Evran inn um bakdyrnar...eða hvað?

euroPúkinn er að velta fyrir sér hvort ASÍ eða einhverjir aðrir muni reyna að koma evrunni inn með "bakdyraleiðinni" á næstunni.

Með því á ég við eftirfarandi leið:

  • Krónunni væri haldið áfram sem opinberum gjaldmiðli og gengi hennar látið fljóta gegn evru eins og verið hefur.  Evrur eru ekki notaðar sem almennur gjaldmiðill á Íslandi (Þetta er til að komast hjá þeim kröfum sem gerðar eru til þess að mega formlega taka upp evruna)
  • Öll laun væru gengistengd - ekki bara hjá einstaka starfsmönnum útflutningsfyrirtækja.  Launþegar myndu áfram fá útborgað í íslenskum krónum, en fjöldi króna myndi ráðast af gengi evrunnar á hverjum tíma.
  • Í stað vísitölutryggðra reikninga myndi fólk geyma eignir sínar í bönkunum í gengistryggðum reikningum.
  • Allar skuldir einstaklinga og fyrirtækja væru gengisbundnar.

Þeir sem mæla með þessari leið segja að með henni sé allri gengistengdri óvissu um afkomu heimilanna eytt. Skuldirnar sveiflast að vísu upp og niður, en eignirnar og tekjurnar gera það líka.

Málið er hins vegar ekki svona einfalt, en svo virðist sem þeir sem mæla með bakdyraleiðinni hugsi málið aldrei til enda.

Þetta myndi draga stórlega úr eftirspurn eftir krónum, með tilheyrandi gengishrapi krónunnar og óðaverðbólgu.  Áhrifin yrðu að vísu milduð af því að gengisfallið myndi þýða að fólk fengi sjálfkrafa fleiri krónur í vasann, en þeir sem væru nógu vitlausir til að eiga krónur myndu sjá þær brenna upp.

Útflutningsfyrirtæki (og aðrir sem hafa tekjur í raunverulegum "hörðum" gjaldeyri væru í góðum málum, en innflutningsfyrirtæki og hið opinbera væru í vandræðum.

Allar forsendur fyrir fjárlagagerð ríkisins myndu hrynja, nema ef fjárlögin væru í raun gerð í evrum -- en það myndi jafngilda algeru vantrausti ríkisins á krónunni - sem myndi gera hana að verðlausum gjaldmiðli.

Það eru allmargir gallar til viðbótar, en niðurstaðan er einföld - "bakdyraleiðin" gengur ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Það er einmitt hluti af "bakdyraleiðinni", en eins og ég sagði hafa þeir sem vilja það ekki hugsað dæmið alveg til enda.

Púkinn, 23.9.2008 kl. 15:48

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

Evran og öll sú umræða. skilar okkur engu nema ömurleika og þunglyndi.

Við fáum ekki taka upp evruna nema taka til hérna og uppfylla stöðugleika sáttmálann í hvað þrjú ár? 

en við höfum 1 flokk í ríkisstjórn sem hefur engan áhuga á því að vinna að einu né neinu.

þeir vilja neyða landið inn í ESB með sama hætti og sömu eða svipuðu rökum og Bush og félagar notuðu í USA til þess að koma á Patriot lögunum. 

Fannar frá Rifi, 23.9.2008 kl. 19:51

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það er þess utan alger óþarfi að velta fyrir sér leiðum til þess að taka upp evruna. Við höfum ekkert með hana að gera enda myndi hún seint taka tillit til hagsmuna og aðstæðna Íslendinga. Annars er í bezta falli óljóst hversu lengi evrusvæðið verður til, sbr.:

http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/649737/

Ég mæli sérstaklega með skýrslu hinnar Evrópusambandssinnuðu hugveitu Centre for European Reform frá því í september 2006 sem ber heitið "Will the eurozone crack?" þar sem varað er við því að evrusvæðið kunni að líða undir lok verði ekki gripið til róttækra umbóta innan aðildarríkja þess, umbóta sem nákvæmlega ekkert bólar á.

http://www.cer.org.uk/publications_new/688.html

Hjörtur J. Guðmundsson, 23.9.2008 kl. 21:25

4 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

ASÍ á að vita að "sjálfkrafa" evruvæðing er ekki í þágu þeirra umbjóðenda. Þetta var útskýrt mjög vel á ráðstefnu í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Valkostirnir eru tveir: Af-evruvæðing eða lögleg evruvæðing. Lögleg evruvæðing er er spurning um ESB aðild. Því fyrr sem menn hætta að sóa kröftum í aðrar vangaveltur, því betra.

Erna Bjarnadóttir, 24.9.2008 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband