Inntökukerfi í framhaldsskóla - úr öskunni í eldinn?

TeachingÞeir voru margir sem gagnrýndu samræmdu prófin - sumir kennarar sögðu þau skemma skólastarfið, þar sem kennslan beindist eingöngu að þeim í nokkra mánuði, en margir foreldrar voru líka óánægðir - sögðu prófin valda streitu og vera á ýmsan hátt ósanngjörn, án þess þó að það væri útskýrt nánar.

Nú heyra samræmdu prófin sögunni til en eru vandamálin þá horfin?

Nei.  

Þvert á móti er ástandið núna mun verra og ósanngjarnara en það var.

Möguleikar nemenda til að komast inn í þá skóla sem þeir sækjast helst eftir eru nú orðnir verulega skekktir af þeirri einföldu ástæði að skólaeinkunnir eru ekki sambærilegar milli skóla.

Í einum tilteknum framhaldsskóla hefur orðið athygliverð breyting á samsetningu nemenda....áður fyrr komust nemendur úr tilteknum grunnskólum nánast aldrei inn í viðkomandi framhaldsskóla - samkvæmt samræmdu prófunum voru þeir nemendur einfaldlega "ekki nógu góðir" - en nú þegar byggt er á skólaeinkunnum hrúgast inn nemendur þaðan - því skólaeinkunnir þeirra skóla eru ekkert frábrugðnar því sem gerist annars staðar, þótt raungeta nemendanna sé hugsanlega minni.  Í framhaldsskólanum telja menn líklegt að hluti þessa hóps muni fljótlega flosna upp frá námi, en það er lítið sem þeir geta gert í því.

Það eru ýmsar lausnir á þessu máli.  Það væri hægt að viðurkenna mistökin og taka samræmdu prófin upp aftur, eða þá að það mætti leyfa framhaldsskólunum að taka upp inntökupróf fyrir þá nemendur sem sækja um í öðrum skólum en sínum "hverfisskólum".  Þannig væri nemendum sem koma úr mismunandi grunnskólum ekki mismunað lengur.


mbl.is Brotið gegn börnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Það er búið að afnema hverfisskólafyrirkomulagið.

Að öðru leiti er heilmikið til í þessu.

Var afleikur að afnema samræmduprófin.

Kv. Þórir Hrafn

Þórir Hrafn Gunnarsson, 24.6.2009 kl. 10:48

2 Smámynd: Púkinn

Nú - jæja.... þá má bara hafa inntökupróf fyrir alla og rukka umsækjendur um einhverja málamyndaupphæð til að standa undir kostnaði.

Samræmdu prófin voru ekki gallalaus - sérstaklega voru stærðfræðiprófin illa unnin, en þau höfðu þó þann kost að gefa foreldrum og börnum nokkuð réttlátar upplýsingar um raunverulega stöðu nemenda.

Púkinn, 24.6.2009 kl. 10:57

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Samræmd próf voru þó hugsuð til þess að skila samræmdri niðurstöðu, ekki einkunnaverðbólgu þar sem allir fá níu komma eitthvað í lokin. Mér skilst að Landsprófið forðum hafi líka átt að vera nokkurn veginn samræmt. Helsta rökrétta leiðin er að leiðrétta mistökin fyrir næsta ár og taka samræmdu 10 bekkjar prófin upp aftur.

Auðvitað fylgir streita öllum prófum, en þau virka, því að ella eru engin föst viðmið. Fólk á ekki bara að leka áreynslulaust alla leið inn í háskóla á okkar kostnað.

Ívar Pálsson, 24.6.2009 kl. 11:05

4 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Sáu þetta ekki allir fyrir? Þetta er mjög ófaglegt að mínu mati og stjórn menntamála sem stóð fyrir þessu til skammar.  Það verða að vera samræmd próf eða inntöku próf, hið fyrra virðist skynsamlegra. Til að koma í veg fyrir að síðustu ár fari í að læra fyrir samræmd próf, þá ættu að vera samræmd próf í fleiri greinum og prófin ættu að vera fjölbreyttari og kannski víðar skilgreind. Það þarf allaveganna að bæta þau á einvhern hátt.

Í annan stað verður að samhæfa einkunnir yfir allan grunnskólann, það má auðveldlega gera og myndi þá vinna gegn samþjöppun í bestu skólanna. Kannski myndi það líka verða þá til þess að góðir nemendur færu að sækja í lélega skóla til að vera hæstir þar. Í upphafi skal endinn skoða.

Pétur Henry Petersen, 24.6.2009 kl. 16:51

5 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Það er nú einu sinni þannig að margir þeir nemendur í mínum 10. bekk sem voru slóðar og fengu lélegar og miðlungi góðar einkunnir hafa náð langt á menntabrautinni. Starfa í dag sem lögfræðingar, læknar, sálfræðingar og verkfræðingar og gera það gott. Þetta á meðan margir topp nemendurnir duttu útúr skóla.

Ein skýring sem kom upp í einu endurfundapartíi var að streitan sem fylgdi því að halda topp sætinu yfir tíma væri ástæðan fyrir brottfallinu í toppnema hópnum. Það voru bara tvær leiðir til fyrir 9-10 nemana þ.e. að halda 9-10 einkunn með óþreytandi og sífellt vaxandi vinnu, eða leiðin niður á við.

Þetta meðan 5-7 nemarnir höfðu tilhneygingu til að finna sig í námi síðar, sumir ekki fyrr en í háskóla og þá lá leiðin bara uppávið í einkunnastiganum.

Einkunnakerfið virkaði því örvandi á þessa nema í lengdina meðan það virkaði neikvætt í lengdina á marga þá nema sem voru með topp einkunn í grunnskóla.

Vilhelmina af Ugglas, 24.6.2009 kl. 22:16

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Það á að taka samræmd próf upp á ný í haust en þá frekar sem leiðbeiningu til skólanna hvað þeir þurfi að leggja áherslu á á síðasta árinu. Spurning hvort það leysi málið að einhverju leyti (alls ekki víst). Veit ekki hvort nemendur mega eða eiga að skila einkunnum úr þessum nýju prófum með umsókn í framhaldsskóla.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 24.6.2009 kl. 23:27

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er undarlegt að einmitt nú þegar valið er í skólana eftir árangri skulu próf úr grunnskólunum ekki vera samræmd. Samræmdu prófin höfðu hinsvegar ekki mikið gildi á meðan framhaldsskólarnir voru hverfisskólar. Því segi ég: annað hvort eigum við að vera með hverfisskóla og ósamræmd próf eða árangurstengda skóla og samræmd próf.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.6.2009 kl. 23:30

8 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Held að allir þeir sem gera athugasemdir hér ættu að kíkja á eitt samræmt próf, t.d. frá vorinu 2008 og skoða þá hvort það sé sanngjarnt mat á "raungetu" allra nemenda.

Staðreyndin er einfaldlega sú að þessi próf voru fyrir löngu farin að mæla hluti sem ekki skiptu neinu máli fyrir framhaldsskólann, ótal dæmi er hægt að finna með nemendur sem t.d. fengu 5,0 í samræmdu prófi í stærðfræði en hækkuðu svo um 2 til 3 heila þegar þeir fóru í fyrsta áfanga framhaldsskóla!  Og áður en kemur hrokasvar um að það hafi bara verið í "lélegum" framhaldsskólum er það ekki svo.  Góður frændi minn komst inní Verzlunarskólann með 6,0 í lokaeinkunn í stærðfræði (auðvitað af því að maður þekkti mann í Verzló) en náði svo einkunninni 8,5 út úr fyrsta ári í stærðfræði.

Út af hverju?

Því prófið byggði á þeim áherslum sem skólinn lagði.  Samræmdu prófin voru krossapróf, LÍKA Í STÆRÐFRÆÐI, að 70 - 85% hluta og sáraeinfalt var að "prófkenna" nemendum, þ.e. kenna þeim að vinna slík próf.  Einsleit verkefni í ritun og stafsetningu þýddu líka að þeir nemendur sem nenntu að leggja á sig að læra að leysa slík verkefni vel fóru létt með.

Hámark ritunartexta í íslensku var 150 ORÐ!!!

Svo að þeir sem fengu góðar einkunnir voru þeir sem gátu lesið hratt og höfðu verulega góðan lesskilning, áttu auðvelt með að leysa krossapróf og æfðu sig að rita staðlaða texta sem þeir svo felldu að verkefni í íslensku, ensku og dönsku.

Þau 15 ár sem ég hef verið í grunnskóla og í sambandi við framhaldsskóla hefur framhaldsskólinn stöðugt talað um skort á sköpunargáfu, frumkvæði og öguðum vinnubrögðum nemenda sem koma frá grunnskólanum.

Grunnskóli sem enga áherslu hefur lagt á þessa þrjá lykilþætti gat hiklaust, og gerði, útskrifað nemendur með háar einkunnir á samræmdum prófum!  Enginn þessara þriggja lykilþátta í námi var mældur með samræmdum prófum á því formi sem þau voru í og stofnunin sem bjó þau til, var GRÍÐARLEGA Á MÓTI ÞVÍ að þau væru notuð sem inntökupróf í framhaldsskóla.

Börn verða fullorðin og fá stúdentspróf úr ólíkum skólum og fara upp í háskóla.  Einu sinni átti að setja á samræmt stúdentspróf og allt varð vitlaust, því slíkt próf "myndi drepa frumkvæði og sjálfstæði framhaldsskólanna".  Alveg það sama er með grunnskólann.  Íslenskt skólakerfi er loksins að leggja þá kröfu á hvern grunnskóla að hann skapi sér sína sérstöðu og á þá er nú loksins lögð á þá ábyrgðin að útskrifa nemendur tilbúna í framhaldsnám, ekki bara í staðlað próf!

En vissulega og auðvitað þurfa skólastigin að fá tíma til að laga sig hvert að öðru.

Og þeir sem halda því fram að inntökukerfi framhaldsskólanna hafi verið sanngjarnt hingað til hafa einfaldlega ekkert komið að nemendum sem eru að fara milli skóla.  Ekki neitt!

Magnús Þór Jónsson, 25.6.2009 kl. 09:45

9 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Magnús - NÁKVÆMLEGA!  Besta svar sem ég hef lesið um þessi mál.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 26.6.2009 kl. 20:49

10 Smámynd: Maelstrom

Magnús,

Finnst þér óeðlilegt að barn sem les hratt og hefur góðan lesskilning gangi betur í skóla en því sem gengur illa í lestri?

Finnst þér óeðlilegt að þeir sem eiga auðvelt með að koma frá sér vel skrifuðum texta gangi betur í skóla, jafnvel þó textinn sé ekki mjög frumlegur?

Þú ert einfaldlega að lýsa öðru vandamáli við skólakerfið og það er kolröng áhersla í mörgum greinum.  Það á að kenna öllum börnum að rita staðlaða texta í stað þess að hamra inn í þau réttritun og málfræði.  Ef þeim er ekki kennt að skrifa texta skiptir ekki máli hvort þau stafsetja rétt eða ekki.  Ef þau kunna að skrifa texta er kominn grunnur sem þau nota til að æfa réttritun.  Ef þau kunna ekki að skrifa texta er stafsetning bara utanbókarlærdómur sem sjaldan er notaður.  Staðlaðir textar eru einfaldlega grundvöllurinn fyrir frumlegum skrifum.  Ef þú kannt ekki að setja saman staðlaðan texta eru litlar líkur á að þú getir brillerað í frumleika og sköpunargáfu.  Alla vega ekki í rituðu máli.

Auðvitað á síðan að kenna öllum börnum að taka próf og það eins snemma og hægt er.  Fyrr er ekki hægt að prófa svo vit sé í.  Að ætlast til að börn finni upp próftækni í hjáverkum er ákaflega skrítið.  Enn furðulegra er að segja að skortur á próftækni ákveðins hluta nemenda sé gild ástæða til að leggja niður próf.  Það á einfaldlega að setja það í námsskrá að útskýra fyrir nemendum hvernig próf virka og hvernig sé best að athafna sig í þeim.

Maelstrom, 30.6.2009 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband