Þriðjudagur, 6. mars 2007
Allt sem fer upp...
Púkinn er ekki í hópi umsvifamikilla fjárfesta á íslenska markaðinum.
Það breytir því þó ekki að Púkinn hefur gaman að fylgjast með hjarðhegðun fjárfesta eins og öðru skrýtnu í mannlífsflórunni.
Einn af vinum Púkans er með doktorsgráðu á sínu sviði og þykir ákaflega gáfaður maður. Sá hafði aldrei fjárfest í hlutabréfum fyrr en einn daginn þegar honum fanst hann vera útundan - það voru allir að fjárfesta í kringum hann. Þá loksins stökk hann til og setti spariféð sitt í hlutabréf. Þetta var í apríl 2000. Það tók hann 5 ár að komast aftur á núllið.
Málið er nefnilega það að þegar allir eru búnir að kaupa, er kominn tími til að selja - eða með öðrum orðum: "Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér".
Og hvað kemur þetta svo hlutabréfamarkaðinum í dag við?
Jú, hækkanir síðustu mánaða hafa verið allmiklar hækkanir á gengi bréfa - margir fjárfestar hafa séð eignir sínar aukast umtalsvert á pappírnum, en á einhverjum tímapunkti vilja þeir væntanlega breyta þeirri pappírsaukningu í raunverulega aukningu og leysa út hagnaðinn.
Ef Púkinn væri atvinnubraskari myndi hann vera búinn að leysa út hagnaðinn sinn núna og hafa grætt 20% frá áramótum - ávöxtun sem hann gæti verið alveg sáttur við sem heildarávöxtun fyrir árið.
Púkinn situr og fylgist með sumum ókyrrast - vona að þetta sé ekki byrjunin á raunverulegri "leiðréttingu", meðan aðrir sitja sem fastast og tala um að þeir séu að fjárfesta til lengri tíma og hafi ekki áhyggjur af skammtímasveiflum.
Á meðan situr Púkinn og horfir á.
Fjárfestar á öryggisflótta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.