Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Bregst Seðlabankinn enn?

bank_robbery_for_dummies.jpgPúkinn gagnrýndi hávaxtastefnu Seðlabankans á dögum "góðærisins".  Í dag vill Púkinn líka gagnrýna vaxtastefnuna, en á allt öðrum forsendum.

Skoðum þetta aðeins nánar.  Á þeim árum þegar allt sýndist vera á uppleið hér á landi töldu menn sér trú um að hér væri verðbólga og þensla sem nauðsynlegt væri að slá á.  Það var að vísu rétt að hér var þensla, sér í lagi á húsnæðismarkaði - drifin áfram af aðgengi að "ódýru" lánsfé.

Seðlabankinn beitti þá þeirri hagfræðikennslubókartækni að hækka vexti - á þeirri forsendu að hækkandi vextir ættu að slá á þenslu...en það virkaði ekki.  Hvað var að?

Vandamálið er að sú kenning að hækkandi stýrivextir dragi úr þenslu byggir á þeirri forsendu að stýrivextirnir stjórni þeim vaxtakjörum sem almenningi og fyrirtækjum bjóðast.  Þegar vextir eru hækkaðir verður dýrara að fá pening að láni til framkvæmda og fjárfestinga, þannig að þær minnka, sem þýðir að slegið er á þensluna.

Þetta er kenningin - en hvers vegna virkaði þetta ekki?  Jú, ástæðan var einfaldlega að fyrrnefnd forsenda var röng - fyrirtækjum og einstaklingum buðust erlend lán á "góðum" kjörum - mun lægri vöxtum en í boði voru á Íslandi, þannig að íslenskir stýrivextir snertu ekki marga lántakendur.

Þegar þessi þróun varð ljós hefði Seðlabankinn að sjálfsögðu átt að hætta þessum tilgangslausu stýrivaxtahækkunum og beita þess í stað aðferðum sem hefðu virkað, en nei....vaxtahækkanirnar héldu áfram.

Þessir síhækkandi vextir höfðu ekki þau áhrif á þensluna sem vonast var til, en stuðluðu hins vegar að því að styrkja krónuna - erlent fjármagn fæddi inn í landið og Íslendingar töldu sér trú um að þeir væru ríkir ... hlupu til og keyptu sér flatskjái og pallbíla.

Ef Seðlabankinn hefði gefist upp á vaxtahækkunarstefnunni og þess í stað hækkað bindiskyldu bankanna til að hafa hemil á útlánagleði þeirra, eða keypt gjaldeyri til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og halda aftur af hinni óeðlilegu styrkingu krónunnar, þá hefði ástandið ef til vill ekki þróast á þann veg sem það gerði.

Hvað um það...hér þarf ekki að rekja hvernig Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið brugðust gersamlega og hvernig allt hrundi á endanum, en nú er staðan aftur sú að Seðlabankinn þráast við að halda vöxtunum uppi.

Nú eru það hins vegar ekki bara einstaka sérvitringar sem gagnrýna vaxtastefnuna, heldur forsvarsmenn fyrirtækja, launþega og jafnvel ríkisstjórnin sjálf.

Rökstuðningurinn fyrir háum vöxtum núna er fyrst og fremst sá að styðja verði við krónuna - ef stýrivextir væru snarlækkaðir myndi það draga úr tiltrú á krónuna og valda algeru hrapi hennar ef gjaldeyrishöftin væru afnumin.

Það er að vísu sá galli á þessu að erlendir aðilar hafa þegar misst alla tiltrú á krónunni - þeir sem eiga eignir í íslenskum krónum vilja helst sleppa burt með það sem þeir geta og hvort vextirnir hér eru góðir eða ekki skiptir einfaldlega ekki máli - þeir treysta einfaldlega ekki íslenska fjármálakerfinu.

