Miðvikudagur, 1. apríl 2009
Réttlátir skattar og ranglátir
Púkinn borgar sennilega meira í skatta en hann fær til baka frá ríkinu, beint eða óbeint og því er ekki skrýtið að skattahækkanir séu ekki ofarlega á vinsældalista Púkans.
Staðan nú er hins vegar sú að erfitt er að komast hjá skattahækkunum, en þá skiptir máli að þeir skattar séu réttlátir.
Hátekjuskattur er svolítið gallaður að því leyti að hann leggst ekki á þá sem raunverulega hafa hæstu tekjurnar - þeirra tekjur eru gjarnan í gegnum arðgreiðslur eða á öðru formi sem almennur tekjuskattur og útsvar leggst ekki á. Það er að vísu ekki verið að ræða um stórar upphæðir, en sú tekjutenging sem þegar er í skattkerfinu vegna persónufrádráttar er það mikil að Púkanum finnst óþarfi að auka hana. Þurfi ríkið hins vegar nauðsynlega á þessum örfáu þúsundköllum að halda til viðbótar, þá er það svosem ásættanlegt.
Fjármagnstekjuskattur er meingallaður að mati Púkans. Ásstæða þess er sú að hann er of einfaldur og leggst á hluti sem ekki eru "tekjur". Púkanum finnst ekkert athugavert við fjármagnstekjuskatt á arðgreiðslur eða söluhagnað af hlutabréfum. Vandamálið er varðandi skatt af vöxtum af bankainnistæðum. Ef verðbólga er há, þá er fjármagnstekjuskatturinn að éta upp mun stærri hluta raunvaxtanna en annars. Það sem Púkinn myndi vilja er einfalt - mun hærri fjármagnstekjuskattur - t.d. 25% en hvað innistæður varðar þá myndi hann eingöngu leggjast á raunvextina - ekki á verðbætur á verðtryggðum reikningum til dæmis. Verðbætur eru ekki "tekjur" í sama skilningi og vextir. Þessi hærri skattur myndi hins vegar leggjast af fullum þunga á arðgreiðslur og söluhagnað af hlutabréfum. Það mætti líka hugsa sér stighækkandi fjármagnstekjuskatt eins og er í nágrannalöndunum - í Danmörku er skatturinn t.d. 45% af arðgreiðslum yfir 100..000 dönskum krónum.
Eignaskattur er algjört eitur í beinum Púkans. Hvers á fólk að gjalda sem er kannski komið á efri ár og býr í skuldlausu, en verðmætu húsnæði? Eignaskattur dregur úr hvata til sparnaðar og er á allan hátt óréttlátur skattur - 2% eignaskattur á bankainnistæður jafngildir kannski 40% skatti á raunávöxtun og 2% skattur á skuldlaust íbúðarhúsnæði jafngildir hægfara eignaupptöku. Púkinn sér enga siðferðislega réttlætingu fyrir eignaskatti. Skattlagning á arð af eignum er í góðu lagi, en skattlagning á eignir sem ekki skila arði er vafasöm, svo ekki sé meira sagt.
Skattaákvarðanir um mitt árið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:00 | Facebook
Athugasemdir
Brilljant...
TARA, 1.4.2009 kl. 13:21
Gæti ekki verið meira sammála þér.
Ég myndi vilja sjá tekjutengingu tekna upp á milli fjármagnstekna og almennra launa. Séu launin lægri en fjármagnstekjurnarupp á visst hlutfall þá ætti að hækka fjármagnstekjuskattinn og jafnvel leggja útsvar á þær tekjur líka.
Dæmi, reyndar er ég að spinna þetta upp á staðnum og þessi útgáfa þarf örugglega að taka breytingum ef menn vilja snara þessu upp í töflu:
Jón er með 10.000.000 á ári í laun, borgar alla skatta og skyldur.
Jón er síðan með 50.000.000 í fjármagnstekjur.
Við drögum frá fjármagnstekjnum þau árslaun sem hann hafði: 50.000.000 - 10.000.000 = 40.000.000
Sú upphæð (40 milljónir), eða hluti hennar, mætti að mínu mati endurskoða álagninguna á.
Prófa að taka útsvar 13% af 40.000.000 --> 5.200.000 í kassann.
eða 26% skatt ssem skiptist jafnt milli sveitarfélags og ríkis --> 1.400.000 í kassan þar.
Allskonar æfingar til.
Aftur á móti veldur þetta örugglega því að menn draga verulega úr þessum arðgreiðslum.
B Ewing, 1.4.2009 kl. 14:58
Jámm, eignaskattur á hús/íbúð sem fólk býr í finnst mér ekki vera í lagi. Hins vegar á aðrar húseignir, fínt.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 1.4.2009 kl. 20:52
Já, viltu semsagt eignaupptöku á sumarbústöðum, húseignum og landspildum sem fólk hefur erft og situr uppi með ?
Púkinn, 1.4.2009 kl. 21:56
Eigum við ekki að taka upp annann gjaldmiðil ....ekki seinna en strax?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.4.2009 kl. 00:09
Gott að koma með neikvæðar ábendingar um skatta á þá sem raun og veru geta borgað meira til samfélagsins..... En, hvað viltu koma með sem uppástungu, sem virkar? Á sanngjarnan hátt? Þannig að þeir sem geta í raun og veru borgað meira til samfélagsins (en gera ekki, t.d. vegna þess að þeir hafa fjármagnstekjur, en ekki launatekjur)?
Mér finnst t.d. algjörlega sjálfsagt að þeir sem hafi miklar fjármagnstekjur, borgi skatta af þeim. Jafnvel í réttu hlutfalli við hvað þeir hali inn í gegnum fjármagnstekjurnar. Aðili sem er launamaður er að borga hvað.. 38% af launum í skatta, fyrir utan öll önnur gjöld sem eru tekin af launamanninum. Aðili sem er að fá fjármagnstekjur... er að borga hvað ... 10% í skatta. Og er laus við að greiða svona pjatt eins og útsvar og í framkvæmdasjóð aldraðra og annað slíkt.
Einar Indriðason, 2.4.2009 kl. 07:58
Ja, eins og ég sagði - hækkun á raunverulegar fjármagnstekjur - ég er bara ósammála því að líta á verðbætur sem fjármagnstekjur.
Púkinn, 2.4.2009 kl. 08:44
Tja... já.
Það má líka velta fyrir sér gömlu og góðu mottói sem á vel við þessa dagana líka. "K.I.S.S." (keep it short and simple) ...
Einar Indriðason, 2.4.2009 kl. 09:01
Ég er hjartanlega sammála þér, og þá sérstaklega með eignaskattinn.
Getur einhver frætt mig um hvað gerir hátekjuskatt fýsilegri en að hækka venjulegan tekjuskatt, um segjum 5%, en á móti hækki persónuafsláttinn þannig að sá sem var með t.d. 300.000 í mánaðarlaun borgi sömu krónutölu og áður í skatt. Þetta myndi valda því að þeir sem hafa undir 300.000 í mánaðarlaun myndu borga minna í skatt en áður, en þeir sem hefðu hærri tekjur meira.
Hverjir eru gallarnir við þessa aðferð umfram hátekjuskatt?
Þetta yrði augljóslega auðveldara í framkvæmd þar sem þetta er sama fyrirkomulag og hefur verið nema hvað hlutföllunum hefur verið breytt.
Sigurður Ægir Jónsson, 2.4.2009 kl. 09:34
Þetta eru áhugaverðar hugmyndir. Við vorum með svipað kerfi og það sem Sigurður var að lýsa fyrir 15-20 árum (um 40% skattar+hátekjuskattur, en hærri persónuafsláttur á móti).
Svo beittu menn því snjallræði að láta persónuafsláttinn ekki fylgja neinum vísitölum og þar með gafst svigrúm hægt að lækka skattprósentuna, fella niður "jaðarskatta" á borð við hátekjuskatt og allir græddu (nema þeir sem voru ekki hátekjufólk).
Helsti gallinn við þetta er að háir skattar eru vondir - og það er bara vont fólk og kommúnistar sem vilja hækka skatta. Gott fólk lækkar skatta.
Annars er til reiknilíkan fyrir þetta í boði datamarket.net, þar sem er hægt að stilla mismunandi skattprósentu, persónuafslátt og hátekjuskatt og sjá hvaða áhrif það myndi hafa (en bara ef allir hefðu sömu laun og í fyrra, og reyndu ekki að koma sér undan nýju sköttunum). Ég veit ekki hverjar tölurnar voru 1991 og hver eðlileg vísitöluhækkun síðan þá er, en ég er nokkuð viss um að þeir sem hafa undir 300.000 á mánuði (núvirði) borguðu mun lægri prósentu af heildarlaunum en þeir gera í dag.
Einar Jón, 2.4.2009 kl. 12:43
Hvað segir þú um að taka bara upp lágtekjuskatt. Lágtekjufólk kann hvort eð er ekkert með peninga að fara það bara eyðir peningunum. Ég er sammála því að eignaskatturinn er einfaldlega tvísköttun.
Offari, 4.4.2009 kl. 12:41
Svo getum við líka bara lagt af skattlagningu og lifað í sanngjörnu og frjálsu stjórnleysi þar sem engin lög eða regla ríkir, engin laun eru borguð eða glæpum refsað :P
Lang skynsamlegast er að auka skattheimtu ríkisins með því að auka verðbólgu (eftir að búið er að afnema verðtryggingu). Þannig er gengið á vald fjármagnsins á sama tíma og aukinn er hvatinn til að stofna eigið smáfyrirtæki, efla verkalýðsfélagið sitt, rækta eigin kartöflur og spara innflutning. Ég er á því að hægt eigi að vera að skýra frá skattlagningu landsmanna í svipað löngum teksta og stjórnarskránni (nokkrar A4 síður) svo allir geti skilið hvernig nákvæmlega farið er að því að skattleggja í þessu landi. Með því að leggja af alskonar afslætti og festa í lög að það eigi enginn laun að vera yfir ráðherralaunum verður auvellt að koma á réttlátri byrgðardreyfingu á Íslandi og fjármagna samneysluna.
Héðinn Björnsson, 6.4.2009 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.