Er Seðlabankinn verri en gagnslaus?

Eftir að hafa skoðað málið er Púkinn þeirrar skoðunar að hér á Íslandi sé í gangi "pissa-í-skóinn-sinn" efnahagsstjórn. 

Púkinn hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að aðgerðir Seðlabankans séu rangar, eða a.m.k. rangt tímasettar.  Það er reyndar ekki við bankann einan að sakast - margar af ákvörðunum stjórnvalda eru sama marki brenndar - þjóna skammtímahagsmunum en eru gagnslausar eða beinlínis skaðlegar, svona til lengri tíma litið.

Skoðum til dæmis einhverja heimskulegustu ákvörðun undanfarinna ára - þegar ákveðið var að hækka lánahlutfall Íbúðalánasjóðs.

Jó, sem skammtímalausn leit þetta vel út - með því að lána stærri hlutakaupverðsins gætu fleiri eignast sína eigin íbúð....eða hvað?

Raunverulegt verðmæti þeirra tekna sem fólk aflar sér eykst ekki við þessa aðgerð - það eina sem gerist er að meiri peningar eru settir í umferð - fleiri krónur að keppa umtakmörkuð gæði.  Að sjálfsögðu leiddi þetta til hækkunar á húsnæðisverði.  Húsnæðisverð mun að sjálfsögðu ná jafnvægi á endanum - það þarf bara hressilega raunlækkun til, sem mun á endanum leiða til þess að fjöldi fólks skuldar meira í íbúðunum sínum en sem nemur mögulegu söluverði þeirra.  Þangað til þessari stöðu er náð, helst íbúðaverð hins vegar enn hátt, þannig að erfiðara verður fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð - já, þegar upp er staðið verður þetta hinn endanlegi afrakstur hækkunar lánahlutfallsins.

Þeir sem keyptu íbúðir á þeim tíma sem bólan var í hámarki geta sjálfum sér um kennt - það voru margir sem vöruðu við ástandinu.

Þetta hækkaða húsnæðisverð var túlkað af Seðlabankanum sem verðbólga sem yrði að berjast gegn.  Púkinn lítur á það sem grundvallarmistök, enda hefur það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans (vaxtahækkanirnar) voru gjörsamlega áhrifalausar og gerðu í raun ástandið bara verra.

Háu vextirnir gerðu vaxtaskiptasamninga og útgáfu jöklabréfanna að áhugaverðum kosti, sem þýddi umtalsvert streymi gjaldeyris inn í landið.

Ef hér hefði verið alvöru Seðlabanki, myndi hann hafa notað tækifærið og styrkt gjaldeyrisvarasjóðinn á þessum tímapunkti, en nei...það var ekki gert, með þeim afleiðingum að gengið fór bara hækkandi og hækkandi.  Útflutningsfyrirtækin voru hrakin úr landi, eða neydd til að draga saman seglin, en þjóðin fór á eyðslufyllerí - flatskjáir, pallbílar og einkaþyrlur streymdu inn í landið.

Gerði Seðlabankinn eitthvað til að sporna gegn þessari þróun?  Hann hefði getað haldið gengi krónunnar eðlilegu með því að auka gjaldeyrisvarasjóðinn, eða sett hömlur á bankana með því að auka bindiskyldu þeirra, en nei ... bankinn gerði ekkert nema að hækka vextina meir og meir ... gagnslaus og jafnvel skaðleg aðgerð.

Það er þannig með alvarleg fyllirí að þeim fylgja timburmenn, og þeim hefur þjóðin fengið að kenna á núna þegar spilaborgin hrundi.

Gengi krónunnar er loks orðið eðlilegt og jöfnuður er að nást milli útflutnings og innflutnings, en það hefur hægst á hjólum atvinnulífsins - a.m.k í mörgum greinum.  Sú kólnun er óhjákvæmileg, jafnvel nauðsynleg, en það er líka ljóst að það getur tekið tíma að koma hlutum af stað aftur.  Sú ákvörðun Seðlabankans að gera ekki neitt í bili bendir ekki til þess að neinn viðsnúningur verði næsta árið.


mbl.is Stýrivaxtalækkun frestast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Púkinn veit vonandi að lánshlutfallið var hækkað í desember 2004 eftir að bankarnir voru búnir að vera að lána allt að 100% í 4 mánuði.  Hann veit vonandi líka að vegna ákvæða um hámarkslán og tengingu við brunabótamat var sáralítið lánað út hjá Íbúðalánasjóði af 90% lánum það gerðu bankarnir.  Gagnrýnin á fullan rétt á sér, en hún á að beinast að réttum aðila.  Innkoma bankana á húsnæðismarkað, með skuldbreytingum þar sem kaup voru ekki skilyrði samhliða lækkaðri bindiskyldu eru hagstjórnarmistök sem Seðlabankinn á heiður af.

G. Valdimar Valdemarsson, 3.7.2008 kl. 13:00

2 Smámynd: Púkinn

Bankarnir hækkuðu sitt hlutfall þar sem þeir vissu af fyrirhugaðri hækkun Íbúðalánasjóðs - það var sú ákvörðun sem ýtti skriðunni af stað.

Hitt er alveg rétt að Seðlabankinn hefði átt að reyna að hemja útlánagleði bankanna.

Púkinn, 3.7.2008 kl. 13:09

3 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Bankarnir vissu líka að hámarkslán Íbúðalánasjóðs yrði miðað við 90% af hóflegri 4 herbergja íbúð og þeir vissu líka af tengingunni við brunabótamat og þeir vissu líka að innleiðingin átti að taka allt að 3 ár og vera í takt við hagsveifluna.   Allt þetta vissu bankarnir og gerir þeirra sök í málinu enn meiri.

G. Valdimar Valdemarsson, 3.7.2008 kl. 13:31

4 Smámynd: corvus corax

Það var viðtal í hádegisfréttum í dag við Ceausescu Oddsson formann stjórnar Seðlabankans um stýrivextina eins og svo oft áður. Ceausescu Oddsson sagði þar að ekki væri hægt að lækka stýrivextina núna því það myndi m.a. ógna jafnvægi efnahagslífsins. Er maðurinn fífl? Svar: já þetta fífl er fífl að leyfa sér að tala um jafnvægi efnahagslífsins. ÞAÐ ER EKKERT HELVÍTIS JAFNVÆGI Í EFNAHAGSLÍFI ÍSLANDS, ÞÖKK SÉ CEAUSESCU ODDSSYNI Í SEÐLABANKANUM! Jafnvægi hvað? Verðbólgan á fullu, daglegt gengisfall krónunnar, daglegar verðhækkanir á öllum aðföngum almennings. Það eina sem er í jafnvægi í efnahagslífinu eru laun fólksins í landinu því þau breytast ekkert!

corvus corax, 3.7.2008 kl. 14:37

5 Smámynd: Sigurjón

Ég hef ávallt litið á Púkann sem vitsmunalega skarpan einstakling og spyr því eftirfarandi spurninga:

Höfðu bankarnir ekkert að gera með hækkun íbúðalána með sinni 100% innkomu á lánamarkaðinn (gleymum því ekki að ÍBLS gerði ávallt kröfu um brunabótamat og að lánin yrðu til fasteignakaupa, nokkuð sem bankarnir gerðu ekki)?

Hefði verið skynsamlegra hjá SÍ að hunza hækkandi íbúðaverð og á hvaða hátt þá?  Hefði verið betra ef vextir hefði haldist í sama horfi og hvað hefði þá átt sér stað?

Að lokum: Er það eðlilegt að gengi krónunnar lækki sífellt?  Púkinn hefur haldið því fram undanfarin ár að krónan sé allt of sterk.  Ég man þá tíð fyrir u.þ.b. 20 árum að pundið kostaði 75 krónur.  Dollarinn kostaði um sama leyti innan við 40 krónur.  Hvers vegna er það eðlilegt að gengi krónunnar lækki í réttu hlutfalli af tíma?

Skál! 

Sigurjón, 4.7.2008 kl. 04:57

6 Smámynd: Púkinn

Jú, bankarnir bera virkilega stóran hluta ábyrgðarinnar á neyslufylliríinu.  Það sem ég er að segja er að ákvörðunin um að hækka lánshlutfallið (sem var reyndar kosningaloforð) var einhver versti bjarnargreiði síðari tíma, því það ýtti skriðunni af stað.

Bankarnir sáu tækifæri til að hagnast og Seðlabankinn brást rangt við.

Hvað gengi krónunnar varðar, já, þá er eðlilegt að gengi hennar lækki ef  "útstreymi" gjaldeyris er meira en "innstreymi".  Það sem þetta þýðir í raun er að viðvarandi viðskiptahalli er ekkert annað en ávísun á verðbólgu til lengri tíma litið.

Slík verðbólga er í raun leiðrétting á raunverðmæti gjaldmiðilsins.  Lönd geta að vísu komist hjá þessu með því að "flytja út verðbólguna".  Bandaríski dollarinn hefur t.d. ekki hrunið nándar nærri eins mikið og hann ætti að gera, en það stafar að hluta af því að mörg erlend ríki kaupa/eiga mikið af bandarískum ríkisskuldabréfum og að hlut af því að stór hluti alþjóðaviðskipta (t.d. með olíu) fer fram í dollurum, sem leiðir til þess að mikið af dollurum er í umferð utan Bandaríkjanna.

Púkinn, 4.7.2008 kl. 13:50

7 Smámynd: Sigurjón

Ég þakka skýr svör.

Sigurjón, 4.7.2008 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband