Veiking krónunnar - það sem ekki er sagt

Púkanum finnst ýmislegt vanta inn í umræðuna um veikingu krónunnar og margir eru ýmist ekki að skilja hvers vegna henni er ekki leyft að falla almennilega, nú eða hvers vegna hún er ekki farin að styrkjast.

Skoðum fyrst þetta með styrkinguna.  Púkinn lýsti því hér hvernig fyrirtæki væru að fara framhjá gjaldeyrishöftunum, en síðan var stoppað upp í það gat með neyðarlögum.  Malið er hins vegar að þetta er aðeins eitt af þremur götum - það eru enn tvær góðar (og fullkomlega löglegar) aðferðir sem útflutningsfyrirtæki nota til að koma ekki með gjaldeyri í bankana.  

Það eru mun fleiri ástæður fyrir veikingu krónunnar.  Þótt útflutningur sé að aukast í krónum talið, stendur hann í stað eða er jafnvel að dragast saman í mörgum greinum sé hann mældur í erlendri mynt - álverð hefur hrapað og verð á fiski hefur lækkað erlendis.  Sem betur fer hefur innflutningur dregist enn meira saman og þannig tekst að halda jákvæðum viðskiptajöfnuði - það þarf bara að halda þeirri stöðu til frambúðar til að krónan styrkist.

Það er hins vegar gífurlegur þrýstingur á krónuna - eigendur jöklabréfa sitja uppi með krónur sem þeir telja verðlitlar og vilja ólmir skipta þeim í erlenda mynt áður en krónan fellur enn meira.  Það mætti því spyrja - hvers vegna ekki bara að leyfa krónunni að falla, þangað til hún er orðin það lág að jöklabréfaeigendurnir kjósi heldur að bíða með krónurnar uns hún styrkist aftur.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að þetta mun ekki gerast.  Ein er sú að þetta myndi þýða fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sem sýndu þá heimsku að taka lán í erlendri mynt á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk.  Já ég kalla þetta heimsku.  Það gátu allir séð að krónan myndi veikjast verulega - spurningin var bara hvenær og hversu mikið.  Það má hins vegar ekki leyfa þessi fjöldagjaldþrot svona rétt fyrir kosningar.

Önnur ástæða er staða aðila eins og Landsvirkjunar og OR, sem ekki myndu ráða við afborganir af erlendum lánum ef krónan félli verulega.  Gjaldþrot þeirra myndi í raun þýða að yfirráð orkulindanna féllu í hendur erlendra kröfuhafa - það skiptir nefnilega ekki máli hverjir eiga orkulindirnar - það skiptir máli hverjir eiga réttinn til að nýta þær.

Þriðja ástæðan varðar óuppgerða gjaldeyrissamninga.  Ef krónan félli og yrði t.d. 300/kr evran, myndi staða þeirra sem eiga óuppgerða samninga breytast verulega - það yrði erfitt að rökstyðja að samningana skuli gera upp á því gervigengi sem nú er haldið handvirkt uppi með gjaldeyrishöftum.

Nei, krónunni verður ekki leyft aðfalla svo mikið - a.m.k. ekki fyrr en eftir kosningar og þegar gjaldeyrissamningarnir hafa verið gerðir upp.


mbl.is Gengi krónunnar veiktist um 2,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Heldur þú þá að krónan veikist meira eftir kosningar?

Ásta Kristín Norrman, 8.4.2009 kl. 12:44

2 Smámynd: Sigurjón

Athyglivert.  Það er eins gott að ég á enn fullt af júgrum síðan í síðustu utanlandsferð...

Sigurjón, 8.4.2009 kl. 13:07

3 Smámynd: Púkinn

Vandamálið er að gengið núna er ekki "raunverulegt", það er að segja, það endurspeglar ekki framboð og eftirspurn - eða með öðrum orðum - krónan er ekki fljótandi.

Ef gjaldeyrishöftum væri aflétt, myndi krónan hrapa, meðan menn kepptus við að skripta krónum í aðra gjaldmiðla áður en hún félli enn meira.  Síðan yrði einhverjum botni náð, þegar nægjanlega margir krónueigendur eru komnir í "ó shit!" stöðu - þ.e.a.s. hugsa sem svo að krónan geti ekki fallið meira og það é betra að sitja á krónunum. Hins vegar, að þessu loknu gæti leiðin bara legið upp á við, svo framarlega sem viðskiptajöfnuður helst jákvæður til lengri tíma litið.

Slíkt fall myndi valda hreinni upplausn - allherjargjaldþroti þeirra sem skulda í erlendri mynt og gífurlegum verðhækkunum á innfluttum varningi með tilheyrandi verðbólgu.

Ég ætla ekki að spá fyrir um hvað gerist - en ég hef fulla trú á hæfni íslenskra stjórnmálamanna til að taka rangar ákvarðanir.

Það er aldeilis glæsileg arfleifðin sem fjármálaóstjórn D og B lista skildi eftir, ha?

Púkinn, 8.4.2009 kl. 15:26

4 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Ef Púkinn fitnar á fjósbitanum eftir því sem krónan veikist hlýtur Púkinn að verða alveg spikfeitur eftir kosningar.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 8.4.2009 kl. 17:05

5 Smámynd: Offari

Krónan er eins og bopparbolti sem hoppar upp og niður. Hún þarf að detta niðrá eitthvað fast til að boppa upp aftur. Meðan hún svifur í lausu lofti fer hún alltaf niður því hana vantar spyrnu til að hefja uppferð sína.

Offari, 8.4.2009 kl. 21:14

6 Smámynd: Jóhannes Gunnarsson

Blessaður,

 ég er ekki alveg sammála þér um að þetta hafi eingöngu verið "heimska" í fólki að taka myntkörfulán fyrir fasteign eða ökutæki (og ökutækjum í mögrum tilfellum ) , en þekkingarleysi og vankunnátta í fjármálum klárlega. Ég veit um fullt af fólki sem tók þessi lán í góðri trú að því á pappírunum litu afborganirnar mjög vel út vegna þess að vextirnir á erlendu myntunum voru mun lægri og þjónustufulltrúar bankanna og annarra lánastofnanna sýndu viðskiptavinum sínum oftast afborgunarferlið af lánunum miðað við að gengi krónunnar breyttist ekki. 

annars langaði mig bara að kvitta, ég les alltaf bloggið þitt, er með það í "google reader " hjá mér

 bestu kveðjur

Jóhannes Gunnarsson, 9.4.2009 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband