Ástæður þess að við verðum að borga Icesave

Það virðast vera einhverjir sem eru á þeirri skoðun að það sé eitthvað vafamál hvort Íslendingar séu skyldugir til að borga Icesave eða ekki.  Púkinn fær ekki séð að það sé nokkur spurning - við sitjum uppi með að þurfa að borga þetta - það er bara spurning um útfærsluna.

Þjóðin hafnaði á sínum tíma ákveðinni útfærslu á því hvernig Icesave væri borgað og nú í dag sjást jákvæðar afleiðingar þess - þau kjör sem nú standa til boða eru mun hagstæðari en þau fyrri.  Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla snerist hins vegar ekki um hvort yfirhöfuð skyldi borga Icesave eða ekki.

Meginástæða þess að við verðum að borga þetta virðist einföld.

Eftir bankahrunið bar ríkisstjórninni sennilega ekki skylda til að ábyrgjast bankainnistæður umfram það sem tryggingarsjóðurinn hafði bolmagn til.  Það var hins vegar tekin ákvörðun um að ábyrgjast innistæður í íslenskum útibúum bankanna að fullu.

Það er vandamálið.

Með því að ábyrgjast innistæður í útibúum á Íslandi en ekki erlendis, var ríkið að mismuna - nokkuð sem virðist stangast á við EES samninginn og við kæmumst sennilega ekki upp með fyrir dómstólum.

Ef ákvörðun hefði verið tekin um að ábyrgjast aðeins innistæður í íslenskum krónum, eða ábyrgjast aðeins innistæður að því marki sem tryggingasjóðurinn hafði bolmagn til, þá hefðum við sennilega losnað við Icesave vandamálið - en það var bara ekki gert og þess vegna sitjum við í súpunni.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á...segja 

  • ...bara ef Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hefðu ekki klúðrað einkavæðingu bankanna.
  • ...bara ef fjármálaeftirlitið hefði ekki verið gersamlega óhæft.
  • ...bara ef Icesave hefði verið rekið í dótturfyrirtæki (eins og Kaupþing Edge), en ekki útibúi.
  • ...bara ef endurskoðendur bankanna hefðu sinnt skyldu sinn
Vandamálið er bara það að ekkert af þessu leysir okkur undan vandamálinu - við erum nokkuð örugglega skyldug til að borga þetta.

 

 

 

 


mbl.is Greiðslur hefjast í júlí 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Og bara ef við hefðum verið með Seðlabankastjóra sem var starfi sínu vaxinn.

hilmar jónsson, 9.12.2010 kl. 18:04

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það hefur komið fram í fréttum að eigendur Glitnis banka greiddu sér 85 milljarða í seinni hluta september 2008 þegar allt stefndi í hrun, hreinsuðu kassann en vildu fá meira fé. Gengu því á fund nefnds Seðlabankastjóra í því skyni og var neitað. Þessum stjóra var greinilega ekki alls varnað...

Kolbrún Hilmars, 9.12.2010 kl. 18:13

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þú tekur ekki með í reikninginn að frá 2006 var öll starfsemi bankans skipulögð fjársvik. Íslenska ríkið getur ekki tekið ábyrgð á þessum innlánsreikningum. Frakkar tóku ábyrgð og höfnuðu þessum reikningum. Bretar og Hollendingar gerðu það ekki og bera því fulla ábyrgð. Glæpabankinn starfaði enda mest í Bretlandi og þar var þýfinu líka að mestu ráðastafað. Það kom ekkert fé til Íslands af þessum ránsfeng. Nú er ekki tíminn til að sýna drengskap Friðrik. Ef bankinn hefði verið heiðarlega rekinn hefði ekkert af þessu gerst

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.12.2010 kl. 18:18

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Ástæða þess að við þurfum ekki að borga Icesave er að bæði Bretar og Hollendingar skulda okkur skaðabætur, Bretar vegna 10. maí 1940 þegar þeir gerðu hérna innrás og brutu fullveldi landsins og vegna hryðjuverkalaganna.  Hollendingar vegna Tyrkjaránsins 1627 sem var skipulagt af Hollendingum og ef þeir segja að það hefi verið einstaklingar þá má benda á að Landsbankinn var einkabanki. 

En hvað sem því líður þá verðum við að fara að losa okkur við þá óhæfu stjórnmálamenn sem sitja hér á þingi og þá á ég við þá alla og alla þá stjórnmálaflokka sem hér starfa.

Einar Þór Strand, 9.12.2010 kl. 18:19

5 Smámynd: hilmar  jónsson

Nei Kolbrún. Það er komið í ljós að svokallaðar aðvaranir hans eiga ekki við rök að styðjast. Hann vissi hvorki í þennan heim né annan fyrr en allt brast.

Og hvern andskotan var verið að koma þessum manni fyrir í Seðlabankanum ?

hilmar jónsson, 9.12.2010 kl. 18:45

6 identicon

Er það ekki frekar hæpin lögfræði að hægt sé að rukka fyrir hernámið?  Hvað með þá efnahagslegu búbót sem fylgdi hernáminu?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 18:47

7 Smámynd: Einar Þór Strand

H.T. nei það er ekkert hæpið, í raun er það þannig að það má segja að við litum á það sem greiða að við settum okkur ekki uppá móti því og það má segja að þegar við fáum ekki greiða á móti þá þarf að fara að verðleggja greiðann.

Einar Þór Strand, 9.12.2010 kl. 19:11

8 identicon

Það þýðir lítið að rökstyðja málið með því að segja að við lítum að þetta sem greiða.  Ég hugsa að alþjóðlegur dómstóll myndi vilja eitthvað haldbærra.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 19:52

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Já það er nokkuð haldbært að þeir komu óboðnir og innrásinni var mótmælt þó svo að það hafi verið gert mjög kurteislega og samkvæmt Versala samningnum þá ber innrásaraðili alltaf fébóta ábyrgð.

Einar Þór Strand, 9.12.2010 kl. 20:51

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rangt hjá þér, Friðrik. Þjóðin bar enga lagalega ábyrgð á Icesave-málinu, það sést HÉR á því tilskipunarákvæði ESB, 94/19/EC, sem fríar ríkið við ábyrgð á einkaskuldum einkabanka.

Og "mismununar"-rökin halda ekki. Ríki hefur í krafti fullveldis síns (sem við hefðum EKKI í ESB!!) fulla heimild til að gæta sinna þjoðhagslegu hagsmuna. Lögspekingarnir Lárus L. Blöndal og Stefán Má Stefánsson hafa (ásamt Sigurði Líndal) sýnt fram á á það með ýmsum rökum, að mismununar-mótbáran gegn okkur stenzt ekki fræðilega skoðun, sjá t.d. hér: Um mismunun á grundvelli þjóðernis (Mbl. 13. jan. 2010).

Þar að auki eru Bretar enn að brjóta lög um jafnræði í EES með því að lána eigin innistæðutryggingasjóði með 1,5% vöxtum, en ætlast til 120% hærri vaxta (3,3%) af af TIF og okkur!

Þetta er líka gott fyrir þig: Icesave-Vísisfréttir: ESB bótaskylt vegna tilskipunar 94/14/EC!

Lestu svo þetta frá þínum eigin mönnum, um afstöðu lagasérfræðinga Árna Mathiesen fjármálaráðherra í þessari Álitsgerð Íslands til framlagningar fyrir gerðardóm í nóv. 2008. – Ekki lagt fram (vegna þess að Ísland neitaði svo að taka þátt í þeim fjandsamlega gerðardómi)

Jón Valur Jensson, 9.12.2010 kl. 22:18

11 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

nú hefur Ísland fengið heimild til að mismuna aðilum innan EES!  Er ekki hægt að fá sambærilega heimild til að mismuna gagnvart innistæðueigendum?

Það má mismuna innan EES!  Hví ekki nýta sér það til að létta skuldum af landinu og sleppa því að greiða Icesave?

Lúðvík Júlíusson, 10.12.2010 kl. 00:50

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Rangt hjá þér, Friðrik. Þjóðin bar enga lagalega ábyrgð á Icesave-málinu, það sést HÉR á því tilskipunarákvæði ESB, 94/19/EC, sem fríar ríkið við ábyrgð á einkaskuldum einkabanka."

Þetta er nú alröng útlegging og reyndar stórfurðulegt að einhver hafi yfirhöfuð haldið þessu uppi.  Ef eitthvað má lesa þarna út - þá er það nú það, að ríkið verði einmitt ábyrgt fyrir lágmarkinu!

Þar fyrir utan er skaðabótateoría evrópulaga ekki þannig að þú lítir á einhverja klausu í dírektífu og segi:  Hm. hm. hugsa hugsa,  ábyrgt ekki ábyrgt etc.

Nei nei.  Hún er ekki þannig.  Það er litið á eðli og efni máls.  Það er ákveðinn rammi og litið til hvort og hvernig þessi eða hinn málareksturinn falli inní ramma skaðabótateoríunnar.

Umrætt atriði fellur inní skaðabótaramman að fullu.  Bara inní hann miðjann má segja.  Fellur inní hann frá öllum hluðum og í hverju horni.

Menn geta lesið álit ESA til skilnings og unnið sig svo áfram útfrá því.

Málið er menn fást aldrei til að kynna sér skaðabótateoríu evrópulaga heilt yfir.  Hvernig hún er upp byggð og hvernig hún hefur þróast.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.12.2010 kl. 11:32

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rangt hjá þér, Ómar Bjarki. Og framkvæmdastjórn ESB, sem þú fellur fram fyrir og tilbiður í hverri viku, ef ekki hvern dag, hefur sjálf viðurkennt, að það sé EKKI ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðunum á EES-svæðinu.

Sjá um þetta hér: Svör fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB við spurningum ABC Nyheter – hér kom í ljós, að í reglugerð ESB er ENGIN RÍKISTRYGGING innistæðu-tryggingasjóðanna.

Einnig: Ólafur Ísleifsson œconomicus og Bjarni Benediktsson politicus: Staða Íslands styrktist við yfirlýsingu fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB.

Ennfremur: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: ESB staðfestir að það var EKKI ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum.

Hér er líka svolítið geinarupphaf handa ykkur, fylgismönnum Icesave-stefnunnar:

RÍKIÐ BER EKKI ÁBYRGÐ á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta – né á Icesave!

Þetta kemur fram á minnisblaði lögfræðinga sem kynnt var viðskiptanefnd Alþingis í gær. Formaðurinn Lilja Mósesdóttir segir minnisblaðið mega túlka svo, að andstæðingar Icesave-samningsins frá liðnu ári hafi haft rétt fyrir sér. Sjá hér: RÍKIÐ BER EKKI ÁBYRGÐ og Engin ríkisábyrgð, þar segir m.a.:

"Í minnisblaði lögfræðinga sem kynnt var viðskiptanefnd í gær kemur m.a. fram að engin ákvæði um ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sé að finna í lögum um sjóðinn. Þá sé heldur ekki að finna ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins í frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta."

Ennfremur:

"Samkvæmt minnisblaði lögfræðinganna er það hafið yfir allan vafa að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á þeim sjóði.

Lögfræðingurinn sem samdi minnisblaðið og kynnti það fyrir viðskiptanefnd er Áslaug Árnadóttir en hún var áður stjórnarformaður sjóðsins auk þess að gegna tímabundið starfi ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins."

Og takið eftir þessu:

"Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, segir álitið hafa þær breytingar í för með sér að nú geti Alþingi bætt inn lagaákvæði um að engin ríkisábyrgð sé á sjóðnum án þess að óttast þá túlkun á núgildandi löggjöf að hún hafi tryggt ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. [...]"

Fullnaðarsigur að vinnast?

"Svo mætti ætla af mörgu, sem hefur verið að koma fram upp á síðkastið, t.d. frá norska prófessornum í þjóðréttarfræði [sem segir: Ísland MÁ EKKI borga ...] – og jafnvel frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins – þó í því tilfelli með múðri, sem þar er haldið uppi til að reyna að halda því fram, að enda þótt ríkin á EES-svæðinu eigi ekki að ábyrgjast tryggingasjóðina, séu tvær ástæður til að gera þar undantekningu með Ísland! Hafa menn þó tætt báðar í sig sem fráleitar. [...]"

PS. Enn til hliðsjónar fyrir Ómar Bjarka og aðra sama sinnis: "ESB segir ESA hafa reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands" um tryggingasjóð innistæðueigenda.

Jón Valur Jensson, 10.12.2010 kl. 16:42

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta um "fullnaðarsigurinn" var reyndar skrifað 25.8. sl.! Enn á sá sigur eftir að vinnast – og margir sannir Íslendingar munu gtaka þátt í því að tyggja þjóðinni og börnum okkar þann sigur.

Jón Valur Jensson, 10.12.2010 kl. 16:47

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afsakið meinlegar ásláttarvillur!

Jón Valur Jensson, 10.12.2010 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband