Það er vont, það er vont og það versnar

TeachingÞetta er ekki í fyrsta skipti sem Púkinn agnúast út í íslenska menntakerfið - sumt af eftirfarandi texta er tekið úr 10 ára gömlum greinum, en fátt hefur breyst síðan þá.

Púkinn á ekki lengur barn á grunnskólaaldri, en svo virðist sem ástandið hafi ekki batnað á undanförnum árum - frekar versnað ef eitthvað er.

Ástæður þess eru margvíslegar. Meðal almennra skýringa má nefna eftirfarandi:

Of mörg börn í bekkjum.  Niðurskurður hefur því miður leitt til þess að bekkir eru of stórir til að unnt sé að sinna öllum nemendum eftir þörfum.

"Skóli án aðgreiningar" og hin almenna sænsk-ættaða meðalmennskuárátta sem virðist ráða ríkjum í menntakerfinu - sú hugsun er því miður allt of algeng að ekki megi hvetja grunnskólanemendur til að skara fram úr í bóknámi - allir skulu steyptir í sama mót og námsefnið má ekki vera erfiðara en svo að allir ráði við það.

Lélegir kennarar.   Það er því miður staðreynd að kennarar njóta ekki virðingar hér á landi, ólíkt því sem gerist t.d. í Finnlandi.  Að hluta til er ástæðan sú að engar kröfur eru í raun gerðar til kennara um að þeir séu í raun færir um að kenna nemendum.  Frábærir kennarar fá sömu laun og hörmulegir (með sömu menntun og starfsreynslu), en það skiptir engu máli hvort þeir eru færir um að vinna vinnuna sína - að kenna börnunum.  Það skiptir ekki máli hvort kennari er fullur áhuga á efninu og tekst að smita nemendur af þeim áhuga, eða hvort kennarinn veit jafnvel minna um efnið en nemendurnir.   Kennarastarfið er láglaunastarf, en Púkinn er þeirrar skoðunar að sé starfið betur launað verði að gera meiri kröfur til kennara.

Lélegt námsefni.  Námsefni í mörgum greinum er til háborinnar skammar.  Námsefni í íslensku höfðar ekki til nemenda - sem er ein margra ástæðna þess að nemendur lesa lítið, sem aftur skilar sér í lélegri lestrargetu.

Svo er það náttúruvísindanámið, sem virðist fela í sér páfagaukalærdóm á atriðum úr líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði, án áherslu á að nemendur raunverulega skilji samhengi hlutanna.  Námsbækurnar í náttúrufræði eru reyndar ekki alslæmar (þrátt fyrir nokkrar staðreyndavillur) og gera ráð fyrir því að nemendur framkvæmi ýmsar einfaldar tilraunir.

Slíkar tilraunir ættu að öllu jöfnu að auka áhuga nemendanna á námsefninu - ef þær væru framkvæmdar, en það er vandamálið.  Í skóla dóttur minnar var t.d. öllum tilraunum í efnafræði sleppt, því skólinn taldi sig ekki hafa efni á því... "Efnin eru uppurin og engir peningar til að kaupa meira".

Sem dæmi um fyrrnefndar staðreyndavillur má t.d. nefna þá fullyrðingu að gler sé seigfljótandi vökvi við eðlilegt hitastig (og bent á að gamlar glerrúður í miðaldadómkirkjum séu þykkari að neðan en ofan), en þetta er firra sem hefur verið afsönnuð fyrir löngu.

Ástandið í náttúruvísindum er samt til fyrirmyndar miðað við það sem boðið er upp á í stærðfræði.  Þar virðist markmiðið að drepa fyrst niður allan stærðfræðiáhuga nemenda með svokallaðri "uppgötvanastærðfræði" - sem byggir á því að leyfa nemendum að "þróa sínar eigin aðferðir", í stað þess að læra leiðir sem vitað er að virka...og skítt með það þó að nemendur "þrói aðferðir" sem leiða þau fyrr eða síðar í algerar blindgötur.  Síðan tekur hefðbundnara námsefni við - efni sem er meingallað á marga vegu, en getur þó gengið - svo framarlega sem kennararnir séu starfi sínu vaxnir.  Það er síðan allt önnur spurning hvort fólk með brennandi áhuga og þekkingu á stærðfræði fer nokkuð út í kennslu - Púkanum þykir sennilegra að sá hópur leiti í betur launuð störf.

Þetta er ef til vill ekki mikið vandamál fyrir þá nemendur sem eiga foreldra sem hafa sæmilega þekkingu sjálfir á þessum sviðum og geta stutt börn sín, þannig að þau þurfi ekki að reiða sig á lélegt námsefni, kennt í yfirfullum bekkjum af fákunnandi kennurum....en hvers eiga allir hinir að gjalda?

Er öllum sama öllum sama þótt börn í efstu bekkjum grunnskóla séu ennþá að telja á puttunum?

Vandamálið er reyndar ekki einskorðað við kennarana - þessi grein sem Púkinn skrifaði 2007 fjallar t.d. um herfilega illa gerð samræmd próf í stærðfræði.

Samræmdu prófin voru síðan lögð niður - nokkuð sem Púkinn telur stór mistök, enda veittu þau skólum ákveðið aðhald (a.m.k. ef skólarnir komast ekki upp með að láta "lélegustu" nemendurna ekki taka prófin) - nokkuð sem ósamræmdar skólaeinkunnir gera ekki.  Það er dapurleg staðreynd, sem virðist samt ekki mega ræða, að úr sumum grunnskólum kemur óeðlilega hátt hlutfall nemenda sem er varla læs og alls ekki reiðubúinn fyrir frekara nám. 

Púkinn vill nú samt bæta því við í lokin að lélegt námsefni og misgóðir kennarar eru ekki eina ástæðan fyrir lélegum námsárangri - það sem mætti setja efst á listann er almennt agaleysi í skólum landsins, en það er efni í aðra blogggrein.

Þegar Finnar gengu í gegnum sína efnahagskreppu með tilheyrandi niðurskurði, þá reyndu þeir að hlífa menntakerfinu eftir bestu getu - reyndu jafnvel frekar að styrkja það.  Þeir gerðu sér grein fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem fælust í vel menntuðu fólki - sér í lagi tæknimenntuðu.

Stjórnvöld á Íslandi deila ekki þessari sýn.  Þau sætta sig við grunnskólakerfi sem er til háborinnar skammar (samanber nýlegar fréttir um að talsverður hluti nemenda í 10 bekk sé ekki fær um að lesa sér til gagns), framhaldsskóla sem útskrifa nemendur með "ómarktæk" stúdentspróf (samanber umræðu um innökupróf í háskóla) og háskóla sem eru meira og meira að þróast í þá átt að vera ekki fyrir alla, heldur bara fyrir þá sem hafa efni á dýru námi.

Nú á að skera enn frekar niður á framhalds- og háskólastigi, en Púkinn fær ekki séð hvernig það getur leitt til annars en að ástandið versni enn frekar.

Púkinn er eiginlega kominn á þá skoðun að stefna stjórnvalda sé að halda niðri menntunar- og þekkingarstigi þjóðarinnar - það er sennilega auðveldara að stjórna heimskum sauðum en hinum.


mbl.is Skuldum börnunum okkar að gera betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kannski er vandamálið akkúrat eins og Halldór Jónsson segir.  Það "má" ekki getuskipta nemendum.  Við verðum bara að horfast í augu við það að fólk er ekki allt steypt í sama mótið og miðað við þær kröfur sem uppi eru í þjóðfélaginu, þá geta ekki allir allar kröfur sem þjóðfélagið gerir.  Eins og staðan er í dag, þá er verið að fresta vandamálinu þar til börnin fara í FRAMHALDSSKÓLA, því þar kemur fljótt í ljós ýmis konar agavandamál, hegðunarvandamál og margs konar námsvandamál sem auðvelt hefði verið að lagfæra ef gripið hefði verið inn í á fyrri stigum.  Þessir nemendur flosna upp úr námi og flest lenda á félagslega kerfinu og verða þar.  Ef aftur á móti hefði verið getuskipt í bekki er hægt að fullyrða að annar veruleiki biði þessara nemenda svo sem margs konar iðnám, sem jafnvel hefði hentað sumum þeirra mikið betur og margs konar handverk.  Því er ég alveg sammála Halldóri Jónssyni í því að það verður að taka menntastefnuna til algjörrar endurskoðunar og það strax. Svo væla kennarar yfir lágum launum, væri ekki nær að þeir sýndu að þeir séu verrðir þeirra launa, sem þeir fá í dag áður en þeir fara fram á launahækkun.  Menntun er ekki það sama og kunnátta......

Jóhann Elíasson, 6.12.2016 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband