Færsluflokkur: Vefurinn

Núna DC++, næst Istorrent

piracyFyrst niðurstaða er loksins fengin í héraðsdómi í DC++ málinu vonast Púkinn til að málið gegn Istorrent-þjófagenginu fari nú eitthvað að hreyfast áfram.

Púkinn er einn þeirra fjölmörgu sem urðu fyrir barðinu á þeirri starfsemi, en rúmlega 30 aðilar tóku þátt í dreifingu á hugbúnaði Púkans á Istorrent.

Þessir aðilar hafa verið kærðir og það er von Púkans að lögreglunni takist að hafa upp á þeim, sekta þá og gera tölvubúnað þeirra upptækan.

Þjófar eiga ekki betra skilið.


mbl.is Fagna niðurstöðu dóms í DC++ máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ha? Ertu hálfsystir mín?

Það getur líka gerst hér á Íslandi að óæskilega náin kynni takist með systkinum eða hálfsystkinum sem ekki gera sér grein fyrir tengslunum og Púkanum er kunnugt um eitt slíkt dæmi.

Þar var um að ræða samfeðra hálfsystkini, en strákurinn hafði nánast engin tengsl við líffræðilegan föður sinn.  Tengslin uppgötvuðust síðar þegar þau fóru í heimsókn til ömmu stelpunnar (sem var amma stráksins líka) og sambandinu lauk þar snarlega.

Börn eiga rétt samkvæmt lögum á að vita hverjir líffræðilegir foreldrar þeirra eru og þannig er það nú oftast hér á Íslandi - það þykir ekki svo voðalegt mál í dag að í einni fjölskyldu séu "börnin hans", "börnin hennar" og "börnin þeirra".

Þetta mál snertir Púkann nú líka frá öðru sjónarhorni, en eins og flestir vita kemur hann að rekstri Íslendingabókar en draumurinn er að sjálfsögðu sá að þar eigi allir bæði föður og móður (og sumir líka kjörföður og/eða kjörmóður).

Hins vegar er staðan sú að um 10% nýfæddra barna virðast eingetin í Íslendingabók - þau eiga móður en engan föður (sökum þess að foreldrarnir eru ekki í sambúð).  Í mörgum tilvikum senda foreldrar eða önnur ættmenni inn upplýsingar um faðerni barnanna, en stundum liggja þær upplýsingar ekki á lausu og þá verðum við hjá Íslendingabók að bíða þangað til börnin eru 18 ára - þá fyrst megum við senda þeim bréf og spyrja "Værir þú til í að segja okkur hverra manna þú ert".


mbl.is Aðskilin tvíburasystkini giftust hvort öðru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólavertíð hjá Íslendingabók

islendingabok.isPúkinn hefur veitt því athygli að óvenjulega margir virðast vera að nota íslendingabok.is þessa dagana.  Eftir ofurlitla umhugsun áttaði Púkinn sig á því sem er væntanlega skýringin - jólakort.

Fólk er að athuga hluti eins og "Hvað heitir nýja konan hans Sigga frænda fyrir vestan?", eða "Hvað skírðu Jón og Gunna aftur þriðju stelpuna sína?"

Það er nefnilega skemmtilegra að hafa rétt nöfn í jólakveðjunum.


Greetings in Jesus name!

Þessi grein fjallar ekki um trúmál, þrátt fyrir titilinn, heldur um ruslpóst eða réttara sagt þá íþrótt að eltast við þá sem senda ruslpóst og gera þá að fíflum.

Það kannast flestir við þann tölvuruslpóst sem hefur tekið við af gömlu Nígeríubréfunum - ruslpóst sem gerir út á fáfræði, trúgirni og fyrst og fremst græðgi viðtakendanna.

Fólki er boðið að gerast milligönguaðilar vegna fjármagnsflutninga, nú eða að því er sagt að þeirra bíði arfur, eða jafnvel bara að það hafi unnið í Microsoft happdrættinu.

Flestir sjá auðvitað við þessu,  en það eru alltaf einhverjir sem eru nógu gráðugir eða heimskir til að láta glepjast.

Það eru hins vegar líka til þeir sem stunda það að "veiða" sendendur ruslpóstsins - látast bíta á agnið en eru í raun bara að draga viðkomandi á asnaeyrunum og fá þá til að eyða tíma sínum...já, og helst peningum líka, svo ekki sé nú minnst á fíflagang eins og að fá viðkomandi til að tattóvera sig með merkjum tilbúins sértrúarhóps eða annað í svipuðum dúr.

Það eru auðvitað ákveðnar reglur - það þarf að fara varlega - ekki gefa upp neinar raunverulegar upplýsingar, nöfn, heimilisföng eða símanúmer og gæta þess að ekki sé hægt að rekja tölvupóstföngin, heldur nota þjónustur eins og hotmail eða gmail.

Nú hafa nokkrar sögur af þessum samskiptum verið gefnar út í bókinni  Greetings in Jesus Name! The Scambaiter Letters en Púkinn mælir með þeirri bók hafi menn gaman af að sjá þá gerða að fíflum sem eiga það skilið.


mbl.is Hlutfall ruslpósts komið í 95% af öllum tölvupósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með vefauglýsingarnar!

ad-block-plusPúkanum leiðist að fara á vefsíður sem eru allar útbíaðar í auglýsingum, en sem betur fer er til einföld lausn á því vandamáli.

Sú lausn felst í því að setja upp lítið forrit sem nefnist Adblock Plus. Þetta forrit er ókeypis og getur hreinsað burt mikið af þeim auglýsingum sem birtast á vefsíðum - en með því að "þjálfa" forritið aðeins má losna við nánast allar auglýsingar.

Þess ber að vísu að gæta að forritið virkar bara með Firefox og skyldum vöfrum, en þar sem Púkinn var hvort eð er löngu hættur að nota Internet Explorer af öryggisástæðum, þá var það bara hið besta mál.

Það eru til önnur svipuð forrit, en þetta hefur reynst Púkanum best. 

Sem sagt - ef ykkur leiðast auglýsingar, setjið upp Firefox og Adblock Plus.  Forritið má nálgast hér.


mbl.is Netið að verða þriðji stærsti auglýsingamiðillinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Istorrent: Glæpasamtök eða bara gráðugir siðleysingjar?

piracyPúkanum finnst með ólíkindum hve hægt gengur að stöðva starfsemi Istorrent-gengisins, en þessir þjófar eru látnir í friði meðan lögreglan leggur áherslu að að uppræta gengi nokkurra vesælla dópista sem stela smáhlutum til að eiga fyrir næsta skammti.

Samt er hér um mun stærri upphæðir að ræða - en kannski er málið það að yfirvöld líta ekki á þjófnað á hugverkum á sama hátt og annan þjófnað.

Þessi þjófnaður bitnar þó á þeim sem fyrir honum verða, en Púkinn er einn af þeim.  Á Istorrent var um skeið dreift hugbúnaði sem Púkinn samdi ásamt öðrum.  Frá sjónarhóli Púkans var þarna stolið af honum hans hugverkum fyrir milljónir.

Það er aðeins eitt orð sem Púkinn á yfir þá sem þetta stunda.

 ÞJÓFAR!

Púkinn hefur megnustu skömm og fyrirlitningu á þeim sem standa að baki Istorrent vefnum, en þeir skýla sér bakvið að þeir séu í raun akki að gera neitt ólöglegt - þeir séu bara að aðstoða þjófana við iðju sína. 

Það er kominn tími til að stöðva þetta gengi - stöðva Istorrent, leita uppi þá ræfla sem setja annarra hugverk í dreifingu í leyfisleysi, leggja hald á tölvur þeirra og sekta þá.   


Eru bloggarar nöldrarar?

grumpyPúkinn var að skoða allmörg blogg af handahófi og komst að tvennu.

Í fyrsta lagi eru margir bloggarar hreinræktaðir nöldrarar, en í öðru lagi er nöldur ekki vænlegt til vinsælda.

Þetta ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart, en skoðum þetta nú aðeins nánar.   Það eru mismunandi hlutir sem fara í taugarnar á fólki.  Í tilviki Púkans eru það meðal annars eftirfarandi atriði:

  • Almennt agaleysi í þjóðfélaginu og virðingarleysi fyrir eignum og réttindum annarra,  Undir þetta falla hlutir eins og ölvunarakstur, veggjakrot, sóðaskapur, tillitsleysi gagnvart fótgangandi og hjólandi fólki og margt fleira í svipuðum dúr.
  • Hátt gengi krónunnar, enda kemur það illa við lífsviðurværi Púkans.
  • Bruðl.  Púkanum gremst að sjá fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna sóað í kjaftæði.
  • Trúarrugl - þegar fólk reynir að stjórna lífi annarra eftir einhverjum úreltum, árþúsundagömlum skræðum.
  • Skammsýni stjórnmálamanna.

Aðrir hafa svipaða lista og eins og Púkinn þá nöldra viðkomandi gjarnan yfir sínum nöldurmálum á bloggsíðunum.  Sumt af því eru mál sem Púkinn getur á engan hátt tekið undir (eins og slæmt gengi íslenska landsliðsins), en annað getur Púkinn svo sem skilið, þótt það ergi hann ekkert sérstaklega sjálfan.

Það sem Púkinn rak hins vegar augun í er að hreinræktuð nöldurblogg eru alls ekki líkleg til vinsælda og þau blogg sem raða sér í efstu sæti bloggvinsældalistans eru alls ekki í hópi nöldurblogga.  Sum þeirra vinsælustu eru uppfull af jákvæðni.  Önnur fjalla ef til vill um efni sem ekki eru jákvæð, eins og baráttu einstaklinga við sjúkdóma, en þau falla heldur ekki undir nöldurblogg.

Niðurstaðan er semsagt sú að nöldur í óhófi fælir fólk í burtu - nokkuð sem kemur væntanlega engum á óvart.


Er tölvan þín uppvakningur?

zombiecomputerFjölmargar tölvur eru nýttar á ólöglegan hátt án vitundar eigenda þeirra. Þetta er gert á þann hátt að "bakdyrum" er komið fyrir í tölvunum, en þau forrit leyfa utanaðkomandi aðila að yfirtaka tölvuna.  Svona tölvur eru síðan tengdar saman í svonefnd "botnet", sem er stjórnað af einum aðila, til dæmis til að senda út ruslpóst, en annars er hægt að leigja þessi "botnet" til hvers sem er.

Stakar tölvur í netinu eru nefndar "zombies", enda eru þær eins og góðum uppvakningum sæmir algerlega viljalaus verkfæri í höndum óþjóðalýðs.

Eitthvað mun vera um svona "zombie" tölvur hér á landi, þótt Púkinn hafi ekki ákveðnar tölur handbærar um fjölda þeirra.

FBI hefir hins vegar verið að reyna að leita uppi svona "botnet", en það er gert í samvinnu við Symantec fyrirtækið.  Þeir sem hafa áhuga á að athuga þeirra tölvur eru hluti af einhverju slíku "botnet" geta fylgt þessum hlekk til Symantec og tekið þátt í prófunum á AntiBot forriti þeirra.


mbl.is FBI berst við uppvakninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vinna BMW...eða þannig

Púkinn var að fá tölvupóst um að hann hefði unnið í BMW happdrættinu, og vinningurinn ekki af verri endanum - BMW 5 Series, Sport Saloon og væn summa í reiðufé.

Þetta er að sjálfsögðu gabb, ætlað til að hafa fé af Púkanum á einn eða annan hátt, en þessir aðilar fá þó allavegana prik fyrir að reyna eitthvað nýtt. 

Púkinn hefur margoft fengið bréf um að hann hafi unnið í hollenska ríkishappdrættinu, nú eða því breska, svo ekki sé minnst á öll bréfin frá Ubongo Ubongo og öllum vinum hans í Nígeríu sem þurfa aðstoð Púkans við að koma illa fengnu fé úr landi - en BMW happdrættið, það hefur Púkinn aldrei séð áður. 

Þeir vilja auðvitað fá upplýsingar frá Púkanum - nafn, aldur, kyn, póstfang, síma, stöðu og tölvupóstfang - ekkert sérlega grunsamlegt við fyrstu sýn.

Púkinn er hins vegar að velta fyrir sér að svara þessu, frá hotmail póstfangi, með tilbúnu nafni og heimilisfangi, gefa upp ógilt símanúmer, og tryggja á allan hátt að þessir glæpamenn geti ekki rakið svarið til hans, bara svona til að sjá nákvæmlega hvað gerist næst.  Vilja þeir fá bankareikning Púkans, undir því yfirskini að ætla að leggja peninginn þar inn, eða vilja þeir að Púkinn sendi greiðslu vegna útflutningstolla á BMWinum, eða hvað...Púkinn er svolítið forvitinn að vita hvernig þeir vilja stela af honum.


Að veiða svikahrapp

scamcomputerSamhliða fjölgun fjársvikapósta á netinu, þá fjölgar þeim sem stunda þá "íþróttagrein" að veiða svikahrappa - fá þá til að standa í stöðugum bréfaskriftum og beita þeirra eigin aðferðum gegn þeim.  Svikahrapparnir gera jú út á græðgi annarra, en fórnarlömbin geta líka leikið þann leik.

Á vefnum  má finna margar góðar sögur um slíkt, en sem dæmi um slíka má taka bréfaskriftir þar sem einhver vafasamur aðili í Nígeríu er að reyna að svíkja pening út úr Fred Flintstone og Wilmu konu hans. (sjá þennan hlekk), en það eru mörg önnur svipuð dæmi á Scamorama.com síðunni.

Hafi einhverjir hér á landi hug á að stunda svikahrappaveiðar, eru nokkrar reglur sem þarf að fylgja, en mikilvægast af öllu er að gefa ekki upp rétt nafn, símanúmer eða heimilisfang í bréfaskrifunum og helst senda póstinn frá órekjanlegu hotmail póstfangi eða öðru slíku - þetta eru glæpamenn og ef einhver ætlar að gera þá að fíflum er augljóslega ekki gott að þeir viti hver viðkomandi raunverulega er.


mbl.is Ný hrina fjársvikatölvupósta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband