Er núna rétti tíminn til að lækka stýrivexti?

Eins og lesendum Púkabloggsins undanfarin ár ætti að vera kunnugt, hefur Púkinn haldið því fram að vaxtahækkunarferli Seðlabankans hafi verið mistök.

Reyndar mætti jafnvel ganga enn lengra og rökstyðja að það ferli sýni að þeir háu herrar hafi í grundvallaratriðum misskilið eðli verðbólgu á Íslandi.  Hækkun stýrivaxta til að slá á verðbólgu getur virkað undir ákveðnum kringumstæðum, en þá þarf tvennt að vera til staðar.  Í fyrsta lagi verður verðbólgan að stafa af þenslu í þjóðfélaginu, ekki utanaðkomandi áhrifum eins og t.d. olíuverðshækkunum.  Í öðru lagi verða stýrivextirnir að bíta - í þeim skilningi að þeir verða að ráða þeim kjörum sem einstaklingum og fyrirtækjum býðst fjármagn á.

Þetta er raunin í Bandaríkjunum og flestum siðmenntuðum löndum - þar tekur fólk lán í sínum eigin gjaldmiðli og hækkaðir stýrivextir bíta beint - fólk dregur saman seglin, það hægist um í þjóðfélaginu og þenslan minnkar.

Þetta var ekki raunin hér á Íslandi, þar sem bankarnir beinlínis otuðu erlendum lánum að fólki.  Það má deila um hvort bankarnir hafi nýtt sér almanna fáfræði fólks um hagfræði, en málið er að vaxtahækkanir Seðlabankans höfðu af þessum sökum ekki tilætluð áhrif - og í stað þess að beita bindiskyldutækinu til að hemja bankana hélt Seðlabankinn bara áfram að hækka og hækka vextina.

Hækkanirnar höfðu hins vegar önnur, óæskilegri áhrif - stuðluðu að útgáfu jöklabréfa og innstreymi fjár til landsins, sem styrkti krónuna langt umfram það sem eðlilegt mátti teljast.  Þetta setti útflutningsfyrirtækin í erfiða stöðu, enda er styrking krónunnar bein atlaga að rekstrargrundvelli þeirra - en, hinir háu herrar töluðu bara um "eðlileg ruðningsáhrif".

Málið er það að vextina hefði aldrei átt að hækka eins mikið og gert var.  En, ef Seðlabankinn hefði lækkað vextina fyrr, hefði það valdið flótta jöklabréfafjármagnsins úr landi, sem aftur hefði valdið veikingu krónunnar, sem hefði skilað sér í hækkuðu vöruverði, sem hefði mælst sem verðbólga.

Seðlabankinn mátti ekki gera þetta vegna þess að samkvæmt lögum er meginmarkmið hans að halda verðbólgu niðri - ekki að viðhalda stöðugleika eða reyna að halda hjólum efnahagslífsins gangandi - nei - lögum samkvæmt varð hann að einblína á verðbólguna og ekkert annað.

Núna er staðan hins vegar breytt.  Verðgildi krónunnar er fallið niður úr öllu og engum heilvita manni dettur í hug að gefa út jöklabréf.  Hvað myndi gerast ef Seðlabankinn snarlækkaði vextina núna - t.d. niður í 8-10%?

Það er að vísu svolítið erfitt að segja fyrir um hvaða áhrif það myndi hafa, en Púkinn metur það samt svo að það myndi ekki gera ástandið verra.  Áhrifa myndi gæta í peningamarkaðssjóðum (sem eru að vísu lokaðir sem stendur), í genginu (en ástandið þar er svo slæmt að óljóst er hvort það myndi versna nokkuð meira) og í fjármögnun ríkissjóðs (sem er í molum hvort eð er).

Vaxtalækkunin myndi hjálpa verulega þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem skulda í íslenskri mynt. Hún myndi að vísu ekki hjálpa þeim sem eru með erlend lán á bakinu, en eins og Púkinn hefur sagt þá var það hrein heimska að taka slík lán og það er spurning að hve miklu leyti eigi að bjarga fólki og fyrirtækjum frá þeirra eigin heimsku.

Nei, vaxtalækkun núna mun sennilega ekki gera vont ástand verra og mun hjálpa hluta fyrirtækja og þjóðarinnar.   Hugsanlega hafa sérfræðingar IMF komið ráðamönnum í skilning um þetta og við gætum þá jafnvel séð vaxtalækkun í dag, en það væri sennilega illskásta aðgerðin í stöðunni.

Eins og eitt ágætt fyrirtæki segir: "Ekki gera ekki neitt".


mbl.is Nýi Landsbanki tekur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég stóðst ekki mátið að skrifa aðeins um það í dag hvers sé ábyrgðin.

Þegar að DO verður farinn úr SÍ munu stýrisvextir lækka hratt tel ég.

Baldvin Jónsson, 9.10.2008 kl. 11:46

2 identicon

Þegar stýrvextir lækka þá einfaldlega selja útlendingar krónurnar sínar  => verðgildi krónunar hrynur => gengishækkun á erlendum gjaldmiðlum => Erlend lán hækka í verði og innfluttar vörur hækka í verði => Verðbólga.

Útlendingar eiga alltof mikið af bæði krónum og kröfum á Íslendinga og það er engin lausn í stöðuni nema biðja IMF um að taka yfir reksturinn á skútuni þangað til það verður búið að þjálfa nýja áhöfn.

IMF eru búnir að bíða í mörg ár eftir svona tækifæri til að "bjarga" einhverjum og þetta er alveg gulltryggð leið til að komast aftur á réttan kjöl.

Neiðarlegt já, en ekki eins vont eins og það sem bíður okkar annars.

Fransman (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband