Færsluflokkur: Vefurinn
Fimmtudagur, 9. febrúar 2012
Vinsælasti gagnagrunnur heims
Eins og allir vita, þá eiga Íslendingar gjarnan heimsmet í hinu og þessu, miðað við höfðatölu.
Eitt þeirra heimsmeta varðar Íslendingabók, sem sennilega er vinsælasti gagnagrunnur heims miðað við höfðatölu, því meira en helmingur Íslendinga hefur skráð sig sem notendur.
Það er líka til önnur leið til að nálgast gögnin, en það er í gegnum Facebook "app", sem segir notendum hvernig þeir eru skyldir íslenskum Facebook vinum sínum (að því gefnu að nöfn séu rétt og fæðingardagar sömuleiðis).
Það "app" má finna hér: http://www.facebook.com/apps/application.php?id=59508836986&ref=ts
Íslendingabók afar nytsamleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Virðisaukaskattur á netinu ... breytir nánast engu.
Í frétt mbl.is segir "Þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa von bráðar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar."
Púkanum sýnist þetta dæmigerð "ekki-frétt", því þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa nú þegar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar.
Ef fólk kaupir t.d. vörur á eBay, þá er virðisaukaskatturinn innheimtur hjá tollinum á Íslandi - nokkuð sem virðist hafa farið framhjá höfundi greinarinnar á mbl.is.
Einu undantekningarnar hingað til eru vegna rafrænnar afhendingar á vörum og þjónustu - nokkuð sem tollurinn hefur ekki getað gripið inn í, en þessari lagabreytingu er ætlað að stoppa upp í það gat.
Fyrir fyrirtæki sem kaupa t.d. þjónustu hjá Amazon Web services þá breytir þetta engu - þetta er eins og hver annar virðisaukaskattur af aðföngum sem þau fá endurgreiddan síðar.
Einstaklingar munu hins vegar þurfa að borga þennan virðisaukaskatt, en það eru ekki margir seljendur sem ná umræddu lágmarki í sölu til Íslands. Í raun sýnist Púkanum að helstu áhrifin munu verða vegna kaupa á rafbókum frá Amazon.com og vegna kaupa á tónlist og öðru efni frá iTunes.
Virðisaukaskattur á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 1. júní 2011
Um málfarið á mbl.is
Það liggur við að Púkinn fái verki við að lesa sumar fréttir á mbl.is. Skoðum til dæmis eftirfarandi texta:
Gengi bréf Nokia hrynur
Gengi hlutabréfa finnska farsímaframleiðandans lækkuðu um 18% í kauphöllinni í Helsinki í gær eftir að félagið tilkynnti, að rekstarmarkmið, sem sett voru fyrir þetta ár, myndu ekki nást.
Það þarf sérstaka hæfileika til að gera jafn margar villur í þetta stuttum texta - villur í beygingum orða og í kommusetningu - eru svona textar samdir af grunnskólanemendum sem féllu í íslensku eða eru bara engar kröfur gerðar til starfsmanna mbl.is um vandvirkni?
Þetta er auðvitað ekki einsdæmi, en virðist heldur hafa farið vaxandi á undanförnum árum - og nú er kominn sérstakur hópur fyrir áhugafólk um illa skrifaðar fréttir.
Gengi bréfa Nokia hrynur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 16. mars 2009
Athugasemd um Íslendingabók
Það er svolítið hvimleitt þegar fjölmiðlar fjalla um Íslendingabókargrunninn eins og hann tilheyri eingöngu Íslenskri Erfðagreiningu, en hér er um að ræða samstarfsverkefni tveggja aðila, ÍE og undirritaðs, Friðriks Skúlasonar.
Þessir aðilar ákváðu að veita þjóðinni aðgang að hluta þeirra upplýsinga sem geymdar eru í grunninum. Að öðru leyti hafa aðstandendur Íslendingabókargrunnsinns rétt til að nota hann á mismunandi vegu. ÍE hefur einkarétt á að nota hann á öllum sviðum sem tengjast læknisfræði eða erfðarannsóknum, en undirritaður hefur einkarétt á að nýta grunninn til að veita ættfræðiþjónustu umfram það sem mögulegt er með hinum hálfopna grunni á vefnum (svo sem gerð niðjatala og þess háttar).
Íslendingabók mætt á Fésbókina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Miðvikudagur, 11. júní 2008
Netþjónustufyrirtæki, barnaklám, Usenet og ritskoðun
Margir fagna því að þrjú stærstu netþjónustufyrirtæki Bandaríkjanna skuli nú reyna að loka barnaklámssíðum. Þessi þróun er hins vegar ekki endilega eins mikið fagnaðarefni og sumir virðast halda.
Það er ekki um það að ræða að verið sé að gera fyrirtækin þrjú (Verizon, Sprint og Time Warner Cable) ábyrg fyrir efni sem þau hýsa - þetta eru ekki hýsingarfyrirtæki. Það sem er fyrst og fremst verið að loka er aðgangur að Usenet "grúppum" sem dreifa barnaklámi, en á þeirri vinsælustu (sem heitir einfaldlega "Child porn") er dreift yfir 7000 myndum á dag.
Og hvers vegna er þetta ekkert sérstakt fagnaðarefni? Fyrir því eru nokkrar ástæður.
- Í fyrsta lagi er mikið af því efni sem hér um ræðir ekki barnaklám. Af öllu því efni sem var rannsakað í 88 grúppum reyndust 11.390 myndir vera óumdeilt barnaklám - en það er aðeins lítið brot þess efnis sem verið er að loka á. Raunverulegu barnaklámi er sjaldnast dreift með opnum hætti - því grófasta er dreift milli manna í lokuðum hópum - milli manna sem gera sér fyllilega grein fyrir þeim refsingum sem fylgja því að framleiða svona efni eða hafa það undir höndum. Mikið af því efni sem hér verður lokað á er efni sem er á gráu svæði - efni sem sýnir í raun ekki börn, en gæti litið út fyrir að gera það. Þar er annars vegar um að ræða myndir af fyrirsætum sem eru orðnar 18 ára (sem er lágmarksaldurinn fyrir klámmyndir til að teljast löglegar í Bandaríkjunum) en líta út fyrir að vera yngri, eða myndir sem hefur verið breytt (t.d. í Photoshop) til að láta viðfangsefnin sýnast yngri en þau eru.
- Það er hins vegar vissulega ofbeldisfullt, raunverulegt og viðbjóðslegt barnaklám inn á milli, en sú aðgerð að loka á dreifingu tiltekinna Usenet fréttagrúppa mun í raun engin áhrif hafa á dreifingu þess. Þeir sem vilja dreifa þessu efni munu ef til vill færa sig yfir í aðrar grúppur - jafnvel stofna nýjar grúppur daglega, nú eða þá dreifa efninu einfaldlega í öðrum "saklausum" grúppum sem þegar eru til. Þeir notendur sem virkilega vilja nálgast þetta efni munu líka gera það áfram eftir öðrum leiðum, svona á sama hátt og kínverskir Falun Gong meðlimir geta nálgast efni á "lokuðum" vefsíðum eftir krókaleiðum, þrátt fyrir miklar tilraunir kínverskra aðila til að stöðva það.
- Með þessum aðgerðum er verið að stíga stórt skref í þá átt að gera netþjónustuaðila ábyrga fyrir því efni sem þau dreifa. Það eru hömlur í stjórnarskrá Bandaríkjanna á rétti hins opinbera til að beita ritskoðun, en þær hömlur eiga ekki við um einkafyrirtæki. Það hefur verið reynt að setja lög í sumum fylkjum Bandaríkjanna sem ganga í sömu átt, en þeim lögum hefur verið hnekkt á þeirri forsendu að þau standast ekki stjórnarskrá. Ef stjórnvöld geta neytt netþjónustuaðila með þvingunaraðferðum til að taka upp ritskoðun þá er í raun verið að fara á svig við stjórnarskrána, en ritskoðunin er orðin að veruleika.
- Þegar búið er að fá einkafyrirtæki til að beita ritskoðun á ákveðið efni, sem er ekki ólöglegt nema að hluta, er spurning hversu langt verði að bíða þess að fyrirtækin verði þvinguð til að ritskoða annað efni sem er stjórnvöldum ekki þóknanlegt.
- Með því að loka á Usenet grúppurnar fá stjórnmálamennirnir viðurkenningu frá almenningi sem heldur að þeir hafi gert eitthvað gagn, þegar raunveruleikinn er sá að þessar aðgerðir gera ekkert til að vinna gegn raunverulega vandamálinu - framleiðslu og dreifingu barnakláms.
Netþjónustufyrirtæki munu loka fyrir barnaklámssíður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 25. maí 2008
Er blogg list ?
Fréttin um að tveimur bloggurum hafi verið neitað um listamannalaun vekur upp spurninguna um hvað sé list og hvað ekki - Sumir bloggarar hafa meira aðdráttarafl en Listasafn íslands og það er sennilega óumdeilt að blogg felur oftast í sér sköpun og frumleika, en það er sennilega líka óumdeilt að flestir bloggarar líta ekki á verk sín sem list.
Getur verk verið list ef höfundur þess lítur ekki á það sem slíkt? Getur hvað sem verið list ef höfundurinn kýs að nefna því nafni?
Sum blogg eru beinlínis kynnt sem listablogg (eins og þetta hér og ýmsir listamenn nota blogg til að koma sjálfum sér og sínum verkum á framfæri, en hvað með hinn almenna bloggara, sem lítur sjaldnast á sig sem listamann?
Er blogg þannig list? Er blogggrein sem vekur upp viðbrögð dæmi um gagnvirka list - list sem listneytandinn - sá sem les bloggið - tekur þátt í að skapa? List þar sem listamaðurinn veitir listneytandanum innsýn í hugarheim sinn?
Er slíkt eitthvað minni list en sumt sem menningarfrömuðir stimpla sem list?
Púkinn varpar bara fram spurningum í þetta skiptið - hann hefur fyrir löngu gefist upp á spurningunni um hvað sé list.
Bloggarar vilja listamannalaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 21. maí 2008
Tölvupóstur, einfeldni og græðgi
Á hverjum degi eru sendir út milljarðar tölvupóstskeyta í þeim tilgangi að nýta sér einfeldni eða græðgi annarra í hagnaðarskyni.
Mest af þessum ruslpósti er síaður burt á sjálfvirkan hátt, en einhver hluti berst viðtakendum. Nú í dag vita flestir tölvunotendur að skeytum um auðveldan eða skjótfenginn gróða eru ekki treystandi, en þó eru alltaf einhverjir sem láta blekkjast.
Það eru engar áreiðanlegar tölur til um fjölda fórnarlambanna, því mörg þeirra kæra ekki, en ein ágiskunin er að einn af hverjum 5.000 láti glepjast - falli fyrir gylliboðum sem á endanum kosta viðkomandi sjálfan bara pening.
Allnokkrir Íslendingar munu hafa farið flatt á þessu - látið telja sér trú um að þeirra biði arfur, að þeir hefðu unnið í tölvupóstfangahappdrætti Yahoo, eða að þeir geti unnið sér inn góðan pening með því að hafa milligöngu um fjármagnsflutninga.
Einhver dæmi munu vera um það að Íslendingar hafi tapað verulegum fjárhæðum á svona svikamyllum og jafnvel ekki bara sínum eigin peningum, heldur einnig peningum vina og vandamanna sem lögðu fé í svikamylluna.
Tæknilegar lausnir eins og að sía tölvupóstinn virka hins vegar skammt, þegar raunverulega vandamálið er á milli stólsins og skjásins - og einfalt, gráðugt fólk mun væntanlega vera til meðan mannkynið er til staðar.
Varað við tölvupósti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. apríl 2008
Til varnar nafnleysingjum
Upp á síðkastið hefur nokkuð verið rætt um þá afstöðu sumra bloggara að vilja ekki skrifa undir sínu eigin nafni, heldur einhverju dulnefni.
Þar sem Púkinn er einn þeirra sem tilheyra þessum hópi langar hann aðeins til að stíga í pontu fyrir hönd nafnleysingja.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk kjósi að koma ekki fram undir eigin nafni. Ein ástæðan er sú að viðkomandi vilji koma á framfæri skoðunum sem ekki njóta vinsælda meðal fjölskyldu, vina eða vinnufélaga viðkomandi. Nafnleysið er þá leið til að forðast árekstra í einkalífi en geta geta þó tjáð sig um ákveðin mál.
Það er líka mögulegt að það sem viðkomandi bloggari vilji skrifa um sé þess eðlis að viðkomandi myndi hreinlega stofna sér í hættu ef vitað væri hver stendur á bak við dulnefnið. Þetta er sem betur fer óþekkt hérlendis, en ýmsum öðrum löndum er þetta virkilegt vandamál - bloggarar sem skrifa um mál sem ekki eru yfirvöldum (eða ákveðnum hópum) þóknanleg geta átt í vændum ofsóknir - nú eða bara verið látnir "hverfa".
Það geta þó verið fleiri ástæður fyrir nafnleysi. Í tilviki Púkans er meginástæðan til dæmis sú að sá sem stendur á bak við Púkann er þekktur fyrir verk sín á nokkrum afmörkuðum sviðum. Það sem Púkinn kýs að blogga um er hins vegar almennt ekki tengt þeim sviðum, heldur alls óskyld mál. Púkinn vill að skrif hans séu metin út frá eigin verðleikum, en ekki með tilliti til þess hver stendur á bak við þau.
Það sama á við einstaklinga sem eru almennt tengdir við ákveðna hugmyndafræði. Ef t.d. landsþekktur framsóknarmaður eða femínisti kýs að tjá sig um eitthvað, er hætt við að sumir myndu meta skrif viðkomandi með hliðsjón af skoðunum sínum á þeirri stefnu sem viðkomandi tengist í hugum þeirra, jafnvel þótt skrifin séu um alls ótengt efni. ("Hún segir þetta bara af því að hún er svo mikill framsóknarmaður/femínisti")
Það er síðan allt annað mál hversu vel nafnleysingjar leyna því hverjir þeir raunverulega eru - það er t.d. barnaleikur að sjá hver Púkinn er, en nokkuð erfiðara þegar ýmsir aðrir eiga í hlut. Púkinn vill hins vegar halda sínu nafnleysi þannig að hann hefur almennt fylgt þeirri stefnu að eyða út athugasemdum frá þeim sem ekki sýna þá kurteisi að greina á milli Púkans og þess sem stendur á bak við hann.
Mánudagur, 21. apríl 2008
"Þágufallssýki" á mbl.is
Af einhverjum ástæðum pirrar það Púkann þegar fólk fellur í þágufallsgryfjuna - notar t.d. "mér langar " í stað "mig langar".
Mbl.is hefur nú sem betur fer verið nokkurn veginn laust við þetta vandamál og því slær það Púkann e.t.v. meira en annars að lesa grein sem byrjar á orðunum "Breska grínistanum Eddie Izzard langar..." en það ætti að sjálfsögðu að vera "Breska grínistann Eddie Izzard langar..."
Það er síðan allt annað mál að málfar margra bloggara er til háborinnar skammar og að mati Púkans mættu fleiri nota litla "púka" fídusinn sem er innbyggður í blog.is - og þótt hann finni ekki allar villurnar finnur hann þær flestar....þótt þágufallssýkin sé honum ofviða.
Izzard vill gerast stjórnmálamaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 1. apríl 2008
Hræðileg íslenska!
Stundum ofbýður Púkanum málvillur í texta sem hann sér, en sú frétt sem hér er vísað í slær flest met. Púkinn ætlar rétt að vona að fjármálavit þeirra sem sendu fréttatilkynninguna frá sér sé betra en íslenskukunnáttan, en svona texti er ekki til þess fallinn að auka tiltrú manna á fyrirtækinu. (nú, nema klúðrið sé hjá mbl.is)
"Tap Verðbréfunar hf. sem fer í eigu "
"Tap félagsins er fært til lækkunar á óráðstafað eigið fé."
"Verðbréfun sér um kaup og eignarhald safna fasteignaveðlána af Landsbanka Íslands hf. og að standa að eiginfjármögnun með útgáfu markaðshæfra skuldabréfa."
"2,3 millj. króna tap eftir útreiknings skatta."
"tapi þar það telur að skattinneignin muni nýtast félaginu til framtíðar."
Tap Verðbréfunar 2,3 milljónir króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)