Of vægt tekið á ölvunarakstri

duiPúkinn auglýsir hér með eftir alþingismönnum (eða konum) sem þora að leggja fram fumvarp um verulega hertar refsingar við akstri undir áhrifum.

Það er ljóst að núverandi kerfi er ekki að virka, miðað við fjölda þeirra ökumanna sem eru teknir nánast daglega - já og sumir oftar en einu sinni á dag.

Sumir hafa verið sviptir ökuréttindum ævilangt en eru samt teknir aftur og aftur.

Hvað er til ráða?

Hér eru nokkrar tillögur:

1) Meðferð.  Það mætti skikka þá sem eru teknir undir áhrifum í meðferð. Ef eina ráðið til að fólki skiljist að það á við vandamál að stríða er að vera sendir í meðferð á viðeigandi stofnun, þá verður bara svo að vera.

2) Kyrrsetning bifreiða.  Púkinn er þeirrar skoðunar að sé einhver tekinn undir áhrifum, eigi skilyrðislaust að kyrrsetja bifreiðina um tíma - það myndi a.m.k. koma í veg fyrir að menn séu teknir oftar en einu sinni á dag á sömu bifreiðinni.  Lögreglan hefur í dag heimild til að kyrrsetja eða leggja hald á bifreiðar, en það er ekki nóg - Púkinn vill sjá þeirri heimild breytt í skyldu.

3) Upptaka bifreiðar.  Það má rökstyðja að bílar þeir sem um ræðir séu ekkert annað en tæki sem notuð eru til að fremja með afbrot.  Púkans vegna mætti gera bílana upptæka og selja á uppboðum - fá þannig einhverjar krónur í kassann til að standa undir kostnaðinum við þær aðgerðir sem hér er lýst.  Það þarf að vísu að hafa undantekningar þegar um bílþjófnað er að ræða og einnig þarf að huga að stöðu bílasala sem lána bíla til aðila sem aka þeim síðan undir áhrifum.  Það að fyrri eigendurnir verða áfram að borga af bílalánunum eftir að hafa misst bílana er að sjálfsögðu bagalegt fyrir viðkomandi, en það er nú einu sinni tilgangurinn.

4) Fangelsisvist. Glæfraakstur undir áhrifum er að mati Púkans lítið annað en tilraun til manndráps.  Refsingar ættu að vera í samræmi við það - ef það eina sem dugir til að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi er að henda þeim bak við lás og slá, þá verður svo að vera.

Púkinn vill benda á að hækkaðar sektir eru ekki á ofanfarandi lista, enda eru einhverjir stútanna væntanlega eignalausir aumingjar.  Það mætti þó beita hærri sektum, jafnvel í hlutfalli við tekjur viðkomandi - sekta menn um 5-10% árstekna til dæmis.

Ef ekkert verður gert munum við bara halda áfram að heyra sömu fréttirnar aftur og aftur, ásamt fréttum af dapurlegum dauðaslysum inn á milli.

Hvaða alþingismenn þora að gera eitthvað í þessu máli?


mbl.is Ofurölvi ökumaður stöðvaður í Hvalfjarðargöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Varðandi lið 3) þá þarf að fara varlega í dæmið.  En þú gleymir lið 5) Skikka viðkomandi til að vinna á endurhæfingardeild Grensáss í ... segjum 4-6 vikur, eftir því hversu mikill glannaaksturinn var.  Leyfa þeim aðeins að sjá hvernig fólk sem lendir í slysum þarf að vinna sig upp á við aftur.

Einar Indriðason, 28.8.2007 kl. 14:03

2 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Númer eitt, það þarf að færa refsimörkin í 0 prómill. Númer tvö, (vegna þess að refsingar duga skammt) allir þeir sem einu sinni hafa verið teknir fyrir akstur undir áhrifum ættu að vera skildaðir til þess að vera með búnað í bílnum sem þeir þurfa að blása í til þess að geta gangsett bifreiðina (þekkt að hluta í Svíþjóð). Númer þrjú, stórauka áróður, sérstaklega hvað varðar aldurshópinn eldri en 25 ára.

Birgir Þór Bragason, 28.8.2007 kl. 14:34

3 Smámynd: Linda

Skemmtileg og bara nokkuð töff íhugun hjá þér, og ég held bara að ég geti tekið undir þetta allt saman hjá þér.  Góðar stundir.

Linda, 28.8.2007 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband