Föstudagur, 20. júlí 2012
Fagnaðarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Flestir vita að kosningakerfið á íslandi var hannað fyrir 4-5 flokka og sett upp til að tryggja að smáflokkar með undir 5% fylgi nái helst ekki inn manni á þing.
Það er ekki að ástæðulausu sem 5% þröskuldurinn er innbyggður í lögin.
Sumum finnst þetta óréttlátt og benda á að miðað við 63 þingmenn, þá standi u.þ.b. 1.5873% á bak við hvern þingmann - þannig ætti flokkur með 1.6% fylgi í raun "rétt" á einum þingmanni, flokkur með 3.2% fylgi ætti "rétt" á tveimur og flokkur með 4.8% ætti rétt á þremur.
Þannig kerfi væri hins vegar andstætt hagsmunum þeirra stærri flokka sem eru fyrir á þingi - helst vilja þeir sjá atkvæði andstæðinganna dreifast á smáflokka með undir 5% fylgi, sem myndi tryggja að þeir næðu ekki inn mönnum.
Eins og staðan er núna mun Sjálfstæðsflokkurinn hagnast verulega á þessu smáflokkafargani - gæti jafnvel náð meirihluta á þingi með innan við 40% atkvæða.
Það á bæ hljóta menn að fagna tilkomu enn eins smáflokksins.
Lítum ekki á okkur sem einhvers konar ræningja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 14. júní 2012
Siðblint ofbeldisfólk og aðrir nágrannar
Eftir að hafa lesið um sögu Aratúnsmálsins og hvaða ummæli fólk var dæmt fyrir, þá er Púkinn feginn að nágranni hans í næsta húsi er sauðmeinlaus...
...jafnvel þótt hann sé Hæstaréttardómari.
Hæstiréttur lækkaði miskabætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 2. maí 2012
Eru jöfn kjör æskileg?
Sumir viðast þeirrar skoðunar að allur jöfnuður sé af hinu góða - því meiri jöfnuður, því betra og helst eigi allir að hafa það nákvæmlega jafn gott (eða skítt).
Púkinn telur þetta hættulegar öfgaskoðanir.
Það er að vísu sanngjarnt að fólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu - tveir einstaklingar sem skila sambærilegum verkum jafn vel eiga skilið að fá sömu laun fyrir sína vinnu.
Vandamálið er hins vegar þegar fólk vill hirða meira af þeim sem hafa hærri laun - helst þannig að allir fái í raun sömu upphæð í vasann þegar upp er staðið. Púkinn hefur jafnvel rekist á fólk sem teygir þessar skoðainr út í þær öfgar að það vill setja í stjórnarskrána ákvæði um jöfn kjör allra.
Púkinn skilur ekki svona einfeldningshugsanahátt. Hér á Íslandi er fólki í dag refsað fyrir sparnað og að sýna ráðdeild. Refsað fyrir að sýna varkárni í fjármálum, refsað fyrir að leggja hart að sér til að byggja upp skuldlausar eignir og fyrirtæki - og fólk lendir jafnvel í því að á það er lagður skattur sem nemur 80-100% af þeirra tekjum - og nei, þetta eru ekki ýkjur - Púkinn þekkir svona dæmi.
Ef fólki er refsað fyrir að leggja meira á sig með því að hirða af því allt sem það ber úr býtum fyrir framtakið, til hvers ætti fólk að leggja eitthvað á sig? Hvers vegna ætti nokkur að leggja út í þá áhættu sem fylgir því að stofna og reka fyrirtæki, ef hið opinbera mun hirða allan ávinninginn, ef einhver verður?Nei, það verður að vera hvati til að leggja eitthvað á sig - það verður að vera innbyggður hvati til að vinna og skapa vinnu fyrir aðra - a.m.k. ef hér á landi eiga að vera almennt sæmileg lífskjör til frambúðar.
Annað dæmi varðar atvinnuleysisbætur og lágmarkslaun. Það eru atvinnulausir einstaklingar (t.d. einstæðir foreldrar með litla menntun) sem myndu hreinlega tapa á því að fara út á vinnumarkaðinn, þar sem þau laun sem þeim standa til boða myndu ekki bæta upp kostnaðinn við að þurfa t.d. að greiða fyrir dagvistun eða leikskóla í stað þess að vera heima á atvinnuleysisbótum.
Svona vinnuletjandi kerfi er hreinlega mannskemmandi og skaðlegt þjóðfélaginu í heild.
Deilt um ástæðu jafnari launa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 27. apríl 2012
Ekki sama "sæstrengur" og "sæstrengur"
Púkanum finnst myndavalið hjá mbl.is stundum svolítið undarlegt.
Í frétt sem fjallar um lagningu sæstrengs til að flytja raforku, er mynd sem sýnir sæstrengi sem þegar tengjast Íslandi.
Jú, vissulega eru það sæstrengir líka, en þeir eru bara allt annars eðlis - ljósleiðarar sem flytja gögn og koma raforkusæstrengjum ekkert við.
Það er síðan allt annar handleggur hvar rísstjórnin ætlar að fá raforku til útflutnings - og hvers vegna hún telur heppilegra að flytja raforkuna úr landi en að nota hana til að byggja upp atvinnu innanlands.
Ráðgjafahópur skipaður um sæstreng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. febrúar 2012
Vinsælasti gagnagrunnur heims
Eins og allir vita, þá eiga Íslendingar gjarnan heimsmet í hinu og þessu, miðað við höfðatölu.
Eitt þeirra heimsmeta varðar Íslendingabók, sem sennilega er vinsælasti gagnagrunnur heims miðað við höfðatölu, því meira en helmingur Íslendinga hefur skráð sig sem notendur.
Það er líka til önnur leið til að nálgast gögnin, en það er í gegnum Facebook "app", sem segir notendum hvernig þeir eru skyldir íslenskum Facebook vinum sínum (að því gefnu að nöfn séu rétt og fæðingardagar sömuleiðis).
Það "app" má finna hér: http://www.facebook.com/apps/application.php?id=59508836986&ref=ts
Íslendingabók afar nytsamleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Heimskuleg forræðishyggja
Þegar bann við formerkingum kjötvara var þvingað í gegn var því haldið fram að það kæmi neytendum til góða.
Þvílíkt endemis kjaftæði.
Meðan formerkingar voru í gildi var auðvelt að bera saman verð á vörum - fólk fór inn í verslun og gat séð þau tilboð sem verslunin bauð, eða þann afslátt sem var veittur við kassann frá því verði sem var skráð á vöruna.
Neytandinn gat líka verið viss um að verslunin væri ekki að smyrja ofan á verðið.
En núna? Þegar maður kemur í verslun og skoðar kjötborðið er mun erfiðara meta hvort "tilboð" verslunarinnar eru góð eða ekki - miðað við það verð sem gera má ráð fyrir að aðrir bjóði.
Verðskannarnir hafa hlotið nokkra gagnrýni, en ef þeir væru aflagðir, þa má í fyrsta lagi gera ráð fyrir að vörurnar myndu hækka í verði - það er nokkuð öruggt að aukakostnaði við verðmerkingar yrði velt beint yfir á kaupendur - og í öðru lagi myndi þetta engu breyta varðandi verðhækkanir verslana.
Nei, það er nokkuð ljóst að bannið við formerkingum var alger bjarnargreiði - gaf verslunum möguleika á að hækka verð án þess að kaupendur gætu séð það á auðveldan hátt.
Endemis forræðishyggjupólitík.
Verðmerkingum hætt og verð hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Virðisaukaskattur á netinu ... breytir nánast engu.
Í frétt mbl.is segir "Þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa von bráðar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar."
Púkanum sýnist þetta dæmigerð "ekki-frétt", því þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa nú þegar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar.
Ef fólk kaupir t.d. vörur á eBay, þá er virðisaukaskatturinn innheimtur hjá tollinum á Íslandi - nokkuð sem virðist hafa farið framhjá höfundi greinarinnar á mbl.is.
Einu undantekningarnar hingað til eru vegna rafrænnar afhendingar á vörum og þjónustu - nokkuð sem tollurinn hefur ekki getað gripið inn í, en þessari lagabreytingu er ætlað að stoppa upp í það gat.
Fyrir fyrirtæki sem kaupa t.d. þjónustu hjá Amazon Web services þá breytir þetta engu - þetta er eins og hver annar virðisaukaskattur af aðföngum sem þau fá endurgreiddan síðar.
Einstaklingar munu hins vegar þurfa að borga þennan virðisaukaskatt, en það eru ekki margir seljendur sem ná umræddu lágmarki í sölu til Íslands. Í raun sýnist Púkanum að helstu áhrifin munu verða vegna kaupa á rafbókum frá Amazon.com og vegna kaupa á tónlist og öðru efni frá iTunes.
Virðisaukaskattur á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 3. desember 2011
Heimasíðan, Húsnæðið og Flokkurinn
Ef heimasíðan er á heimasidan.is, húsnæðið heitir "Húsnæðið", þá er að mati Púkans bara eitt nafn sem kemur til greina á flokkinn....."Flokkurinn".
Gríðarlegur áhugi á framboðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 1. desember 2011
100% skattur á Íslandi
Auðlegðarskatturinn getur þýtt að einstaklingar séu krafðir um meiri skatt en nemur öllum tekjum þeirra.
Þetta getur t.d. átt sér stað hjá fólki sem er komið á efri ár og hefur engar aðrar tekjur en lífeyri, en á e.t.v. skuldlaust einbýlishús, sumarbústað og einhvern sparnað sem það hefur safnað á starfsævinni.
Svo er líka til í dæminu að "auðlegð" viðkomandi felist í eigin atvinnurekstri - fólk hefur e.t.v. byggt upp fyrirtæki, en í stað þess að skuldsetja það í botn og greiða sjálfu sér arð hefur verið valin sú leið að nýta allan hagnað í að byggja upp fyrirtækið, sem gæti verið sæmilega stöndugt, í skuldlausu atvinnuhúsnæði og með aðrar eignir - en allar þessar eignir fyritækisins teljast til auðlegðar eigandans, sem e.t.v. hefur engar aðrar tekjur en hófleg laun úr fyrirtækinu.
Í þannig tilviki getur auðlegðarskatturinn numið mun hærri upphæð en nemur tekjum eigandans.
Hvað á fólk í slíkri stöðu að gera - er ekki verið að refsa fólki fyrir að hafa byggt upp sinn rekstur í stað þess að taka út botnlausan arð og flytja allt á flókið net eignarhaldsfyrirtækja erlendis?
Hvers eiga þeir að gjalda sem hafa reynt að reka sín fyrirtæki á heiðarlegan hátt? Af hverju ætti einhver í svona stöðu að kæra sig um að reka áfram fyrirtæki á Íslandi þegar hið opinbera vill hirða allt af honum sem hann þénar og meira til?
Auðmenn flýja auðlegðarskattinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 13. nóvember 2011
Krónan er ekki vandamálið
Endemis bull.
Stóra vandamálið hér á Íslandi undanfarna áratugi - og ekki síst á árunum fyrir hrunið - var agalaus og vanhæf stjórn ríkisfjármála og Seðlabankans.
Íslenska ríkinu tókst á sínum tíma að klúðra einkavæðingu bankanna, Seðlabankinn brást kolrangt við og Fjármálaeftirlitið stóð sig ekki í stykkinu.
Nákvæmlega hvað fór úrskeiðis er nokkuð sem efur verið lýst oft áður og ætti ekki að þurfa að endurtaka.
Krónan er ekki sökudólgurinn í þessu máli, heldur saklaust fórnarlamb óhæfra stjórnmálamanna sem Íslendingar voru nógu vitlausir til að kjósa yfir sig.
Hin innistæðulausa hækkun krónunnar á sínum tíma var afleiðing rangra ákvarðana hjá stjórnmálamönnum og Seðlabankanum og hið óhjákvæmilega fall hennar var bein afleiðing sömu ákvarðana.
Nei, að skipta út krónunni myndi ekki leysa neinn vanda ef hér verða áfram við völd ráðamenn sem taka jafn arfavitlausar og agalausar ákvarðanir og voru teknar á þeim tíma.
Það sem menn hefðu átt að gera á sínum tíma - og ættu jafnvel að gera í dag - er að stefna að því að uppfylla Maastrict skilyrðin - ekki í þeim tilgangi að mega taka upp evruna, heldur vegna þess að þetta eru "góð" skilyrði, sem myndu neyða ráðamenn til að taka upp agaðri vinnubrögð.
Íslenska þjóðin þurfti að læra með sársaukafullum hætti að það er ekki endalaust hægt að lifa um efni fram - nokkuð sem hefði verið unnt að koma í veg fyrir með meiri aga.
Eigum að halda í krónuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)