Föstudagur, 31. ágúst 2007
Að byrja 19..18..17..16..15 ára í háskóla
Möguleikar nemenda til að stytta nám sitt hafa aukist á undanförnum árum. Púkinn er fylgjandi þeirri þróun, enda var hann sjálfur 18 ára þegar hann hóf háskólanám.
Spurningin er samt hvort þetta sé komið út í öfgar - hvort allir nemendur hafi félagslegan þroska til að hefja háskólanám á þeim aldri - vitsmunalegur þroski er ef til vill ekki nægjanlegur einn og sér.
Það má vera að einhverjir hvái yfir því að unnt sé að byrja háskólanám 15 ára, en það er ekki svo fáránlegt.
- Hluti nemenda er færður upp um bekk strax við upphaf skólagöngu, eða fær að hefja skólagöngu ári á undan jafnöldrum. Þar sparast eitt ár.
- Sumir nemendur fá að hlaupa yfir 10. bekk - eru teknir inn í menntaskóla strax eftir þann 9., en þar sparast annað ár.
- Í menntaskólum með áfangakerfi er unnt að ljúka námi í menntaskóla á 2.5 árum, jafnvel þótt nemendur fái engar einingar metnar inn. (Þetta var a.m.k. mögulegt þegar Púkinn var í menntaskóla og hefur tæplega breyst). Hefji nemendur nám með einhverjar einingar metnar inn, gætu þeir mögulega stytt námið um hálft ár til viðbótar og lokið því á 2 árum. Nú, svo er auðvitað menntaskólinn Hraðbraut. Hér er unnt að spara tvö ár til viðbótar.
- Að lokum (já, það er svolítið svindl) getur fólk átt afmæli í lok árs og verið því ári yngra á pappírnum þegar skólaárið hefst.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:11 | Facebook
Athugasemdir
Ég er nokkuð sammála þér hérna. Ég stunda háskólanám í Skotlandi og þar fara krakkar í háskólanám 18 að aldri og það verður að segjast að það blessast ekki alltaf vel.
Aðallega er tvennt sem greinir krakkana að fyrir utan utanaðkomandi öfl, eins og fjölskylda, staðsetning skóla og fjármál en það er. Flestir krakkar á 18 ára aldri vita hreinlega ekki hvað þeir vilja læra og það eru virkilega ófá dæmin um það að krakkarnir eru komnir með tvær til þrjár gráður áður en þau geta tekið nokkrar ákvarðanir um hvar áhugi þeirra liggur (þetta hefur oft í för með sér hrikaleg fjárútlán og fjárhagsleg vandamál hjá fjölskyldu svo og nemandann sjálfs í framtíðinni). Svo er það "hinn" nemandinn sem veit hvað hann vill og þá er þetta það besta sem boðið er upp á fyrir hann. En munurinn þarna á milli vill oft vera geigvænlegur á meðan.
Úr vinahópnum mínum eru meirihlutinn með fleiri en eina gráðu og geta þær verið jafn mismunandi og fólk er flest, einn er með gráðu í efnafræði og ensku, önnur í lögfræði og keltneskum fræðum og svo má lengi upp telja. Auðvitað er öll menntun mikilvæg og sama hvað þú lærir það mun allt nýtast þér (bara á mismunandi hátt) í framtíðinni. En það má kannski deila um það hversu snemmt er of snemmt.
Lady Elín, 31.8.2007 kl. 19:01
Nú var ég 20 ára þegar ég útskrifaðst úr menntaskóla og ég var 25 ára þegar ég fór svo í háskóla. Ég er alls ekki viss um að ég hafi valið þá braut sem ég vildi...
Sigurjón, 1.9.2007 kl. 01:58
Ég er reyndar ekki enn búinn að ákveða hvað ég vil vera þegar ég er orðinn stór (þrátt fyrir að vera nokkrum mánuðum eldri en Púkinn) en ég er viss um að íslensk börn eru mörgum árum á eftir í skóla. Það bara gengur ekki að fólk sé næstum harðfullorðið þegar það heyrir í fyrsta sinn um algebru eða rúmfræði; að maður minnist ekki á það hneyksli að börn fá enga kennsku í erlendum tungumálum fyrr en við kynþroskaaldur (eða þannig var það amk í mínu tilfelli, og þó var ég ári á undan í skóla).
Elías Halldór Ágústsson, 4.9.2007 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.