Húrra, húrra, krónan fellur!

Púkinn fylgir ekki alveg straumnum, því hann fagnar gengisfalli krónunnar - eða, réttara sagt, leiðréttingu krónunnar, því frá sjónarhóli Púkans er gengi krónunnar eðlilegt um þessar mundir, eftir að hafa verið allt, allt of hátt á síðasta ári.

Nú er fólk ekki lengur að sýna þá heimsku að taka myntkörfulán til að fjármagna kaup á risapallbílum eða öðrum óþarfa, viðskiptajöfnuðurinn er að komast í lag, og loksins er orðið lífvænlegt hér fyrir raunveruleg útflutningsfyrirtæki.

Púkinn er þar ekki að tala um álfyrirtækin, sem byggja á innflutningi á hráefnum, nota sér niðurgreidda raforku og flytja á endanum hagnaðinn út til erlendra eigenda.  Púkinn er heldur ekki að tala um Baug, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands.  (e.t.v. fyrir að flytja út peninga, eða hvað).

Nei, Púkinn er að tala um raunveruleg útflutningsfyrirtæki, hvort sem þau flytja út fisk, hugvit eða eitthvað annað þar á milli.  Fyrirtæki sem hafa tekjur í evrum og dollurum, en launakostnað í íslenskum krónum - fyrirtæki sem koma með gjaldeyrinn inn í landið. 

Síðasta ár ver erfitt þessum fyrirtækjum en nú, með gengisfalli krónunnar, eru þau loksins orðin samkeppnishæf - launakostnaður hérlendis er sambærilegur við það sem gerist erlendis, þannig að þessi fyrirtæki þurfa ekki lengur að flytja störfin út landi til að lifa af.

Húrra fyrir krónunni!


mbl.is Krónan veiktist um 2,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tek undir þennan pistil.

En það sem er nýtt í stöðunni núna eru hinar gífurlegu skuldir í erlendum myntum. Fólk og fyrirtæki virðast hafa gleypt á þessa þvælu og situr nú illilega í súpunni. Þetta var ekki áður útkoman úr gengisfalli krónunnar. Nú herðist að með tvennum hætti, skuldir hækka og kaupmáttur skerðist, áður skertist aðeins kaupmátturinn.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 22:27

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Skuldir í íslenskum krónum hækka líka. Höggið er bara mildað, hækkunin dreifist yfir lengri tíma (allt að 40 ár!)

Theódór Norðkvist, 11.7.2008 kl. 23:18

3 identicon

Rétt hjá Theódór, skuldir í krónum hækka líka, en á lengri tíma.

Hágengistímabilið var afar óhagstæður tími til að skuldsetja sig í erlendri mynt en þá var þessu otað að fólki sem uggði ekki að sér. Nú aftur á móti, þegar hagstætt er að taka gengistryggð lán þá eru þau ekki í boði. Mér skilst að bankarnir taki fyrir sjálfan sig allan gjaldeyri sem er í boði.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 08:32

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég held að öllum hafi verið ljóst að krónan var of hátt skráð, en núna er hún auðvitað of lágt skráð.

Þetta eru auðvitað óþolandi sveiflur á gjaldmiðlinum og algjörlega óásættanlegar. Sama má segja um sveiflurnar í hagvexti hér á landi. Það væri óneitanlega betra að hafa þetta allt saman aðeins hófstilltara og sennilega hafa ráðamenn, bankarnir og stórfyrirtækin áttað sig á því.

Ég fann þetta kort á netinu, sem sýnir okkur hvernig við stöndum okkur í samanburði við nokkur önnur lönd:

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.7.2008 kl. 11:55

5 Smámynd: Kári Harðarson

Sammála þér Púki. 

Undanfarin ár upplifiði ég ekki sem raunverulega velmegun, bara brjálað neyslufyllerí uppá krít.  Allan tímann hafði ég áhyggjur af alvöru fyrirtækjum eins og Marel, Össuri og þínu fyrirtæki, Púki.  Hvernig ætlum við að búa hér næstu 100 árin ef við byggjum ekki upp raunverulegan iðnað?

Mótsögnin var í mínum huga þessi:  Við íslendingar erum forríkir en við höfum samt ekki efni á neinu af því allt er svo dýrt hérna.  Þess vegna þurfum við að taka lán og kaupa allt í útlöndum þar sem allt er svo ódýrt.  Krónan var vitlaust skráð og bankar og innflytjendur högnuðust.

Ástæðan fyrir því að margir framámenn vilja ekki fá Evruna er að þá gengur þessi sjálfsblekking ekki upp.  Fólk tæki eðlileg lán í evrópskum bönkum og hætti að fara til útlanda til að kaupa föt.  Það kæmi líka í ljós að launin á Íslandi eru ekkert sérstök þegar allt kemur til alls. 

Kári Harðarson, 14.7.2008 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband