viðráðanlegra.

En...vegna þess hvernig ríkisstjórn Geirs H. Haarde stóð að þessu, þá sköpuðu þeir þessa sterku kröfu sem Bretar og Hollendingar eiga - Það má deila um útfærsluna á endurgreiðslunni, og vissulega hafnaði þjóðin þeirri útfærslu sem búið var að semja um, en krafan er sterk og hún er ekkert að hverfa á næstunni.

Aumingja Steingrímur - það er erfitt að þurfa að taka ábyrgð á mistökum annarra.


mbl.is Steingrímur: Íslendingar munu borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um gengislán og sanngirni

500krGengislánin eru mál málanna í dag og ljóst er að engin niðurstaða mun fást sem gerir alla ánægða.

Púkinn fór hins vegar að velta því fyrir sér hver væri sanngjörn niðurstaða í þessu máli - vitandi þó vel að dómstólar verða að dæma eftir því sem lagabókstafurinn segir, en ekki eftir því hvað meginhluta þjóðarinnar myndi finnast sanngjarnt.

Stóra vandamálið er að hér takast á nokkrar sanngirniskröfur.

Í fyrsta lagi má segja að það sé sanngjarnt að aðilar borgi til baka raunvirði þess sem þeir fengu lánað - og með eðlilegum vöxtum.   Ef svo væri ekki, þá væri enginn reiðubúinn til að lána fé.

Lánafyrirtækin gátu boðið lán með mjög lágum vöxtum af þeirri einu ástæðu að þeim stóð til boða fjármagn í erlendri mynt á enn lægri vöxtum - og til að tryggja sig urðu þau að gengisbinda lánin.  Ef lánin fengju að standa óverðtryggð í íslenskum krónum með lágum vöxtum, þá myndu margir, sérstaklega þeir sem tóku gengisbundin íbúðalán til langs tíma, einungis þurfa að borga til baka lítinn hluta þess sem þeir fengu lánað.  Það er ekki sanngjarnt.

Það sem brást hjá lánafyrirtækjunum var að gera lánasamningana þannig að þeir stæðust íslensk lög.  Þetta er í raun óskiljanlegt klúður, því það hefði verið svo einfalt að búa þannig um hnútana að lánin væru fyllilega lögleg.

Það eina sem fyrirtækin hefðu þurft að gera hefði verið að lána beint í erlendum gjaldmiðli - að lánin væru í jenum eða svissneskum frönkum, en með klausu um að afborganir væru í íslenskum krónum miðað við gengi Seðlabankans.  Slík lán hefðu væntanlega verið fyllilega lögleg og lántakendur hefðu þá setið áfram í þeirri stöðu sem þeir voru í fyrir nýfallinn dóm.

Þetta klúður er alfarið á ábyrgð fjármálafyrirtækjanna, en það er mikilvægt að hafa í huga að ólögleiki lánanna stafar í raun bara af tæknilegu atriði - klúðri í útfærslu lánasamninga.  Sumir bloggarar hafa láið falla stóryrði um skipulagða glæpastarfsemi, en eins og Robert A. Heinlein sagði:

Never attribute to malice that which can be adequately explained by stupidity.

Púkanum finnst líka sanngjarnt að fólk taki ábyrgð á afleiðingum gerða sinna - það var enginn neyddur til að taka gengisbundin lán - þetta ver kostur sem margir lántakendur völdu.  Það hefði átt að vera öllum ljóst 2006-2008 að gengi íslensku krónunnar var allt, allt of hátt og bara spurning um tíma hvenær það félli hressilega.

Að taka gengisbundin lán við þær aðstæður er ekkert annað en fjárhættuspil - fólk var að veðja á að gengisfallið yrði eftir að lánin hefðu verið greidd upp, eða að það yrði svo lítið að það myndi ekki vega upp vaxtamuninn.  Er sanngjarnt að fjárhættuspilarar geti fengið reglunum breytt eftir á, ef veðmálin ganga gegn þeim?

Á hinn bóginn er önnur sanngirniskrafa hér - það er líklegt að sumum lántakendum hafi ekki verið ljós sú áhætta sem fólst í því að taka gengistryggt lán, án þess að vera með tekjur í erlendum gjaldmiðli.  Það má líka vera að sumir lántakendur hafi ekki gert sér grein fyrir því að vegna vissra ákvarðana Alþingis og Seðlabankans var gengi krónunnar allt, allt of hátt - og aðeins spurning um tíma hvenær það félli og lánin snarhækkuðu í íslenskum krónum.

Nei, sumum lántakenda var þetta ef til vill ekki ljóst og héldu í einhverjum barnaskap að þetta væru hagstæð lán, en fjármálafyrirtækjunum átti að vera þetta ljóst - og hefði borið að vara lántakendur við hættunni.

Mörg fjármálafyrirtækjanna gerðu sér fulla grein fyrir að krónan var allt, allt of hátt skráð og tóku skipulega stöðu gegn henni - vissu sem var að hún myndi falla verulega.  Það má reyndar segja að sú stöðutaka hafi verið eðlileg, því þeim bar jú (eins og öðrum fyrirtækjum) að verja sína eigin hagsmuni - enn og aftur - fjármálafyrirtæki eru ekki góðgerðarstofnanir.

Það sem er hins vegar ekki eðlilegt er að á sama tíma og fjármálafyrirtækin veðjuðu sjálf á fall krónunnar, voru þau skipulega að ota gengistryggðum lánum að fólki - án þess að upplýsa viðskiptavinina um að 50-100% hækkun lánanna í íslenskum krónum væri fyrirsjáanleg.

Fjármálafyrirtækin fóru líka offari í veitingu lánanna.  Starfsmenn sem sáu um lánin fengu margir hverjir "árangurstengda" bónusa - því meira sem þeir gátu lánað út því meira fengu þeir í eigin vasa.  Þeim var alveg sama þó þeir lánuðu fólki allt of háar upphæðir, sem átti að vera ljóst að vafasamt væri að viðkomandi gæti greitt til baka.  Græðgi og eiginhagsmunaháttur varð siðferðinu yfirsterkari.

Það er sanngjarnt að fjármálafyrirtækin beri skaðann af þannig vinnubrögðum. 


mbl.is Dómur í gengislánamáli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupmáttur orðinn "eðlilegur" ?

Púkinn vill leyfa sér að halda fram þeirri (óvinsælu) skoðun að kaupmáttur Íslendinga sé nú loksins orðinn eðlilegur.

peningarÞað er vissulega staðreynd að kaupmáttur hefur minnkað hjá flestum, miðað við það sem var á "góðæristímabilinu", en þess ber líka að gæta að þar áður hafði hafði hann vaxið óeðlilega hratt.

Að hluta til er þetta afleiðing hinnar arfavitlausu efnahagsstefnu sem hér var rekin á árum áður.  Fölsku hágengi krónunnar var það að þakka að innfluttar vörur virtust ódýrar og stór hluti þjóðarinnar fór á eyðslufyllerí - keypti sér stóra pallbíla, risaflatskjái og aðra misgagnlega hluti. Öllum stóð á sama þótt útflutningsfyrirtækjunum blæddi út - það virtist hafa gleymst að á endanum er ekki hægt að eyða og eyða nema eitthvað komi í kassann á móti.

Önnur ástæða var ofurþenslan í þjóðfélaginu - stórhuga athafnamenn og aðrir sem gátu slegið lán óðu af stað í misgáfulegar framkvæmdir - mikil eftirspurn var eftir starfsfólki og þótt hingað væru fluttir margir flugvélafarmar af erlendu láglaunafólki dugði það ekki til...eftirspurn eftir vinnuafli varð þess valdandi að tekjur hækkuðu - verkefnin virtust óþrjótandi en enginn virtist hugleiða hvort þau væru í raun hagkvæm.

Fjármagn streymdi til Íslands og allt virtist í besta lagi, uns spilaborgin hrundi og krónan féll.

Enginn fékk lengur lán til óhagkvæmra framkvæmda og fyrirtæki fóru á hausinn umvörpum þegar eftirspurnin eftir vörum þeirra og þjónustu dróst saman.  Mörg þeirra fyrirtækja sem eftir standa hafa dregið skorið niður yfirvinnu og bónusa - þegar ekki er lengur brjáluð samkeppni um starfsfólk þurfa þau ekki að yfirbjóða hvert annað í launakjörum. 

Lækkun heildarlauna, ásamt hækkandi verðlagi leiðir að sjálfsögðu til rýrnunar á kaupmætti - en sú rýrnun er ekki meiri en svo að kaupmáttur núna samsvarar því sem hefði verið ef "góðærisbólan" hefði aldrei komið. 


mbl.is Segja kaupmátt lágmarkslauna hafa hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atgervisflóttinn frá FME.

Ein ástæða þess að FME sinnti ekki skyldu sinni var skortur á hæfu fólki.  Einhverjir starfsmenn fluttu sig yfir til bankanna, enda ekki skrýtið þar sem þeir gátu þannig tvöfaldað laun sín.

Lág laun hjá EME (og engar bónusgreiðslur eins og bankarnir buðu) gerðu það að verkum að FME var einfaldlega ekki samkeppnishæft um starfsfólk.

Stofnunin var undirmönnuð á þeim tíma sem verkefnum hennar fjölgaði stöðugt vegna aukinna umsvifa í íslenska fjármálakerfinu og stofnunin hafði hvorki mannafla né getu til að sinna skyldu sinni.

Enginn tími var aflögu til að fara ofan í saumarnar á hlutum eins og gjaldeyrislánunum - aðeins var sinnt mest aðkallandi kærumálum og öðru slíku.

Þetta var ein af mörgum ástæðum þess að svo fór sem fór.


mbl.is FME skoðaði aldrei gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga allir að borga sínar skuldir (eða bara sumir)?

peningarPúkanum finnst merkilegt að sumum þeirra sem höfðu hæst um að íslenskir útrásarvíkingar og óreiðumenn ættu að borga sínar skuldir finnist eðlilegt að aðeins hluti þjóðarinnar borgi sín fasteigna- og bílalán til baka.

Púkinn er um margt ósammála Merði Árnasyni (sem og öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar), en verður þó að viðurkenna að í þetta sinn hefur hann rétt fyrir sér - það er ekki réttlátt að ákveðinn hluti þjóðarinnar fái einfaldlega að sleppa við að borga sínar skuldir.

Gengistryggð bílalán eru ekki stóra vandamálið hér - það setur þjóðfélagið ekki á hliðina þótt þeir sem tóku þau lán fái þau afskrifuð að hluta, með því að gengisbindingin verði felld niður og ekkert komi í staðinn.

Stóra vandamálið eru gengistryggðu núsnæðislánin, sem eru mun stærri, til mun lengri tíma og veitt af bönkunum.  Væru þessi lán látin breytast í óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, myndu þau brenna upp á lánstímanum, enda engar líkur til að verðbólgan á Íslandi haldist lægri en vaxtaprósentan.

Þetta gæti haft í för með sér verulega veikingu bankanna, sem myndi á endanum bitna á öllum, í formi hærri vaxta og hærri skatta.  Það er ekki réttlæti í því að þeir sem voru varkárir og forðuðust gengistryggðu lánin þegar ljóst var að fall krónunnar væri fyrirsjáanlegt verði að taka á sig auknar byrðar vegna þeirra sem tóku áhættu.

Púkinn vill gjarnan sjá réttlæti, en það verður að vera réttlæti fyrir alla - ekki bara suma.

Þess vegna er  eðlilegt að gera eins og Mörður leggur til - að gengistryggðum ánum verði breytt í vísitölutryggð lán með lágum vöxtum.  Þá sitja allir skuldarar við sama borð, óháð því hvort þeir tóku gengisbundin lán eða ekki.  Síðan má grípa til almennra aðgerða eins og að færa niður höfuðstól allra lánanna eða annað í þeim dúr.

Það er síðan allt annað mál hvernig á að taka á málum þeirra sem hafa þegar orðið gjaldþrota, eða lent í vandræðum vegna þess að þeir hafa ekki getað staðið í skilum með gengistryggðu lánin.

(Púkinn vill taka fram að lokum að hann á ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta - er hvorki með gengistryggð lán eða vísitölubundin).

 


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Púkinn var aðeins að velta fyrir sér þessu nýsköpunarstuðningsfrumvarpi og sýnist það meingallað.

Það er rætt um að að þessi fyrirtæki fái endurgreiddan skatt sem svarar til 15% af rannsóknar- og þróunarkostnaði á bilinu 20-50Mkr.

Það eru tveir stórir gallar á þessu.  Í fyrsta lagi eru mörg þeirra nýsköpunarfyrirtæki sem helst þurfa á stuðningi að halda ekki farin að skila hagnaði og greiða því ekki tekjuskatt.  Þá verður ekki um neina endurgreiðslu af greiddum skatti að ræða.

Hinn gallinn er sá hve upphæðirnar eru lágar.  Sé fyrirtæki með a.m.k 50.000.000 í rannsóknar- og þróunarkostnað, þá fær fyrirtækið endurgreiddar heilar 7.500.000 krónur, sem eru rúmlega ein þokkaleg árslaun, með launatengdum kostnaði og tilheyrandi.

Á móti kemur sá kostnaður sem fyrirtækið þarf að leggja í vegna skriffinnsku og utanumhalds, en ekki er alveg ljóst hversu umfangsmikið það verður.

Niðurstaðan er semsagt sú að fyrirtæki sem eru búin að hasla sér völl og farin að skila sæmilegum hagnaði fá endurgreiddan hluta af launakostnaði eins starfsmanns, en aðrir fá ekki neitt.

Vá...

Eða er Púkinn að misskilja eitthvað?

 

 

 

 


mbl.is Sprotafrumvarp væntanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kröftug inngrip Seðlabanka"

Frasinn "Kröftug inngrip Seðlabanka" hljómar vel - það er eitthvað sterklegt og traust við þann frasa.

Þetta hljómar mun betur en að segja "Seðlabankinn sólundaði í dag X milljörðum af erlendum gjaldeyri í örvæntingarfullri tilraun til að halda uppi fölsku gengi krónunnar."

Já, það er gott að hafa ímyndina í lagi.


mbl.is Komið í veg fyrir fall krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn stórskaðar Ísland

En hvað það væri nú gaman ef formaður Sjálfstæðisflokksins myndi viðurkenna ábyrgð flokksins á því hvernig staða Íslands er í dag...

...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa (ásamt Framsóknarflokkinum) klúðrað einkavæðingu bankanna gersamlega.

...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa ekki lögleitt regluverk sem hélt aftur af fjárglæframönnunum,á þeim tíma þegar flokkurinn var leiðandi í stjórn landsins.

...viðurkenna að flokkurinn brást gersamlega (ásamt Samfylkingunni) á þeim tímapunkti þegar allt hrundi.

 Já, það væri gaman ef menn gætu viðurkennt hvar stór hluti ábyrgðarinnar liggur.


mbl.is Stórskaðar hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldulesning um Icesave

Púkinn ætlaði að blogga um Icesave í dag, en ákvað þess í stað að benda á grein eftir Marinó G. Njálsson, sem segir allt það sem Púkinn vildi sagt hafa.

Hér er sem sagt skyldulesning um Icesave:  Sterkustu rökin gegn Icesave


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orsök vandamáls: Of mikið lánsfé ... Lausn vandamáls: Meira lánsfé

Er það bara ég, eða finnst einhverjum öðrum það hljóma skringilega að tala um lánsfé sem lausn vandamála?

Nú er ég ekki bara að vísa til þess að óheftur aðgangur að "ódýru" lánsfé átti stóran þátt í þeim vandræðum sem nú þjaka marga aðila, heldur ekki síður til þeirrar staðreyndar að lán eru...lán.

Þau þarf að borga fyrr eða síðar og lántaka skuldsettra aðila er í raun bara frestun vandamála.

En...kannski er Púkinn bara skrýtinn - Púkinn vill nefnilega ekki taka lán - frekar að spara fyrir hlutum þangað til hann hefur efni á þeim.


mbl.is Aðgangur að lánsfé lausnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband