Máttur bænarinnar

hands_of_prayerHvað á fólk við þegar það talar um "mátt bænarinnar"?

Nú ætlar Púkinn ekki að halda því fram að bænir hafi engan mátt, en honum þykir nokkuð augljóst að bænir geti haft sama mátt og hugleiðsla, róað hugann, lækkað blóðþrýsting eða aukið losun endorfína.

Það sem Púkinn á bágt með að trúa er að bænir geti haft nokkur áhrif fyrir utan líkama þess sem biðst fyrir.

Þetta er hins vegar unnt að rannsaka.  Frændi Darwins, Francis Galton var sá fyrsti til að gera það.  Hann benti á að á hverjum sunnudegi væri beðið fyrir heilsu konungsfjölskyldunnar í öllum kirkjum Bretlands.  Ef þær bænir hefðu áhrif ætti konungsfjölskyldan að vera við betri heilsu en aðrir.  Hann skoðaði málið, en fann engan mun.

Galton gerði líka tilraun með að skipta landssvæði upp í skika, velja suma þeirra af handahófi og biðja fyrir þeim til að athuga hvort plöntur í þeim yxu hraðar (sem þær gerðu ekki).

Nú má gagnrýna þessar tilraunir, bæði frá vísindalegum og trúarlegum sjónarhóli, en í apríl 2006 voru birtar niðurstöður rannsóknar í American Heart Journal.  Sú rannsókn uppfyllir allar vísindalegar kröfur.

Dr. Herbert Benson og aðstoðarfólk hans fylgdist með heilsu 1802 sjúklinga í 6 spítölum sem höfðu farið í hjartaþræðingu.  Þeim var skipt í þrjá hópa.

  • Hópur 1: Það var beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því.
  • Hópur 2: Það var ekki beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því
  • Hópur 3: Það var beðið fyrir þessum hópi og þeir vissu af því.

Væntingar þeirra sem stóðu að rannsókninni voru að sá munur sem kæmi fram milli hópa 1 og 2 myndi sýna mátt bænanna, en munur á hópi 1 og 3 myndi sýna "psychosomatic" áhrif þess að vita af bænunum.

Bænirnar fóru fram í kirkjum í Minnesota, Massachusetts og Missouri.  Þeim sem báðust fyrir voru afhentir listar með hluta nafns ("John E.") viðkomandi sjúklinga.  Ólíkt Galton sem minnst var á áðan efaðist enginn um að væru framkvæmdar af einlægum trúmönnum.

Niðurstöðurnar?

Jú, enginn marktækur munur var á hópi 1 og 2, en hins vegar sýndi hópur 3 mun verri útkomu en hópur 1.  Sennilegasta skýringin er sú að sjúklingarnir í hópi 3 hafi meðvitað eða ómeðvitað litið svo á að ástand þeira væri slæmt, fyrst það þyrfti að biðja fyrir þeim og það hafi dregið þá niður.

Svona fór um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Áhugavert...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.3.2007 kl. 16:13

2 identicon

Það sem mér finnst verst er þessi hugmynd að "gvuð sé að lækna" einhverja, t.d. börn sem læknast af alvarlegum sjúkdómum.

Hver er trúarhugmynd fólks sem heldur svona þvaðri fram?  Hvað er það að segja öllum hinum foreldrunum, sem áttu börn með alvarlega sjúkdóma og dóu.  Hvað hafði þessi Gvuð þeirra á móti þeim og börnum þeirra?  Voru bænir þeirra og ættingja þeirra ekki nægilega einlægar?  Hvernig virkar bænin eiginlega?

Hér er góð grein um hinn tvíræða mátt bænarinnar.

Matthías Ásgeirsson

Matti (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband