Færsluflokkur: Trúmál

Allt á réttri leið

atheist-bus_1217553c.jpg

Það er ýmislegt sem Púkanum líkar ekki við Bandaríkin og hin almenna trúrækni í því landi er þar á meðal.

Reyndar er spurning hvort hreinlega beri ekki að tala um trúaráráttu - þrátt fyrir aðskilnað ríkis og kirkju á pappírnum hafa trúarhópar meiri ítök en í mörgum þeim löndum þar sem finna má opinberar þjóðkirkjur, eins og t.d. á Íslandi.

A vesturlöndum er fylgni milli menntunar og trúleysis, þannig að það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að efasemdarmönnum fjölgi meðal háskólastúndenta.  Púkinn fagnar því sérstaklega að slíkt sé að gerast við skóla eins og Harvard, því líkur eru á því að úr slíkum skólum muni koma margir þeirra sem fara með völd í framtíðinni - þingmenn og dómarar þar á meðal.

 

 

 

 

 


mbl.is Trúrækni háskólanema dvínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meingallaður mannréttindakafli

skjaldarmerki.jpgPúkinn hefur frá upphafi haft mikinn áhuga á yfirstandandi endurskoðun á stjórnarskránni og þykir því dapurt hve illa tókst til með einn ákveðinn kafla - mannréttindakaflann sem hefur margvíslega galla, sérstaklega í sumum af þeim nýju greinum sem hefur verið bætt við. 

Þar sem þessi fullyrðing þarfnast nánari rökstuðnings fylgja hér á eftir umræddar greinar ásamt athugasemdum.

Sérhver manneskja hefur meðfæddan rétt til lífs.

Þessi grein gæti valdið vandamálum í framtíðinni, til dæmis varðandi einstaklinga sem haldið er á lífi með tækjabúnaði á sjúkrahúsum, þegar heilastarfsemi er hætt og engin von um bata.  Er það þá stórnarskrárbrot að "slökkva á" viðkomandi?  Hvaða réttindi veitir þessi grein - breytir hún einhverju fyrir einhverja, eða finnst mönnum hún bara hljóma fallega?

Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

Hvað þýðir þessi grein í raun?  Jú jú,  hún hljómar voðalega fallega, svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en hvaða merkingu hefur þetta í raun?  Þessi grein er ámóta innihaldslaus og stefnuyfirlýsing dæmigerðs stjórnmálaflokks.  

Skoðum til dæmis einstakling sem flestir geta verið sammála um að lifi ekki með reisn - heimilislausan róna eða dópista sem betlar eða stelur sér til framfæris.  Samkvæmt stjórnarskránni á hann "rétt á að lifa með reisn" - en í hverju felst sá réttur - hverju er hann bættari með þessa grein í stjórnarskránni?  Skoðum annað dæmi - fanga sem dæmdur hefur verið fyrir alvarleg brot og er í einangrun í fangelsi.  Er það að "lifa með reisn"?  Ef ekki, er þá verið að brjóta á einhverjum stjórnarskrárvörðum réttindum viðkomandi?

Hvaða tilgangi þjónar þessi grein eiginlega?  Púkinn fær einfaldlega ekki séð að nokkuð gagn sé að henni.

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Það eru margir gallar við þessa grein.  Sá fyrsti er málfarið - "Öll erum við.."  er í ósamræmi við allar aðrar greinar stjórnarskrárinnar - til að gæta samræmis þyrfti orðalagið að vera "Allir eru...".

Síðan er þessi grein einfaldlega röng - við erum ekki öll jöfn fyrir lögum - það má t.d. vísa í 49. grein stjórnarskrárinnar um friðhelgi alþingismanna, eða 84. grein um friðhelgi forseta - með því að segja að allir séu jafnir fyrir lögum er stjórnarskráin því í vissri mótsögn við sjálfa sig.

Stærsti galli greinarinnar er hins vegar sá að ekki er ljóst hvaða "mannréttindi" um er að ræða.  Svona grein býður heim endalausu þrasi í framtíðinni um hvort tiltekin mismunun feli í sér brot á mannréttindum eða ekki.

Að auki er það einfaldlega þannig að flestir telja ákveðna mismunun eðlilega, jafnvel þótt hún sé vegna einhverra þeirra þátta sem sérstaklega eru taldir upp að ofan - sem dæmi má nefna aldursbundin réttindi, eins og að mega taka bílpróf eða kaupa áfengi - það er ekki öll mismunun mannréttindabrot.

Síðan er enn ein spurning hvaða aðrir þættir teljast sambærilegir við þá sem taldir eru upp.   Má til dæmis mismuna fólki vegna háralitar, blóðflokks, menntunar, starfsreynslu eða getu að öðru leyti?

Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Púkanum finnst þetta skrýtin grein að mörgu leyti.  Tilvísunin í "netið" viðrist ef til vill eðlileg í dag, en myndi okkur ekki þykja frekar hlálegt ef í núverandi stjórnarskrá væri klausa um að ekki mætti skerða aðgang landsmanna að ritsímanum (sem var jú nýleg og merkileg tækni fyrir 100 árum síðan) - hver veit hvað verður komið í stað netsins eftir önnur 100 ár - viljum við hafa klausu í stjórnarskránni sem vísar í tiltekna tækni sem gæti orðið úrelt löngu á undan stjórnarskránni?

Sáðn er það spurning um "skerðingu" aðgangs. Í dag er aðgangur skertur á margan hátt.  Fyrirtæki, stofnanir og skólar skerða aðgang að klámefni og ólöglegu eða vafasömu efni á margan hátt - sumir foreldrar skerða aðgang barna sinna með tímatakmörkunum eða á aðra vegu - er slík skerðing stjórnarskrárbrot? Ef svo er, þá er þessi grein verri en gagnslaus.

Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

Þetta er frekar gagnslaus grein, því ljóst er að öll lög sem sett væru myndu fela í sér margvíslegar takmarkanir á "frelsi vísinda, fræða og lista" - það má ekki framkvæma hvað sem er í nafni vísinda - vísindin geta aldrei orðið (og eiga ekki að vera) fullkomlega frjáls og ábyrgðarlaus - og sama gildir um listina.  Hvaða tilgangi þjónar þá þessi grein?  Væri einhver akaði að því að fella hana burt?


mbl.is Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendir eftir 22 daga!

judgementday.jpgÞeir sem kíktu í Fréttablaðið í dag tóku ef til vill eftir því að á síðu 27 er heilsíðuauglýsing um yfirvofandi dómsdag - 21. maí.

Það fyrsta sem Púkanum datt í hug var að þetta væri auglýsing fyrir einhverja bíómynd sem yrði frumsýnd þann dag, en í ljós kom að þessi auglýsing er á vegum einhverra sem er fúlasta alvara.

Púkinn hélt reyndar að svona þvættingur væri nánast einskorðaður til Bandaríkin, en einhvern veginn hefur þessi della náð að teygja sig hingaðtil Íslands.

Það er reyndar forvitnilegt að skoða þá sem helst standa á bakvið þetta, en vefsíðan þeirra er http://www.familyradio.com, þar sem meðal annars má finna teljara sem telur niður að dómsdegi...Púkinn getur ekki gert annað en velt fyrir sér hvað gerist með þann teljara 22 maí, en það er annað mál.

Svolítil leit á vefnum leiddi í ljós fjölda vefsíðna sem flytja þennan boðskap - að dómsdagur sé í nánd - til dæmis http://www.may-212011.com/ og http://judgementday2011.com/

Já, svo má ekki gleyma http://www.youtube.com/watch?v=yI5_xp_2f8w - reyndar svolítið undarlegt val á tónlist þar, en hvað um það.

 Rökstuðniingurinn fyrir þessum degi er nú frekar ræfilslegur -  annars vegar virðist boðskapurinn byggja á því að talsvert hafi veriðuð járðskjálfta, flóð og hvirfilvinda undanfarið - já, svo ekki sé nú minnst á tilvist "gay pride",sem margir af þessum "trúarnötturum"virðast telja örugghtmerki þess að heimsendir sé í nánd.

Hins vegar eru um að ræða "útreikninga" Harold Camping, sem líta svona út:

  • Ef "heilögu" tölurnar 5, 10 og 17 eru margfaldaðar saman er útkoman 850.
  • 850 í öðru veldi er 722.500
  • Þann 21. maí 2011 eru 722.500 dagar liðnir frá 1. apríl árið 33.
  • Þar af leiðandi er dómsdagur eftir 22 daga.
Æ já - svo eru líka (samkvæmt álíka "gáfulegum" útreikningum) liðin nákvæmlega 7000 ár frá syndaflóðinu.

 Púkanum finnst ótrúlegt hversu auðtrúa fólk er og hversu margir gleypa athugasemdalaust við svona þvættingi. Harold Camping er auðvitað ekki sáfyristi sem spáirdómsdegi - og mun væntanlega afsaka sig með "reikniskekkju" þegar 22. maí rennur upp og í ljós kemur að ekkert gerðist.

Það ætti nú ekki að verða neitt sérstakt vandamál fyrir hann - það eru margir söfnuðir eins og Sjöunda Dags Aðventistar og Vottar Jehóva sem hafa langasögu af spádómum sem hafa brugðist


Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?

atheist-bus_1217553c.jpgÞað er dapurlegt að enn í dag skuli vera til fólk sem trúir því að náttúruhamfarir séu refsingar frá hendi einhverra æðri máttarvalda.

Þetta var skiljanlegt fyrr á öldum, áður en menn skildu hegðun náttúrunnar jafn vel og þeir gerðu í dag, en jafnvel fyrir 1000 árum síðan voru þeir til sem höfðu rænu á að segja eins og Snorri goði gerði á sínum tíma.

Nei, Púkinn vorkennir bara svona fólki og þeim sem fylgja þeim í blindni.

 

 


mbl.is Gosið endurspeglaði reiði Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sannleikurinn óþægilegur? (lokun á DoctorE)

Það er búið að loka á bloggið hjá DoctorE.

Það sem hann vann sér til sakar var að efast um geðheilsu eða siðferði hinnar misheppnuðu jarðskjálftaspákonu - að vísu með róttækara málfari en Púkinn myndi nota.

Púkinn er hins vegar í meginatriðum sammála DoctorE - manneskja sem kemur fram og hræðir auðtrúa einstaklinga með svona spádómum á annað hvort við einhvers konar vandamál að stríða eða er hreinn og klár svikahrappur.

Púkinn hvetur alla til að hlusta á viðtalið við "sjáandann"  og mynda sér sína eigin skoðun á geðheilsu og siðferði viðkomandi.

Skoðun Púkans er hins vegar sú að sé það stefna blog.is að loka á þá sem segja sannleikann, þótt hann sé óþægilegur, þá efast Púkinn um að hann muni eiga samleið með blog.is mikið lengur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband