Fimmtudagur, 16. október 2008
Ætli prófin hafi skánað?
Púkinn benti í fyrra á hve hræðilega óvönduð samræmd próf í stærðfræði væru (sjá þessa grein).
Vonandi hefur orðið breyting til batnaðar, en Púkinn hefur sínar efasemdir. Það virðist nefnilega flestum aðilum í skólakerfinu vera nákvæmlega sama þótt námsefnið í stærðfræði og raungreinum sé óvandað, kennslan léleg og þekking kennara takmörkuð.
Það eru einstaka undantekningar sem ber að hrósa, til dæmis Ólympíustærðfræðiverkefnið, en því miður er slík viðleitni undantekning, ekki regla.
Þetta er allt annað viðhorf en ríkir t.d. til íslenskukennslu, þar sem metnaðurinn er mun meiri og sömuleiðis stuðningur ráðamanna - það eru t.d. haldnar lestrarkeppnir fyrir alla grunnskóla, en kannast einhver við að hafa séð sambærilega náttúruvísindakeppni?
Hvað um það, þótt prófin séu léleg er Púkinn samt þeirrar skoðunar að þau séu nauðsynleg, þótt ekki sé til annars en að veita foreldrum vísbendingu um hvar börnin þeirra standa miðað við önnur.
Það sem má hins vegar ekki gera er að nota prófin til að bera saman skólana og draga þær ályktanir að einhverjir skólar séu "betri" en aðrir, bara af því að meðaleinkunnir nemenda þar eru hærri. Málið er ekki svo einfalt.
Könnunarpróf í grunnskólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:28 | Facebook
Athugasemdir
Ég vona að þeir sem fara yfir séu líka búnir að skána í stærðfræði, eldri dóttir mín fékk skv. útreikningum bæði okkar og þeirra 8,5, það var námundað niður í 8 í stað upp í 9...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.10.2008 kl. 13:20
Ég er sammála um að gæði prófanna mættu vera mun meiri. Ég fjallaði ítarlega um þetta sl vor og sendi Námsmatsstofnun ítarlegt bréf þar sem ég rökstuddi galla samræmdu prófi í Náttúrufræði, bæði í prófinu og svörum sem birt voru. Ég fór fram á svar frá Námsmatsstofnun við erindi mínu en hef enn ekki fengið nein viðbrögð. Það er ámælisvert að opinber stofnun svari ekki erindum sem henni berast. Ég hef hugsað mér að ítreka beiðni um viðbrögð en það hefur farist fyrir. Hér má sjá umfjöllun mína um þetta.
Samræmd próf á yngri stigum eiga því aðeins rétt á sér að þau séu notuð til að greina frávik hjá skólum og / eða börnum og við þessum frávikum sé brugðist á viðeigandi hátt. Mín persónulega reynsla er að það sé ekki gert. Vonandi er það undantekning.
Kristjana Bjarnadóttir, 16.10.2008 kl. 16:57
Kæri púki. Fyrst spyr þú hvort samræmdu prófin hafi skánað og vísar jafnframt í gölluð próf frá síðasta ári, en ferð svo skyndilega að tala um námsefnið, lélega kennslu og takmarkaða þekkingu kennara.
Gölluð samræmd próf segja ekkert um námsefnið, kennsluna eða hæfni stærðfræðikennara. Þeir sem semja samræmdu prófin mega ekki stunda kennslu jafnframt, enda væri sá semjandi vanhæfur sem kennari.
Þegar sama námsefni er kennt í nokkur ár í röð, fer ekki hjá því að til verði samræmd próf á lager til æfinga fyrir kennara og nemendur. Semjendur samræmda prófa eru því í ákveðnum vanda og geta ekki sífellt snúið á betri og meiri undirbúning kennara og nemenda með endalausu hugarflugi um ný dæmi á prófum.
Annars er ég hlynntur samræmdum prófum eins og þau eru framkvæmd. Þau gefa ákveðna vísbendingu um getu sveitarfélaga og einstakra skóla til að framfylgja námskrá. Galli þeirra er ekki svo mikill að hann breyti neinu um niðurstöður þeirra til nota við samanburð.
Skólar eru hins vegar og verða ávallt í fjársvelti. Sömuleiðis öll gerð námsgagna, gerð samræmdra prófa o.s.frv.
Með kveðju
Sigurður Rósant, 16.10.2008 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.