Önnur rök eru sú að stýrivextir megi ekki vera lægri en sem nemur verðbólgu í viðkomandi hagkerfi.  Það má færa góð hagfræðileg rök fyrir þessu, en þau rök eiga við þegar aðstæður eru "eðlilegar" - ekki þegar nánast algert kerfishrun hefur átt sér stað.

Þvert á móti má halda því fram að við núverandi aðstæður sé réttlætanlegt að láta Seðlabankanum "blæða út"með því að hafa neikvæða raunstýrivexti tímabundið. í þeim tilgangi að halda sem flestum fyrirtækjum landsins gangandi.

Seðlabankinn er hins vegar enn fastur í beitingu hagfræðikennslubókakenninga, en hugsar ekki um heildarhagsmuni þjóðarinnar ... ekki frekar en áður.


mbl.is Stýrivextir áfram 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, okkur ber að borga Icesave

icesave.jpgPúkinn er ekki mikið gefin fyrir að skulda eitt eða neitt og því síður að þurfa að taka þátt í því að borga skuldir annarra, en hann fær bara ekki séð að nokkur leið sé að komast hjá því að viðurkenna ábyrgð Íslendinga á Icesave klúðrinu.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem Púkanum finnst ekki fá nægjanlega athygli.

Fyrsta atriðið er að fyrrverandi stjórnvöld lýstu yfir að þau myndu að fullu ábyrgjast innistæður í íslensku bönkunum hér á landi.  Annað var í raun varla hægt - ef ákveðið hefði verið að ábyrgjast aðeins innistæður upp að því lágmarki sem skyldu bar til, þá hefðu margir misst nánast allan sinn sparnað með einu pennastriki.  Það er nefnilega ekki þannig að hver einasti Íslendingur sé skuldugur upp fyrir haus - margir einstaklingar og fyrirtæki eiga þokkalegar innistæður í banka og að svipta alla þessa aðila eignum sínum hefði sett þjóðfélagið á annan endann og jafngilt pólitísku sjálfsmorði hvers þess stjórnmálamanns sem hefði komið nálægt þeirri ákvörðun.

Málið er hins vegar að stjórnvöldum er ekki stætt á að mismuna eftir þjóðernum - með því að ábyrgjast innistæður í íslenskum útibúum, þá er engin leið til að komast hjá því að viðurkenna sambærilega skuldbindingu í erlendu útibúunum - slíkt stríðri gegn EES og almennu siðferði.

Það má ásaka stjórnvöld fyrir að klúðra einkavæðingunni - það má ásaka stjórnendur Landsbankans um athæfi sem jaðrar við landráð með því að koma Icesave ekki undir erlend dótturfyrirtæki - svona svipað og Kaupþing gerði með Edge reikningana - það má ásaka Fjármálaeftirlitið um vanhæfni og vanrækslu sem jaðar við að vera glæpsamleg ... en það er ekki hægt að saka stjórnvöld um að gera neitt athugavert með því að viðurkenna skuldbindinguna sem slíka - fyrst íslenskir innistæðueigendur eiga að fá sitt, þá verða erlendir innistæðueigendur að gera það líka.

Annað atriðið eru vextirnir, og spurningin um hvort Íslendingar hafi verið neyddir til að samþykkja hærri vexti en eðlilegt er.  

Þriðja og mikilvægasta atriðið snýr að neyðarlögunum og spurningunni um hvort þau muni halda - sér í lagi það atriði að gera innistæður að forgangskröfum, umfram aðrar kröfur eins og skuldabréf bankanna.  Dómstólar munu skera úr um þetta, en verði niðurstaðan sú að þessi ráðstöfun standist ekki, þá er málið orðið mun stærra og verra en það virðist núna.

Púkanum sýnist sem margir geri sér ekki fulla grein fyrir þessum atriðum.


mbl.is Ber okkur í raun að borga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir fyrir suma

Þótt sumum finnist það ef til vill eins og að strá salti í sárið, þá vill Púkinn nú minna á að verði krónan veik í nokkur ár, þá eru það góðar fréttir fyrir ýmsa.

  • Útflutningsfyrirtæki sem höfðu vit á að taka ekki lán í erlendri mynt ættu að vera í góðum málum. Á "góðærisárunum" var erfitt að reka þannig fyrirtæki.  Þessir örfáu vitleysingar sem voru vorui að rembast við að flytja út vörur og þjónustu voru í slæmum málum á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk.  Enginn hlustaði á umkvartanir þeirra um taprekstur og fyrirtækin urðu að steypa sér í skuldir, ganga á varasjói eða flytja framleiðsluna úr landi.  Nei, þau svör sem þessi fyrirtæki fengu var bara að um "eðlileg ruðningsáhrif" væri að ræða - þau gætu bara sjálfum sér um kennt að vera í svona rekstri.  Nú hefur pendúllinn sveiflast í hina áttina og "eðlilegu ruðningsáhrifin" eru að hreins burt innflutningsfyrirtæki og aðila sem fóru óvarlega í fjárfestingum....en skuldlausu útflutningsfyrirtækin fá nú loksins tækifæri til að vinna til baka tap "góðæristímans". 
  • Ferðaþjónusta innanlands ætti að njóta góðs af því að ísland verði "ódýrt" land um tíma í augum erlendra ferðamanna.
  • Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem sníða sér stakk eftir vexti og treysta ekki alfarið á utanaðkomandi fjármagn gætu mörg verið í góðum málum. 

 


mbl.is „Eins og blaut tuska“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiking krónunnar - það sem ekki er sagt

Púkanum finnst ýmislegt vanta inn í umræðuna um veikingu krónunnar og margir eru ýmist ekki að skilja hvers vegna henni er ekki leyft að falla almennilega, nú eða hvers vegna hún er ekki farin að styrkjast.

Skoðum fyrst þetta með styrkinguna.  Púkinn lýsti því hér hvernig fyrirtæki væru að fara framhjá gjaldeyrishöftunum, en síðan var stoppað upp í það gat með neyðarlögum.  Malið er hins vegar að þetta er aðeins eitt af þremur götum - það eru enn tvær góðar (og fullkomlega löglegar) aðferðir sem útflutningsfyrirtæki nota til að koma ekki með gjaldeyri í bankana.  

Það eru mun fleiri ástæður fyrir veikingu krónunnar.  Þótt útflutningur sé að aukast í krónum talið, stendur hann í stað eða er jafnvel að dragast saman í mörgum greinum sé hann mældur í erlendri mynt - álverð hefur hrapað og verð á fiski hefur lækkað erlendis.  Sem betur fer hefur innflutningur dregist enn meira saman og þannig tekst að halda jákvæðum viðskiptajöfnuði - það þarf bara að halda þeirri stöðu til frambúðar til að krónan styrkist.

Það er hins vegar gífurlegur þrýstingur á krónuna - eigendur jöklabréfa sitja uppi með krónur sem þeir telja verðlitlar og vilja ólmir skipta þeim í erlenda mynt áður en krónan fellur enn meira.  Það mætti því spyrja - hvers vegna ekki bara að leyfa krónunni að falla, þangað til hún er orðin það lág að jöklabréfaeigendurnir kjósi heldur að bíða með krónurnar uns hún styrkist aftur.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að þetta mun ekki gerast.  Ein er sú að þetta myndi þýða fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sem sýndu þá heimsku að taka lán í erlendri mynt á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk.  Já ég kalla þetta heimsku.  Það gátu allir séð að krónan myndi veikjast verulega - spurningin var bara hvenær og hversu mikið.  Það má hins vegar ekki leyfa þessi fjöldagjaldþrot svona rétt fyrir kosningar.

Önnur ástæða er staða aðila eins og Landsvirkjunar og OR, sem ekki myndu ráða við afborganir af erlendum lánum ef krónan félli verulega.  Gjaldþrot þeirra myndi í raun þýða að yfirráð orkulindanna féllu í hendur erlendra kröfuhafa - það skiptir nefnilega ekki máli hverjir eiga orkulindirnar - það skiptir máli hverjir eiga réttinn til að nýta þær.

Þriðja ástæðan varðar óuppgerða gjaldeyrissamninga.  Ef krónan félli og yrði t.d. 300/kr evran, myndi staða þeirra sem eiga óuppgerða samninga breytast verulega - það yrði erfitt að rökstyðja að samningana skuli gera upp á því gervigengi sem nú er haldið handvirkt uppi með gjaldeyrishöftum.

Nei, krónunni verður ekki leyft aðfalla svo mikið - a.m.k. ekki fyrr en eftir kosningar og þegar gjaldeyrissamningarnir hafa verið gerðir upp.


mbl.is Gengi krónunnar veiktist um 2,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhliða evruupptaka? Kjánagangur.

euroPúkanum finnst ótrúlegt hvað margir virðast halda að einhliða evruupptaka sé framkvæmanleg og sé einhver töfralausn á vanda íslensks efnahagslífs.

Það er eins og margir geri sér hreinlega ekki grein fyrir því hvað slíkt myndi fela í sér - og reyndar skiptir ekki máli hvort rætt eru um upptöku Evru eða einhvers annars gjaldmiðils eins og dollars.

Skoðum aðeins hvað gerist í raun þegar lönd taka upp Evru sem hluta af evrópska myntsamstarfinu. 

Á einhverjum álkveðnum tímapunkti eru seðlaprentvélarnar og myntsláttuvélarnar settar í gang og spýta út úr sér seðlum og mynt sem er skipt út fyrir þá peninga sem eru í umferð sem eru í mynt viðkomandi lands.  Þeir peningar eru verðlausir á eftir (nú nema þá fyrir safnara) og þeim er einfaldlega eytt.

Verðmæti innistæðna og skuldbindinga sem aðeins eru til á rafrænu formi er umreiknað í evrur á fyrirfram ákveðnu gengi.  Bankar sem áður áttu peseta, lírur, drökmur, mörk,gyllini eða franka eiga nú allt í einu Evrur. 

Hókus Pókus!

Eða hvað?  Eini aðilinn sem getur samþykkt að Evrur séu "búnar til" á þennan hátt er að sjálfsögðu evrópski seðlabankinn og það má í raun segja að hann "gefi" viðkomandi landi Evrurnar í skiptum fyrir þeirra eigin verðlausu mynt.

Nú spyr Púkinn:

Er einhver svo heimskur að halda að okkur yrðu bara gefnar Evrur á þennan hátt, ef við ákvæðum að ráðast í einhliða upptöku?

Málið er auðvitað það að ef við viljum taka upp evru einhliða, þá verðum við að kaupa þær evrur.  Ekki getum við borgað fyrir þær með krónum - með upptöku annars gjaldmiðils yrði krónan endanlega verðlaus - heldur yrðum við að taka lán til að fá evrurnar.

Það yrði ekki neitt smálán - það þyrfti ekki aðeins að nema öllu seðlamagni í umferð, heldur líka öllum peningalegum innistæðum í bönkum og lífeyrissjóðum.

Þetta eru ekki neinir smáaurar.

Látum aðeins liggja á milli hluta hvort einhverjir væru reiðubúnir til að veita Íslandi slíkt lán - vextirnir og afborganir yrðu gífurleg byrði áratugum saman.

Hvað eru þeir sem vilja einhliða evruupptöku tilbúnir til að skuldsetja börn sín og barnabörn mikið í þeim tilgangi að þeir geti fengið evruna núna?


mbl.is Vilja að Austur-Evrópuríki taki upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlátir skattar og ranglátir

Púkinn borgar sennilega meira í skatta en hann fær til baka frá ríkinu, beint eða óbeint og því er ekki skrýtið að skattahækkanir séu ekki ofarlega á vinsældalista Púkans.

Staðan nú er hins vegar sú að erfitt er að komast hjá skattahækkunum, en þá skiptir máli að þeir skattar séu réttlátir.

Hátekjuskattur er svolítið gallaður að því leyti að hann leggst ekki á þá sem raunverulega hafa hæstu tekjurnar - þeirra tekjur eru gjarnan í gegnum arðgreiðslur eða á öðru formi sem almennur tekjuskattur og útsvar leggst ekki á.  Það er að vísu ekki verið að ræða um stórar upphæðir, en sú tekjutenging sem þegar er í skattkerfinu vegna persónufrádráttar er það mikil að Púkanum finnst óþarfi að auka hana.  Þurfi ríkið hins vegar nauðsynlega á þessum örfáu þúsundköllum að halda til viðbótar, þá er það svosem ásættanlegt.

Fjármagnstekjuskattur  er meingallaður að mati Púkans.  Ásstæða þess er sú að hann er of einfaldur og leggst á hluti sem ekki eru "tekjur".   Púkanum finnst ekkert athugavert við fjármagnstekjuskatt á arðgreiðslur eða söluhagnað af hlutabréfum.  Vandamálið er varðandi skatt af vöxtum af bankainnistæðum.  Ef verðbólga er há, þá er fjármagnstekjuskatturinn að éta upp mun stærri hluta raunvaxtanna en annars.  Það sem Púkinn myndi vilja er einfalt - mun hærri fjármagnstekjuskattur - t.d. 25% en hvað innistæður varðar þá myndi hann eingöngu leggjast á raunvextina - ekki á verðbætur á verðtryggðum reikningum til dæmis.   Verðbætur eru ekki "tekjur" í sama skilningi og vextir.   Þessi hærri skattur myndi hins vegar leggjast af fullum þunga á arðgreiðslur og söluhagnað af hlutabréfum.  Það mætti líka hugsa sér stighækkandi fjármagnstekjuskatt eins og er í nágrannalöndunum - í Danmörku er skatturinn t.d. 45% af arðgreiðslum yfir 100..000 dönskum krónum.

Eignaskattur  er algjört eitur í beinum Púkans.  Hvers á fólk að gjalda sem er kannski komið á efri ár og býr í skuldlausu, en verðmætu húsnæði?  Eignaskattur dregur úr hvata til sparnaðar og er á allan hátt óréttlátur skattur - 2%  eignaskattur á bankainnistæður jafngildir kannski 40% skatti á raunávöxtun og 2% skattur á skuldlaust íbúðarhúsnæði jafngildir hægfara eignaupptöku.  Púkinn sér enga siðferðislega réttlætingu fyrir eignaskatti.  Skattlagning á arð af eignum er í góðu lagi, en skattlagning á eignir sem ekki skila arði er vafasöm, svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Skattaákvarðanir um mitt árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um ábyrgð á lánum

Með því að krefjast traustra ábyrgðarmanna hafa lánastofnanir tryggt sig í bak og fyrir - þær hafa litlar áhyggjur haft af því að lána einstaklingum sem eru á mörkum þess að vera traustir lántakendur - ef þessir einstaklingar reynast ekki borgunarmenn, nú þá var alltaf hægt að ganga að foreldrunum eða öðrum sem voru ábyrgðarmenn.

Nýja frumvarpið neyðir bankana til að fara varlegar - það má í raun segja að áhættan af að lántakandi standi ekki í skilum sé nú að stærra leyti hjá lánastofnuninni sjálfri.

Það má búast við því að lánastofnanir muni fara mun varlegar í framtíðinni í því að lána fólki með litlar eignir og litla viðskiptasögu - sem á við um margt ungt fólk, sem mun hugsanlega eiga verra með að fá lánað en áður.

En er það endilega slæmt?

Verri aðgangur að lánsfé kennir einhverjum hugsanlega að spara fyrir hlutunum áður en þeir eru keyptir - kennir ungu fólki að peningar vaxa ekki á trjánum.


mbl.is Sameinast um að „vinna bug á ósið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver hissa á lækkun krónunnar?

Púkanum finnst ekki skrýtið að krónan lækki.  Þvert á móti finnst Púkanum furðulegt að sumir tali eins og hækkun krónunnar á næstunni sé algerlega óhjákvæmileg.

Staðan núna er sú að þau fyrirtæki sem gætu aflað gjaldeyris reyna mörg hver að komast fram hjá reglunum um skilaskyldu á gjaldeyri, með því að selja vörur fyrir krónu.

Þetta fer til dæmis þannig fram að fiskútflytjandi sendir fisk til kaupanda erlendis - sá kaupandi borgar í evrum til eiganda jöklabréfa, sem síðan borgar í krónum hér á Íslandi. 

Allir þátttakendur í þessum þríhliða viðskiptum "græða".

Fiskútflytjandinn græðir, því hann fær á endanum fleiri krónur en ef hann hefði fengið evrur hingað heim og skipt þeim á því hálfopinbera gengi sem er hér.

Kaupandinn græðir því hann þarf að borga færri evrur en annars.

Jöklabréfaeigandinn græðir, því honum tekst að losna við krónurnar sínar á gengi sem er skárra en það gengi sem er í gangi erlendis.

Þeir sem tapa á þessu eru þeir sem þurfa af þessum sökum að horfa upp á minnkandi gjaldeyrisflæði til Íslands, sem aftur veldur stöðugri veikingu krónunnar, sem kemur sér illa fyrir flesta.

Jú, veikingin er góð fyrir skuldlaus útflutningsfyrirtæki - þau sem börðust í bökkum þegar krónan var allt, allt of sterk .... en þau eru bara ekkert voðalega mörg.

Þetta ástand er að hluta afleiðing kolrangrar stefnu undanfarin ár og alvarlegum mistökum Seðlabankans, en að mati Púkans er enn það mikill þrýstingur á krónuna til staðar vegna jöklabréfanna, að engin ástæða er til að halda að hún styrkist á næstunni.


mbl.is Krónan lækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er afsökunarbeiðni nóg?

skilling.jpgBankahruninu hefur verið líkt við fall Enron...sjáum nú til.

Eftir margra ára málaferli varð niðurstaðan í Enron málinu sú að  Andrew Fastow var dæmdur til 10 ára fangelsisvistar (sem síðar var stytt) og upptöku 23.800.000 dollara.  Lea Fastow var dæmd í fimm mánaða fangelsi og einn höfuðpaurinn, Jeffrey Skilling var dæmdur í 24 ára fangelsi. Að auki voru David Bermingham, Giles Darby og Gary Mulgrew dæmdir til um þriggja ára fangelsisvistar hver.

Samt rústuðu þessir menn bara einu fyrirtæki og lífeyirssparnaði starfsmanna, en aðgerðir þeirra höfðu óveruleg áhrif utan Kaliforníu.

Hér á Íslandi rústuðu vanhæfir og gráðugir einstaklingar innan og utan bankakerfisins efnahag þjóðarinnar - og Gylfi segir nauðsynlegt að menn biðjist afsökunar.

Tja...ekki er nú farið fram á mikið.


mbl.is Verða að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein hógvær krafa

Púkinn vill hér með koma með eina litla, hógværa kröfu til þeirra sem útdeila skattpeningum hans til misilla staddra fyrirtækja.

Púkinn vill að ríkið krefjist þess að þau fyrirtæki sem njóta ríkisaðstoðar, hvort sem það eru (sparisjóðir eða önnur fyrirtæki) greiði hvorki arð til hluthafa né bónusgreiðslur til stjórnarmanna fyrr en ríkisaðstoðin hefur verið greidd til baka með vöxtum og verðbótum.

Er þetta til of mikils mælst ?


mbl.is Uppbygging í stað arðgreiðslna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband