Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Nýja hlerunarmálið
Eins og kom fram í frétt Blaðsins í morgun, er lítið mál að hlera samræður í bílum þar sem Bluetooth búnaður er í notkun, eins og til dæmis leigu- og lögreglubílum landsins.
Sé til dæmis staðsetningartæki eða þráðlaus sími með Bluetooth tengingu í bílnum eru góðar líkur á því að aðili með réttan búnað geti heyrt allt sem fer fram þar.
Það er auðvitað unnt að gera meira en bara að hlera - það er hægt að sækja símaskrár, skoða SMS skeyti, eða hringja símtöl í gegnum síma annarra.
Nú spyrja menn kannski - hvernig er þetta hægt? Er tæknin ekki örugg? Málið er það að öryggið er til staðar í Bluetooth - en öryggi er einskis nýtt sé það ekki notað.
Aðgangskóðar eru til dæmis ekki mikils virði ef þeiru eru alltaf settir sem "1234", svo að dæmi sé tekið.
Það er nefnilega svo að auknu öryggi í hvaða mynd sem er fylgja minnkuð þægindi og reynslan hefur sýnt að fólk vill hafa hlutina þægilega - sem aftur þýðir minna öryggi.
Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða tækni eins og Bluetooth, þar sem hinn dæmigerði notandi er ekki fullkunnugur eðli tækninnar - hann getur notað hana en ekki útskýrt í smáatriðum hvernig hún virkar.
Hvort einhverjir hafi nýtt sér þetta - hlerað samtöl í leigubílum, lögreglubílum, nú eða bílum ráðamanna þjóðarinnar er hins vegar nokkuð sem Púkinn getur ekkert sagt um.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.