Fimmtudagur, 1. nóvember 2007
Alvöru seðlabanki óskast!
Stundum líður Púkanum eins og sérvitringi sem stendur á trékassa í almenningsgarði og hrópar einhvern boðskap um yfirvofandi heimsendi, en áheyrendur labba framhjá og hrista í mesta lagi höfuðið - segja að allt sé í lagi.
Púkinn er nefnilega þeirrar skoðunar að stefna Seðlabankans sé eins arfavitlaus og unnt er.
Vandamálið er að hér á Íslandi er í raun bullandi, falin verðbólga. Klassísk einkenni falinnar verðbólgu lýsa sér í minnkandi vörugæðum eða vöruúrvali, en hér er verðbólgan falin með því að láta krónuna styrkjast langt út fyrir öll velsæmismörk. Ef gengi krónunnar væri "eðlilegt" myndu innfluttar vörur snarhækka í verði, sem kæmi fram sem verðbólga - en það ber Seðlabankanum að forðast umfram allt, samkvæmt þeim lögum sem gilda um hann.
Á meðan okurvaxtastefna Seðlabankans heldur ofurkrónunni uppi, þá blæðir útflutningsfyrirtækjunum. Sum þeirra eru betur sett en önnur - álfyrirtækin borga fyrir hráefni með ódýrum gjaldeyri og fá orkuna á niðurgreiddu verði, þannig að þau kvarta nú ekkert sérstaklega - en sjávarútvegurinn er í vondum málum og versnandi.
Verst af öllu eiga þó þau fyrirtæki sem eru með alla starfsemi sína hér á Íslandi og allan launakostnað í íslenskum krónum, en tekjurnar í dollurum og evrum. Seðlabankinn mun sjálfsagt ná fram markmiðum sínum að kæla efnahagslífið með því að slátra þeim fyrirtækjum eða hrekja þau úr landi, en það virðist ljóst að stefna stjórnvalda sé að héðan megi ekkert flytja út annað en ál og fisk.
Nei, svona fer þegar Seðlabankanum er stjórnað af afdönkuðum pólitíkusum samkvæmt lögum sem eru meingölluð.
Það er margt sem hægt er að gera - Púkinn vill nefna tvennt - setja þak á vexti Seðlabankans - þeir megi t.d. ekki vera meira en 5 prósentustigum hærri en sambærilegir vextir í helstu viðskiptalöndum. Það sem er hins vegar mikilvægast er að forgangsröð Seðlabankans verði endurskoðuð. Nú undanfarin ár hefur forgangurinn verið að halda verðbólgu niðri - sem hefur tekist þokkalega, en hefur í raun ekki skilað neinu í vasa fólks, en aðeins valdið gífurlegri aukningu á innflutningi, fáránlegri eyðslu í "ódýrar" innfluttar vörur (pallbíla, flatskjái o.s.frv.) og gengdarlausum tekjum innflytjenda.
Verði haldið áfram á sömu braut, blasir hrun margra útflutningsfyrirtækja við. Er ekki eitthvað að peningastefnu sem veldur svona röskun?
Eftir nokkur ár geta menn síðan skoðað brunarústirnar af efnahagslífinu og velt fyrir sér hvers vegna íslenskt atvinnulíf sé svona einhæft, samanborið við atvinnulíf nágrannalandana - velt fyrir sér hvað hafi orðið af öllum þeim fyrirtækjum sem ætluðu að flytja út eitthvað annað en ál.
Er ekki bara kominn tími til að flýja land - fara til einhvers lands með alvöru seðlabanka?
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Tek undir þetta með þér.
Jónas Björgvin Antonsson, 1.11.2007 kl. 10:40
Seðlabankinn starfar bara samkvæmt lögum. Hann ræður stýrivöxtunum. Það er ekki hægt að ætlast til að það stjórntæki stjórni verðbólgu, raungengi, atvinnuleysi, eignaverði, hagvexti, einkaneyslu... öllu á sama tíma. Þetta er eins og að ætlast til þess að ég baki góða köku ef ég fæ bara að ráða hve mikið salt er notað í hana. Þá ræð ég því bara hve sölt hún er.
Þorvaldur Blöndal, 1.11.2007 kl. 11:05
Þegar menn eiga bara hamar, þá líta öll vandamál út eins og naglar. Vandamálið er það að stýrivextirnir eru ekki nothæft verkfæri til að halda verðbólgunni niðri - þetta tæki veldur bara óásættanlegri röskun í efnahagslífinu.
Púkinn, 1.11.2007 kl. 11:14
Það er laukrétt. Það er erfitt í svona opnu hagkerfi með allan þennan innflutning. En greyin eiga bara þennan eina hamar.
Þorvaldur Blöndal, 1.11.2007 kl. 11:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.