Föstudagur, 9. febrúar 2007
Capacent flokkurinn
Lao Tze sagði að sérhver þjóð fengi þá leiðtoga sem hún ætti skilið.
Eftir að hafa skoðað íslenska stjórnmálamenn og afrek þeirra í gegnum tíðina er niðurstaðan augljós með hliðsjón af orðum Lao Tze.
Fólk er fífl
Flóknara er það nú ekki. Sé þessi staðreynd höfð í huga er líka augljóst hvers vegna Árni Johnsen komst á þing og hvers vegna efnahagsstjórnin er eins og hún er.
Við púkarnir áttuðum okkur hins vegar nýlega á því hvernig hægt er að gefa þjóðinni ekki bara það sem hún á skilið, heldur einnig það sem hún raunverulega vill.
Skoðanakannanir sýna hátt hlutfall óákveðinna - fólk sér ekki þá valkosti sem það vill...en hvað vill fólk eiginlega?
Jú, fólk vill stjórnmálamenn sem hafa sömu skoðanir og það sjálft, en því miður gera margir stjórnmálamenn þau mistök að hafa eigin skoðanir á hlutunum. Það gengur augljóslega ekki.
Ég vil því kynna hina endanlegu lausn - hið fullkomna lýðræði á íslenskan máta.
Í framboð fyrir Capacent flokkinn fer einungis fólk sem skuldbindur sig til að hafa ekki sjálfstæðar skoðanir. Þvert á móti - Þingmenn flokksins greiða engin atkvæði, halda engar ræður og láta engin nefndarálit frá sér nema að undangenginni skoðanakönnun þar sem vilji almennings er kannaður - og haga sér síðan í samræmi við vilja meirihlutans.
Þetta gæti að sjálfsögðu þýtt að þingmennirnir gætu þurft að hafa eina skoðun fyrir hádegi og aðra seinni part dags. Einhvern veginn finnst manni það þetta hljóma kunnuglega - þeir hafa bara aldrei viljað viðurkenna það.
Capacent flokkurinn væri tilvalinn vettvangur fyrir atvinnulausa leikara - það ætti ekki að vera mikið mál fyrir þá að bregða sér í landsföðurlegt hlutverk á viðeigandi stundum, en að leika múgæsingarmenn inn á milli - nú eða þá að halda uppi málþófi - allt eftir því hvað fólk vill.
Flokkurinn gæti síðan alltaf haldið því fram að hann tali fyrir munn meirihluta þjóðarinnar.
Þannig fengi þjóðin nákvæmlega það sem hún vill - og það sem hún ætti skilið, samkvæmt Lao Tze, því fólk er jú fífl.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2007 kl. 13:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning