Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hrunið var fyrirsjáanlegt (upprifjun á spá frá júlí 2007)

Sumir (fyrrverandi) ráðamenn hafa haldið því fram að enginn hafi átt von á hruni íslensks efnahagslífs, en Púkinn þarf ekki að leita lengra en í sína eigin grein frá júli 2007:

Hagfræðingar framtíðarinnar munu ef til vill skilgreina þessar ákvarðanir Seðlabankans sem eina meginorsök hruns íslensks efnahagslífs á fyrstu áratugum 21. aldarinnar.

Greinina má lesa í heild hér .  Þessi orð voru rituð 15 mánuðum áður en allt hrundi, en þá hefði hverjum hugsandi manni átt að vera augljóst að hverju stefndi.

Var hlustað á Púkann og aðra sem vöruðu við þeirri braut sem þjóðfélagið var á?  Voru allir of uppteknir við að skara eld að eigin köku?

Svari hver fyrir sig.


Færeyjar - myndir

Púkinn ætlaði að blogga aðeins um Færeyjar og Færeyinga, en ákvað í staðinn að skella bara inn stuttri myndasyrpu úr ferð sinni til Færeyja í sumar og hvetja fólk í leiðinni til að ferðast þangað.

Fyrir þá sem hafa gaman af að ferðast um með ljósmyndavél í hendi, þá er ótrúlega margt að sjá í Færeyjum.

2806021298_1af494807d_b


mbl.is Æ fleiri þakka Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úldinn matur, klúður og léleg þjónusta

Hvers vegna eru íslenskir skyndibitastaðir svona lélegir?

Þótt ekki sé réttlætanlegt að gera sömu kröfur til skyndibitastaða og "alvöru" veitingastaða, þá ætlast maður nú til ákveðinna lágmarksgæða - skyndibitinn er ekki gefins á Íslandi, en því miður er það nú oft svo að staðir standa ekki undir væntingum.

Púkinn er mikill áhugamaður um góðan mat, en stundum er tíminn af skornum skammti, þannig að úrræðið verður að koma við á skyndibitastað. 

Ef staðurinn stendur ekki undir væntingum Púkans bregst Púkinn við með því að fara ekki aftur á þann stað í einhvern tíma, sem getur verið mislangur eftir atvikum.

Eitt það alversta sem Púkanum hefur verið boðið upp á er úldið hráefni.  Það átti sér stað hjá KFC, strax eftir opnun á sunnudagsmorgni.  Ætlunin var að kaupa barnabox handa dóttur Púkans og nokkra bita handa foreldrunum, en tilhlökkun barnsins var fljót að hverfa þegar ýldulyktin gaus upp.  Svona eftir á að hyggja þykir Púkanum sennilegast að hráefnið hafi ekki verið geymt í kæli yfir nóttina, þannig að fyrstu viðskiptavinum dagsins var boðið upp á mat sem tæplega var boðlegur hundum.

Púkinn ákvað því að gefa KFC langt frí, en gerði aðra tilraun 6 árum síðar. Það gekk ekki mikið betur.  Á leiðinni heim fékk frú Púki svo heiftarlegt ofnæmiskast að fjölskyldunni stóð ekki á sama.  Eftir þetta var KFC settur á varanlegan bannlista hjá Púkanum.

Annar staður sem er kominn á bannlistann er kjúklingastaðurinn í Suðurveri.  Synd og skömm, því þetta er sá skyndibitastaður sem er næst heimili Púkans.  Ástæða bannsins í því tilviki er ekki gæði matarins, heldur endalaust klúður í afgreiðslu.  Um þverbak keyrði í gær - þegar Púkinn kom heim og opnaði pakkann gerði hann sér ferð til baka og skilaði bitunum á þeirri forsendu að þetta væri ekki það sem hann hefði pantað.  Til hvers í ósköpunum er verið að spyrja viðskiptavininn hvernig bita hann vilji, þegar ekkert mark er tekið á svarinu?

Ruby Tuesday er líka á svarta listanum hjá Púkanum, vegna hræðilegrar þjónustu og matar sem ekki uppfyllir væntingar miðað við verð. 

Annar staður sem lenti á svarta listanum var Svarti svanurinn við Hlemm, en eftir að eigendaskipti urðu þar hrapaði þjónustan niður úr öllu, Púkinn gafst upp á staðnum og sennilega hafa fleiri gert það líka, því hann lagði upp laupana.

