Sunnudagur, 6. maí 2007
Karíus, Baktus og ... Samfylkingin?
Einu sinni var tannburstinn versti óvinur Karíusar og Baktusar...já og svo tannlæknirinn líka.
Þeir tímar virðast vera liðnir, samkvæmt þeim auglýsingum sem dynja á fólki þessa dagana, því nú á það að vera Samfylkingin sem þeir hræðast.
Í stað þess að hlaupa í felur þegar tannburstinn nálgast, þá æpa þeir og skrækja ef þeir heyra í Ingibjörgu Sólrúnu.
Púkinn skilur þetta ekki alveg.
Er það virkilega skoðun Samfylkingarinnar að bág tannheilsa íslenskra barna sé eingöngu að kenna því að foreldrar hafi ekki efni á að senda börnin sín til tannlæknis?
Telja Samfylkingarmenn að yfirgengileg neysla á sykruðum gosdrykkjum hafi ekkert með málið að gera, né heldur skortur á almennri tannhirðu? Íslensk börn tannbursta sig sjaldan og illa og kunna varla að nota tannþráð - mun þetta lagast ef foreldrar þeirra kjósa Samfylkinguna?
Er það skoðun Samfylkingarinnar að í stað þess að ráðast að orsökum vandamálsins sé best að leysa vandann með því að niðurgreiða tannlækningar enn frekar?
Það að halda ótæpilega sælgæti og sykruðum gosdrykkjum að börnum er bara hrein og klár heimska - og heimsku er ekki hægt að eyða með því að kjósa Samfylkinguna. Fólk verður að taka ábyrgð á hlutum eins og sykurneyslu barna sinna, en ekki ætlast til að samfélagið hlaupi til með niðurgreiddar tannlækningar þegar allt er komið í óefni.
Það eru margar ástæður fyrir því að Púkinn mun ekki kjósa Samfylkinguna. Þetta er ein þeirra.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Það sem greinilega vantar upp á er fræðsla til foreldra og barna. Ég á tvær dætur 12 ára og 14 ára. Ég burstaði í þeim sjálf tennurnar til 10 ára aldurs (reyndar varð ég dálítið drusluleg með þá yngri) og fer með þær til tannlæknis tvisvar á ári. Mig minnir að ég sé að borga u.þ.b. 6 þúsund fyrir þær samanlagt árlega. Þær eru hvorugar með skemmda tönn.
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 6.5.2007 kl. 16:18
Má ég benda á að núverandi ríkisstjórn stóð fyrir því að gosdrykkir og sælgæti lækkaði mest af öllu í verði 1. mars. Ekki er það nú góð forvörn!
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 6.5.2007 kl. 22:06
Heyr!
Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 22:12
Enda ætlar Púkinn ekki að kjósa þá heldur.
Púkinn, 7.5.2007 kl. 08:31
Og ég sem hélt að reglulegar ferðir barna væru til að fyrirbyggja tannskemmdir og kenna þeim rétta tannhirðu... Tannlæknir sem segir krökkum að bursta tennurnar er "yfirvald", eins og lögga sem segir þeim að hlaupa ekki yfir götu. Foreldri sem segir það sama er nöldrari.
Mér finnst þetta hið besta mál, þó ekki nóg til að kjósa Samfylkinguna. Ég mun þó seint kjósa Frjálslynda, eins og ég les milli línanna hjá þér.
Einar Jón, 8.5.2007 kl. 23:09
Frjálslynda? Aldrei!
Púkinn er að sveiflast milli VG og Íslandshreyfingarinnar.
Púkinn, 9.5.2007 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.