Fimmtudagur, 19. júní 2008
Tilgangslaus atvinnubótavinna?
Menn velta því fyrir sér hvort þarna sé verið á búa til 22 ársverk á landsbyggðinni í algeru tilgangsleysi, en málið er ekki alveg svona einfalt.
Þau manntöl sem þegar hafa verið tölvuskráð voru tekin 1703, 1729, 1801, 1835, 1845, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910 og 1930. Sú tölvuskráning sem þar var unnin var gerð með þarfir ættfræðinnar í huga og upplýsingum sem ekki teljast beinar ættfræðiupplýsingar var sleppt. Ennfremur voru upplýsingar ekki skráðar stafréttar, heldur var stafsetning nafna samræmd, auk þess sem fjöldi villna í manntölunum var leiðréttur
Einnig var manntalið 1870 endurskapað að hluta. Það er nefnilega því miður þannig að hluti manntalsins 1870 er glataður. Við fyrri tölvuskráninguna var sá hluti "endurskapaður" með því að tölvuskrá upplýsingar úr sóknarmanntölum 1869-1871 á því svæði sem var glatað.
Þessi skráning var því ekki nákvæm skráning frumhandrita manntalanna, enda eingöngu ætluð til þess að búa til skrár sem nýttust ættfræðingum, ekki til að búa til nákvæmt afrit af þessum merkilegu gögnum á tölvutæku formi - sem er allt annar hlutur, en það mun vera það sem ætlunin er að gera núna.
Að auki stendur til að skrá manntölin 1840, 1850, 1855 og 1920, en þau hafa ekki verið tölvuskráð áður.
Púkinn hefði að vísu sjálfur frekar viljað sjá kirkjubækurnar tölvuskráðar og settar á vefinn, því þær hafa aðeins verið tölvuskráðar fram til loka 18. aldar, en mótvægisaðgerðir stjórnvalda duga víst ekki til þess í þetta skiptið. Ætli kirkjubækurnar verði ekki að bíða eftir næsta kvótaniðurskurði, hvenær svo sem það nú verður.
Hvað um það, fyrir þá ættfræðigrúskara sem ekki hafa haft þægilegan aðgang að manntalsgögnunum fyrr, þá er birting þessara manntala verulegt ánægjuefni.
Manntalið 1870 komið á netið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Bækur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.