Það eru líka nokkrir staðir sem klikka stöku sinnum, en Púkinn stundar samt - Nings (þar sem stundum gleymist eitthvað af því sem pantað var) og American Style (þar sem sumir starfsmenn virðast ekki skilja orðin "enga sósu á hamborgarann").

Einu staðirnir sem alltaf uppfylli væntingar Púkans eru pizzustaðir - áður fyrr var Púkinn fastagestur á Hróa Hetti og Eldsmiðjunni, en þar sem þeir staðir eru ekki lengur innan göngufæris er Devitos (við Hlemm) sá staður sem Púkinn stundar einna helst.

Púkinn minntist ekki á McDonalds, enda hefur hann ekki farið þangað síðan dóttirin óx upp úr því að vilja barnabox með leikfangi - ef Púkinn vill hamborgara fær hann sér "Heavy Special" hjá American Style, ekki einhverja dvergvaxna eftirlíkingu af hamborgara.

Það eru reyndar ekki bara skyndibitastaðir sem hafa valdið Púkanum vonbrigðum hér á landi - alversta þjónusta sem hann hefur fengið var á einum af dýrari veitingastöðum bæjarins, en það er efni í aðra sögu, sem ef til vill verður sögð síðar.

Hvað um það, hafa einhverjir aðrir sínar eigin hryllingssögur af íslenskum skyndibitastöðum - eða sérstök meðmæli með einhverjum stað sem ekki veldur vonbrigðum?


Stoltur af stelpunni...

Púkinn leggur það ekki í vana sinn að skrifa um mál sem tengjast fjölskyldu hans, en í þetta eina skipti verður þó undantekning gerð þar á.

Málið er nefnilega að dóttir Púkans er í 7. bekk en hennar bekkur vann keppnina "Reyklaus bekkur" í ár - og Púkinn skammast sín ekkert fyrir að viðurkenna að hann er pínulítið montinn af dótturinni og bekkjarfélögum hennar.

Og hvað gerði bekkurinn svo til að vinna keppnina?  Jú, tvær stuttmyndir, aðra leikna, en hina með "leirkörlum"

Hér er leikna stuttmyndin: 

...og hér er leirkarlamyndin:

Og hvað fá krakkarnir svo í verðlaun?  Jú, ferð til Danmerkur og foreldrarnir skildir eftir heima.


Hlutabréfin og kristalkúla Púkans

crystalballstocksFyrst spá Púkans um hlutabréfaþróun síðustu daga rættist, er kominn tími til að rýna aftur í kristalkúluna og sjá hvað hún segir um íslenska hlutabréfamarkaðinn næstu mánuðina.

(Spá Púkans frá morgni fimmtudags (sjá hér) var annars sú að lækkun miðvikudagsins myndi ganga til baka fimmtudag og föstudag, en síðan yrði stefnan aftur niður á við eftir helgina.)

Það er nefnilega þannig með kristalkúlur að árangur þeirra við að spá fyrir um þróun hlutabréfa virðist engu verri en árangur fjármálaráðgjafa í Armani jakkafötum - spár þeirra um gengisþróun á síðasta ári rættust ekki sérstaklega vel í það minnsta.

Hvað segir kristalkúlan þá?

Jú, í fyrsta lagi það sem ekki mun gerast.  Hlutabréfamarkaðurinn mun ekki hækka það mikið á þessu ári að hann vinni upp þá lækkun sem varð frá miðju síðasta ári. Þær hæðir munu í fyrsta lagi nást árið 2009.  Þeir sem sitja á sínum hlutabréfum og vonast til að verð þeirra nái fljótlega aftur fyrri hæðum verða fyrir vonbrigðum - það þarf meiri þolinmæði til.

Í öðru lagi sér kristalkúlan óvissu næstu vikurnar - óvissu um það hvort verð bréfa hafi náð botni eða ekki.  Fram til páska gætu komið allmargir dagar þar sem gengið sveiflast upp eða niður um nokkur prósent, en einnig er möguleiki á einni stórri dýfu til viðbótar.

Kristalkúlan sér umsvifamikinn aðila sem tengist mjög ákveðnum stjórnmálaflokki eiga í vandræðum vegna rangra fjárfestinga á undanförnum misserum, en einnig sést unnið að því að bjarga viðkomandi, þannig að óvíst er að þetta komist í hámæli.

Í kristalkúlunni sjást líka ýmsir spekingar stíga fram og tala um að kauptækifæri hafi myndast, en hætt er við að hækkanir af þeim sökum verði skammlífar og gangi fljótlega til baka.

Í kristalkúlunni sést birta aðeins yfir markaðinum þegar vorar og einhver hækkun mun verða frá þeim tíma og til loka ársins 2008, þannig að gengið í árslok gæti orðið eilítið skárra en í ársbyrjun.

---------
Púkinn vill taka fram að hann er ekki fjármála- eða verðbréfaráðgjafi og hefur engin réttindi sem slíkur og ráðleggur engum að haga sínum fjárfestingum í samræmi við það sem hér segir.  Þetta er einungis til gamans gert og enginn ætti að taka þessa spá alvarlega, enda er Púkinn bara lítið skrýtið blátt fyrirbæri með stór eyru sem hefur ekkert vit á neinu. Púkinn vill að lokum taka fram að hann á engin hlutabréf sem eru skráð í íslensku kauphöllinni og hefur enga sérstaka hagsmuni af því hvernig þróunin verður.


mbl.is Spá 30% hækkun á hlutabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólavertíð hjá Íslendingabók

islendingabok.isPúkinn hefur veitt því athygli að óvenjulega margir virðast vera að nota íslendingabok.is þessa dagana.  Eftir ofurlitla umhugsun áttaði Púkinn sig á því sem er væntanlega skýringin - jólakort.

Fólk er að athuga hluti eins og "Hvað heitir nýja konan hans Sigga frænda fyrir vestan?", eða "Hvað skírðu Jón og Gunna aftur þriðju stelpuna sína?"

Það er nefnilega skemmtilegra að hafa rétt nöfn í jólakveðjunum.


100.000 flettingar, takk, takk, takk ...

Teljarinn skreið í 100.000 í dag og Púkanum fannst því tímabært að þakka fyrir sig, en í leiðinni að velta fyrir sér hvers vegna nokkur nennir að lesa það sem svona lítið skrýtið blátt fyrirbæri hefur að segja um mannlífið.

Á þeim mánuðum sem eru liðnir frá því að Púkabloggið byrjaði eru greinarnar orðnar 348, en misgáfulegar eins og gengur og gerist.  Ef einhver myndi nenna að lesa í gegnum allar greinarnar myndi viðkomandi sjá að Púkinn skrifar sjaldan um persónuleg málefni, en flestum greinunum má skipta í nokkra hópa, sem er lýst að neðan, ásamt hlekkjum yfir á nokkrar valdar greinar.

Þar sem sá sem stendur á bak við Púkann er mikill áhugamaður um tölvur, tækni og önnur "nördaleg" efni ætti ekki að koma á óvart að allmargar greinar fjalla um þau mál.

Púkanum er uppsigað við vaxandi firringu í þjóðfélaginu, sem meðal annars kemur fram í gengdarlausu bruðli og virðingarleysi fyrir eigum og réttindum annarra.

Púkinn er ekki trúaður, en skrifar oft um trúmál, því meira því fjarstæðukenndari sem trúarskoðanirnar eru og því meiri mannfyrirlitningu sem þær lýsa á "öðrum".

Púkinn á fáa samkynhneigða kunningja, en nokkrar af greinunum fjalla um þeirra mál, eða frekar um þá fordóma sem þeir þurfa að fást við.

Þótt Púkinn sé ekki mjög pólitískur að eðlisfari  finnur hann sig stundum knúinn til að hnýta í heimskulegar ákvarðanir ráðamanna landsins.

Góð menntun er að mati Púkans mikilvægari en flest annað.

Það má í rauninni segja að rauði þráðurinn í gegnum greinar Púkans sé "blogg gegn heimsku", í hvaða mynd sem hún birtist.

Að lokum vill Púkinn aftur þakka þeim sem hafa haft þolinmæði til að lesa skrif hans á þessu ári.


Viljum við fólkið heim?

Einn kunningi Púkans hefur undanfarin ár kennt við bandarískan háskóla, en er nú að hugsa um að koma heim til Íslands.  Þróun húsnæðismála setur þó svolítið strik í reikninginn.   Hann keypti sér lítið hús í Bandaríkjunum, sem hefði sjálfsagt selst á $300.000 fyrir nokkrum árum, en miðað við gengi dollarans þá hefðu það verið um 30 milljónir íslenskra króna, sem hefðu dugað vel á þeim tíma til húsakaupa.

Nú hefur fasteignaverð hins vegar lækkað í Bandaríkjunum, þannig að hann fær sjálfsagt ekki nema $250.000 fyrir húsið þar, og vegna gengislækkunar dollarans eru það 15 milljónir.  Það fæst ekki mikið fyrir þá upphæð á fasteignamarkaðinum á Íslandi í dag, eins og verðlagið hefur þróast hér.

Samt ætlar þessi maður að koma heim - hann er nefnilega ennþá þeirrar skoðunar að það sé gott að búa á Íslandi.

Púkinn er hins vegar hræddur um að margir aðrir hugsi sig tvisvar um - mun fólk sem hefur farið í framhaldsnám og á lítið annað en námslán á bakinu hafa áhuga á að koma aftur inn í þann okurmarkað sem nú er hér?

Er þjóðfélagið að hrekja unga, menntaða fólkið úr landi?


"Hinsegin hjónabönd"

polygamyPúkinn var að hugleiða þessa "útvíkkun" á hjónabandshugtakinu, þannig að það nái yfir tvo samkynja einstaklinga.

En hvers vegna að láta þar staðar numið?  Er það ekki mismunun gagnvart þeim sem viðurkenna enn önnur tilbrigði við hjónabönd.  Hvers eiga fjölkvæningar t.d. að gjalda?  Setjum svo að hingað til lands flytji múslími með tvær eiginkonur - er það ekki mismunun gegn honum að íslenska kerfið viðurkenni bara eina eiginkonu?

Nú ef réttur hans til að vera í hjónabandi með báðum konum sínum verður viðurkenndur, þá hlýtur það sama að gilda fyrir þá sem aðhyllast önnur (eða engin) trúarbrögð - annað væri mismunun eftir trúarskoðunum, þannig að óhjákvæmilegt er að leyfa fjölkvæni í framhaldinu, ekki satt?

Síðan þarf auðvitað að lagfæra kynjamisréttið - það gengur auðsjáanlega ekki að leyfa körlum að eiga margar konur nema konur megi eiga marga menn - sem að sjálfsögðu opnar möguleikann á hóphjónaböndum, þar sem margir einstaklingar eru giftir mörgum einstaklingum af sama eða gagnstæðu kyni.  Annað væri mismunun, eða hvað?

En bíðum við - það er enn mismunun til staðar - það er enn gert ráð fyrir að fólk geti einungis gifst öðrum mannverum - þetta er að sjálfsögðu tegunda-ismi af verstu gerð - það verður að halda þeim möguleika opnum að fólk geti gifst vélmennum í framtíðinni. 

(Að gefnu tilefni vill Púkinn taka fram að umræður um giftingar barna, dýra og náskyldra koma þessu ekki við og athugasemdir um slíkt eru ekki velkomnar).


Hverjir eru Íslendingar?

buningÞað er svo sem gott og blessað að segja að Íslendingar hafi orðið 311.396 um mitt árið, en gallinn er bara sá að það er ekki rétt - raunveruleg tala er og hefur alltaf verið á reiki, að hluta vegna þess að það er ekki alveg fullkomlega ljóst hverjir eru í rauninni Íslendingar, en að hluta vegna þess að skráningin er ófullkomin

Hin opinbera tala er fengin úr skrám Hagstofunnar, en þótt þau gögn séu uppfærð samviskusamlega varðandi fæðingar og andlát fólks hér á landi, er það ekki endilega raunin varðandi Íslendinga búsetta erlendis.  Tökum sem dæmi að ef íslenskir námsmenn eignast barn erlendis er ekki sjálfgefið að þau gögn skili sér samstundis heim til Íslands - það geta liðið mánuðir eða jafnvel ár þangað til börnin rata inn í kerfið á Íslandi.  Sama á við um einstaklinga sem hafa flutt úr landi fyrir mörgum áratugum - þeir geta hangið inni í Þjóðskránni árum eða jafnvel áratugum eftir andlát sitt, því upplýsingarnar berast ekki endilega hingað.

Ástandið verður síðan enn flóknara þegar skoðaðir eru Vestur-Íslendingar eða aðrir útflytjendur - hvenær hætta menn að vera Íslendingar?  

Ríkisborgararéttur segir heldur ekki allt - þess eru dæmi að aðilar hafi fengið hraðafgreiðslu á ríkisborgararétti, svona til að þeir gætu leikið með íslenskum landsliðum, en um leið og þeir fá íslenskt vegabréf í hendur eru þeir farnir - eru þessir aðilar Íslendingar?

Nei, málið er flóknara en svo að hægt sé að segja að Íslendingar séu nákvæmlega 311.396 - nema þá að telja upp alla nauðsynlega fyrirvara.


mbl.is Íslendingar orðnir 311 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband