Föstudagur, 2. nóvember 2007
Öryrkjar og aðrir auðmenn
Öllum (nú, nema kannski ráðamönnum) er orðið ljóst að tekjutengingar í bótakerfinu eru komnar í óefni, því núverandi kerfi festir fólk í raun í gildru.
Það er unnt að breyta bótakerfinu á marga vegu, en sé ekki vilji fyrir því að endurhugsa það frá grunni, er lágmark að tekjutengingakerfið sé endurskoðað.
Það eru nefnilega ekki allar tekjur jafngildar - nokkuð sem auðmenn þessa lands hafa uppgötvað fyrir löngu.
Tillaga Púkans er sú að öðrum tekjum öryrkja verði skipt í þrjá flokka.
I - Tekjur sem ekki skerði bætur
Í þessum flokki séu tryggingabætur, t.d. skaðabætur vegna tjóns sem fólk verður fyrir og miskabætur sem fólk hlýtur samkvæmt dómi eða samkomulagi. Í þessum tilvikum er verið að bæta eitthvað sem hefur tapast, en tengist ekki lágmarksframfærslu örorkubótanna. Námsstyrkir ættu einnig að vera í þessum flokki - það er þjóðhagslega hagkvæmt að öryrkjar afli sér menntunar, sem ef til vill gæti gefið þeim betri starfsmöguleika.
II - Tekjur sem skerði bætur að hluta
Í þessum flokki séu hefðbundnar launatekjur. Sumir öryrkjar geta t.d. unnið hlutastarf (sem er þjóðhagslega hagkvæmt) en kerfið verður að vera þannig að það sé hagkvæmara fyrir fólk að vinna heldur en að sitja heima og lifa á bótagreiðslum. Púkinn myndi vilja sjá bótaskerðinguna vaxa með auknum launatekjum, þannig að örorkubæturnar féllu niður þegar mannsæmandi launum væri náð.
III - Tekjur sem skerði bætur að fullu (eftir skatt)
Í þessum flokki séu fjármagnstekjur, arðgreiðslur, erfðatekjur, happdrættisvinningar og þvíumlíkt.
Þessar tillögur fela að sjálfsögðu ekki í sér fullkomna lausn vandamálsins, en myndu lagfæra nokkra verstu hnökrana á núverandi kerfi.
Stórtapaði á að þiggja bætur eftir slys | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Facebook
Athugasemdir
í lið 3 ertu þar að leggja til að það verði óbreytt ástand hvað varðar aðgreiðslur, happdrættisvinna og þá hluti? Þannig að ef viðkomandi erfir einhverja upphæð að bæturnar skerðist að fullu? Ef viðkomandi selur einhver hlutabréf eða annað að bæturnar skerðist? Mér finnst þetta bara óréttlæti gagnvart bótaþegum að þeir tapa á því að græða. Við hin megum njóta happdrættisvinningana okkar og góðrar lukku áhyggjulaust en bótaþegarnir þurfa að fara krókaleiðir eða bara hreinlega verða af bótunum?
Hvað með lífeyrissparnaðinn? Ef þeir ákveða að taka hann allan út í einu t.d. .. eiga þá bæturnar að skerðast líka eins og kerfið gerir ráð fyrir í dag? Þetta er heilmikið óréttlæti.
Stefán Örn Viðarsson, 2.11.2007 kl. 14:18
Það er kannski eitt sem gleymist í þessu en það er að þegar fólk lendir í slysi þá fær það eingreiðslu frá tryggingafélagi sínu og sú greiðsla er skattfrjáls.
Grisemor, 2.11.2007 kl. 15:05
Já, mér finnst ekkert athugavert við að bætur skerðist t.d. vegna fjármagnstekna. Ég lít ekki á Örorkubætur sem laun, heldur sem lágmarkstekjur handa þeim sem þurfa á þeim að halda - fólki sem getur ekki unnið. Ég vil kerfi sem hvetur til vinnu (sbr. lið 2), en einhvers staðar verður að draga mörkin.
Púkinn, 2.11.2007 kl. 16:09
Grisemor, TR dregur allan pening frá sem kemur inn til heimilisins, hvort sem það kemur frá tryggingafélagi eða öðru. T.d. er skattfrjáls happdrættisvinningur dreginn frá TR bótum.
Annars eru þetta ágætar ábendingar en ýmislegt sem þarf að athuga. Ég skil ekki af hverju þér finnst að öryrki eigi ekki fullan rétt á sínum happdrættisvinningi frekar en aðrir. bara sem dæmi.
Þetta kerfi er meingallað frá upphafi til enda og þarf algera endurskipulagningu. Athugið að það er undirskriftalisti í gangi til að reyn að fá þetta kerfi lagfært http://www.petitiononline.com/lidsauki/petition.html
Ragnhildur Jónsdóttir, 2.11.2007 kl. 16:35
Það þarf svo sannarlega að laga til í þessu kerfi svo mikið er víst. Hvernig væri að byrja á því að afnema tekjutenginguna við tekjur makans. Það myndi laga mikið.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 2.11.2007 kl. 21:18
Samkvæmt lið 3 erfa öryrkjar ekki sína nánustu heldur erfir TR þá? Heldurðu að þú hafir hugsað þetta alveg til enda? - Varla...
Kv. Steini
Þorsteinn Gunnarsson, 3.11.2007 kl. 02:42
Öryrkjar Íslands hafa fulla samúð mína yfir að þurfa að þvælast um í þeim frumskógi sem bótakerfið er. Bæturnar eru hvorki til að lifa eða deyja af. Þær eru svo lágar, og um leið og fólk sýnir viðleitni til sjálfsbjargar og þvingar sig útá vinnumarkaðinn af veikum mætti þá er því refsað. Þetta kerfi er fyrst og fremst niðurlægjandi og niðurdrepandi.
Bryndís Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 10:33
Sammála færslu.En fyrsta skrefið tel ég vera það, að hækka þurfi grunnlaun einstaklinga í takt við verðþróun á þessu HótelLandi! Laun eru í dag í engu samræmi við leigumarkað, matörumarkað og tala ég ekki um bensín markað. Bótagreiðslur ber að hækka en í samamund sniða þær þannig að þær verði einhverskona hvatningarkerfi fyrir vinnumarkaðinn.
a, 3.11.2007 kl. 11:39
Sammála Marinó. Er til dæmis ekki makalaust að laun skuli vera nettó um kannski 120 þús kr. en leiga á 2ja herb. íbúð 130 þús kr. Viðkomandi fær ekki raunhæft húsnæðislán. Að þetta skuli viðgangast er alveg með ólíkindum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að hafa bætur hærri en grunnlaun. Í dag borgar sig samt fyrir einstæða foreldra að vera á endurhæfingalífeyri eða örorku frekar en að vinna láglaunastarf því foreldrið fær auka meðlag með barninu, sem er gott.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 3.11.2007 kl. 12:40
Þetta kerfi er alveg handónýtt eins og það er. Er ekki sammála þér varðandi happadrætti og erfðatekjur eins og þú kallar það. Arfur eru ekki tekjur, heldur eru þetta eigur sem búið er að marg greiða skatta og skyldur af, og ættingjar erfa við andlát, afhverju á TR og skatturinn eða réttara sagt ríkið að fá að taka það allt til sín?
Ingunn Jóna Gísladóttir, 3.11.2007 kl. 14:06
Ég lít ekki .þannig á að ríkið eigi að taka happdrættisvinninga til sín - það sem ég efast um er að ríkið eigi aðp vera að borga bætur til þeirra sem hafa tekjur sem ekki tengjast vinnuframlagi eða því sem ég set í flokk I hér að ofan.
Örorkubætur eru ekki laun - þetta er í raun hugsað sem lágmarksframfærsla þeirra sem ekki hafa aðrar tekjur. Ég vil kerfi sem hvetur fólk til að afla sér tekna (sbr. lið II), en ég vil ekki kerfi sem hvetur fólk til að spila í happdrætti eða slíkt.
Ég vil hins vegar taka undir að ástæða er til að endurskoða tengingu við tekjur maka - það er nokkuð sem mér yfirsást í greininni.
Púkinn, 3.11.2007 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.