Fimmtudagur, 1. mars 2007
Netþjónabú á Íslandi?
Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að of mikil áhersla sé lögð á stóriðju hér á landi og núverandi stjórnvöld séu að gera stór mistök.
Í mörgum öðrum löndum hafa menn veðjað á hátæknina, með góðum árangri, en sú er því miður ekki raunin hér á landi.
Sum hátæknifyrirtækin eru að flytja hluta starfseminnar úr landi en önnur, eins og OZ er varla unnt að kalla "íslensk" lengur.
Erlendir aðilar hafa velt fyrir sér hvers vegna Íslendingar reyna ekki að laða til sín erlend fyrirtæki, til dæmis með því að reka raforkufrek netþjónabú hérlendis.
Púkinn rakst til dæmis á þessa grein á siliconvalleywatcher.com.
Íslendingar hafa einnig velt hugmyndinni fyrir sér, en það eru ljón í veginum - dýrt og óáreiðanlegt netsamband Íslands við umheiminn er stærsta vandamálið. Því miður virðast ekki miklar líkur á að það batni - sem stendur er ástandið skelfilegt, með Cantat bilaðan og innlend fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á Internetinu sitja bara og vona að ekki verði truflanir á FarIce á meðan.
Vonandi kemst Cantat í lag á næstunni, en líftími hans er brátt á enda, og þótt við fáum nýjan streng til Írlands, verður staðan sú að við munum þá hafa enga beina tengingu vestur um haf.
Það þýðir tafir, sem gera hugmyndir um netþjónabú hér á landi freklar óraunhæf.
Púkanum finnst að það hefði verið meira vit í að láta peninga í betrumbætt samband Íslands við umheiminn heldur en að eyða þeim í vitleysu eins og Héðinsfjarðargöng. Slík ákvörðun hefði hins vegar krafist framsýnna og gáfaðra stjórnmálamanna sem hugsa lengur fram í tímann en til næstu kosninga.
Þannig fólk virðist oft vandfundið á Alþingi.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr. Ég var einmitt að blogga um þetta og benti á grein í Computer http://csdl.computer.org/comp/mags/co/2007/02/r2016.pdf
Það á auðvitað að vera forgangverkefni númer eitt, tvö og þrjú að koma á góðu internetsambandi bæði austur og vestur um haf.
Lárus Vilhjálmsson, 1.3.2007 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.