Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Hrafnaþing í Reykjavík
Framsóknarmenn halda þing á Kanaríeyjum en á meðan virðist sem hrafnar hafi ákveðið að halda þing hér í Reykjavík, en Púkinn hefur orðið óvenjulega mikið var við hrafna hér í bænum undanfarið.
Ástæða þessa hrafnaþings er væntanlega sú að hrafnarnir eru að ráða ráðum sínum og mynda sameiginlega afstöðu til komandi kosninga, enda eru þær mikið hagsmunamál fyrir hrafna eins og aðra íbúa landsins.
En hvað myndu hrafnarnir kjósa sjálfir ef þeir hefðu kosningarétt?
Hrafnar myndu ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn, svo mikið er víst, þar sem sá flokkur hefur fálkann í merki sínu.
Frjálslyndi flokkurinn höfðar sennilega ekki heldur til þeirra, þar sem hrafnar gera ekki upp á milli fólks eftir uppruna - þessir vængjalausu tvífætlingar líta allir eins út, hvort eð er.
Samfylkingin stefnir að inngöngu í ESB og auknum innflutningi landbúnaðarafurða. Hröfnunum hugnast það ekki, því þeir vilja hafa veislukrásirnar sínar hlaupandi upp um íslenskar heiðar, en ekki í fjarlægum löndum.
Þá eru eftir vinstri-grænir, en hröfnunum stendur nokkurn veginn á sama um áherslur þeirra - skilja ekkert í andstöðu þeirra við að selja eitthvað gamalt mannahreiður fyrior 600 milljónir.
Nei, niðurstaðan er augljós. Hrafnarnir eru fiðraðir framsóknarmenn.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.