Síðasta pólitíska blogg Púkans (í bili)

greenguyPúkinn er orðinn þreyttur á stjórnmálaumræðunni, en jafnvel enn þreyttari á því að vera í vandræðum með að ákveða hvað hann eigi að kjósa.  Frá því að Púkinn fékk kosningarétt hefur valið verið auðvelt - Púkinn hefur nánast alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn.  

Þetta er í sjálfu sér ekkert skrýtið - Púkinn passar nefnilega mjög vel við "prófílinn" af hinum dæmigerða Sjálfstæðismanni - karlkyns, "40-something", með góða menntun, eigið fyrirtæki og þokkalegar tekjur og enn fremur hefur Púkinn alltaf verið þeirrar skoðunar að þjóðfélagið eigi að hvetja þá áfram sem sýna dugnað - leyfa þeim að njóta sín, frekar en að berja alla í sama mót í nafni einhvers "jöfnuðar".

Samt, fyrir þessar kosningar hefur Púkinn átt í verulegum vandræðum - það eru of margar ástæður fyrir því að hann getur hreinlega ekki kosið sinn gamla flokk.

Þær helstu (en ekki í neinni sérstakri röð)

  • Árni Johnsen.  Hvernig er hægt að bera trausts til flokks sem teflir fram siðblindum manni, jafnvel þótt það sé í öðru kjördæmi og þótt hann hafi tekið út sína refsingu.  Það eru sumir sem bara eiga ekki erindi á þing.
  • Íraksstríðið. Íslensk stjórnvöld voru höfð að fíflum, en þegar ljóst var að rök Bandaríkjamanna voru uppspuni og að innrásin hafði leitt meiri hörmungar yfir Íraka en áframhaldandi völd Saddams, hefðu stjórnvöld átt að biðja Íraka afsökunar á upphaflegum stuðningi sínum.  Slík afsökunarbeiðni hefði að vísu aðeins haft táknrænt gildi, en hún hefði sýnt að ráðamenn væru nógu miklir menn til að viðurkenna mistök sín.
  • Ofurkrónan.  Stjórnvöld misstu tökin á efnahagsmálum og juku þensluna í þjóðfélaginu á þeim tíma sem hagkerfið mátti ekki við því.  Niðurstaðan er ofurkróna, með slæmum afleiðingum fyrir útflutningsfyrirtækin.  Stjórnvöld kalla þetta "ruðningsáhrif", en frá sjónarhóli Púkans er þetta atlaga að lífsviðurværi hans.
  • Hálendið og mengunin.  Púkinn vill eiga heima í hreinu landi.  Það er ein af ásæðum þess að Púkinn er hér, en ekki úti í heimi, þar sem flestar aðrar aðstæður eru betri.
  • Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra.  Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það.
  • Menntunar- og heilbrigðiskerfi sem er að þróast í þá átt að gæði þjónustunnar ráðast alfarið af efnahag viðkomandi.  Púkinn hefur skömm á bandaríska módelinu og vill ekki sjá Íslendinga færast nær því.

En hvað á Púkinn að kjósa?  Eini flokkurinn sem hentar hægri-grænum Púka er Íslandshreyfingin, en nær hún 5%?  Skoðanakannanir benda ekki til þess, en Púkinn vonar að einhver hluti óákveðinna sé óákveðinn vegna þess að þeim hugnast engir "gömlu" flokkanna og ákveði að greiða Ómari og Margréti atkvæði sitt á kjördag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann H.

Mér sýnist réttlætiskennd þín og umhverfissjónarmið helst lúta að Frjáslyndum.  Mundu að tilögur F um breytingar á kvótakerfinu, gætu einar og sér, orðið eitt helsta framfarasporið til umhverfisverndar á næsta kjötímabili. Umhverfiðer bæði land, haf og lofthjúpur..

Jóhann H., 12.5.2007 kl. 02:11

2 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Vill ekki bara púkinn halda sig við það gamla og góða;)

Þú veist hvað þú hefur, en ekki hvað þú færð!

Eva Þorsteinsdóttir, 12.5.2007 kl. 02:36

3 identicon

Enginn er fullkominn, því er nú verr og miður   

Lilja Haralds (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 04:25

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kjósendur eiga aldrei að þurfa að sætta sig við eitt né neitt. Ef enginn frambjóðenda hugnast þeim þá eiga þeir að skila auðu. Það er lýðræðislegur réttur þeirra. Þannig kjósa menn lýðræðið og senda frambjóðendum skilaboð um að þeir séu ekki að standa sig nógu vel. Eða erum við Íslendingar bara svona góðir kúnnar að við látum atkvæði okkar og sannfæringu fyrir lítið og erum jafnan tilbúnir að sætta okkur við það illskásta?

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.5.2007 kl. 07:55

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þú hefur svipaðar tilfinningar og ég í þessu. Sjálfstæðisflokkurinn er útaf sakramentinu a.m.k. í bili. Nú kjósum við einhvern í stjórnarandstöðunni til að taka við búinu næsta kjörtímabil. Það má alveg hvíla gamla og spillta gengið.

Haukur Nikulásson, 12.5.2007 kl. 08:30

6 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Get deilt með þér sömu vandræðum kæri "púki". Fyrsta skipti á ævinni stóð ég frammi fyrir því að vera ekki viss hvað ætti að kjósa.

Fór í sund og synti 1000 metra kl 8:00 í morgun, fór síðan og kaus með harmkvælum en er sæmilegar sátt við mig núna.

Það er tími til að gera slíkt hið sama.

Með kveðju.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 12.5.2007 kl. 17:50

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Í dag eru gulir blýantar mjög áhrifamiklir en ekki á morgun!!

Benedikt Halldórsson, 12.5.2007 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband