Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Enn borgar almenningur

money-church.jpgÞað er sjálfsagt að borga þeim bætur sem urðu fyrir ofbeldi í Landakotsskóla eða á annan hátt af völdum kaþólsku kirkjunnar.

Það sem er hins vegar ekki sjálfsagt að þessi penningur komi úr vasa hins almenna skattborgara.

Nei, kaþólska kirkjan ætti að borga þetta.

Það er nú ví miður þannig að þegar fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi, þá er sanngirnin látin víkja.

Þær bætur sem kirkjan bauðst sjálf til að borga voru skammarlega lágar - sjá t.d. þessa frétt hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/22/nidurstada_kirkjunnar_smanarleg/

Nei, kaþólska kirkjan er fyrirtæki sem hugsar fyrst og fremst um sinn hag - skítt með fórnarlömb hennar í gegnum tíðina.

Það er verst að ekki skuli vera hægt að halda eftir þeim sóknargjöldum sem kirkjan fær, þangað til búið er að borga ríkinu til baka þessar bætur.


mbl.is Sanngirnisbætur hækka um 130 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um hugsanafrelsi

Hgay-love.pngér á Íslandi ríkir skoðanafrelsi, samkvæmt 73. grein stjórnarskrárinnar.  Menn mega hafa hvaða skoðanir sem er - sama hversu skrýtnar þær eru. Hér ríkir líka að mestu leyti tjáningarfrelsi - menn mega láta skoðanir sínar í ljós (með ákveðnum takmörkunum þó).

Þær skoðanir sem fólk hefur og kýs að láta í ljós skapa að hluta þá ímynd sem aðrir hafa af viðkomandi - ímynd sem verður jákvæð eða neikvæð eftir aðstæðum.

Þessi ímynd sem fólk skapar sér er eitt af því sem ræður því hvort aðrir bera virðingu fyrir viðkomandi og hvort (og á hvaða hátt) þeir kjósa að umgangast viðkomandi.

Púkinn vill halda því fram að skoðanir geti haft áhrif á hvort einstaklingar séu hæfir til að sinna ákveðnum störfum eða ekki.

Hugsum okkur til dæmis einstakling sem lýsir í ræðu og riti þeirri skoðun sinni að rauðhærðir einstaklingar séu úrkynjaður ruslaralýður, sem eigi að gelda svo hægt sé að útrýma þeirra genum - hugsum okkur þessum skoðunum sé ítrekað lýst á Facebooksíðu viðkomandi og fleiri slíkum stöðum.

Ef ég rækist á slíkan einstakling t.d. sem leigubílstjóra sem þyrfti mikið að lýsa þessum skoðunum sínum meðan hann keyrði mig heim, myndi ég ekki kippa mér mikið upp við það - hrista hausinn yfir því eftir á hversu ruglaður viðkomandi væri, en ég sæi hins vegar enga ástæðu til að telja þessar furðulegu skoðanir hafa áhrif á hæfni hans sem leigubílstjóra (svo framarlega sem hann hreinlega veitist ekki að örvhentum farþegum).

En hvað ef viðkomandi væri í starfi sem kennari?   Væru foreldrar rauðhærðra barna sátt við að þau sæktu tíma hjá kennara með þessar skoðanir (og þá gildir einu þótt hann minnist ekki á þær í kennslustundum)? 

Ég held að rauðhærðum nemendum myndi líða illa í tímum hjá viðkomandi og það er hætta á að aðrir nemendur sem hugsanlega líta upp til kennarans líti á þetta sem óbeina hvatningu til að beita þá rauðhærðu einelti.

Kennari með slíka fordóma gagnvart ákveðnum hópi nemenda er einfaldlega ekki hæfur til að sinna sínu starfi.  Ég er ef til vill gamaldags, en ég ætlast til að hægt sé að bera virðingu fyrir kennurum sem einstaklingum - og kennari sem opinberlega lætur í ljósi svona skoðanir væri ekki einstaklingur sem ég gæti borið virðingu fyrir.

Fordómar Snorra snúa ekki að rauðhærðum, heldur samkynhneigðum, en eru alveg jafn fáránlegir....og gera hann jafn óhæfan sem kennara.

Það voru ekki mistök að reka Snorra - einu mistökin voru að ráða hann í upphafi.


mbl.is Snorri krefst 12 milljóna í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindakirkjan

xenuVísindakirkjan hefur lítið að gera með vísindi - en því meira með vísindaskáldsögur.  Þeir sem ganga í söfnuðinn fara í gegnum langt (og dýrt) ferli, en þegar fólk hefur loksins náð svokölluðu OT-3 stigi, þá fær það að heyra söguna af Xenu.

Sú saga er svona:

Einu sinni fyrir langa löngu (fyrir 73 milljónum ára til að vera nákvæmur) var einvaldur í geimnum sem nefndist Xenu.  Xenu stjórnaði öllum plánetunum í okkar hluta Vetrarbrautarinnar, þar á meðal jörðinni, nema hvað hún hét Teegeeack á þeim tíma.

Xenu átti við vandamál að stríða.  Það var offjölgun á öllum plánetunum hans, eða um 178 milljarðar á hverri plánetu.  Xenu vildi leysa offjölgunarvandamálið og hann var með áætlun.

Xenu tók sér einræðisvald og með aðstoð geðlækna lét hann kalla eftir milljörðum lífvera til að skoða skattaframtöl þeirra, en í staðinn var þeim gefin lömunarsprauta.

Síðan var þeim raðað í geimskip sem litu alveg eins út og DC-8 flugvélar, nema þær höfðu eldflaugahreyfla.

Þessum geimskipum var síðan flogið til jarðarinnar, þar sem einstaklingunum var staflað í kringum eldfjöll.  Þegar því var lokið var vetnissprengjum komið fyrir í eldfjöllunum, þær sprengdar samtímis og allir voru drepnir.

Sagan endar ekki hér. Þar sem þessar lífverur höfðu sálir (þetana), þurfti að plata sálirnar til að koma ekki aftur.  Þeim var því safnað saman með rafgildrum og þeim pakkað í kassa sem var farið með í kvikmyndahús, þar sem sálirnar voru látnar eyða mörgum dögum í að horfa á þrívíddarmyndir sem sögðu þeim að þær væru Guð, djöfullinn eða Jesús.

Þegar myndasýningunni lauk og sálirnar yfirgáfu kvikmyndahúsið hengu sálirnar saman, því þær höfðu séð sömu myndirnar og héldu að þær væru sama veran.  Þessir sálnaklasar tengdust síðan þeim líkömum sem enn voru til.

Hvað Xenu varðar, þá var hann að lokum tekinn til fanga og lokaður inn í fjalli þar sem honum er haldið í orkusviði sem er knúið af eilífðarrafhlöðu.

Svona endar sagan - þetta er ástæðan fyrir öllum vandamálum mannanna - við okkur hanga klasar af andlegum sníkjudýrum, sálir geimvera sem voru sprengdar í tætlur.

Er þetta heimskuleg saga?  Já, en þetta er ein af mikilvægustu trúarsetningum safnaðarins - stórisannleikurinn sem meðlimir fá loksins að vita eftir veruleg fjárútlát og margra ára " meðferð", þar sem þeir eru tengdir við lygamæli langtímum saman og yfirheyrðir.


mbl.is Kröfu vísindakirkjunnar hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skrá börn í trúfélög...

Púkinn er þeirrar skoðunar að sjálfvirk skráning barna í trúfélag móður sé tímaskekkja, sem hefði átt að vera búið að leiðrétta fyrir löngu.

Þetta er álíka fáránlegt og ef börn væru sjálfkrafa skrað í stjórnmálaflokk föður.

Þeir foreldrar sem taka trú sína alvarlega (en vonandi fer þeim nú fækkandi) geta að sjálfsögðu skráð börn sín í sín í hvaða trúfélög sem þeim sýnist - og börnin síðan skráð sig sjálf úr þem ef þau vilja þegar þau hafa aldur og þroska til, þannig að þetta breytir í raun litlu fyrir þann hóp.

Helstu áhrifin verða á þá sem eru "hagstofutrúaðir" - eru gjarnan skráðir þjórkirkjuna, en leiða hugann sjaldan að því eða þá trúmálum yfirleitt.

Púkinn fagnar því að börn þeirra séu ekki skráð sjálfkrafa í trúfélög. 

Enn eitt lítið skref í rétta átt.


mbl.is Sjálfvirk skráning í trúfélög afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfseyðingarhvöt kirkjunnar

atheist-ghost-buster.thumbnailÞað er ekkert leyndarmál að Púkinn er þeirrar skoðunar að skipulögð trúarbrögð séu ein versta uppfinning mannkynsisns frá upphafi - svikamyllur sem ekkert erindi eigi til þjóðfélagsins í dag.

Púkinn myndi gjarnan vilja sjá kirkjuna hverfa, eða a.m.k. að stórlega yrði dregið úr áhrifum hennar, en það er athyglivert að þessa dagana þarf Púkinn (og aðrir trúleysingjar) ekkert að hafa fyrir þessu - kirkjan er önnum kafin við að eyðileggja ímynd sína, án nokkurra afskipta trúleysingjanna, sem halla sér bara aftur á bak og horfa á innbyrðis deilur, argaþras, siðferðisbresti, yfirhylmingar og önnur vandræðamál kirkjunnar manna.

 


mbl.is Fleiri segja sig úr þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein ástæða til að skrá sig úr þjóðkirkjunni

Það kemur nú ekki á óvart að Geir Waage telji sig yfir landslög hafinn - að prestum beri ekki að hlýða barnaverndarlögum, þar sem þeir heyri jú undir "æðra" yfirvald.

Það kemur heldur ekki á óvart að séra Geir og sumir aðrir prestar telji ekkert athugavert við að þeir og kirkjan séu á sama tíma áskrifendur af peningum almennings.

Sem betur fer eru margir Íslendingar að átta sig á því að þeir eiga enga samleið með þjóðkirkjunni - þeir tímar eru liðnir að litið sé upp til presta sem einhverra siðferðislegra fyrirmynda - þeir eru bara eins og allir aðrir, sumir ágætir, en aðrir örgustu perrar.

Aðrir hafa áttað sig á því að grundvöllur kristninnar, Biblían, er enginn algildur sannleikur, heldur samansafn af sögum, sumum, upplognum og öðrum ýktum sem safnað var saman í þeim tilgangi að réttlæta vald presta yfir fáfróðum almúganum.

Síðan er enn aðrir sem er farið að ofbjóða fordómar sumra (en sem betur fer alls ekki allra) presta í garð samkynhneigðra.

Hér má finna eyðublöð fyrir þá sem vilja skrá sig úr þjóðkirkjunni: http://www.fasteignaskra.is/pages/1017

Þeir sem vilja halda áfram að borga núverandi apparat mega að sjálfsögðu gera það áfram, en Púkinn vonar að sem flestir sendi kirkjunni skilaboð sem tekið verður eftir.

 


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturlönd að vaxa upp úr þörf fyrir trúarbrögð?

Púkanum finnst trúleysisstrætisvagnarnir vera gott framtak - vekur fólk til umhugsunar um réttmæti þess að láta leiða sig áfram í blindni af trú á einhverja ósýnilega súperkarla, en sýnir í leiðinni þá ánægjulegu staðreynd að trúarbrögð eru á vissan hátt á undanhaldi.

Fyrir nokkur hundruð árum hefðu menn átt á hættu að vera teknir af lífi fyrir að halda á lofti skoðunum eins og þeim sem nú skreyta strætisvagnana.  Síðar hefðu slíkar skoðanir ekki varðað refsingu, en menn hefðu átt á hættu að vera nánast útskúfað úr samfélaginu vegna þeirra.

Í dag getur fólk leyft sér að segja "Ég trú ekki á tilvist ósýnilegra súperkarla".  "Ég trúi ekki að trúarrit sem voru skrifuð fyrir nokkrum þúsundum ára (og ritskoðuð í gegnum tíðina) hafi nokkra raunverulega þýðingu fyrir heiminn eða mig persónulega".  "Ég hafna þeirri skoðun að nokkur trúarstofnun hafi nokkurn rétt til að setja mér siðareglur eða segja mér hvernig ég á að lifa mínu lífi". "'Ég er frjáls undan bábiljum trúarbragðanna og stoltur af því."

Já, þetta er framför - því miður er þessi þróun ekki sjáanleg alls staðar - en mörg Vesturlanda (að Bandaríkjunum undanskildum) eru þó á réttri leið.


mbl.is Herferð heiðingja á hjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólaguðspjallsskáldsagan

jata1.jpgPúkinn er í hópi þeirra sem telja jólaguðspjallið lítið meira en skáldsögu og hin sjaldgæfa staða reikistjarnanna þann 17. júní árið 2. f.Kr breytir engu um það.

Það eru nefnilega aðeins of margar aðrar holur í sögunni.

Það var ekkert manntal framkvæmt árið 2 f.Kr, heldur var manntal Kýreníusar framkvæmt 7 árum síðar, árið 6 e.Kr.

Í því manntali var engin krafa gerð um að fólk færi til sinnar ættborgar, enda voru menn skráðir og skattlagðir þar sem þeir bjuggu, en ekki í þeirri borg sem þeir voru ættaðir frá.  Slík kvöð hefði valdið gífurlegri upplausn í þjóðfélaginu að tilgangslausu, þar sem margir hefðu þurft að eyða dögum eða vikum á ferð, fjarri heimili og vinnu.

Það var ekki nein þörf fyrir Jósef að þvælast alla þessa leið.

Jafnvel þótt hann hefði af einhverjum undarlegum ástæðum kosið að gera það, hvers vegna hefði hann þá átt að drösla kasóléttri heitkonu sinni með?  Staða kvenna á þessum tímum var aðeins betri en staða þræla, en þær voru ekki  skráðar enda boguðu þær ekki skatt.  Að leggja það á ólétta konu að sitja á asnabaki 140 kílómetra leið hefði verið mannvonska af verstu gerð.

Betlehem í Júdeu virðist líka tæplega hafa verið til sem bær á þessum tíma - a.m.k. hafa fornleifarannsóknir sýnt fram á byggð þar á tímabilinu 1200-550 f.Kr og frá 6. öld e.Kr, en engar mannvistarleifar hafa fundist frá tímabilinu 100 f.Kr. til 100 e.Kr, þótt vissulega megi vera að þar hafi verið einhver örfá hús á þessum tíma.

Hvers vegna er þá svona ósennilega saga í Biblíunni?

Er einhver sennileg skýring á þessari sögu - jú, nefnilega sú að menn væntu þess að Messías myndi  fæðast í Betlehem, en Jesús var talinn Galíeumaður (sbr. Jóh 7:41-43) Það var því nauðsynlegt að búa til sögu - skálda það upp að hann hefði víst fæðst í Betlehem eftir allt saman og þannig varð jólaguðspjallið til.

Síðan var búin til sú þjóðsaga til að þetta hefði gerst um 25. desember, sem gaf kirkjunni góða afsökun til að yfirtaka vetrarsólstöðuhátíðina sem haldin var um það leyti.

Púkanum finnst það ljótt að segja börnum svona skáldsögur undir því yfirskini að þær séu sannar. 


mbl.is „Jesús fæddist 17. júní“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarthöfði, svartstakkar og aðrir

darthvaderÞótt Púkinn eigi að mörgu leyti samleið með þeim aðilum í Vantrú sem stóðu fyrir Svarthöfðauppákomunni, þá er hann ekki að öllu leyti sammála aðferðinni.  Það má túlka svona aðgerðir eins og menn líti þannig á að ekki eigi að taka trúarbrögð alvarlega - þau séu eitthvað til að gera grín að.

Þar er Púkinn ósammála - honum finnst trúarbrögð nefnilega vera alvarlegt vandamál -  ein versta uppfinning mannkynsins frá upphafi. Að gera grín að trúarbrögðum er svona eins og að gera grín að fíkniefnanotkun, farsóttum eða þrælahaldi - það er einfaldlega ekkert fyndið við viðfangsefnið.

Púkinn vonast að sjálfsögðu til þess að mannkynið vaxi einhvern tíman upp úr því að telja sig þurfa á trúarbrögðum að halda, en líkurnar á því eru því miður minni en að trúarbrögð verði til þess að mannkynið útrými sjálfu sér.

Púkanum finnst það ekki heldur fyndið. 


mbl.is Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaþólska kirkjan á eftir að biðjast afsökunar á mörgu

Pius_ixPúkanum finnst hlálegt  þegar kaþólska kirkjan lýsir vandlætingu á hegðun annarra.  Hvernig er hægt að taka stofnun alvarlega sem vill taka mann í dýrlingatölu sem ber ábyrgð á barnsráni?

Fyrir 150 árum síðan, í júní 1858 ruddist lögreglan inn á heimili gyðingsins Salomone Mortara í Bologna og tók eitt barna hans - hinn sex ára Edgardo Mortara.

Hvers vegna?

Jú, nokkru fyrr hafði hann verið alvarlega veikur og var varla hugað líf.  Á heimilinu var fjórtán ára kaþólsk þjónustustúlka, sem hafði skírt barnið, án vilja eða vitundar foreldra hans.

Samkvæmt lögum kaþólsku kirkjunnar var barnið þá kaþólikki og gyðingar máttu ekki ala upp kaþólsk börn - jafnvel ekki sín eigin.  Því var gefin út tilskipun um að taka barnið frá foreldrum sínum og ala það upp í kaþólskum sið.

Bologna var á þessum tíma hluti Páfaríkisins, sem þýddi að hið veraldlega vald var í höndum kirkjunnar.  Það var hins vegar tekið að fjara undan kirkjunni á þessum tíma og hjá mörgum var þetta barnrán dropinn sem fyllti mælinn.  Svipuð tilvik höfðu átt sér stað áður, en ekki vakið athygli - vald kirkjunnar var of sterkt, en það var að breytast. 

Í konungsríkinu Piedmont, sem var um þessar mundir í forystu fyrir sameiningu Ítalíu var þessi atburður tekinn sem sönnun þess að veraldlegt vald kirkjunnar væri tímaskekkja sem ekki ætti að líða og er af mörgum talið hafa ráðið úrslitum um að önnur ríki hreyfðu ekki mótmælum þegar Piedmont lagði Páfaríkin undir sig með hervaldi ári síðar, en síðan hefur hið veraldlega vald kirkjunnar verið takmarkað við Vatikanríkið eitt.

Hvað varð um Edgardo?  Jú, þrátt fyrir kröfur foreldra hans og umheimsins neitaði kirkjan að skila honum - hann var "heilaþveginn", alinn upp sem kaþólikki, gerðist síðar prestur og dó 1940. 

Páfinn á þessum tíma var Pius IX - maður sem er verið að taka í dýrlingatölu, en fyrstu skrefin til þess voru tekin 1985 og 2000 af Jóhannesi Pál II páfa.  Hann iðraðist aldrei barnsránsins - þvert á móti sagði hann 1865:

Ég hafði rétt og skyldu til að gera það sem ég gerði fyrir þennan dreng og ef ég þyrfti þess, þá myndi ég gera það aftur.

Það hefur stundum tekið kaþólsku kirkjuna nokkrar aldir að biðjast afsökunar á misgjörðum sínum - það tók hana til dæmis 400 ár að lýsa iðrun yfir aftöku Giordano Bruno.  Ef til vill mun kirkjan biðjast afsökunar á barnaránum eftir nokkrar aldir - hver veit.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband