Bregst Seðlabankinn enn?

bank_robbery_for_dummies.jpgPúkinn gagnrýndi hávaxtastefnu Seðlabankans á dögum "góðærisins".  Í dag vill Púkinn líka gagnrýna vaxtastefnuna, en á allt öðrum forsendum.

Skoðum þetta aðeins nánar.  Á þeim árum þegar allt sýndist vera á uppleið hér á landi töldu menn sér trú um að hér væri verðbólga og þensla sem nauðsynlegt væri að slá á.  Það var að vísu rétt að hér var þensla, sér í lagi á húsnæðismarkaði - drifin áfram af aðgengi að "ódýru" lánsfé.

Seðlabankinn beitti þá þeirri hagfræðikennslubókartækni að hækka vexti - á þeirri forsendu að hækkandi vextir ættu að slá á þenslu...en það virkaði ekki.  Hvað var að?

Vandamálið er að sú kenning að hækkandi stýrivextir dragi úr þenslu byggir á þeirri forsendu að stýrivextirnir stjórni þeim vaxtakjörum sem almenningi og fyrirtækjum bjóðast.  Þegar vextir eru hækkaðir verður dýrara að fá pening að láni til framkvæmda og fjárfestinga, þannig að þær minnka, sem þýðir að slegið er á þensluna.

Þetta er kenningin - en hvers vegna virkaði þetta ekki?  Jú, ástæðan var einfaldlega að fyrrnefnd forsenda var röng - fyrirtækjum og einstaklingum buðust erlend lán á "góðum" kjörum - mun lægri vöxtum en í boði voru á Íslandi, þannig að íslenskir stýrivextir snertu ekki marga lántakendur.

Þegar þessi þróun varð ljós hefði Seðlabankinn að sjálfsögðu átt að hætta þessum tilgangslausu stýrivaxtahækkunum og beita þess í stað aðferðum sem hefðu virkað, en nei....vaxtahækkanirnar héldu áfram.

Þessir síhækkandi vextir höfðu ekki þau áhrif á þensluna sem vonast var til, en stuðluðu hins vegar að því að styrkja krónuna - erlent fjármagn fæddi inn í landið og Íslendingar töldu sér trú um að þeir væru ríkir ... hlupu til og keyptu sér flatskjái og pallbíla.

Ef Seðlabankinn hefði gefist upp á vaxtahækkunarstefnunni og þess í stað hækkað bindiskyldu bankanna til að hafa hemil á útlánagleði þeirra, eða keypt gjaldeyri til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og halda aftur af hinni óeðlilegu styrkingu krónunnar, þá hefði ástandið ef til vill ekki þróast á þann veg sem það gerði.

Hvað um það...hér þarf ekki að rekja hvernig Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið brugðust gersamlega og hvernig allt hrundi á endanum, en nú er staðan aftur sú að Seðlabankinn þráast við að halda vöxtunum uppi.

Nú eru það hins vegar ekki bara einstaka sérvitringar sem gagnrýna vaxtastefnuna, heldur forsvarsmenn fyrirtækja, launþega og jafnvel ríkisstjórnin sjálf.

Rökstuðningurinn fyrir háum vöxtum núna er fyrst og fremst sá að styðja verði við krónuna - ef stýrivextir væru snarlækkaðir myndi það draga úr tiltrú á krónuna og valda algeru hrapi hennar ef gjaldeyrishöftin væru afnumin.

Það er að vísu sá galli á þessu að erlendir aðilar hafa þegar misst alla tiltrú á krónunni - þeir sem eiga eignir í íslenskum krónum vilja helst sleppa burt með það sem þeir geta og hvort vextirnir hér eru góðir eða ekki skiptir einfaldlega ekki máli - þeir treysta einfaldlega ekki íslenska fjármálakerfinu.

Önnur rök eru sú að stýrivextir megi ekki vera lægri en sem nemur verðbólgu í viðkomandi hagkerfi.  Það má færa góð hagfræðileg rök fyrir þessu, en þau rök eiga við þegar aðstæður eru "eðlilegar" - ekki þegar nánast algert kerfishrun hefur átt sér stað.

Þvert á móti má halda því fram að við núverandi aðstæður sé réttlætanlegt að láta Seðlabankanum "blæða út"með því að hafa neikvæða raunstýrivexti tímabundið. í þeim tilgangi að halda sem flestum fyrirtækjum landsins gangandi.

Seðlabankinn er hins vegar enn fastur í beitingu hagfræðikennslubókakenninga, en hugsar ekki um heildarhagsmuni þjóðarinnar ... ekki frekar en áður.


mbl.is Stýrivextir áfram 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð Pálsson

Stjórnvöld fullyrtu síðasta haust að snemma á þessu ári myndu stýrivextir lækka mikið og hratt. Það eru nú meiri ósköpin!

Núverandi stjórnvöld verða að fara að átta sig á því að atvinnulífið mun verða fyrir hruni í haust nema að gripið verði strax til aðgerða því til bjargar. T.d. með því að lækka stýrivexti.

Því hefur verið haldið fram á netinu að verðbólga dragi sig að stýrivöxtum, svo þá mætti ætla að hún myndi lækka líka ef stýrivextirnir yrðu fyrst lækkaðir.

Reynum það!

Davíð Pálsson, 2.7.2009 kl. 11:41

2 Smámynd: Stefán Einarsson

Ég er sammála og eru þeir í Seðlabankanum að skjóta sjálfa sig í fótin með svona rökum:

"Á meðan höftin eru fyrir hendi hafa utanríkisviðskipti umtalsverð áhrif á gengi krónunnar. Þrátt fyrir bata í vöru- og þjónustujöfnuði hefur rýrnun viðskiptakjara og verulegar árstíðarbundnar vaxtagreiðslur til erlendra aðila haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð. Peningastefnunefndin telur að í ljósi þess er mikilvægara en ella að nægur hvati sé til staðar til þess að halda eignum í krónum, sem mælir gegn frekari lækkun vaxta."

Og skv. eftirfarandi fréttum þá er ástæða veikrar krónu einmitt háir vextir:


Töluverðar vaxtagreiðslur í júní

Vaxtagreiðslur til eigenda jöklabréfa veikja krónuna

Líklegast betra að hafa stöðuga veika krónu en breytilega krónu sem er að styrkjast ef ég skil rök Seðlabankans rétt.

Stefán Einarsson, 2.7.2009 kl. 11:41

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég er sammála flestu, en vil þó benda á að allnokkuð er síðan "flatskjáir" tóku alfarið við af gömlu sjónvarpstækjunum með myndlampa (CRT). Þannig tæki eru líklega ekki fáanleg í dag. Þeir sem þurftu að endurnýja sítt gamla tæki urðu því að kaupa flatskjá, hvort sem þeim líkaði það vel eða illa.

Sjálfur neyddist ég til að endurnýja mitt gamla (ónýta) 18 ára tæki á síðasta ári og fann ekkert annað en flatskjá. Nokkrum dögum síðar hrundi bankakerfið. þannig að líklega var þetta kornið sem fyllti mælinn . Ég hef það þó mér til málsbóta að ég staðgreiddi flata sjónvarpstækið.

Reyndar keypti ég líka flatskjá fyrir heimilistölvuna fyrir fáeinum árum, þannig að ég er víst í mjög slæmum málum...

Ágúst H Bjarnason, 2.7.2009 kl. 12:11

4 Smámynd: Púkinn

Þetta er vissulega rétt hvað flatskjána varðar, en málið var hins vegar að margir hlupu til og hentu myndlampasjónvörpunum, þótt þau hefðu alveg dugað nokkur ár enn - og fengu sér flatskjá á raðgreiðslum í staðinn.

Púkanum sýnist stundum að Íslendingar kunni ekki að spara.

Púkinn, 2.7.2009 kl. 13:02

5 identicon

Sæll Púki,

Ég er alveg sammála þér í þessu enda hef ég haldið þessu fram lengi sem þú ert nú að taka undir.

Málið er hins vegar það að stafsmenn og embættismenn í Seðlabankanum eru læsir en ekki hugsandi. Þeir hafa með öðrum orðum lesið bókina og fara eftir henni en þeir skilja ekki hvað stendur í þessum sömu bókum og þess vegna er staðan sú sem hún er í dag.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 06:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband