Miðvikudagur, 27. júlí 2011
Meingallaður mannréttindakafli
Púkinn hefur frá upphafi haft mikinn áhuga á yfirstandandi endurskoðun á stjórnarskránni og þykir því dapurt hve illa tókst til með einn ákveðinn kafla - mannréttindakaflann sem hefur margvíslega galla, sérstaklega í sumum af þeim nýju greinum sem hefur verið bætt við.
Þar sem þessi fullyrðing þarfnast nánari rökstuðnings fylgja hér á eftir umræddar greinar ásamt athugasemdum.
Sérhver manneskja hefur meðfæddan rétt til lífs.
Þessi grein gæti valdið vandamálum í framtíðinni, til dæmis varðandi einstaklinga sem haldið er á lífi með tækjabúnaði á sjúkrahúsum, þegar heilastarfsemi er hætt og engin von um bata. Er það þá stórnarskrárbrot að "slökkva á" viðkomandi? Hvaða réttindi veitir þessi grein - breytir hún einhverju fyrir einhverja, eða finnst mönnum hún bara hljóma fallega?
Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
Hvað þýðir þessi grein í raun? Jú jú, hún hljómar voðalega fallega, svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en hvaða merkingu hefur þetta í raun? Þessi grein er ámóta innihaldslaus og stefnuyfirlýsing dæmigerðs stjórnmálaflokks.
Skoðum til dæmis einstakling sem flestir geta verið sammála um að lifi ekki með reisn - heimilislausan róna eða dópista sem betlar eða stelur sér til framfæris. Samkvæmt stjórnarskránni á hann "rétt á að lifa með reisn" - en í hverju felst sá réttur - hverju er hann bættari með þessa grein í stjórnarskránni? Skoðum annað dæmi - fanga sem dæmdur hefur verið fyrir alvarleg brot og er í einangrun í fangelsi. Er það að "lifa með reisn"? Ef ekki, er þá verið að brjóta á einhverjum stjórnarskrárvörðum réttindum viðkomandi?
Hvaða tilgangi þjónar þessi grein eiginlega? Púkinn fær einfaldlega ekki séð að nokkuð gagn sé að henni.
Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Það eru margir gallar við þessa grein. Sá fyrsti er málfarið - "Öll erum við.." er í ósamræmi við allar aðrar greinar stjórnarskrárinnar - til að gæta samræmis þyrfti orðalagið að vera "Allir eru...".
Síðan er þessi grein einfaldlega röng - við erum ekki öll jöfn fyrir lögum - það má t.d. vísa í 49. grein stjórnarskrárinnar um friðhelgi alþingismanna, eða 84. grein um friðhelgi forseta - með því að segja að allir séu jafnir fyrir lögum er stjórnarskráin því í vissri mótsögn við sjálfa sig.
Stærsti galli greinarinnar er hins vegar sá að ekki er ljóst hvaða "mannréttindi" um er að ræða. Svona grein býður heim endalausu þrasi í framtíðinni um hvort tiltekin mismunun feli í sér brot á mannréttindum eða ekki.
Að auki er það einfaldlega þannig að flestir telja ákveðna mismunun eðlilega, jafnvel þótt hún sé vegna einhverra þeirra þátta sem sérstaklega eru taldir upp að ofan - sem dæmi má nefna aldursbundin réttindi, eins og að mega taka bílpróf eða kaupa áfengi - það er ekki öll mismunun mannréttindabrot.
Síðan er enn ein spurning hvaða aðrir þættir teljast sambærilegir við þá sem taldir eru upp. Má til dæmis mismuna fólki vegna háralitar, blóðflokks, menntunar, starfsreynslu eða getu að öðru leyti?
Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.
Púkanum finnst þetta skrýtin grein að mörgu leyti. Tilvísunin í "netið" viðrist ef til vill eðlileg í dag, en myndi okkur ekki þykja frekar hlálegt ef í núverandi stjórnarskrá væri klausa um að ekki mætti skerða aðgang landsmanna að ritsímanum (sem var jú nýleg og merkileg tækni fyrir 100 árum síðan) - hver veit hvað verður komið í stað netsins eftir önnur 100 ár - viljum við hafa klausu í stjórnarskránni sem vísar í tiltekna tækni sem gæti orðið úrelt löngu á undan stjórnarskránni?
Sáðn er það spurning um "skerðingu" aðgangs. Í dag er aðgangur skertur á margan hátt. Fyrirtæki, stofnanir og skólar skerða aðgang að klámefni og ólöglegu eða vafasömu efni á margan hátt - sumir foreldrar skerða aðgang barna sinna með tímatakmörkunum eða á aðra vegu - er slík skerðing stjórnarskrárbrot? Ef svo er, þá er þessi grein verri en gagnslaus.
Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.
Þetta er frekar gagnslaus grein, því ljóst er að öll lög sem sett væru myndu fela í sér margvíslegar takmarkanir á "frelsi vísinda, fræða og lista" - það má ekki framkvæma hvað sem er í nafni vísinda - vísindin geta aldrei orðið (og eiga ekki að vera) fullkomlega frjáls og ábyrgðarlaus - og sama gildir um listina. Hvaða tilgangi þjónar þá þessi grein? Væri einhver akaði að því að fella hana burt?
Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál | Breytt s.d. kl. 19:13 | Facebook
Athugasemdir
Mér sýnist þú hitta naglann beint á skallann í öllum tilfellum.
Gaman þætti mér líka að lesa grein eftir þig um það í þessari endurskoðun sem þú ert ánægðastur með.
Óli minn, 27.7.2011 kl. 20:00
Ég hefði viljað sjá þarna skilgreiningu á því hverjir nákvæmlega skuli njóta þessa svokölluðu mannréttinda. Hingað til hafa ýmsir hagsmunaaðilar viljað túlka það þannig að hugtakið nái einhvernveginn til fyrirtækja líka, og í skjóli þess hefur verið svínað massíft á mannréttindum einstaklinga.
Þó ætti að vera til nokkurra bóta að hafa sérstakt kaflaheiti þar sem stendur orðrétt að um sé að ræða mannréttindi. Það er þá strax orðið langsóttara að túlka það þannig að mannréttindi eins og t.d. eignarréttur geti með einhverjum hætti náð til lögaðila sem ekki eru menn.
Ánægjulegt er að sjá líka viðbót við eignarréttarákvæði um að eignarrétti fylgi skyldur sem megi kveða á um með lögum, og að þessi réttur sé almannahagsmunum ekki yfirsterkari. Ég hefði þó viljað sjá gengið lengra og tekin af öll tvímæli með því að bæta þar við einu litlu orði: "Engan mann má skylda til að láta eign sína af hendi..." o.s.frv. En maður fær líklega ekki allar sínar óskir uppfylltar i einni svipan.
Hvað Alþingi mun svo gera við frumvarpið á alveg eftir að koma í ljós. Persónulega treysti ég þingmönnum ekki fyrir næsta húshorn með þetta skjal.
Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2011 kl. 20:58
Núverandi:
"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."
"Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."
Ekki mikill munur í raun ... aðal gallinn við þessar greinar er þessi listi sem er talinn upp. Hvað með rauðhærða, litla, stóra, feita og mjóa ... og svo framvegis? Það á að sleppa svona upptalningarbulli og alhæfa.
Björn Leví Gunnarsson, 28.7.2011 kl. 00:13
Sælir.
Alveg er ég sammála Mumma og hefði viljað sjá miklu ítarlegri skilgreiningar á þeim hugtökum sem nefnd eru í stjórnarskrártillögunni. Þarna var betur heima setið en af stað farið og margt sem er ótrúlega heimskulegt og óljóst.
Ég óska þess eiginlega að Alþingi slái þetta út af borðinu og haldi gömlu stjórnarskránni...
Kv. Sigurjón
Sigurjón, 28.7.2011 kl. 00:14
Í grunnatriðum þá eiga alhæfingar heima í stjórnarskrá. Ef það er ekki hægt að alhæfa um málefnið þá skal útfæra lög til þess.
Björn Leví Gunnarsson, 28.7.2011 kl. 00:30
Ætli jafn réttur óháð tungumáli þýði að maður frá Tansaníu geti krafist þess að fá öll opinber gögn þýdd á swahili ?
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 28.7.2011 kl. 03:05
"Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni"
Gildir þessi grein um allt hálendi Íslands?
Júlíus Valsson, 28.7.2011 kl. 07:41
"Sérhver manneskja hefur meðfæddan rétt til lífs."
Þetta gildir þá EFTIR fæðinguna?
Júlíus Valsson, 28.7.2011 kl. 07:43
"Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista."
Óheftar stofnfrumurannsóknir og tilraunir á fóstrum? Einræktun manna (klónun)?
Júlíus Valsson, 28.7.2011 kl. 07:45
Ég tek undir þessa gagnrýni á mannréttindakaflann. Ég vil einnig benda á enn eina þversögnina í grein 20:
"Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.
Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra."
Í seinni efnisgreininni er sagt "Engan má skylda til aðildar að félagi" en svo er sagt strax í næstu setningu að það megi skylda til aðildar. Heiðarlegast væri bara að hafa þetta "Alla má skylda til aðildar í félagi ef hagsmunir annarra krefjast þess".
Síðan er kannski í lagi að spyrja sig hvað er ráðstöfun stjórnvalds í fyrri efnisgreininni? Nú er Alþingi og ráðuneytin samofinn spillingarvefur með engin mörk á milli.
Sumarliði Einar Daðason, 28.7.2011 kl. 08:30
Og ein spurning enn.
Er einhver trygging fyrir því að alþingismenn færu eftir nýjum lögum frekar en þeim gömlu?????????
Björn Jónsson, 28.7.2011 kl. 15:14
góðir punktar Friðrik og athugasemdir.
Setjið endilega þessa punkta inn á athugasemdakerfi stjórnlagaráðs. T.d. hér:
http://www.stjornlagarad.is/starfid/frumvarp/grein/item35291/
Frosti Sigurjónsson, 28.7.2011 kl. 20:02
Sæll Frosti. Ég gekk reyndar lengra en það og kom ábendingu minni um eignarréttarákvæðið á framfæri við stjórnlagaráðsfulltrúa í eigin persónu.
Björn Jónsson: Mjög góður punktur. Eru refsiákvæði í nýju stjórnarskrárdrögunum? Hvað með skaðabótaábyrgð vegna stjórnarskrárbrota?
Guðmundur Ásgeirsson, 29.7.2011 kl. 02:43
Amen á eftir efninu.
Billi bilaði, 29.7.2011 kl. 13:52
@guðmundur
Varðandi athugasemdir þínar um eignarréttarákvæðið eigi ekki að ná til lögaðila þá má ekki gleyma því að það eru menn sem standa að baki lögaðilanum
Svo reyndar breytir engu hvort að lögaðilum verði kippt útúr þessari skilgreiningu í stjórnarskránni, Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þegar dæmt að lögaðilar njóti þessa réttar og ég dreg í efa að þú sért að leggja til að við segjum okkur frá mannréttindasáttmála evrópu sem er nú meira að segja lögfestur hér á landi
Gunnar Þór Ásgeirsson, 5.8.2011 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.